18.6.2000

Gunnarsstofnun að Skriðuklaustri

Gunnarsstofnun,
Skriðuklaustri,
18. júní 2000.

Langþráðu takmarki er náð, þegar við komum saman hér að Skriðuklaustri í
dag, til að lýsa yfir því með formlegum hætti, að Gunnarsstofnun opni þetta
einstæða hús fyrir almenning til sýnis og fyrir menningarstarfsemi hvers
konar, sem fellur að markmiðum stofnunarinnar.

Á fyrstu misserum mínum í starfi menntamálaráðherra, þegar einstök
úrlausnarefni tóku að skýrast, varð mér ljóst, að það yrði ekki einfalt
verkefni að greiða úr málefnum Skriðuklausturs með þeim hætti, að gjafabréf
þeirra hjóna Gunnars skálds Gunnarssonar og Franziscu frá árinu 1948 kæmist
til framkvæmda á þann veg, að íslenska ríkið sýndi í verki virðingu sína
fyrir hinni einstæðu og miklu gjöf.

Með þessum orðum legg ég alls ekki neikvæðan dóm á það starf, sem hér hefur
verið unnið í rúm 50 ár, heldur tek mið af þeim orðsendingum, skýrslum og
samningum, sem við blöstu í skjalasafni menntamálaráðuneytisins, þegar ég
vildi huga að málefnum Skriðuklausturs, og sá, að stigin höfðu verið mörg
skref í rétta átt, en þrátt fyrir þau hafði ekki tekist að ljúka málum á
þann veg, að forræði staðarins væri skýrt og ótvírætt eða markmið með
nýtingu hans skilgreind til fulls.

Hátíðlegir samningar undirritaðir af ráðherrum, eða góðar yfirlýsingar á
100 ára afmælishátíð skáldsins árið 1989, höfðu ekki dugað til að skapa
skýran og hæfilegan ramma um starfsemi í húsinu. Þótt menntamálaráðuneytið
fengi þetta hús endanlega til fullrar umsjónar á árinu 1993, ríkti nokkur
óvissa um framtíðarnot þess og staðarforráð vorið 1995, þegar afskipti mín
hófust.

Komst ég bráðlega að þeirri niðurstöðu, að vonir um að hér yrði hreyfing á
hlutum, mundu ekki rætast, ef ekki tækist að stofna með formlegum hætti til
samstarfs við heimamenn og framselja til þeirra margt af því, sem menn
höfðu verið að sýsla með í ráðuneytum um árabil. Í stuttu máli væri ekki
unnt að fjarstýra starfinu að Skriðuklaustri frá menntamálaráðuneytinu í
Reykjavík.

Stefnan var tekin á að ná utan um skipulag starfseminnar í fjórum áföngum.
Í fyrsta lagi að skipa stjórn Gunnarshúss að Skriðuklaustri til tveggja ára
og var það gert 1. apríl 1997. Völdust þau Helgi Gíslason, Guttormur V.
Þormar og Sigríður Sigmundsdóttir til setu í stjórninni. Þau tóku að sér að
undirbúa annan áfangann, það er að semja tillögur að reglum um
Gunnarsstofnun, gera áætlun um starfsemi í húsinu, annast ráðstöfun á
gestaíbúð þess og hafa eftirlit með rekstri hússins og starfseminni í því.

Lá stjórn Gunnarshúss ekki á liði sínu og hinn var 9. desember 1997 var
öðrum áfanganum náð, þegar ég staðfesti að tillögu hennar reglur um
Gunnarsstofnun, Stofnun Gunnars Gunnarssonar að Skriðuklaustri. Hlutverk
stofnunarinnar er að leggja rækt við bókmenntir með áherslu á ritverk og
ævi Gunnars Gunnarssonar; að reka dvalarstað fyrir lista- og fræðimenn; að
stuðla að atvinnuþróun á Austurlandi; að efla rannsóknir á austfirskum
fræðum; að stuðla að alþjóðlegum menningartengslum á verksviði sínu og að
standa fyrir sýningum og öðrum listviðburðum.

Þriðji áfangi skipulagsstarfsins náðist síðan vorið 1999, þegar stjórn
Gunnarsstofnunar var skipuð en Safnastofnun Austurlands og
Atvinnuþróunarfélag Austurlands tilefndu hvor sinn fulltrúa, Hrafnkel
Jónsson og Sigríði Sigmundsdóttur og ég fól Helga Gíslasyni að gegna áfram
stjórnarformennsku..

Þessi stjórn vann að því, að fjórði áfanginn næðist, það er ráða
stofnuninni forstöðumann. Glímdi hún við það flókna og viðkvæma
viðfangsefni um þetta leyti fyrir einu ári. Varð niðurstaðan að ráða Skúla
Björn Gunnarsson og hefur reynslan sýnt, að það var vel ráðið.

Í öllu þessu ferli var ljóst, að sætta þurfi mörg ólík sjónarmið og vil ég
sérstaklega þakka Helga Gíslasyni stjórnarformanni örugga forystu hans og
gott samstarf. Einnig færi ég meðstjórnendum hans þakkir fyrir góð störf
þeirra.

Um síðustu áramót urðu þær breytingar á skipan stjórnar, að ákveðið var að
fjölga í henni um tvo fulltrúa tilnefndum af menntamálaráðherra og tóku þá
Gunnar Björn Gunnarsson og Stefán Snæbjörnsson þar sæti sem fulltrúar mínir
við hlið hinna þriggja, sem eru áður nefnd.

Undanfarin misseri hefur ekki aðeins verið unnið að því að koma á skýru
stjórnskipulagi fyrir staðinn heldur hefur einnig verið nauðsynlegt að
tryggja meira forræði á staðnum fyrir stofnunina en yfir Gunnarshúsi einu.
Vilji okkar stóð til þess, að ekki yrði búið í húsinu og því þurfti að
tryggja forstöðumanni bústað utan þess.

Það náði fram að ganga í maí 1999 með samkomulagi milli
menntamálaráðuneytis og landbúnaðarráðuneytis um afhendingu íbúðarhússins
Skriðu til menntamálaráðuneytisins vegna Gunnarsstofnunar, jafnframt var
ákveðið, að um 15 hektara landskiki skyldi falla undir Gunnarsstofnun, auk
þess sem landbúnaðarráðuneytið samþykkti fyrir sitt leyti, að leigutekjur
af jörðinni rynnu til Gunnarsstofnunar.

Að sjálfsögðu hefði verið æskilegra, að öll jörðin félli undir
Gunnarsstofnun, en ég taldi skynsamlegt að vinna að samkomulagi á þeim
forsendum, sem hér er lýst, í stað þess að láta framvindu mála stranda um
óvissan tíma á ágreiningi um eignarhald á jörðinni utan þess svæðis, sem
vel dugar stofnuninni.

Þegar forstöðmaður tók til starfa og húaskostur hafði verið tryggður, hófst
nýr þáttur í sögu Skriðuklausturs. Skúli Björn hefur kynnt góðar tillögur
um framtíðarstarfið og leitað samstarfs við marga aðila. Vil ég lýsa
sérstakri ánægju með hve góð samvinna hefur tekist við afkomendur Gunnars
skálds og Franziscu síðustu misseri, er áhugi þeirra ómetanlegur til að
unnt sé að ná því marki, sem að er stefnt.

Góðir áheyrendur!

Þetta er orðin nokkuð löng skýrsla um aðdraganda þess, að við erum stödd
hér í dag og kynnumst því af eigin raun, hvað áunnist hefur og hvert nú
verður stefnt. Ég tel hins vegar að nauðsynlegt sé að hafa þennan
aðdraganda í huga, kraftarnir leystust ekki úr læðingi, fyrr en samstarf
tókst við heimamenn. Undir forystu Helga Gíslasonar hefur stjórnin aldrei
misst sjónar á hinu sameiginlega markmiði okkar, þótt leiðin hafi ekki
alltaf virst greiðfær.

Það hefur einnig ræst hér, að áhugi á að veita liðveislu hefur aukist í
réttu hlutfalli við dugnað þessa ágæta fólks. Ef við notum peningalega
mælistiku sést, að árið 1998 fékk Gunnarsstofnun 2 milljónir króna á
fjárlagalið menntamálaráðuneytisins, 4 milljónir árið 1999 og 7 milljónir
árið 2000. Auk þess hefur í ár fengist fé úr Endurbótasjóði
menningarbygginga til að gera bæði við Gunnarshús og Skriðu, alls 15
milljónir króna. Ljóst er, að kostnaður við Gunnarshús er meiri en ætlað
var og hefur erindi vegna þess verið beint til Endurbótasjóðs. Er brýnt að
ljúka öllum framkvæmdum við húsið á þann veg, að því sé fullur sómi sýndur.

Opinber fyrirtæki og einkaaðilar hafa einnig sýnt Gunnarsstofnun vaxandi
áhuga og nú á dögunum var til dæmis ritað undir samning við Landsvirkjun,
sem sýnir góðan hug hennar til þess starfsins að Skriðuklaustri.

Okkur hefur tekist að skapa skynsamlegar forsendur fyrir því, að hér að
Skriðuklaustri þróist og eflist gott starf. Tekist hefur að greiða úr því
öllu, sem stóð framvindu mála fyrir þrifum, nú er verkefnið að nýta þau
tækifæri sem gefast til að efla hér menningarlegt starf og gera allri
Íslendingum og öðrum ljóst, að hingað sé verðugt að koma, ekki aðeins til
að kynnast því, hve Gunnar skáld var stórhuga, þegar hann réðst í að reisa
þetta hús í þann mund, sem síðari heimsstyrjöldin var að hefjast, heldur
vegna þess að hér er unnið starf, sem vekur áhuga og getur af sér nýmæli
fyrir Austfirði og landið allt.

Mikil menningarleg gróska er hér á Austurlandi um þessar mundir og héðan
berast ánægjulegar fréttir af hverjum listviðburðinum eftir annan. Hugur
minn stendur til nánara menningarlegs samstarfs við heimamenn á fleiri
sviðum en snertir Gunnarsstofnun. Tel ég skynsamlegt, að hugað sé að
heildarsamningi milli forsvarsmanna Austfirðinga í menningarmálum og
menntamálaráðuneytisins um það, hvernig opinberum stuðningi við
menningarlíf í fjórðungnum skuli háttað. Má benda á menningarsamning við
Akureyri sem fordæmi í þessu efni og einnig hina góðu reynslu af
samstarfinu um Gunnarsstofnun, en hún er nú þungamiðja í menningarlegum
umsvifum á vegum menntamálaráðuneytisins á Austurlandi.

Fyrir dyrum stendur að semja um framtíðarstuðning við Gunnarsstofnun, þegar
nokkur reynsla hefur fengist af því fyrirkomulagi, sem hér hefur verið
lýst. Af minni hálfu er ekkert því til fyristöðu, að í viðræðum um þann
samning verði litið á menningastarf á Austurlandi í stærra samhengi. Hvort
það verður gert ræðst þó frekar af vilja viðmælendanna en okkar, sem sitjum
í menntamálaráðuneytinu.

Með þessum orðum ítreka ég þakkir mínar til Helga Gíslasonar og félaga hans
í stjórn og til Skúla Björns Gunnarssonar fyrir hve traustan grunn hann
hefur lagt að framtíðinni hér á skömmum tíma.

Við getum verið stolt af því verki, sem við höfum unnið hér, til að halda
minningu Gunnars skálds og Franziscu konu hans á loft með verðugum hætti.
Megi menningarstarf vaxa og dafna að Skriðuklaustri um langan aldur.