Dagbók: september 2008

Þriðjudagur, 30. 09. 08. - 30.9.2008 21:30

Í dag setti ég Ólaf Kristófer Ólafsson, sýslumann Snæfellinga, lögreglustjóra á Suðurnesjum til 1. janúar 2009, Jón Bjartmarz aðstoðarlögreglustjóra og Halldór Halldórsson var settur fjármálastjóri embættisins. Allt eru þetta menn með mikla og góða reynslu hver á sínu sviði. Ég stefni að því að auglýsa síðan embættið laust til umsóknar frá 1. janúar 2009.

Jón Ásgeir Jóhannesson kyrjar sama, gamla óvildar- og samsærissönginn um Davíð Oddsson, þegar ríkisstjórnin hefur ákveðið að koma í veg fyrir, að Glitnir sigli í þrot, eftir að Þorsteinn Már Baldvinsson, bankaráðsformaður, gekk á fund Davíðs í Seðlabanka Íslands og skýrði honum frá því, að bankinn gæti ekki einn og óstuddur tekist á við endurfjármögnunarvanda.

Trúir því einhver, að vandi Glitnis sé Davíð Oddssyni eða ríkisstjórninni að kenna? Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, gekk meira að segja ekki svo langt að segja það í Kastljósi kvöldsins. Skrýtið, að hún skyldi ekki spurð, hvað Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, hafi verið að gera í húsakynnum Seðlabanka Íslands nóttina, sem ákveðið var að bjarga Glitni.

Jón Ásgeir var í hátíðarviðtali í Íslandi í dag á Stöð 2 í kvöld og lagði Sindri Sindrason fyrir hann spurningarnar, en eins og Egill Helgason segir, var Sindri til skamms tíma talsmaður Jóns Ásgeirs.

Þórhallur S. Gunnarsson, stjórnandi Kastljóss, skýrði frá því, að Jón Ásgeir hefði neitað að koma í þáttinn og meira að segja bannað fréttastofu RÚV að viðtal hennar við sig yrði sýnt í þættinum. Hvað skyldi ritstjórnarvaldið ná langt út fyrir Baugsmiðlana?

Mánudagur, 29. 09. 08. - 29.9.2008 22:32

Í morgun var skýrt frá því, að ríkið hefði eignast 75% í Glitni hf fyri 84 milljarði króna. Forráðamenn Glitnis leituðu aðstoðar hjá Seðlabanka Íslands sl. fimmtudag og við svo búið hófst ferli, sem lauk með því, að ákveðið var að ríkið hlypi undir bagga með bankanum.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, færði góð rök fyrir þessari óvenjulegu ráðstöfun á tveimur fundum, sem ég sat með honum í dag, og auk þess á fundi með fréttamönnum og í Kastljósi sjónvarps. Er enginn vafi á því, að þessi ráðstöfun er best til þess fallin af þeim úrræðum, sem fyrir hendi voru, eftir að Glitnismenn leituðu til ríkisins.

Greinilegt er, að á Baugsmiðlinum DV er mönnum ekki skemmt yfir þessari þróun eins og best sést á þessari klausu, sem birtist á dv.is kl, 21.11 í kvöld:

„Vakið hefur athygli hve kært er með Davíð Oddssyni seðlabankastjóra og Lárusi Welding, forstjóra Glitnis. Lárus er talinn hafa skipt um húsbónda um helgina til að tryggja sína stöðu. Innan úr Glitni heyrist að hann sé ekki lengur par hrifinn af þeim eigendum sem enn fara með stjórn bankans og hann sjái ekki sólina fyrir seðlabankastjóranum.“

Að lýsa einhverjum sem aðdáanda Davíðs Oddssonar er hið versta, sem unnt er að segja um nokkurn mann í DV.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, hefur smitast af Davíðs-fóbíunni, ef marka má skrif hennar á eigin vefsíðu vegna sviptinganna í kringum Glitni. Fyrirsögn á pistli hennar er þessi: „Davíð var við stýrið - Geir farþegi um borð“.

Skrif Valgerðar eru aðeins til marks um óvild hennar í garð sjálfstæðismanna. Hún víkur meðal annars að því, að Landsbanki Íslands hafi fagnað aðgerðinni til bjargar Glitni og segir: „Landsbankinn telur aðgerðina jákvæða auk þess sem hún muni leiða til tækifæra á frekari sameiningu fjármálastofnana hér á landi. - Einn af stjórnarmönnum í Landsbanka Íslands er Kjartan Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins.“

Furðulegust eru þó viðbrögð Baugsskáldsins Hallgríms Helgasonar.

Lesa meira

Sunnudagur, 28. 09. 08. - 28.9.2008 17:36

Morgunblaðið birtir viðtal við Jóhann R. Benediktsson, fráfarandi lögreglustjóra, í dag. Þar er margt kúnstugt gefið til kynna eða hálfsagt. Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra þykir miður, hvaða hátt Jóhann hefur á að kveðja starfsbræður sína, en óskar honum velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi, eins og segir hér. Þá hefur verið send yfirlýsing í nafni Lögreglustjórafélags Íslands. Henni lýkur á þessum orðum:

„Lögreglustjórafélagið harmar því þær illskeyttu og persónulegu árásir sem ráðherra og einstakir starfsmenn lögreglukerfisins hafa þurft að sæta og kallar þess í stað á málefnalegar umræður um starfsemi lögreglunnar og skipulag hennar.“

Kosið var til þings Austurríkis í dag, en boðað var til kosninganna með skömmum fyrirvara, þegar upp úr sauð í samsteypustjórn stóru flokkanna í landinu. Jafnaðarmenn fóru með stjórnarforystu en stjórnin sprakk ekki síst vegna þess, að forystumenn flokksins sendu opið bréf til útbreiddasta blaðs landsins Kronen Zeitung eftir nei-niðurstöðuna í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Lissabon-sáttmálann á Írlandi og sögðust vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um sáttmálann í Austurríki, ef á honum yrði hin minnsta breyting vegna afstöðu Íra. Með því tryggðu þau flokki sínum stuðning blaðsins, sem nær til þriggja milljóna lesenda eða 43% Austurríkismanna.

Kronen Zeitung studdi á sínum tíma aðild Austurríkis að Evrópusambandinu en Hans Dichand, 87 ára eigandi blaðsins, hefur skipt um skoðun á sambandinu. Sagt er, að þar ráði mestu sú krafa Brusselvaldsins, að orðið Marmelade sé afmáð og þess í stað notað orðið Konfitüre. Hans Dichand mótmælti þessu „diktati“ frá Brussel á forsíðu blaðs síns og skipaði sér síðan í forystu þeirra, sem vilja tryggja „fullveldi“ Austurríkis og nýtur sú afstaða stuðnings meirihluta þjóðarinnar.

Fyrstu tölur í Austurríki sýna, að jafnaðarmenn halda forystu meðal flokka, fyrrverandi samstarfsflokkur þeirra, Þjóðarflokkurinn, er næststærstur en flokkur yst til hægri, Bandalag um framtíð Austurríkis, jók fylgi sitt. Heinz-Christian Strache, formaður flokksins, hefur farið mikinn gegn „einræðisöflum“ í Brussel og myntinni, sem hann kallar „teuro“, en þar tengir hann saman orðin euro og „teuer“, það er dýr á þýsku. 

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, hefur áhyggjur af niðurstöðu austurrísku kosninganna. Spurning hvort þau hafa áhrif á kosningarbaráttunni um sæti í öryggisráði SÞ, þar sem við keppum um sæti við Austurríkismenn. Um árið setti Evrópusambandið Austurríki í skammarkrókinn vegna mikils fylgis kjósenda við flokka yst til hægri.

Laugardagur, 27. 09. 08. - 27.9.2008 16:14

Ég óska Gunnlaugi Júlíussyni til hamingju með að hafa lokið ofurhlaupinu. Í raun virðist ofurmannlegt að geta staðist þessa áraun en sýnir, hve þjálfun, úthald og sálarstyrkur skipta miklu. Fyrr í sumar vann Benedikt Hjartarson það afrek að synda yfir Ermarsund. Við höfum því eignast tvo ofurmannlega afreksmenn á þessu sumri. Til hamingju!

Í dag birti Morgunblaðið stutta athugasemd eftir mig sem svar við Staksteinum blaðsins í gær.

Ég fagna leiðara Morgunblaðsins í dag, þar sem tekið er undir það sjónarmið, að til lítils sé að tala um hreyfingu á starfsliði hjá ríkinu, ef ekki megi hrófla við neinu.

Reynir Traustason, ritstjóri DV, óskaði eftir því, að ég færði rök fyrir máli mínu ella bæði hann og blað hans afsökunar. Rök mín er að finna hér.

Föstudagur, 26. 09. 08. - 26.9.2008 22:03

Ég vil þakka mjög góð viðbrögð og kveðjur frá mörgum vegna Kastljóss í gærkvöldi, þar sem ég svaraði spurningum Sigmars Guðmundssonar í tilefni af því að Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, hefur ákveðið að biðjast lausnar.

Í pistli, sem ég ritaði á síðuna mína í dag, vík að þætti þessa máls og þeim furðulega áburði DV, að lausnarbeiðni Jóhanns eigi upptök sín í einhverju atviki á Keflavíkurflugvelli í ágúst 2002 og ég hafi átt þar hlut að máli sem dómsmálaráðherra, þótt ég hafi ekki tekið við því embætti fyrr en að loknum kosningum 2003. 

Þessi fréttaflutningur og sögutúlkun DV  er í góðu samræmi við margt annað, sem sagt hefur verið opinberlega vegna brottfarar Jóhanns og náinna samstarfsmanna hans. Er þar ekki allt sem sýnist. 

Fimmtudagur, 25. 09. 08. - 25.9.2008 21:10

Í morgun tók ég þátt í aðalfundi Sýslumannafélags Íslands, sem haldinn var á Hvolsvelli, flutti ég þar erindi um endurskoðun lögreglulaga og svaraði fyrirspurnum fundarmanna. Umræður um lögreglumál hafa verið mikil á opinberum vettvangi undanfarið og er kveikjan að þeim að nokkru minnisblað frá mér sem sent var í júlí og óskað svara við fyrir 15. september en í því er fjallað um álitaefni, sem tengjast endurskoðun lögreglulaga. Hefur þetta kveikt umræður víða og kallað á, að tekin sé afstaða til mála, sem setja almennt ekki svip á umræður um lögreglumál.

Nú hafa sjónarmið allra umsagnaraðila verið kynnt mér og fór ég yfir þau á fundinum í morgun. Næsta skref er að vinna málið áfram og verður það gert innan ráðuneytisins.

Staða mála á hjá lögregluembættinu á Suðurnesjum setur svip sinn á fréttir og ræddi ég við útvarps- og sjónvarpsmenn í dag. Mig undrar að vera sakaður um einelti í garð Jóhanns R. Benediktssonar. Þeir menn, sem þannig tala, vita einfaldlega ekki, hvað í hugtakinu felst.

Jóhann R. Benediktsson setti sig upp á móti þeirri tillögu minni, að tollstjórn yrði aðskilin frá lögreglustjórn. Á fundi sýslumanna í dag var einhugur um að þetta ætti að gera og stofna eitt tollumdæmi í landinu.

Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, fer mikinn og slær um sig sem málsvari lögreglumanna. Hinn 13. mars 2008 vildi hann hins vegar „ bíða með að vopna lögreglu þar til hún verður fyrir skotárás,“ svo að vitnað sé í fréttir Stöðvar 2. Sjá nánar hér:

Stöð 2 fréttir !3. 03. 08.

„Atli Gíslason, þingmaður Vinstri-grænna, vill bíða með að vopna lögreglu þar til hún verður fyrir skotárás. Þetta sagði hann í samtali við Bítið á Bylgjunni þar sem sýknudómur yfir tveimum Litháum frá í gær var til umræðu. Lögreglufélag Reykjavíkur segir dóminn hneyksli.

Lesa meira

Miðvikudagur, 24. 09. 08. - 24.9.2008 21:07

Fór fyrir hádegi í Háskólann á Bifröst, þar sem ég flutti fyrirlestur klukkan 13.00 um forvirkar rannsóknarheimildir og rakti efnisþætti slíkra heimilda og stiklaði á stóru um umræður um málið hér á landi. Katrín Theodórsdóttir lögmaður var einskonar andmælandi á fundinum en ég sagðist sammála sjónarmiðum hennar. Jón Ólafsson prófessor stjórnaði umræðum eftir ræður okkar og lögðu fjölmargir fram spurningar til mín.

Eftir stutta viðdvöl í borginni hélt ég austur í Fljótshlíð til að búa mig undir fund með Sýslumannafélagi Íslands á morgun, þar sem ég mun gera grein fyrir stöðu mála varðandi endurskoðun lögreglulaga. Eins og við er að búast, eru töluverðar umræður um lögreglumál á opinberum vettvangi og tengjast þær meðal annars því, að nýlega rann út frestur umsagnaraðila um minnisblað mitt um næstu breytingar á lögreglulögunum.

Við komuna austur settist ég við tölvuna og svaraði spurningum fjölmiðlamanna eftir fund Jóhanns R. Benediktssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, með starfsmönnum sínum klukkan 17.00 í dag í safnaðarheimilinu í Keflavík, þar sem hann tilkynnti þeim, að hann mundi láta af störfum 1. október nk. Þrír náustu samstarfsmenn hans, sem farið hafa með fjármála- og starfsmannastjórn láta einnig af störfum.

Jóhann telur það fyrirslátt, þegar ég segi ákvörðun mína um að auglýsa embættið á Suðurnesjum byggða á því mati, að um allt annað embætti sé að ræða en skipað var í fyrir fimm árum. Engum ætti þó að vera betur ljóst en Jóhanni, hvernig embættið hefur breyst, eftir að sýslumannsembættið á Keflavíurflugvell varð nafnið tómt og síðan aflagt, enda arfleifð úr kalda stríðinu. Launakjör embættismannsins eru til dæmis allt önnur og þó ekki væri nema vegna þeirra er æskilegt að hafa alveg hreint borð, sem fæst með auglýsingu. Ef Jóhann veit meira um það en ég, hvers vegna ég tók þessa ákvörðun, væri gott að hann upplýsti mig og aðra um það.

Jóhann R. Benediktsson hefur aldrei gagnrýnt stefnumörkun mína í lögeglumálum, hvorki í einkasamtölum né á fundum. Hann hefur til dæmis lýst sérstökum áhuga á forvirkum rannsóknarheimildum og vann í þeim anda sem sýslumaður á Keflavíkurflugvelli.

Ég kveð Jóhann og samstarfsmenn hans með þökk fyrir samfylgdina síðan 1. janúar 2007 og óska þeim velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.

Ég sé á visir.is, að Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins hér í Suðurkjördæmi, ætlar að gera afsögn Jóhanns að pólitísku þrætuefni. Við því er að sjálfsögðu ekkert að segja. Við ákvörðun mína fór ég að lögum og verður henni ekki breytt, hvorki af Bjarna né öðrum, þótt menn séu henni ekki sammála. Ég legg til, að Bjarni leggist frekar á árar með okkur, sem róum lífróður til að halda Suðurnesjaembættinu á réttum kili, en hann eyði ekki tímanum í að deila, aðeins til að stunda þrætulist.

Þriðjudagur, 23. 09. 08. - 23.9.2008 20:51

Ríkisstjórnin hélt 100. fund sinn í morgun og kom Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, starfandi forsætisráðherra, með ljúffenga, heimabakaða tertu til hátíðabrigða.

Síðdegis ræddi ég við þá Þorgeir og Kristófer í þætti þeirra, Reykjavík síðdegis, á Bylgjunni. Umræðurnar snerust um lögreglumál. Ég sagðist eiga ríkan þátt í þeim umræðum, sem nú færu fram, þar sem ég hefði í byrjun júlí sent frá mér minnisblað um breytingar á lögreglulögum og óskað umsagna fyrir 15. september. Þetta hefði hvatt menn til að velta öllum hliðum málsins fyrir sér og þegar kappsfullir menn ættu  í hlut setti keppnisskapið svip á umræðurnar. Ég væri hins vegar viss um, að niðurstaða næðist í sátt og samlyndi.

Danska ríkisstjórnin hefur samið við DF, danska þjóðarflokkinn, um útlendingamál, en síðan í júlí hefur Birthe Rönn Hornbech, innflytjendamálaráðherra, staðið í ströngu vegna ásakana um stjórnleysi í útlendingamálum og vandræða eftir dóm Evrópusambandsdómstólsins, sem braut í bága við danskar reglur um fjolskyldusameiningu, það er svonefnda 24 ára reglu.

ESB-dómstóllinn felldi 25. júlí dóm í svonefndu Metock-máli. Samkvæmt honum er ESB-ríkjum bannað að krefjast þess, að ríkisborgarar utan EES-svæðisins skuli hafa fengið löglegt dvalarleyfi í örðu EES-ríki til að fá viðurkennda fjölskyldusameiningu með ESB-borgara, sem hefur nýtt sér réttinn til frjálsrar farar.

Danska ríkisstjórnin segist munu fara að dómnum. DF heldur því fram, að útlendingamál séu undir dönsku fullveldi og þess vegna eigi ekki að fara eftir niðurstöðu í Metock-málinu.

Í því skyni að sporna gegn óheppilegum afleiðingum af Metock-dóminum - það er gegn aukinni hættu á ólöglegum innflytjendum, eru ríkisstjórnin og DF sammála um að setja útlendingastofnuninni nýjar eftirlitskröfur, sem munu hafa almenna þýðingu fyrir opinber afskipti af fjölskyldusameiningu í tengslum við ESB-borgara.

 

Mánudagur, 22. 09. 08. - 22.9.2008 18:49

Í Staksteinum Morgunblaðsins í morgun er vikið að þeirri ákvörðun, að embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum skuli auglýst laust til umsóknar frá 1. apríl 2007. Ég hef greint frá efnislegum forsendum ákvörðunarinnar hér á síðunni og í fjölmiðlum, þar á meðal Morgunblaðinu. Þá hef ég einnig skýrt frá því, að á sínum tíma hafi fjármálaráðuneyti komist að þeirri niðurstöðu við athugun á tillögu frá mér, að ekki skyldi reglulega auglýsa embætti. Virða ráðherrar þá verklagsreglu, enda á fjármálaráðuneyti síðasta orð um starfsmannamál ríkisins.

Þótt allt þetta liggi fyrir segir í Staksteinum í dag:

„Gera verður ráð fyrir að ráðherrann (það er dóms- og kirkjumálaráðherra) verði sjálfum sér samkvæmur og að ákvörðunin um lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum sé upphafið að því að embætti forstöðumanna stofnana sem undir dómsmálaráðuneytið heyra verði auglýst reglulega.“

Þegar ég skrifaði Staksteina, var lögð rík áhersla á, að höfundar væru vel að sér um það, sem birst hefði í Morgunblaðinu. Skyldi sú regla ekki lengur við lýði?

Til glöggvunar skal tekið fram, að fjármálaráðuneytið kynnti afstöðu sína í minnisblaði til ríkisstjórnarinnar, sem er dagsett 30. mars, 2000. Starfsmannalögin, sem ráðuneytið túlkar á þennan veg, er frá 1996.

Evrópunefnd undir formennsku minni ræddi við Olli Rehn, stækkunarstjóra ESB, í byrjun júní 2005. Þá sagði hann hið sama og við Evrópuvaktnefndina, sem er í Brussel núna: Það tekur engan tíma fyrir Ísland að gerast aðili að ESB. Þetta kemur fram í skýrslu Evrópunefndarinnar. Hvernig dettur nokkrum manni í hug, að stækkunarstjórinn segi annað, en evra án aðildar komi ekki til greina? Það þarf ekki að hitta hann til að vita svarið. Aðrar leiðir eru þó fyrir hendi. Um það þarf ekki að deila.

Sunnudagur, 21. 09. 08. - 21.9.2008 18:44

Réttað var í Fljótshlíðinni í morgun. Veðrið var gott þrátt fyrir einstakar hryðjur. Ég komst ekki í leitirnar í gær, en það voru hríðarbyljir til fjalla. Ég dró eina af þremur ám mínum og eitt af sjö lömbum. Vonandi skilar hópurinn sér af fjalli, en mig grunar, að þrílemban, leiti aftur niður í Austur-Landeyjar. Hún var þar í góðu yfirlæti sl. vetur að Vorsabæ í A-Landeyjum, en við héldum hana enn á fjalli.

Í Bændablaðinu 9. september er sagt frá heimsókn til hjónanna að Vorsabæ þeirra Kristínar Margrétar og Björgvins. Spurt er um eftirminnilegasta atvikið við bústörfin og Björgvin svarar: „Í vor, þegar Magga mismarkaði lömbin hans Björns ráðherra með okkar marki.“ Ég vil þakka þeim hjónum, hve vel þau fóru með ána og lömbin, sem að sjálfsögðu var skilað í Fljótshlíðina.

Í kvöld fórum við í Salinn, þar sem haldið var upp á afmæli Atla Heimis Sveinssonar tónskálds með listrænum glæsibrag.

Mér var sagt, að Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, hefði verið í Silfri Egils og bæði vitað, hvernig ætti að reka seðlabanka og lögreglu - og farið létt með það. Árni Páll sagði á sínum tíma frá því, að hann hefði verið hleraður, þegar hann starfaði í utanríkisráðuneytinu. Menn hafa líklega viljað fræðast um, hvernig reka ætti ráðuneytið.

 

Laugardagur, 20. 09. 08. - 20.9.2008 12:25

Fylgdist í morgun með hópslysaæfingu á vegum Landspítalans undir leiðsögn Brynjólfs Mogensens læknis. Þar var viðbraðgsáætlun spítalans æfð með sviðsettu 45 manna rútuslysi í Ártúnsbrekku í Reykjavík. Fórum við á bráðamóttöku spítalans í Fossvogi og við Hringbraut. Lauk kynnisferðinni á bráðamóttöku barnaspítalans.

Þarna voru tugir eða hundruð starfsmanna spítalans í sjálfboðavinnu og þótti okkur gestunum mikið til þess koma, hve vel var að öllu staðið og hve vel spítalinn hefur búið sig undir lykilhlutverk sitt við stórslys.  

Morgunblaðið birtir í dag forsíðufrétt um þá ákvörðun, að embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum skuli auglýst, þegar skipunartími Jóhanns R. Benediktssonar rennur út 1. apríl 2009. Ákvörðunin var kynnt Jóhanni á fundi í dómsmálaráðuneytinu 8. september en við töku hennar var stuðst við ákvæði laga um opinbera starfsmenn.

Á þeim tæpu 10 árum, sem liðin eru síðan Jóhann var skipaður sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, hefur embættið, sem hann gegnir, tekið stakkaskiptum. Sýslumannsembættið var lagt niður með lögum um varnarmálastofnum fyrr á þessu ári en lögreglustjóraembættið kom til sögunnar 1. janúar 2007. Ég hef ákveðið, að embættinu verði breytt í samræmi við lög um stjórnarráðið, tollgæsla falli undir fjármálaráðuneyti og flugöryggismál undir samgönguráðuneyti. Lögreglustjórn og landamæravarsla lúti framvegis stjórn lögreglustjórans.

Af þessu stutta yfirliti sést, að embættið er allt annað nú en fyrir fimm árum og því skýr efnisleg rök fyrir því, að það sé auglýst. Launakjör lögreglustjóra tóku auk þess stakkaskiptum, þegar sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli var aflagt.

Með vísan til alls þessa þótti mér einsýnt, að auglýsa ætti embættið til að lögreglustjóri væri ekki í neinum vafa um kjör sín og ábyrgð. Lögum samkvæmt var þessi ákvörðun tilkynnt Jóhanni R. Benediktssyni með þeim fyrirvara, sem segir í lögum.

Föstudagur, 19. 09. 08. - 19.9.2008 21:55

Í dag kl. 10.30 var haldinn ríkisráðsfundur á Bessastöðum - hinn 400. frá því að lýðveldið var stofnað. Þessir fundir voru tíðir í forsetatíð Sveins Björnssonar og var þá fleira tekið þar til umræðu en nú er gert, þegar bornar eru upp tillögur til forseta til endurstaðfestingar.

Alþjóðahermálastofnunin í London (IISS) hefur sent frá sér ritið Strategic Survey 2008. Þar er lýst hernaðarlegri þróun í heiminum. Ítarlega er fjallað um hernaðarlega þætti, orkunýtingu og siglingar í norðurhöfum. Minnst er á Ísland og meðal annars sagt:

„However, the strategic importance of Iceland will be re-emphasised by the growth in shipping of cargo, oil and gas transport in and around Icelandic waters. Whatever lies behind the change in Russian operational patterns, it is causing uncertainty and highlighting the possibilty of military posturing amidst the scramble for Arctic energy resources. Iceland will be torn between the benefits that oil and gas transport and new shipping lanes could bring and the risk of negative effects on its security. Risk management will therefore be an important element of domestic debate on security issues.“

Ég er sammála þessu mati og nægir í því efni að benda á fyrirlestra, sem ég hef flutt um breytingar hér í norðurhöfum austan hafs og vestan og birtar hafa verið hér á síðunni frá því í september 2007.

Erna Solberg, formaður Hægri flokksins, gagnrýnir Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, fyrir að sýna Rússum of mikla mildi. Störe hafi ekki viljað taka undir ályktun utanríkisráðherra Evrópusambandslandanna frá 26. ágúst sl. þegar þeir „fordæmdu harðlega“ viðurkenningu Rússlands á Suður-Ossetiu og Abkhasíu, sem sögðu sig úr lögum við Georgíu. Þess í stað lét Störe nægja að „harma“ viðurkenninguna. Leiðtogar Evrópusambandslandanna fordæmdu viðurkenningu Rússa í ályktun sinni 1. september sl.

Solberg segir, að með þessu gefi norska ríkisstjórnin rússneskum stjórnvöldum til kynna, að Vesturlönd séu ekki einhuga. Rússar telji sig þess vegna hafa meira svigrúm til ögrana en ella væri. Telur Solberg, að sem lítilli þjóð sé Norðmönnum skylt að standa vörð um rétt smáríkja til að ráða sér sjálf. Það sé ekki skynsamleg stefna Noregs að draga úr gagnrýni á Rússa í þessum efnum.

Störe segist ekki sammála Solberg um, að Norðmenn standi frammi fyrir ógn af hálfu Rússa. Norsk stjórnvöld verði að ganga fram af festu gagnvart nágranna sínum, en jafnframt á ábyrgan hátt.

Fimmtudagur, 18. 09. 08. - 18.9.2008 20:36

Seðlabankar víða um heim hafa gripið til sinna ráða í dag til að sporna gegn öfugþróun í fjármálaheiminum. Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, gerði það með eftirminnilegum hætti í viðtali við Kristján Má Unnarsson í Íslandi í dag á Stöð 2 í kvöld.

Margt var vel sagt og skýrt í þessu tímabæra viðtali. Davíð var ómyrkur í máli um talsmenn evruaðildar og kallaði þá lýðskrumara. Í Kastljósi kvöldsins taldi Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, að Davíð vísaði til framsóknarmanna. Samfylkingin hefði svo lengi haft ESB-aðild á stefnuskrá sinni.

Merkilegast var, hve fast Davíð kvað að orði, þegar hann vék að því að greiningardeild Glitnis hefði talað um dýrt „Íslandsálag“ á erlend lán til Íslendinga. Taldi Davíð þetta ósvífinn stimpil á landið, sem ætti það ekki skilið, þegar litið væri til skuldlauss ríkissjóðs. Það væri framganga banka við lántöku, sem leiddi til þessa álags. Þeir ættu ekki að snúa því upp á landið.

Ég ætla ekki að endursegja þetta langa og ítarlega samtal en óska Stöð 2 til hamingju með að fá Davíð til viðræðu og hve upplýsandi samtalið var, enda var Kristján Már vel undir það búinn og gaf Davíð færi á að svara.

Viðbrögð álitselítunnar með ESB-aðild sem lausn á öllum vanda eru þau, að Davíð sé að kveðja seðlabankann með viðtalinu. Þetta sýnir best, hve þessi elíta er oft í litlum tengslum við raunveruleikann og kýs helst að lifa í eilífum spuna.

Bergsteinn á ritstjórn Fréttablaðsins segir í ritstjórnardálki í dag, að ég hafi verið örlítið ónákvæmur í frásögn minni hér í gær af orðaskiptum okkar Steingríms J. um kalda stríðið og síma Ragnars Arnalds. Bergsteinn segir:

„Steingrímur spurði hvort Björn teldi að það hefði verið eðlilegt tilefni til að hlera símann hjá Ragnari árið 1968. Gildir þá einu hvort síminn var í raun hleraður eða einungis veitt til þess heimild þar sem ásetningurinn var til staðar. Björn gerði enga tilraun til að svara því.“

Þetta er ekki nákvæmt hjá Bergsteini. Ég sagði, að engum aðdraganda þess, að lögregla óskaði eftir heimild til hlerunar, hefði verið betur lýst en einmitt vegna mótmælanna gegn NATO-fundinum 1968. Fyrr hafði ég lýst skoðun minni á því, hvers vegna símanúmer stjórnmálamanna voru á lista lögreglunnar.

Miðvikudagur, 17. 09. 08. - 17.9.2008 22:05

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, og Pál Dunay frá Geneva Center for Security Policy töluðu á opnum fundi í Valhöll í dag klukkan 17:00. Á fundinum ræddu þeir um stöðuna í varnarmálum og aukin umsvif og hernaðaruppbyggingu Rússa. Dr. Stefanía Óskarsdóttir stjórnaði fundinum en utanríkismálanefnd Sjálfstæðisflokksins stóð fyrir fundinum.
 
Dunay er Ungverji og ræddi málið á þeim grunni. Hann taldi Rússland ekki eins ölfugt og margir ætluðu, þótt full ástæða væri til að vera á varðbergi. Honum þótti ólíklegt, að Georgía og Úkraína gerðust á næstunni aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Ástandið í Georgíu væri of erfitt í öllu tilliti til að landið fengi aðild og Úkraínumenn væru almennt á móti NATO-aðild.
 
Styrmir sagðist stjórnarhætti í Rússlandi bera öll merki fastistastjórnar. Þar gæti allt gerst. Hann sagðist eindregið andvígur því, að íslenskir friðargæsluliðar bæru vopn, þeir ættu að sinna annars konar störfum en krefðust þess, af þessum sökum hefðum við ekkert að gera í Afganistan. Þessi skoðun Styrmis sætti gagnrýni þeirra, sem ræddu hana.
 
Klukkan 19.00 aðalræðismaður Póllands á Íslandi til kvikmyndasýningar í Háskólabíói og var þar sýnd myndin Katyn en Andrzej Wajda, leikstjórinn frægi, gerði hana og var hún frumsýnd 21. september 2007. Hér má sjá kynningu á myndinni. Hún er mjög áhrifamikil. 
 
Morðin í apríl 1940 á 22.000 pólskum herforingjum, lögreglumönnum, menntamönnum auk annarra í Katyn-skógi 19 km vestur af Smolensk í Sovétríkjunum vorum framin að fyrirlagi Jósefs Stalíns í því skyni að afhöfða pólska herinn. Það var ekki fyrr en 1990, sem sovésk yfirvöld játuðu, að þarna hefði sovéska leynilögreglan verið blóðug upp fyrir axlir.
 
Kvikmyndin segir sögu þessara manna á einstakan hátt og tengir hana fjölskyldum þeirra og vinum auk þess sem hún sýnir, hve langt Sovétmenn  og leppar þeirra gengu til að sverja af sér glæpinn og klína honum á nasista. 

Þriðjudagur, 16. 09. 08. - 16.9.2008 22:18

Klukkan 12.05 flutti ég erindi um kalda stríðið - dóm sögunnar á vegum Sagnfræðingafélags Íslands í þéttsetnum sal í Þjóðminjasafni Íslands. Að loknu máli mínu svaraði ég spurningum fundarmanna fram til klukkan 13.00.

Ég þakka sagnfræðingafélaginu fyrir að bjóða mér að ræða þessi mál, en í orðum mínum vék ég meðal annars að símhlerunum á árunum 1949 til 1968, sem hafa verið mjög til umræðu. Vænti ég þess, að fleiri spurningar tengdust þeim málum, en raun varð. Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði, spurði um eyðingu gagna lögreglustjórans í Reykjavík. Sagðist ég harma þá eyðingu, því að hún gæfi færi á að ræða um skjölin á allt annan veg, en ef þau væru aðgengileg til rannsókna. Þá spurði Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, hvort ég teldi eðlilegt, að sími Ragnars Arnalds, alþingismanns, hefði verið hleraður árið 1968. Ég sagðist ekki vita, hvort hann hefði verið hleraður, heimild til hlerunar væri ekki hið sama og hlerað hefði verið. Ég vitnaði í skýrslu nefndar um hleranamálin og taldi hana sýna, að þessar hleranir hefðu í raun verið lítilfjörlegar, ekkert segulband hefði verið notað og aldrei hlerað að næturlagi. Heimildin til hlerana hefði líklega fremur verið varúðarráðstöfun af hálfu lögreglu en hún hefði verið nýtt.

Klukkan 16.30 var ég í síðdegisútvarpi rásar 2 og svaraði spurningum Ragnhildar Thorlacius um fyrirlesturinn en þó einkum hernaðarleg umsvif Rússa nú á tímum og hvernig ætti að túlka þau hér á norðurslóðum.

Mánudagur, 15. 09. 08. - 15.9.2008 19:16

Jón Kaldal, ritstjóri Fréttablaðsins skrifar leiðara í blað sitt í dag undir fyrirsögninni: Dómsmálaráðherra skuldar svör. Byggist leiðarinn á því, að lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu hafi fækkað síðan 1990 og er sú tala fundin, án þess að telja með sérsveitarmennina, sem starfa á þessu svæði eins og annars staðar, eða þá lögreglumenn, sem starfa í Fjarskipatmiðstöð lögreglunnar, en báðir þessir hópar lögreglumanna starfa nú undir stjórn embættis ríkislögreglustjóra, sem ekki var árið 1990.  Þeir eru að sjálfsögðu að sinna verkefnum á höfuðborgarsvæðinu. Væru þeir taldir á annan veg, hefði orðið fjölgun á lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu síðan 1990. Að fá þá útkomu þjónar ekki tilgangi Jóns Kaldals, sem skrifar leiðara sinn til að komast að þeirri niðurstöðu, að ég sé ekki að sinna starfi mínu á viðunandi hátt miðað við tölurnar, sem hann kýs að nota. Í sama dúr og af svipaðri sanngirni hefur hann skrifað um fleiri ráðherra Sjálfstæðisflokksins, enda er honum greinilega ekki kappsmál að hlutur okkar sé góður.

Ég er sammála Jóni Kaldal, að það er eitthvað bogið við þróun löggæslumála í landinu, sé hún skoðuð með gleraugum hans. Þau gefa hins vegar ekki rétta mynd af ástandinu. Jón Kaldal lítur auk þess fram hjá hinum mikla og góða árangri, sem náðst hefur á höfuðborgarsvæðinu. Hér eru dæmi:

Umferðarslysum í Reykjavík hefur fækkað um 44,9% á fyrri hluta þessa árs samanborið við meðaltal sama tímabils 2006 og 2007 (úr 314 umferðarslysum í 173).

Innbrotum í Reykjavík hefur fækkað um 15,7% á sama tíma (úr 687 í 579).

Innbrotum í Kópavogi hefur fækkað um 29,9% á sama tíma (úr 107 í 75).

Innbrotum í Mosfellsbæ hefur fækkað um 56,7% á sama tíma (30 í 13).

Efling sérsveitar, þyngri refsingar fyrir árásir á lögreglumenn, öflug valdbeitingartæki lögreglu, áhersla á greiningu og hættumat og efling lögregluskólans samhliða markvissri stefnu við framkvæmd löggæsluáætlunar eru allt úrræði til að styrkja lögregluna og eru raunverulegri viðfangsefni en talnadæmi Fréttablaðsins sem segja ekki alla söguna um liðsstyrk lögreglunnar á höfðuborgarsvæðinu.

Sunnudagur, 14. 09. 08. - 14.9.2008 14:29

Langt er síðan ég gaf mér síðast tíma til að horfa á Silfur Egils en gerði það í dag, enda ræddi Egill lengi við Geir H. Haarde, formann Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra. Geir býr yfir yfirburðaþekkingu á gangverki efnahags- og atvinnulifs auk margra ára reynslu sinnar af stjórn fjármála ríkisins. Egill setti hann heldur hvergi út af laginu í samtali þeirra og atti honum ekki heldur í illdeilur við neinn. Öll forysta Geirs einkennist af öðru en reiðilestri í garð andstæðinga sinna, hann skiptir mestu að sinna ábyrgðarmiklu starfi sínu af heilindum gagnvart eigin flokksmönnum og samstarfsflokki í ríkisstjórn.

Í samtalinu vék Egill að vandræðum innan breska Verkmannaflokksins og veikri stöðu Gordons Browns, forsætisráðherra Breta, mátti skilja hann svo, að hann vilid bera stöðu Geirs saman við óvinsældir Gordons. Eitt er, hve straumar frá Bretlandi hafa oft áhrif á stjórnmálaumræður hér, þótt ólíku sé saman að jafna, en má rekja til þess, hve margir fylgjast með breskum stjórnmálum í blöðum og sjónvarpi. Hitt er, að staða Geirs er mun sterkari í eigin flokki og meðal þjóðarinnar en Gordons í Bretlandi. Er raunar með ólíkindum, hve hratt fjarar undan Gordon og hve ólaginn hann virðist við að ná sér aftur á strik - líklegt er, að það sé vegna þungra strauma gegn honum innan eigin flokks, þótt þeir hafi ekki enn verið virkjaðir í þágu nýs leiðtoga.

Fráleitt er eins og skilja mátti á orðum Egils, að Evrópuvaktnefndin sé að fara til Brussel til þess eins að ræða það, sem nefnt hefur verið hugmynd mín um tvíhliða samning við Evrópusambandið um evruna. Ég sat fund nefndarinnar sl. miðvikudag og ræddi ýmsar hliðar hugmyndarinnar við nefndarmenn. Augljóst er, að hlutverk nefndarinnar er að ræða þetta mál eins og önnur en ekki leggja það fyrir neinn sem úrlausnarefni til að fá svar af eða á.

Sigurður Kári Kristjánsson, samflokksmaður minn og þingmaður, var í fyrri hluta þáttar Egils og gagnrýndi Ögmund Jónasson harðlega og réttilega fyrir að nota BSRB, þar sem hann er formaður, í þágu málstaðar vinstri/grænna, þar sem Ögmundur er þingflokksformaður. Svör Ögmundar voru veik, enda blasir þetta samkrull milli BSRB og v/g við öllum. Vinstri/græn eru í þessu sambandi dæmigerður róttækur vinstriflokkur, sem bindur trúss sitt við stéttarfélag en hefur dagað uppi í varðstöðu um úrelt sjónarmið - þótt þeim takist annað veifið að finna úti í heimi prófessora eða aðra fræðimenn, sem eru sama sinnis.

Í dag skrifaði ég pistil á síðuna mína til varnar lögreglu.

Laugardagur, 13. 09. 08 - 13.9.2008 19:03

Í Fréttablaðið í dag ritar Klemens Ó. Þrastarson frétt undir fyrirsögninni: Voru skýr og klár mistök starfsmanns. Lögreglustjóri segir einstakling innan lögreglu haf gert mistök sem ollu því að eftirlýstur maður slapp úr landi. „Ráðherra ber ríka ábyrgð,“ segir prófessor[Sigurður Líndal].

Í fréttinni er rætt um, hverju það sæti, að Ivan Kovulenko, eftirlýstur meintur ofbeldismaður, hafi sloppið óáreittur í gegnum landamæraeftirlit í Leifsstöð og komist til London. Stefán Eíriksson lögreglustjóri segir, að fyrir mistök hafi landamæralögreglu á Suðurnesjum ekki verið sent nafn mannsins.

Þá segir í fréttinni: „Björn Bjarnason dómsmálaráðherra svarar því ekki hvernig ábyrgð skuli háttað í slíkum málum. Því var hann spurður hvort ráðherra sjálfur teldi sig bera ábyrgð á mistökum lögreglu. Björn svavar því ekki heldur, en furðar sig á því að blaðamenn þurfi að spryja svona; þeir ættu að þekkja laganna bókstaf.“

Í gær fékk ég tvö tölvubréf frá Klemens.

Svar mitt við hinu fyrra var á þennan veg:

Sæll Klemens,

lögreglusamstarf Evrópuríkja, sem stöðugt er að aukast, miðar einmitt að því að menn sleppi ekki undan armi laganna, þótt þeir fari frá einu Evrópulandi til annars.

Þú verður að ræða við lögreglustjóra um hvernig samstarfi þeirra er háttað í tilvikum sem þessum.

Sífellt er unnið að því innan réttarvörslunnar að þétta það net, sem hún þarf að ráða yfir, til að ná sem bestum árangri.

Með góðri kveðju

Björn Bjarnason

Svar mitt við hinu síðara var þetta:

Sæll Klemens,

ríkislögreglustjóri hefur nýlega sett reglur um, hvernig haga skuli eftirliti og tilkynningum vegna manna í farbanni í því skyni að tryggja með skýrum verklagsreglum, að þeir komist ekki úr landi. Samskonar aðferðum ber að beita, þegar um eftirlýsta menn er að ræða að breyttu breytanda.

Ábyrgð vegna mála af þessu tagi er hin sama og almennt gildir að stjórnsýslurétti, ég hélt, að það lægi í augum uppi og þyrfti ekki að skýra út fyrir rannsóknarblaðamanni. Ritstjóri Fréttablaðsins getur auðveldlega skýrt inntak þeirrar ábyrgðar fyrir þér.

Með góðri kveðju

Björn Bjarnason

Ég læt lesendum eftir að leggja dóm á hvernig Klemens flytur lesendum sínum þessi svör mín. Skyldi mega flokka það undir mistök? Á hvers ábyrgð?

Föstudagur, 12. 09. 08. - 12.9.2008 19:19

Þingfundum lauk um hádegisbil í dag og kemur þing saman að nýju 1. október.

Í morgun leiddi ég qi gong æfingu í fyrsta sinn síðan við hófum að æfa að nýju eftir sumarhlé. Æfingar hófust fyrir viku, 8. september, og kemur sami trausti hópurinn saman rúmlega átta á morgnana í Von, húsi SÁÁ í Efstaleiti.

Ég sagði hópnum frá nýlegri grein í Weekendavisen um danskan líkamsræktarjötunn, sem missti meðvitund við æfingar og næstum heilsuna, en náði henni aftur með því að æfa qi gong og fagnar því innilega að hafa þjálfað sig svo mjög, að hann geti staðið í trjástöðunni, grunnæfingu qi gong, í klukkustund. Ég hef aldrei staðið svo lengi í þessari stöðu en get staðfest, að kyrrstaða með agaðri, djúpri öndun getur haft ótrúleg áhrif.

Fimmtudagur, 11. 09. 08. - 11.9.2008 22:22

Fyrsta september-þingi er að ljúka. Það hefur staðið í tæpar tvær vikur og með því lýkur þingi, sem sett var 1. október 2007. Ákveðið var að skipta því á þennan hátt, en nýtt þing kemur síðan saman 1. október 2008.

Í raun liggur ávinningur af því að efna til þingfunda á þennan hátt ekki í augum uppi. Nokkur mál hafa verið afgreidd, en þau hefði flest mátt afgreiða með fleiri þingdögum sl. vor. Ef til fundanna er efnt til að svara gagnrýni á langt sumarleyfi þingmanna, er það markmið í sjálfu sér.

Spurning er hvort ekki sé skynsamlegt að skipta þinginu í þrjár fundalotur á ári með hléum á milli. Að láta eins og þingmenn hafi óvenjulega lítil áhrif hér á landi, af því að lagafrumvörp frá þeim eða ályktanir séu ekki afgreiddar, gefur ekki rétta mynd af því, hvernig þing starfa almennt.

Ég minnist viðtals við forseta neðri deildar breska þingsins, sem sagði það höfuðhlutverk þings að afgreiða mál frá ríkisstjórn, því að þau endurspegluðu vilja meirihlutans.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að þingmenn hér geti haft og hafi mikil áhrif á löggjöfina og ræðst það af öflugu starfi nefnda og þekkingar, sem þingmenn afla sér með setu í þeim.

Miðvikudagur, 10. 09. 08. - 10.9.2008 22:37

Á sínum tíma hélt Þórarinn Þórarinsson, ritstjóri Tímans og þingmaður Framsóknarflokksins, því gjarnan fram, að heimskunnir stjórnmálamenn, einkum í Bandaríkjunum, væru í raun framsóknarmenn. Einhverjir bloggarar tengdir Framsóknarflokknum hafa gert því skóna, að Barack Obama, forsetaframbjóiðandi, sé framsóknarmaður.

Mér finnst þetta álíka hlægilegt og tilraunir Valgerðar Sverrisdóttur og annarra framsóknarmanna til að eigna sér skoðanir mínar á lögheimildum til að semja við Evrópusambandið um evruna. Birkir J. Jónsson, flokksbróðir Valgerðar og samþingmaður, tekur að hæla Valgerði, eftir að hafa setið fund í Evrópuvaktnefndinni í morgun, en mér var boðið á fundinn til að skýra viðhorf mín. Þetta er aðeins enn eitt dæmið um, hve Evrópuumræður eru einkennilegar á íslenskum stjórnmálavettvangi.

Síðdegis kom Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri til fundar við okkur þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þar sannaðist enn, hve vel hún heldur á þeim málum, sem hún ræðir og rökstyður. Á undraskömmum tíma hefur henni tekist að gjörbreyta andrúmsloftinu í garð sjálfstæðismanna í borgarstjórn.

Þriðjudagur, 09. 09. 08. - 9.9.2008 19:05

Lene Espersen, dómsmálaráðherra Danmerkur, tók í dag við formennsku í flokki sínum, Íhaldsflokknum, en Bendt Bewndtsen, formaður, sagði af sér eftir níu ára formennsku og ætlar að snúa sér að Evrópuþinginu.

Lene hefur verið dómsmálaráðherra síðan 2001 og hef ég því hitt hana margsinnis á fundum, nú síðast fyrir viku í Ystad í Svíþjóð. Nú verður hún efnahags- og atvinnumálaráðherra. Hún sagðist fyrst hafa fengið símtal frá fráfarandi formanni í gær, þar sem hann skýrði henni frá ákvörðun sinni og hann styddi hana til formennsku, sem þingflokkur íhaldsmanna staðfesti í dag.

Lene segist ætla að beita sér fyrir skjótri niðurstöðu gagnvart Evrópusambandinu til að Danir geti ákveðið eigin stefnu í útlendingamálum. Hvernig hún ætlar að gera það, á eftir að koma í ljós, en yfirlýsing hennar um málið sýnir, hve djúpt það ristir innan ríkisstjórnarinnar, enda framtíð hennar í húfi.

Í Danmörku er fundið að því, að sameining lögregluumdæma hafi dregið verulega úr skilvirkni lögreglu, sem birtist meðal annars í fækkun fanga og auðum fangaklefum. Hér hefur hið gagnstæða gerst, löggæsla hefur orðið skilvirkari en áður og fangelsi eru þéttsetin.

Mánudagur, 08. 09. 08. - 8.9.2008 22:15

Íslenskir fjölmiðlar hafa ekki sýnt deilum Dana um útlendingamál neinn áhuga. Þær hafa staðið síðan 10. júlí, þegar Berlingske Tidende skýrði frá túlkun dönsku útlendingastofnunarinnar á reglum um fjölskylsusameiningu, sem snertir meðal annars 24-ára-regluna svonefndu. Birthe Rönn Hornbech, innflytjendaráðherra, hefur síðan sætt vaxandi gagnrýni fyrir viðbrögð sín í málinu.

Evrópusambandsdómstóllinn hefur ekki auðveldað dönsku ríkisstjórninni að glíma við málið, því að hann hefur haft fyrirvara Dana í útlendingamálum að engu og í raun svipt þá fullveldisrétti í þessum viðkvæma málaflokki, sem ræður úrslitum um stuðning danska þjóðarflokksins við ríkisstjórn Anders Foghs Rasmussens.

Stjórnmálaskýrendur í Danmörku segja, að Anders Fogh verði að fá ESB-valdið til að fallast á sjónarmið dönsku ríkisstjórnarinnar til að hann haldi stuðningi þjóðarflokksins.

48.8% danskra kjósenda vilja, að Danir haldi óbreyttri stefnu um fjölskyldusameiningu innflytjenda, hvað sem ESB-dómstóllinn segi, 37.5% segjast vilja sætta sig við niðurstöðu dómstólsins.

Hér á landi halda menn áfram að kenna Schengen-samstarfinu um dvöl ofbeldisfullra útlendinga frá Austur-Evrópu í landinu. Dvölin byggist ekki á neinum Schengen-reglum heldur aðildinni að evrópska efnahagssvæðinu (EES). Schengen-samstarfið snýst í grunninn um, að vegabréf eru ekki skoðuð á landamærum. EES-samstarfið veitir mönnum dvalarréttinn, þeir hafa hann hvort sem þeir framvísa vegabréfi eða ekki.

Einkennilegast er að sjá þá, sem hæst tala um nauðsyn Evrópusambandsaðildar, hneykslast á dvöl þessa fólks hér á landi. Halda þeir, að unnt verði að semja um undanþágu frá útlendingareglum ESB? Danir héldu það, en ESB-dómstóllinn hefur svipt þá réttinum til þess.

Sunnudagur, 07. 09. 08. - 7.9.2008 21:00

Í Morgunblaðinu birtist athugasemd frá mér vegna spurninga Staksteina til mín um evruna.

Laugardalslaugin verður lokuð fram á fimmtudag vegna viðhalds og endurbóta. Undanfarið hefur hópurinn, sem er kominn klukkan 06.30 fengið afhenta aðgöngumiða, sem ber að renna yfir ljósgeisla til að opna inngönguhlið. Líklega er þetta einhvers konar smartkort, en borgin hefur varið hundruð milljóna til að þróa þau. Sé þetta árangurinn, mælist hann ekki vel fyrir, auk þess er dreifingin á pappírsmiðunum ekki umhverfisvæn.  Þá virðist kerfið aðeins virka öðru hverju.  Skyldi þessu verða kippt í liðinn við lokunina?

Skrifaði pistil og setti hann á síðuna.

Laugardagur, 06. 09. 08. - 6.9.2008 16:55

Fjölmenni var við hátíðlega en látlausa jarðarför dr. Sigurbjörns Einarssonar biskups klukkan 14.00 í Hallgrímskirkju. Kirkjan var þéttsetin, sjónvarpað var og útvarpað frá athöfninni. Séra Jón Dalbú Hróbjartsson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju, jarðsöng og flutti eftirminnilega og góða ræðu. Hörður Áskelsson var organisti og söngstjóri en Schola cantorum og Mótettukór Hallgrímskirkju sungu og voru kirkjugestir hvattir til að taka undir sönginn. Einstök erindi í sálmum dr. Sigurbjörns voru sungnir af Ernu Blöndal annars vegar og þeim Þorkeli Helga Sigfússyni og Erni Ými Arasyni í tvísöng hins vegar. Féll þetta vel að athöfninni eins og flautuleikur Magneu Árnadóttur og fiðlu og víólu leikur Sigurbjörns Bernharðssonar og Svövu Bernharðsdóttur.

Páll Valsson, bókmenntafræðingur og höfundur ævisögu Jónasar Hallgrímssonar, ritar minningargrein um dr. Sigurbjörn í Morgunblaðið, en Páll er kvæntur Höllu Kjartansdóttur, dótturdóttur Sigurbjörns. Páll segir:

„Það lýsir Sigurbirni vel að í einum göngutúrnum sagðist hann ekki ætla að setja sig inn í deilurnar um Evrópusambandið og hvort við ættum að ganga þar inn, „þið yngra fólkið verðið að leiða það til lykta,“ sagði hann. Stuttu síðar vorum við í samkvæmi og þá tók ég eftir því að Sigurbjörn var sestur að manni sem var vel að sér í þessum efnum og tekinn að þýfga hann um ýmis álitamál um Evrópusambandið – auðvitað gat hann ekki setið hjá og skilað auðu. Það var ekki í hans eðli og andstætt þeim eldmóði sem einkenndi hann alveg til hinstu stundar.“

Í minningargrein um dr. Sigurbjörn, sem ég ritaði í Morgunblaðið vitna ég í síðustu prédikunina, sem hann flutti en það var í Reykholtskirkju 27. júlí síðastliðinn. Hin tilvitnuðu orð í prédikunina í grein minni verða varla skilin á annan veg en þann, að dr. Sigurbjörn hafi ákveðið að gera upp hug sinn gagnvart Evrópusambandinu, þótt hvergi nefni hann það.

Var í kvöld á Þingvöllum og flutti ávarp í kvöldverði evrópskra sérfræðinga í menningarlandslagi, sem hér hafa verið síðan á fimmtudag í samvinnu við Fornleifastofnun Íslands.

Föstudagur, 05. 09. 08. - 5.9.2008 20:41

Ræddi um lögreglumál á aðalfundi Lögreglustjórafélags Íslands frá 09.00 til 11.00 á hótelinu á Hellissandi. Vakti meðal annars máls á umræðum í Danmörku um breytingu á lögreglumannsstarfinu. Þar er rætt um hina „tænksomme“ eða íhugulu lögreglu, sem leggi meiri áherslu á að skilgreina yfirvofandi hættu og leitast að koma í veg fyrir hana en sýna vald sitt.

Þá ræddi ég skýrslu mína til alþingis um framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum Kárahnjúkavirkjunar og stóriðjuframkvæmda 2005, 2006 og 2007, en hún var lögð fram á fyrsta degi þess þings, sem nú situr. Þar sést svart á hvítu, að þeir, sem töldu lögreglu ganga fram af hörku og offorsi, stunda hleranir eða annars konar laumulegt eftirlit höfðu ekkert til síns máls. Mun ég reifa þau mál nánar hér á síðunni síðar.

Símakönnun Rasmussen skoðanakönnunar-stofnunarinnar í Bandaríkjunum sýna, að meira en 40 milljónir manna fylgdust með Söruh Palin, varaforsetaefna repúblíkana, flytja ræðu sína á flokksþinginu í St. Paul og slá í gegn á eftirminnilegan hátt. Barack Obama náði ekki til svo margra með ræðu sinni á flokksþingi demókrata - fjöldi áhorfenda á Söruh var jafnvel meiri en á Ólympíuleikana.

Fyrir einni viku höfðu 67% Bandaríkjamanna aldrei heyrt um Söruh Palin, nú sýna kannanir, að hún nýtur velvildar 58% bandarískra kjósenda. Palin nýtur nú meiri stuðnings en John McCain og Obama, en 57% eru hlynntir hvorum um sig en 48% Joe Biden, varaforsetaefni demókrata.

Berið þetta saman við spá Jónasar Kristjánssonar, fyrrv. ritstjóra, á síðu hans, jonas.is, 30 ágúst. Þar stóð:

„Sarah Palin gerir lítið fyrir framboð John McCain til forseta. Hún er að vísu ekki konan bak við eldavélina, þótt hún sé fyrrverandi fegurðardís. Hún er ágætur ræðumaður og ríkisstjóri í Alaska. En hún trekkir ekki fólk á sama hátt og Hillary Clinton hefði gert. Í fyrsta lagi er Palin yzt til hægri, en Clinton nálægt miðju stjórnmálanna. Þær konur, sem eru brjálaðar, vegna þess að Hillary komst ekki í framboð, munu ekki kjósa Palin. Konur hafa áður verið varaforsetapunt, slík staða trekkir ekki stuðningskonur Clinton. McCain þurfti öflugt varaforsetaefni og fékk hægri sinnað frík.“



Fimmtudagur, 04. 09. 08. - 4.9.2008 22:32

Klukkan 17.00 var ég í Háskólanum í Reykjavík til að fagna 10 ára afmæli skólans. Mér var sýnd sú vinsemd að heiðra mig í tilefni af þessum tímamótum fyrir að beita mér fyrir löggjöfinni, sem varð forsenda fyrir starfsemi skólans. Guðfinna Bjarnadóttir, fyrsti rektor skólans, var einnig heiðruð fyrir störf sín í þágu skólans.

Á sínum tíma þótti síður en svo sjálfsagt að móta löggjöf um heimild til einkareksturs á háskólum. Ríkisstjórn og alþimgi samþykktu hins vegar tillögu mína um það efni. Lögin ollu þáttaskilum og nú er Ísland með hæsta hlutfall námsmanna á háskólastigi á Norðurlöndum, þótt víðar væri leitað.

1998 voru 300 nemendur í HR en nú eru þeir 3000. Frelsi í háskólarekstri hefur ekki aðeins leitt til fleiri háskóla heldur einnig valdið byltingu í þeim skólum, sem fyrir voru.

Í afmælishófinu var sýnt myndband með 10 ára afburðanemendum, sem sögðu frá framtíðaráformum sínum. Einn þeirra sagðist stefna á hraðbraut í framhaldsskóla, svo að hann gæti komist sem fyrst í háskóla, orðið doktor og síðan prófessor. Þá minntist ég þess af hve mikilli tortryggni tillögu minni um hraðbrautina var tekið á sínum tíma.

Nú dettur engum stjórnmálamanni í hug að gagnrýna einkarekna háskóla eða hraðbraut og annars konar einkaframtak á framhaldsskólastigi. Dapurlegt er, að ekki hafi orðið sama þróun í grunnskólum. Meginástæðan fyrir því er, að R-listinn tók við flestum grunnskólum við flutning þeirra frá ríkinu og innan þess lista höfðu menn ofurtrú á opinberum rekstri.

Ók vestur að Búðum á Snæfellsnesi vegna fundarhalda. Ég hef ekki áður gist á þessu glæsilega hóteli eða notið hins góða matar, sem hér er í boði.

Miðvikudagur, 03. 09. 08. - 3.9.2008 20:21

Árvekni tollvarða á Seyðisfirði með aðstoð lögreglu og leitarhunda hefur enn skilað miklum árangri, þegar fréttir berast um, að fundist hafi mikið magn af fíkniefnum hjá farþega Norrænu við komu frá Færeyjum. Vel að verki staðið!

Á mbl.is má í dag lesa:

„Miguel Ángel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar, telur evruupptöku Íslendinga án aðildar að Evrópusambandinu ekki koma til greina. Ráðherrann, sem er nú í opinberri heimsókn til Íslands, telur Íslendinga ekki þurfa að óttast að missa yfirráðin yfir fiskimiðunum við inngöngu í ESB. Hann lýsir jafnframt yfir stuðningi við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Moratinos átti í dag fund með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra og Geir Haarde forsætisráðherra, en þetta er í fyrsta sinn sem utanríkisráðherra Spánar kemur í opinberra heimsókn til landsins.

Aðspurður um hvers vegna hann teldi Íslendinga ekki geta tekið upp evruna án aðildarviðræðna vísaði Moratinos til þeirra orða Jean-Claude Trichet, bankastjóra evrópska seðlabankans, að slíkt skref væri ekki raunhæft.

Moratinos er jafnframt þeirrar hyggju að evruupptaka Spánverja hefði reynst farsæl og að gjaldmiðillinn verndaði hagkerfin fyrir miklum utanaðkomandi sveiflum, sem jafnan væri ókostur smærri gjaldmiðla.“

Við lestur þessarar fréttar vakna ýmsar spurningar. Til dæmis þessi: Hver hefur lagt þetta mál fyrir Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóra Evrulands? Með hvaða rökum? Telur hann ekki heimild til að semja við Ísland á grundvelli 111. gr. stofnsáttmála ESB? Eða er hann almennt á móti því að semja við Ísland?

Spænski utanríkisráðherrann gefur greinilega ekki mikið fyrir hina þungu gagnrýni innan Spánar á Trichet, seðlabankastjóra. Trichet segir, að sér beri ekki frekar að taka tillit til vandræða á Spáni en seðlabankastjóra Bandaríkjanna til vanda í Texas. Trichet yrði áreiðanlega enn skeytingarlausari um efnahagsmál á Íslandi.

Þegar rætt er um inngöngu í Evrulandið, má ekki gleyma því, að þaðan er engin útgönguleið.

Þriðjudagur, 02. 09. 08. - 2.9.2008 16:35

Dómsmálaráðherrar Norðurlanda funduðu til klukkan 16.00 í strandbænum Ystad í Svíðþjóð og síðan var okkur ekið í um klukkustund hingað á Kastrup, þar sem ég sit og bíð eftir kvöldvélinni heim eftir óvenju langa útvist.

Fyrir hádegi ræddum við baráttuna gegn barnaklámi, fengum skýrslu um niðurstöðu fundar norrænu ríkislögreglustjóranna um málið og gengum frá yfirlýsingu af okkar hálfu, sem birt verður á morgun. Lýsingar á því, hve ótt og títt er haldið uppi kynferðislegri áreitni gegn börnum á netinu er í einu orði sagt óhugnalegt. Til að náð sé árangri verða viðbrögðin að vera fjölþjóðleg og stigum við enn skref til að efla norrænt samstarf á þessu sviði á ráðherrafundinum.

Það kom minn hlut að hafa framsögu um alþjóðlega, skipulagða glæpastarfsemi og urðu líflegar umræður um þann málaflokk og hvernig þessi ófögnuður blasir við ráðherrum landanna.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur farið um landið undanfarið og kvartað undan aðgerðarleysi stjórnvalda í efnahagsmálum. Er með ólíkindum, hve þessi innistæðulausi áróður hefur gengið lengi og virðist Guðni verða farinn að trúa honum. Guðni er hins vegar ekki hlutlaus, það er hins vegar greiningardeild Glitnis.

Í Morgunkorni Glitnis, sem greiningardeild bankans gefur út, er í dag fjallað um þær fullyrðingar stjórnarandstöðunnar að ríkisstjórnin hafi sýnt aðgerðarleysi á erfiðum tímum í efnahagsmálum. Þar segir að þegar litið sé í baksýnisspegilinn komi á daginn að stjórnvöld hafi vissulega brugðist við breyttum aðstæðum í hagkerfinu með ýmsum hætti undanfarna mánuði.

Talið um aðgerðaleysi fær ekki háa einkunn hjá greiningardeildinni. Hún felldi Guðna á prófinu í miðjum áróðursleiðangri hans.

Mánudagur, 01. 09. 08. - 1.9.2008 15:39

Ókum síðdegis frá Kaupmannahöfn yfir Eyrarsund til strandbæjarins Ystad á Skáni, þar sem haldinn verður dómsmálaráðherrafundur Norðurlanda. Ráðherrarnir hittust allir á Hilton hótelinu á Kastrup-flugvelli og þaðan ókum við saman í rútu. Ferðin til Ystad tók um klukkustund.

Það blæs hér við ströndina og hressandi að sitja við sjávarniðinn.

Ystad er heimabær leynilögreglumannsins Kurts Wallanders, sem Henning Mankell hefur gert heimsfrægan í bókum sínum, auk þess sem hann er þekktur í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.

Nyhedsavisen var blásinn af í dag, fría Baugsblaðið í Danmörku, sem náði til 600 þúsund lesenda, þegar lokað var vegna fjárskorts. Útgáfa blaðsins hófst 17. ágúst 2006 með miklum heitstrengingum um að ná í milljón lesendur, og að samskonar blöð yrðu gefin út víðar í Evrópu. Misheppnuð tilraun var gerð með tapi í Boston. Fagblaðið Journalisten telur, að útgáfa Nyhedsavisen hafi kostað eigendur þess 700 milljónir danskra króna um 12 milljarða íslenskra króna.

Berlingske Tidende segir í fétt um örlög Nyhedsavisen: „Dermed er den danske bladkrig, der har kostet bladbranchen halvanden milliard kroner, sluttet med dundrende fiasko og lommesmerter for alle deltagere“

Saga Nyhedsavisen vekur spurningar um viðskipavit þeirra, sem að því stóðu og hvert allir þeir fjármunir voru sóttir, sem runnu í þessa hít.