Dagbók: febrúar 2007

Miðvikudagur, 28. 02. 07. - 28.2.2007 20:22

Fór til starfa í ráðuneytinu í morgun. Sem betur fer beið mín ekki stafli af óafgreiddum málum, þar sem ég hef unnið alla daga á tölvunni síðan ég veiktist og einnig fengið skjöl send til mín bæði á sjúkrahúsið og heim. Hins vegar efndi ég nokkurra funda, meðal annars 40. fundar Evrópunefndar, en við sjáum nú fyrir endann á því mikla starfi, ef allt gengur á þann veg, sem við ræddum í dag.

Starfið í Evrópunefndinni hefur verið lærdómsríkt og ánægjulegt og endurspeglar skýrsla okkar, hve mikilla upplýsinga við höfum aflað.

Mér finnst merkilegt, að eftir alla evru-umræðuna og nauðsyn þess, að hugað sé að upptöku hennar, skuli enginn staldra við það með sama hætti, að Moody's hækkar lánshæfismat íslensku bankanna með vísan til þess, að þeir hafi seðlabanka og sérstakan gjaldmiðil að baki sér - það er starfi ekki með baktryggingu frá seðlabanka Evrópu, sem kom til sögunnar með evrunni. Bendir þetta til þess, að krónan sé ónýt eða þau fjármálafyrirtæki, sem nota hana, séu lítils metin?

Þriðjudagur, 27. 02. 07. - 27.2.2007 17:46

Fór klukkan 20.00 í Hallgrímskirkju á tónleika Kammersveitar Reykjavíkur. Voru þeir hluti af menningarhátíðinni Pourquoi pas? - franskt vor á Íslandi. Var aðeins flutt frönsk tónlist undir stjórn Daniels Kawka, en einleikarar voru Áshildur Haraldsdóttir á flautu, Rut, kona mín á fiðlu, Daði Kolbeinsson á óbó og Vincent Warnier á orgel.

Veturinn 2002 til 2003 ritaði ég reglulega greinar í Morgunblaðið, sem birtust á miðopnu þess á laugardögum og fjallaði ég þar um menn og málefni frá mínum sjónarhóli eins og dálkahöfundar gera, en á þessum tíma var ég utan ríkisstjórnar en sat bæði í borgarstjórn og á alþingi.

Laugardaginn 8. mars 2003 birtist grein undir ofangreindum formerkjum á miðopnu Morgunblaðsins undir fyrirsögninni: Veiðileyfið frá Borgarnesi og snerist hún um svonefnda Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Greinin hófst hins vegar á þessum orðum:

„Davíð Oddsson forsætisráðherra lýsti „frétt“ Fréttablaðsins um að hann hefði rætt um fyrirtækið Nordica og Jón Gerald Sullenberger við Hrein Loftsson á fundi þeirra í London staðlausa. Færði hann fyrir því skýr rök. „Fréttin“ hefur næstum gleymst, eftir að Davíð sagði frá því, að Hreinn hefði nefnt hugmynd Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, um að gera mætti Davíð að vini Baugs með því að greiða honum 300 milljónir króna inn á leynireikning erlendis.

Morgunumferðin mánudaginn 3. mars, þegar morgunvakt RÚV hóf göngu sína með viðtali við Davíð, hægði á sér vegna dramatískra svara Davíðs við spurningum Óðins Jónssonar fréttamanns um „frétt“ Fréttablaðsins. Með öndina í hálsinum hlustuðu ökumenn og trúðu vart eigin eyrum. Í umræðuþáttum sjónvarpsstöðvanna um kvöldið ítrekaði Davíð frásögn sína. Hann dró alveg skýr mörk milli stjórnmála og viðskipta og talaði tæpitungulaust. Davíð flutti mál sitt beint til allra hlustenda og skýrði þeim frá einstæðri reynslu af samskiptum við mann, sem áður hafði verið náinn samstarfsmaður, en var gerður út af örkinni sem stjórnarformaður Baugs til að viðra ákveðna hugmynd með hagsmuni fyrirtækisins í huga. Síðan hafa pólitískar umræður fengið á sig nýjan blæ.“

Sama dag eða degi síðar hringdi sameiginlegur kunningi okkar Hreins Loftssonar í mig og sagði hann mjög reiðan vegna þessara orða minna. Af fréttum af yfirheyrslum í Baugsmálinu virðist Hreini ekki runnin reiðin enn, rétt tæpum fjórum árum síðar.

Lesa meira

Mánudagur, 26. 02. 07. - 26.2.2007 8:31

Í morgun fór ég í qi gong með félögum mínum að nýju í fyrsta sinn síðan 5. febrúar, þegar ég var þar með samfallið hægra lunga. Leið mér öllu betur í dag en þá. Raunar var haft á orði við mig, að með aðeins annað lungað virkt, hefði ég verið eins og einfættur maður, sem teldi sér fært að ganga hiklaust á báðum fótum fram til orrustu!

Ég fagna því að kvikmyndirnar Hinir framliðnu ( The Departed) og Líf annarra (Das Leben der Anderen) skuli hafa fengið Óskarsverðlaun sem bestu kvikmyndirnar að þessu sinni. Báðar hef ég séð og minnst á hér á síðunni. Raunar birti ég hér einnig dóm úr The New York Times um þýsku myndina.

Ég hef ekki séð Óskars-verðlaunamyndina Hinn óþægilegi sannleikur (The Inconvenient Truth) eftir Al Gore, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna. Myndin snýst um hættuna af loftlagsbreytingunum en er þó sögð enda án spádóms um heimsslit, þar sem Bandaríkjamenn muni að lokum bjarga þessum málum eins og öðrum. Las ég einhvers staðar, að einmitt vegna lokaorðanna nyti myndin ekki sérstakra vinsælda í Evrópu, því að niðurstaða hennar félli ekki að and-ameríkanisma þess fólks þar, sem telur sig best fært um að bjarga mannkyni frá umhverfisglötun.

Í nýjasta hefti af The Spectator skrifar Charles Moore, kunnur breskur ritstjóri og rithöfundur, þetta um Al Gore:

Lesa meira

Sunnudagur, 25. 02. 07. - 25.2.2007 19:02

Nú hef ég náð 40 mínútna gönguhringnum mínum og eykst þrekið jafnt og þétt.

Gekk í dag umhverfis Perluna og um Öskjuhlíðina, sem er vinsælasta útivistarsvæði borgarbúa, auk þess sem tugir ef ekki hundruð ferðamanna heimsækja Perluna á degi hverjum. Ég get ekki orða bundist yfir hirðuleysinu umhverfis þennan fjölfarna stað. Enn má sjá þar merki eftir skotelda og blys á gamlársdag.

Auðvelt er að komast að þeirri niðurstöðu, að í Öskjuhlíðinni, svo að ekki sé minnst á næsta nágrenni Perlunnar, dugi ekki að efna til eins hreinsunardags á ári. Umhverfisvernd í þéttbýli felst í alhliða snyrtimennsku þeirra, sem fara með stjórn þeirra mála í borg og byggð. 

 

Laugardagur, 24. 02. 07. - 24.2.2007 22:13

Þegar ég las fréttaskýringuna á forsíðu Morgunblaðsins í dag, ákvað ég að skrifa næsta pistil um afskipti okkar sjálfstæðismanna af umhverfismálum. Ég vænti þess að senda hann frá mér á morgun. Greinilegt er, að í umhverfismálum eins og svo mörgum öðrum málaflokkum, ræður skammtímaminnið og ekki er leitast við að bregða neinu ljósi á þróun eða framvindu mála.

Með ólíkindum er að fylgjast með því, hve vel hefur tekist að tengja andstöðu við einstakar framkvæmdir við ást á umhverfinu - svo að ekki sé talað um andúðina í garð erlendra stóriðjufyrirtækja, sem ræður miklu um heim allan, hvort sem um umhverfisspjöll er að ræða eða ekki. Á hverjum stað velja andstæðingarnir einfaldlega þann þátt í umræðum og almennu viðhorfi, sem þeir telja sér duga best hverju sinni.

Föstudagur, 23. 02. 07. - 23.2.2007 21:56

Athyglisvert er að sjá, hve stefnumiðin, sem Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna, kynnti í setningarræðu landsfundar flokksins í dag, eru almennt orðuð. Af þeim er augljóst, að flokksformaðurinn er að búa sig undir að geta starfað með hverjum sem er að loknum kosningum.

Steingrímur J. komst meðal annars svo að orði, að hann væri í „sjálfu sér“ ekki „að boða skattahækkanir í heild, heldur tilfærslur, enda ekki þörf á slíku miðað við afkomu ríkissjóðs eins og hún er í dag.“ Steingrímur er þrátt fyrir þessi orð sín að boða hækkanir á sköttum þeirra greiðenda, sem líklegastir eru til að flytja af landi brott, verði gripið til úrræðanna, sem Steingrímur J. hefur í huga. Búskaparhættir hans í þessu efni minna á þá, sem átta sig ekki á því, hve hættulegt getur verið að éta útsæðið. Að vinstri græn vilji hærri skatta er ekki merkilegt, en viðurkenning Steingríms J. á sterkri stöðu ríkissjóðs, gengur þvert á hrakspár hans um afleiðingar skattalækkanna ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt þeim spám ætti allur fjárhagur ríkisins að vera í kalda koli en ekki standa jafnvel og Steingrímur J. lýsir.

Steingrímur J. vill aftur skapa tilvistarkreppu hjá ríkisútvarpinu og telur það bestu leiðina til að efla þá stofnun. Speki af þessum toga verður lítils virði, þegar á reynir.

Tilhlaup Steingríms J. almennt í þeim málum, sem hann nefnir til sögunnar, er svo langt, að á þeirri leið má finna marga útganga fyrir hann frá eigin stefnu. Það er helst við útboð á ríkisstyrktum strandsiglingum, sem hann setur stíf tímamörk.

Hið litla, sem Steingrímur J. segir um utanríkismál í þessari ræðu, einkennist af hinni alkunnu óskhyggju hans, að heimurinn sé hættulaus og nóg sé að segjast vera friðsamur til að fá að vera í friði. Hann minnist hvergi á neinar ráðstafanir til að tryggja öryggi Íslands, hvorki hernaðarlegt né annars konar öryggi í þeim 20 stefnupunktum, sem hann nefnir. Þetta er þó frumskylda hvers ríkis gagnvart borgurum sínum.

Hann hefur fallið frá stóru orðunum um inntak leynisamnininganna frá 1951 og að þeir séu meira hneyksli en Thule-málið á Grænlandi og hann er hættur að krefjast norskrar leiðar vegna svonefndra hleranamála.

Þegar Steingrímur J. ræðir um stefnumálin minnist hann ekki á Evrópusambandið. Hann sleppir því líklega, til að það verði ekki ágreiningsefni milli hans og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem vill Ísland í ESB eins og vitað er. Svo virðist sem Steingrímur J. átti sig ekki á því, að einmitt í stjórn með Ingibjörgu Sólrúnu er nauðsynlegt að taka af skarið strax við upphaf stjórnarsamstarfs, hver stefnan verði í Evrópumálunum.  Steingrímur J. skautar léttilega fram hjá því eins og svo mörgu öðru í setnigarræðu sinni.

Fimmtudagur, 22. 02. 07. - 22.2.2007 20:47

Kölluð hefur verið út hjálparsveit til stuðnings Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar. Greinar í blöðum dag eftir dag um, að hún sæti einelti eða sitji undir meiri gagnrýni en stjórnmálamenn eigi að venjast eru til sanninda um þetta.

Eftir að hafa kynnst hrokafullri framgöngu Ingibjargar Sólrúnar sem borgarstjóra og hvernig hún talaði til þeirra, sem hún taldi sig hafa í fullu tré við í krafti valds síns, get ég ekki annað er brosað að þessari opinberu kvörtunarherferð í hennar þágu. Hér á síðunni hef ég látið þess margsinnis getið, að einkenni stjórnmálastarfa Ingibjargar Sólrúnar sé að skilja eftir sig sviðna jörð. Henni var alveg sama um Kvennalistann, eftir að hann hafði dugað henni til að hefjast til metorða. Hún varð að hrökklast úr borgarstjórastólnum, af því að hún sýndi samstarfsfólki sínu í R-listanum pólitíska lítilsvirðingu og sagðist víst geta farið sínu fram, hvað sem það segði.

Hið sama hefur raunar einnig átt við, þegar málefni eru annars vegar. Eitt dæmi um það er til umræðu núna, en það er samkomulagið, sem hún hrósaði sér að hafa gert um framtíð Laugavegarins skömmu fyrir borgarstjórnarkosningar árið 2002. Þar stendur ekki lengur steinn yfir steini, vegna þess hve illa var að málum staðið frá upphafi. Henni tókst þar að kaupa sér frið, sem síðan fólst í því einu að borgin keypti Stjörnubíósreitin af Jóni Ólafssyni.

En hver er það, sem harðast vegur að Ingibjörgu Sólrúnu um þessar mundir? Jú, enginn annar en Jón Baldvin Hannibalsson sem talaði um Samfylkinguna sem ónýta undir hennar stjórn. Að andstæðingar Samfylkingarinnar í öðrum flokkum hafi verið að sauma að Ingibjörgu Sólrúnu er úr lausu lofti gripið. Andstaðan er innan flokksins, sem sér að hætta er á því, að Ingibjög Sólrún skilji eins við Samfylkinguna og Kvennalistann og R-listann. Innan Samfylkingar er einfaldlega spurt: Hvort eigum við heldur að losa okkur við Ingibjörgu Sólrúnu eða láta flokkinn líða undir lok?

Miðvikudagur, 21. 02. 07. - 21.2.2007 19:21

Deilan sem Ólafur Ragnar Grímsson stofnaði til við Halldór Blöndal í viðtali við Egil Helgason á Stöð 2 sunnudaginn 18. febrúar er einkennileg.

Í viðtalinu sagði Ólafur Ragnar: „Ég er nú búinn að þekkja Halldór Blöndal lengi, og margt gott um hann, en margt af því sem hann sagði byggðist nú ekki á réttum skilningi á stjórnarskránni, var kannski svona álíka brotalöm eins og þegar hann var að svara mér eftir innsetningarræðuna árið 2000. Í ræðustól forseta Alþingis talaði hann um Bandaríkin sem öflugasta þingræðisríki í veröldinni, en það er einmitt kjarninn í Bandaríkjunum að það er ekki þingræðisríki.“

Halldór Blöndal ritar af þessu tilefni grein í Morgunblaðið í dag. Hann segist hafa rifjað upp efni ræðu sinnar við þingsetningu árið 2000 og hann hafi ekki notað þessi orð um stjórnarfar Bandaríkjanna þar, hafi hann yfirleitt notað þau, hefði verið um mismæli að ræða. Ræðu Halldórs geta allir lesið á vef alþingis.

Þar sem forsetar hafa völd, er farið gargnrýnum augum yfir allt, sem þeir segja í fjölmiðlum og sérstaklega í viðtölum á borð við það, sem var við Ólaf Ragnar sl. sunnudag, Hingað til hafa menn einkum staldrað við undarlega túlkun ÓIafs Ragnars á stjórnarskránni, þegar hann ræddi vald forseta andspænis einstökum ráðuneytum. Að Ólafur Ragnar skuli einnig segja rangt frá, þegar hann vitnar í Halldór Blöndal, virðist gefa tilefni til að fara betur í saumana á þessu viðtali, þótt ekki sé hin sama aðstæða til þess hér og í löndum með valdamikinn forseta, því að hér er hann valdalaus.

Þriðjudagur, 20. 02. 07. - 20.2.2007 20:08

Klukkan 12.45 fór ég af sjúkrahúsinu, útskrifaður með því fororði, að ég færi hægt af stað. Miðað við mína góðu reynslu af ráðum þeirra, sem þar starfa, mun ég að sjálfsögðu hlíta þessu. Ég kvaddi með þakklátum huga fyrir góða umönnun og farsæla leið til bata. Ég þakka einnig öllum þeim, sem hafa sent mér kveðju í veikindunum og þeim vinum mínum, sem litu inn til mín. Ég hvatti ekki til heimsókna en þeir fáu, sem komu, styttu mér stundir og oft var glatt á hjalla.

Ég sá á vef BBC í gær, að í Bretlandi hafa yfirvöld öryggismála hvatt til þess, að aflétt verði banni við að hlera síma þingmanna við rannsókn mála. Harold Wilson, forsætisráðherra Breta, setti þetta bann fyrir rúmum 40 árum. Lögreglan telur, að bannið þjóni ekki hagsmunum ríkisins en Tony Blair treystir sér ekki til að afnema það vegna mótmæla frá þingmönnum. Af frétt BBC má helst ráða, að aðeins í Bretlandi, af Evrópulöndum, sé slíkt bann við að hlera síma þingmanna í gildi. Málsvarar þess, að bannið sé afnumið, segja óeðlilegt í lýðræðisríki, að stjórnmálamenn séu að þessu leyti settir í annan flokk en allur almenningur. Mér hefur helst skilist á vinstrisinnum hér á landi, að þeir telji slíka stéttarskiptingu eðlilega.

Ég hef ekki séð neina frétt um þetta mál í blöðum hér eða á vefsíðum. Ég tók þá ákvörðun, þegar ég lagðist inn á sjúkrahúsið fyrir tveimur vikum að hlusta hvorki á útvarp né horfa á sjónvarp. Það hefur ekki tafið fyrir bata mínum en kannski hef ég misst af þessari frétt og einhverjum öðrum fyrir bragðið. Ég viðurkenni hins vegar fúslega, að mér finnst ég ekki hafa misst af neinu.

Mánudagur, 19. 02. 07. - 19.2.2007 20:40

Fór í rannsóknir og myndatökur, Tómas Guðbjartsson læknir úrskurðaði, að það mætti taka úr mér drenið og var það gert rúmlega 15.00 eða réttum tveimur vikum, eftir að það var sett í mig. Lungað hefur lokast og loftlekinn stöðvast. Það er nokkur léttir að losna við þetta úr líkamanum, gatið var saumað saman og mun síðan gróa. Nú fer ég að búa mig til heimferðar. Ég á eftir að sakna hinnar góðu hjúkrunar og umhyggju, sem ég hef notið hérna.

Í dag eru tólf ár síðan ég færði fyrstu færsluna á síðuna mína. Þetta er langur tími og margt hefur verið látið flakka. Þetta er örugglega elsta vefsíðan, sem aldrei hefur rykfallið allan þennan tíma. Þrátt fyrir að sumum vinum mínum, þyki ég stundum taka dálítið stórt upp í mig, hefur síðan verið mér mjög gagnleg. Úlfaþytur, sem stundum hefur orðið vegna þess, sem hér hefur staðið, er eins og uppgjafarandvarp, þegar til baka er litið.

Ég þakka öllum tæknimönnum, sem hafa aðstoðað mig við að halda síðunni úti, án þolinmæði þeirra, einkum á árum áður, hefði ég örugglega hætt að glíma við þessa ótrúlegu tækni. Hin síðustu ár hefur Hugsmiðjan haldið utan um tæknilega umgjörð síðunnar með miklum ágætum.

Eitt er víst, að án aðgangs að netinu og síðunnar hefði dvöl mín hér á Landpítalanum orðið mér leiðinlegri.

Jón Þorsteinsson söngvari hafði samband við mig vegna þess sem ég sagði um Wagner-fjölskylduna á síðunni í gær, en þar var vitlaust dánardægur Cosimu, ekkju Wagners. Það hefur nú verið leiðrétt. Jón sagði mér einnig, að hann hefði sungið í Bayreuth, líklega fyrstur Íslendinga, árið 1979 og þá hitt Winifred Wagner, sem lést ári síðar.

Sunnudagur, 18. 02. 07 - 18.2.2007 21:07

Í dag gat ég farið í sturtu í fyrsta sinn, síðan ég kom hingað á LSH og var það hressandi. Síðan gekk ég dálítið um gangana, en átökin, þegar líkaminn tók við talkúminu, hafa reynt á mig, því að fram eftir degi sótti að mér þreyta.

Það er byrjað að búa mig undir útskrift en einhverjar rannsóknir eru nauðsynlegar, áður en til hennar kemur.

Að mér streymir alls kyns fróðleikur um Wagner. Þegar við fórum til Bayreuth í sumar kynntu þau hjónin Árni Tómas Ragnarsson og Selma Guðmundsdóttir, formaður Wagner-félagsins á Íslandi, okkur fyrir vinafólki sínu Wolfgang, sonarsyni Wagners, og Gudrun, seinni konu hans. Wolfgang er er fæddur 1919. Hann vill ekki láta af stjórn Bayreuth-hátíðarinnar, án þess að tryggja konu sinni, sem er fædd 1944 og helst dóttur þeirra hjóna, Katharinu Friderike, sem er fædd 1978 hlutdeild í forystu hátíðarinnar, en langafi hennar Richard Wagner lifði frá 1813 til 1883.  Við hittum einnig Katharinu með foreldrum hennar síðastliðið sumar og má með sanni segja, að þessir ættliðir spanni langan tíma.

Rík hefð er fyrir því í Wagner-fjölskyldunni, að ekkjur leiði hátíðina eins og Cosima eiginkona Wagners, en hún dó 92 ára í apríl 1930, frá því um aldamótin lét hún lítið á sér bera en réð því, sem hún vildi. Siegfried sonur Wagners og Cosimu andaðist nokkrum mánuðum á eftir móður sinni, 61 árs í ágúst 1930. Þá fell forystan í hendur Winifred, ekkju hans, en hún dó 1980, sonur þeirra Wieland stjórnaði hátíðinni með móður sinni, þar til hann lést 1966 og þá tók Wolfgang við hlutverki hans. Afkomendur Wielands telja síður en svo sjálfgefið, að kona Wolfgangs eða dóttir taki við af honum. Wolfgang situr því sem fastast.

Laugardagur, 17. 02. 07. - 17.2.2007 21:47

Enginn leki úr lunganu, þannig að nú er öruggt, að aðgerðin í gær heppnaðist prýðilega.

Í Blaðinu í dag var sagt frá því, að ég hefði stillt hátalara svo hátt, að með Wagner-óperum hefði ég raskað ró hér á deildinni og verið látinn hafa heyrnartæki, með þeirri skýringu, að hljóðbylgjurnar hefðu áhrif á sum lungnatækin.

Í gær fékk ég þetta tölvubréf:

„Komdu sæll. Við fréttum að þú værir enn á sjúkrahúsi vegna samfallins lunga. Okkur langar til að vita hvernig líðanin er, hvernig meðferðinni er háttað, hversu lengi þú hefur dvalið á sjúkrahúsinu og hvenær þú búist við að komast heim.

Með kveðju,

Ingibjörg Sveinsdóttir,

blaðamaður, Blaðinu“

Mér þótti þetta dálítið skrýtin fyrirspum miðað við færslur mínar hér á síðuna frá því að lagðist hér inn. Vísaði ég blaðamanninum einfaldlega á vefsíðu mína.

Sagt er frá veikindum mínum í Blaðinu í dag á fréttasíðu en síðan bætt um betur með lygasögu um hávaða frá Wagner í einhverjum dálki. Líklega þykir þetta fyndið. Geti menn skemmt sér á kostnað veikinda minna og sjúkrahússlegu, er það í sjálfu sér gleðilegt. Hitt finnst mér verra að bera mig þeirri röngu sök, að ég hafi raskað ró sjúklinga hér á deildinni, þar mér og öllum öðrum líður vel eftir atvikum og er hjúkrað af alúð og kostgæfni. Ekkert hefur verið fjær mér en trufla sjúklinga með hávaða eða á annan hátt - og á Wagner hef ég hlustað í heyrnatækjum, síðan ég hóf að stytta mér stundir í sjúkralegunni á þennan hátt.

 

Föstudagur, 16. 02. 07. - 16.2.2007 20:30

Rétt fyrir klukkan 12.00 var ég á skurðstofudeildinni hér á LSH og Tómas Guðbjartsson læknir með aðstoð frábærs samstarfsfólks sprautaði talkúmi inn í hægra brjóstholið. Þegar drenið var aftur tengt, hafði loftlekinn stöðvast og hef ég ekki orðið hans var síðan. Læknirinn er ánægður með niðurstöðuna, eins og við öll, sem höfum fylgst með framvindu mála síðustu daga. Nokkur sársauki fylgdi aðgerðinni en hann skiptir litlu, ef ég er nú kominn á beinu brautina til bata.

Fimmtudagur, 15. 02. 07. - 15.2.2007 21:21

Nú reynir á læknislistina á morgun, því að tölfræði sýnir, að ólíklegt sé eftir jafn marga daga og ég hef verið hér í lofttæmingu á LSH, að lunga lokist af sjálfu sér.

Mér hefur gefist tími til að hlusta á Hollendinginn fljúgandi, Lohengrin og Tristan og Isolde eftir Wagner síðustu daga. Líklegt, að Parsifal bætist í sarpinn, áður en ég kemst heim. Þetta er ekki ónýt viðbót við að ná fullri heilsu.

Miðvikudagur, 14. 02. 07. - 14.2.2007 21:10

Gunnar vinur minn Eyjólfsson kemur til mín hingað í sjúkrastofuna og við gerum qi gong æfingar saman mér til andlegrar og líkamlegrar styrkingar. Þær er ekki síður unnt að gera rúmliggjandi en endranær. Ég sagði honum, að ég hefði fengið að láni hljómdiska með upptöku á Tristan og Isolde eftir Wagner frá 1952, þegar Wilhelm Furtwängler hefði stjórnað Philharmonia Orchestra í Covent Garden í London og Kirsten Flagstad sungið Isolde.

Þá rifjaði Gunnar upp, þegar hann fór með Guðrúnu Á. Símonar og Þorsteini Hannessyni í Albert Hall í London 1946 til 47, þegar Flagstad kom þar fyrst fram á einsöngstónleikum eftir stríð, en hún var látin gjalda þess af mörgum, að maður hennar hefði átt samskipti við nasista í Noregi. Gunnar sagði, að sumir hefðu klappað en aðrir púað, þegar hún gekk fram á sviðið í upphafi tónleikanna. Flagstad hefði hneigt sig og gefið meðleikaranum merki og hafið tónleikana á andlátssöng Isolde og þakið ætlað af húsinu vegna hrifningar áheyrenda strax eftir fyrsta lagið.

Síðan hafi hún efnt til annarra tónleika og þá hafi Guðrún Á. Símonar viljað sitja aftan við sviðið, svo að hún sæi hvernig Flagstad beitti rifjahylkinu við öndunina. Var Gunnar einnig á þeim tónleikum og þótti þeir ekki síður ógleymanlegir, það hefði verið magnað að fylgjast með líkamsburði stórsöngkonunnar.

Gunnar sagði, að eftir frumsýningu á Tristan og Isolde í Covent Garden hefðu Elísabet, líklega nýkrýnd drottning, og Filippus prins gengið niður á sviðið úr hinni konunglegu stúku og þakkað Flagstad, Furwängler og öðrum á sviðnu. Hefur áreiðanlega verið litið á það, sem sögulega sáttargjörð svo skömmu eftir stríð auk virðingar og þakklætis í garð listamannanna.

Í bæklingnum með þessari útgáfu á hljómdiskunum segir, að tæknilegu gæðin á þessum tíma séu að sjálfsögðu ekki hin sömu og nú á tímum en heildarmynd Furtwänglers sé svo mögnuð, að öll slík tæknileg smáatriði hverfi fljótt úr huga hlustandans. Og þá er þess getið að Elizabeth Schwarzkopf hjálpi vinkonu sinni Kirsten Flagstad við hið fræga, langa háa C. Þetta inngrip sé þó ekkert miðað við tæknibrellurnar, sem beitt sé við upptökur nú á tímum.

Í stuttu æviágripi á netinu um Kirsten Flagstad segir meðal annars:

„Of her many records, the complete Tristan und Isolde with Furtwängler undoubtedly offers the finest memorial to her interpretive art in its maturity. Her pre-war recordings, however, showcase her voice in its freshest brilliance and clarity.“

Þá er ekkert annað að gera en nýta tímann til að hlusta og kæfa hljóðið úr loftdælunni, sem hangir við mig, hvert sem ég fer og kemur í stað leiðslunnar í vegginn, sem tekur loftið úr mér á nóttunni.

 

Þriðjudagur, 13. 02. 07. - 13.2.2007 19:05

- Þetta er bara tími, sagði læknir, þegar hann kvaddi mig hér á sjúkrastofunni í kvöld.

Þá er ekkert annað en gefa sér þennan tíma og ekki drepa hann. Ég er vel birgur af bókum og vinn að málum embættis míns á tölvunni eða í tengslum við ráðuneyti mitt. Þá ætla ég að hlusta á nokkrar Wagner-óperur til að búa mig undir næstu ferð okkar Rutar til Bayreuth. Hún er nú með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikaferð í Þýskalandi og allt suður til Zagreb í Króatíu. Fyrstu tónleikarnir voru í gærkvöldi í Köln og var hljómsveitinni einstaklega vel tekið, varð að leika síðasta aukalagið - Á Sprengisandi - tvisvar sinnum. Fylgjast má með ferðalagi hljómsveitarinnar hér.

Hljómburður í tónlistarhúsinu í Köln þykir afbragðsgóður. Að hlusta á Sinfóníuhljómsveit Íslands leika við slíkar aðstæður eða í Háskólabíói er eins og dagur og nótt. Nú er unnt að telja árin á fingrum annarrar handar, þar til okkur gefst tækifæri til þess njóta frábærs hljómburðar hér að heimaslóð í tónlistarhúsinu, sem tekið er að rísa. Við allan undirbúning byggingarinnar hefur verið lögð höfuðáhersla á að slaka alls ekki á neinu í kröfum um hljómburð. Ég er þess fullviss, að hinir metnaðarfullu menn, sem standa að Portus munu fylgja þessum kröfum fram af sama stórhug og einkenndi þá ákvörðun þeirra að hafa konsertorgel í tónleikasalnum.

Í næstu viku stóð til, að ég yrði í Harvard-háskóla, nánar tilgreint í John F. Kennedy School of Government, og flytti þar erindi um loftlagsbreytingar, öryggismál og siglingar á N-Atlantshafi. Ég hef orðið að blása ferðina af, þótt loftlekinn stöðvaðist í nótt, mætti ég ekki fara í svo langt flug í næstu viku.

Mánudagur, 12. 02. 07. - 12.2.2007 21:10

Nú hef ég verið í viku hér á Landspítalanum, sem Morgunblaðið kallar hættulegasta stað landsins. Mér líður vel eftir atvikum og vonandi enn betur á morgun.

Sunnudagur, 11. 02. 07. - 11.2.2007 20:19

Lítil tíðindi eru héðan úr sjúkrastofunni. Batinn er hægur en vonandi öruggur.

Það er kannski vegna þess, að ég ligg hér á Landspítalanum, að ég staldra frekar en ella við það, sem um hann segir í blöðunum. Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, sem birtist í dag segir til dæmis vegna komandi þingkosninga:

„Eru stjórnmálaflokkarnir tilbúnir til að taka þátt í því að losa heilbrigðiskerfið allt og Landspítala – háskólasjúkrahús sérstaklega úr þeirri spennitreyju, sem heilbrigðisþjónustan hefur verið í? Þessi spennitreyja er farin að hafa mjög alvarleg áhrif á þá þjónustu, sem sjúkir og lasburða fá í okkar kerfi.“

Ég er ekki viss um, að ég skilji alveg, hvað felst í þessum orðum. Ég er hins vegar viss um, að tímabært er orðið fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fá tækifæri til að takast á við heilbrigðismálin með stjórn ráðuneytis þeirra. Þetta segi ég ekki til að gagnrýna aðra heldur til að láta í ljós þá skoðun, að viðhorf sjálfstæðismanna til breytinga í ríkisrekstri mundu örugglega ekki herða á neinni spennutreyju, sé hún fyrir hendi.

112 dagurinn er í dag og af því tilefni var sérstaklega minnst framlags sjálfboðaliða til björgunar, leitar og annarra starfa í þágu öryggis okkar borgaranna. Það mikla starf verður aldrei fullþakkað.

 

Laugardagur 10. 02. 07. - 10.2.2007 19:27

Nú hef ég verið hér á Landspítalanum síðan á mánudag og hefur mér liðið vel miðað við aðstæður mínar. Hið eina sem á skortir er að minn eigin líkami færist í samt lag og sárið á lunganu grói. Atlætið er gott og vel um mig hugsað.

Í leiðara Morgunblaðsins í morgun er fjallað um öryggi sjúklinga í tilefni af málþingi, sem efnt var til á vegum landlæknis. Í leiðaranum segir meðal annars:

„Gestur þingsins á fimmtudag var Liam Donaldson, landlæknir Bretlands, sem hefur gegnt starfinu frá 1998 og lagt ríka áherslu á öryggi sjúklinga. Í viðtali Kristjáns Jónssonar við Donaldson í Morgunblaðinu á miðvikudag segir hann að rannsóknir, sem gerðar hafi verið við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, hafi bent til þess að tíundi hver sjúklingur, sem lagður væri inn, fengi ranga meðhöndlun. Kannanir annars staðar í Bandaríkjunum, í Ástralíu, á Nýja-Sjálandi og í Bretlandi hefðu staðfest að hlutfallið væri líklega nálægt þessu.

Í lýsingu frá landlæknisembættinu á rannsóknarverkefninu, sem nú á að ráðast í, er vísað í skýrslur á borð við þær, sem Donaldson nefnir. Síðan segir: „Á Landspítalann leggjast rúmlega 30 þúsund manns á ári og sé meðaltal ofangreindra niðurstaðna heimfært þangað má gera ráð fyrir að um 2500 manns verði fyrir óvæntum skaða á spítalanum árlega, unnt hefði verið að koma í veg fyrir um 1000 þeirra, tæplega 600 manns hefðu orðið fyrir tímabundnum örkumlum, um 225 hefðu orðið fyrir langvinnum örkumlum og svipaður fjöldi hefði látist.“ Með öðrum orðum hefðu rúmlega 200 manns látist vegna mistaka ef heimfæra má þessar rannsóknir hingað. Samkvæmt því er Landspítalinn hættulegasti staður á Íslandi. “

Mér þótti þetta heldur óþægileg yfirlýsing af blaðsins hálfu og ekki beint hughreistandi kveðja til okkar, sem þurfum að liggja á Landspítalanum „hættulegasta stað á Íslandi“. Enginn fer þangað nema af nauðsyn og víst er, að störfum sínum sinna starfsmenn spítalans af fagmennsku. Á sviði heilbrigðisvísinda eru Íslendingar í fremstu röð á heimsmælikvarða samkvæmt alþjóðlegum könnunum. Kunnáttumenn telja, að sjúkrahús í Bretlandi, þar sem Liam Donaldson er landlæknir, séu 20 til 30 árum á eftir Landspítalanum en setja megi hann í flokk með sjúkrahúsum í Svíþjóð, sem eru í allra fremstu röð.

Ég sé á visir.is, að vitnað er í samtal við Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing á Stöð 2 vegna skýrslu nefndarinnar um kalda stríðs gögnin. Þar segir í lokin: „Einnig segir Guðni að með skýrslunni hafi öll tvímæli verið tekin af um að hleranir hafi átt sér stað á þessum árum og efasemdum þar að lútandi eytt. “ Ég er ekki sammála þessu, því að skýrslan sýnir enn að dómarar hafa heimilað hleranir en ekki, að þær hafi átt sér stað. Skjöl Pósts og síma kunna að taka af skarið um það, en þau hafa ekki verið rannsökuð.

 

Föstudagur, 09. 02. 07. - 9.2.2007 19:39

Tíðindalítið er af mér, enda er ég enn tengdur fastur við vegg hér á LSH, á meðan verið er að dæla úr mér loftinu. Mér finnst þó ekki allur vindur úr mér enn, og víst er, að blessað hægra lungað hefur þanist, þótt ekki sé það enn orðið þétt.

Ástæða er til að fagna því, að nefndin undir formennsku dr. Páls Hreinssonar prófessors um kalda stríðs gögnin hefur lokið störfum og skilað áliti og tillögum. Ætti niðurstaða nefndarinnar að leiða til þess, að umræður um þessi löngu liðnu mál, verði á skynsamlegum grunni en byggist ekki á ímyndunum eins og þeim, að svipaðir atburðir hafi gerst hér og í Noregi og rannsakaðir voru af sérstakri nefnd þar.

Að líkja stöðu mála hér við það, sem gerðist í Noregi, staðfestir aðeins haldleysið í málstað manna eins og Steingríms J. Sigfússonar, sem vill greinilega afflytja Íslandssöguna með því að láta eins og hún hafi gerst í Noregi!

Skýrslan, sem birt var í dag, staðfestir, að raunar var ákaflega lítið gert hér á tímum kalda stríðsins til að tryggja innra öryggi miðað við það, sem gerðist í öðrum löndum. Hið litla, sem gert var, dugði þó til að stemma stigu við umsvifum KGB og GRU, þótt vissulega hafi þessar sovésku njósnastofnanir lagt net sín hér á landi.

Í skýrslu nefndarinnar segir, að enn sé ekki fullkannað, hvað sé að finna í gögnum Pósts og síma, sem flutt voru í Þjóðskjalasafn við einkavæðinguna. Ég var talsmaður þess á vettvangi ríkisstjórnar, að hluta af andvirðinu, sem fengist fyrir sölu ríkisfyrirtækja, yrði varið til að standa undir kostnaði við frágang á skjölum, sem bærust Þjóðskjalasafni vegna einkavæðingarinnar. Ég talaði fyrir daufum eyrum eins og skjalabrettin óskráðu sýna.

Sagt er frá því í nefndarskýrslunni, að í stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg hafi verið innréttað sérstakt herbergi til að taka á móti NATO-skjölum í samræmi við öryggiskröfur NATO. Þetta herbergi var á annarri hæð í norðurenda hússins, þar er nú matstofa og eldhús. Herbergið er auðþekkjanlegt að utan, því að rimlar eru fyrir gluggum þess. Halda mætti, að þeir séu til minningar um fangelsið, sem var í húsinu á sínum tíma.

Vek athygli á pistli, sem ég setti á síðuna í morgun um kvikmyndina Das Leben der Anderen.

Fimmtudagur, 08. 02. 07. - 8.2.2007 19:35

Ég þakka öllum, sem hafa sent mér kveðjur í tölvupósti eða á annan hátt vegna veikinda minna. Af öllum sólarmerkjum að dæma ætlar að taka nokkurn tíma fyrir sárið á lunganu að gróa, svo að gatið á því lokist. Í því efni dugar þolinmæðin best til að  líkaminn beiti eigin ráðum til að ná bata.

Tölvan og nettengingin gera mér kleift að fylgjast með því, sem er að gerast og bregðast við erindum auk þess að stytta mér stundir.

Miðvikudagur, 07. 02. 07. - 7.2.2007 21:31

Dagurinn leið hratt á sjúkrahúsinu, enda hef ég nóg fyrir stafni, þótt ég sé bundinn við rúmið vegna kerans, sem dælir úr mér lofti til að lungað opnist. Mér finnst orðið nóg um allt loftið í mér. Það er þó bót í máli, að ég verð ekki eins og sprungin blaðra, þegar það er horfið, heldur með heilbrigt og öflugt lunga.

Í dag var lagt fram á alþingi skriflegt svar frá mér við spurningum Steingríms J. Sigfússonar um símhleranir og fleira. Eins og fram kemur í svarinu hefur alþingi samhljóða mótað skýra leið að því marki að upplýsa eins og kostur er, hvernig staðið var að þeim málum, sem hvíla á Steingrími J. og birtast í fyrirspurnum hans. Á grundvelli þeirra niðurstaðna, sem liggja munu fyrir, þegar sú leið hefur verið farin á enda, er sjálfsagt að meta stöðuna að nýju og taka ákvarðanir um frekari aðgerðir, ef nauðsynlegt er talið.

Í Morgunblaðinu í dag birtist grein eftir mig um ráðstafanir lögreglu og annarra gegn barnaníðingum.

Þriðjudagur, 06. 02. 07. - 6.2.2007 20:57

Ég sé á mbl.is, að frétt um færslu mína hér á síðunni í gær um heilsufar mitt er mest lesna efnið á mbl.is. Ég sé einnig, að viðbrögð við fréttinni snúast um það, hvers vegna ég sagði frá því, að hægra lungað hefði fallið saman og síðan er tekið til við að gantast með það. Skopskynið gerir ekki grín að sér. Nákvæmni í frásögn á greinilega ekki alls staðar upp á pallborðið. Annar lesandi segir frásögnina benda til þess, að ég sé orðinn of gamall til að gegna starfi mínu. Læknar hér á LHS hafa sagt mér, að sé unnt að benda á einhvern einn hóp, sem fái þennan sjúkdóm um fram aðra, séu það hávaxnir, grannir ungir menn, sem gjarnan stundi íþróttir af miklu kappi og séu vel á sig komnir.

Í nýjasta hefti The Spectator er þess getið, að mikil samkeppni hafi verið milli borganna Manchester, Blackpool og Greenwich um að fá heimild til að reisa risa-spilavíti á Englandi. Manchester hlaut hnossið og þar verður reist 5000 fermetra spilahús með 1250 spilavélum. Borgaryfirvöld og íbúar í Blackpool og Greenwich taka því mjög illa að hafa orðið undir í þessari keppni, því að talið er, að mörg störf og mikil fjárhagsleg umsvif fylgi spilavítinu. Af frásögn The Spectator má ráða, að Manchester stefni að því að verða einskonar Las Vegas.

The Spectator amast ekki við þessu nýja risa-spilavíti. Blaðið segir, að í frjálsu þjóðfélagi hafi fólk frelsi til að stunda veðmál og spila, drekka áfengi, reykja sígarettur og gera margt annað, sem geti haft hroðalegar afleiðingar, ef ekki sé gætt hófs. Sumir líti á spilavíti sem ógæfustað aðrir telji það til þess fallið að lífga upp á tilveruna. Ríkisstjórnin eigi að setja starfsramma og reglur í samræmi við það, sem löggjafarvaldið samþykki, og síðan eigi ríkisvaldið að halda sér til hlés.

Hér á landi og víða annars staðar er hlutverk ríkisvaldsins að því er varðar happdrætti og spilastarfsemi með fé meira en í Bretlandi. Um það er til dæmis tekist nú fyrir EFTA-dómstólnum, hvort norska ríkið megi hafa einkaleyfi á slíkri starfsemi í Noregi. 

 

Mánudagur, 05. 02. 07. - 5.2.2007 10:12

Fór í Laugardalslaugina og var kominn ofan í rúmlega 06.30 en var svo andstuttur að ég treysti mér ekki til að synda meira en 200 metra. Síðan fór ég qi gong og þar var mér einnig brugðið vegna þess, hve andstuttur ég var.

Sat síðan fund með ráðherrum Sjálfstæðisflokksins og að honum loknum með málefnanefnd flokksins um réttarfarsmálefni fram til klukkan 13.00.

Við Þórður Harðarson læknir hittumst reglulega til að fylgjast með því að blóðþrýstingur minn sé í lagi og í vikunni höfðum við einmitt mælt okkur mót með löngum aðdraganda. Hittumst við 13.15 heima hjá mér og undir kl. 14.00 var ég kominn á bráðamóttöku LSH við Hringbraut, við hlustun heyrði Þórður ekkert í hægra lunganu og hafði samband við Halldóru Björnsdóttiur lækni á bráðamóttökunni, sem tók vel á móti mér með samstarfsfólki sínu. Við myndatöku kom í ljós, að hægra lungað var fallið saman.

Þá tók Bjarni Torfason skurðlæknir við mér og setti „dren“ eða brjóstholskera inn í brjóstholið. Það er slanga sem komið er fyrir í bilinu milli lungans og brjóstveggjarins. Sog er sett á slönguna og myndast þá neikvæður þrýstingur inni í brjóstholinu sem gerir það að verkum að lungað þenst út aftur. Ég var staðdeyfður á meðan Bjarni setti kerann inn í brjóstholið og síðan var ég tengdur soginu. Tók þetta ekki nema nokkrar mínútur og var ekki mjög sársaukafullt. Nokkurn tíma tók lungað að þenjast út og var sárt, þegar það lagist aftur að brjóstveggnum. Ég þarf að vera með kerann í mér á meðan gatið á lunganu er að gróa.

Þessi sjúkdómur nefnist loftbrjóst og nokkrar ástæður eru sagðar fyrir honum og er ástæðan gjarnan sú, að litlar blöðrur hafa myndast á yfirborði lungans. þær springa og gat kemur á lungað. Þá lekur loft úr lunganu inn í brjósthol og hluti lungans eða allt lungað fellur saman, hjá mér féll allt lungað saman.

Fumlaust, af frábærri kunnáttu og vinsemd var tekið á móti mér hér á spítlanum. Ég varð að afboða mig af þingi, þar sem voru óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra á dagskrá og síðan utandagskrárumræða um svonefnda leynisamninga með varnarsamningnum.

Sunnudagur, 04. 02. 07. - 4.2.2007 9:22

Vaknaði með mikið tak um miðja nótt og átti þungt um andadrátt en gat jafnað hann og hvílst til morguns. Hafði á orði við Rut, að kannski hefði hægra lungað fallið saman, en þótti það þó næsta fjarstæðukennt.

Var ekki alveg eins og ég á að mér að vera en síðdegis ókum við úr Fljótshlíðinni í fallegu vetrarverði.

Laugardagur, 03. 02. 07. - 3.2.2007 22:11

Í Þjóðmál skrifaði ég pistil um Draumalandið og grunaði ekki, að bókin fengi íslensku bókmenntaverðlaunin sem fræðirit. Bókin hefur notið vinsælda, verið mikið rædd og væntanlega lesin, en að verðlauna hana sem fræðirit vekur spurningar um mælistikuna, sem notuð er á slík rit. Andri Snær talaði um verk sitt sem barátturit, sem hefði líklega ekki haft eins mikil áhrif og hann vænti miðað við fjölgun álvera.

Tvisvar hef ég notað heitið niðstöng nútímans um útvarp Sögu hér á síðunni í tilefni af því, hvernig stöðinni var beitt gegn Margréti Sverrisdóttur í varaformannskjöri frjálslyndra. Sverrir Hermannsson, stofnandi Frjálslynda flokksins og faðir Margrétar, ritar grein um ill örlög flokksins í Morgunblaðið í dag. Þar minnist hann á þessa sérkennilegu útvarpsstöð og kallar hana útvarp Lygasögu.

Sendingar í útvarpi Sögu fara fram hjá mér en mér er sagt, að Arnþrúður Karlsdóttir, eigandi stöðvarinnar, flytji hverja skammarræðuna eftir aðra yfir mér á stöðinni og þeir Sigurður G. Tómasson og Guðmundur Ólafsson taki einnig syrpur í sama dúr. Allt er þetta líklega undir sömu formerkjum og annað á þessari makalausu stöð - óhróður af þessu tagi höfðar vafalaust til einhverra en Sverrir Hermannsson segir, að þeir, sem stöðin studdi í valdabaráttunni innan Frjálslynda flokksins hafi kostað starfsemi stöðvarinnar þá daga með auglýsingum. Þetta er sem sagt allt á sömu bókina lært.

Föstudagur, 02. 02. 07. - 2.2.2007 22:27

Daniel Hannan er íhaldsþingmaður frá Bretlandi á Evrópusambandsþinginu. Ef ég man rétt hefur hann komið hingað til lands til að skýra andstöðu sína við Evrópusambandið (ESB). Hann sendi frá sér tölvubréf, þar sem hann lýsir afstöðu sinni til ýmissa mála.

Í dag barst frá honum slíkt bréf, þar sem hann lýsir því, hve illa árar fyrir evrunni. Hann minnir á skoðanakönnun í The Financial Times í vikunni, sem sýnir að alls staðar í evru-landi vex áhugi fólks á að fá aftur gömlu myntina í sína. Hann segir, að þessi skoðun komi ekki aðeins fram í könnunum heldur á annan hátt og bætir við:

„Millions are simply opting out. A chunk of Bavaria is issuing its own money, while shops from Italy to the Netherlands have started to accept their former currencies, to the delight of their customers. Suddenly, the question is not who will be the next to join, but who will be the first to leave. In anticipation of a collapse, Germans are being advised to hang on to euro notes beginning with serial number “X” (which, apparently, indicates that they’re issued in Germany) and to ditch those beginning with “S” (issued in Italy).

Amazing how quickly something can go from being inevitable to being unthinkable. Eight years ago, most commentators assumed that the three recalcitrants – Britain, Sweden and Denmark – would have to join sooner or later. But guess which of the then 15 EU states have since enjoyed the highest growth rates? That’s right: Britain, Sweden and Denmark. As the Americans say, go figure.“

Ég hef áður vakið máls á þessari þróun, þótt ég hafi ekki fyrr en þarna séð, að í Bæjaralandi séu menn að gefa út eigin mynt eða unnt sé að kaupa með lírum á Ítalíu eða gyllinum í Hollandi. Hitt blasir einnig við öllum, að Bretum, Dönum og jafnvel Svíum vegnar efnahagslega betur en evru-þjóðunum, svo að ekki sé minnst á Ísland, Noreg og Sviss, þar sem hagvöxtur er meiri og öruggari en í evru-löndunum og raunar ESB-löndunum almennt.

Göran Persson, þáverandi forsætisráðherra Svía, barðist eindregið fyrir upptöku evrunnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Svíþjóð og taldi allt efnahagslíf landsins geta orðið fyrir svöðusári, ef þjóðin samþykkti ekki upptöku evrunnar. Nokkru eftir að Svíar höfðu hafnað evru-aðild, var Persson spurður á blaðamannafundi, hvers vegna efnahagurinn hefði ekki farið á hliðina eins og hann hefði spáð í evru-kosningunum. Nú, sagði ég það, svaraði Göran Presson, og hló við um leið og sagði: Ég man bara ekki eftir því, hvaða vilteysa er þetta.

 

Fimmtudagur, 01. 02. 07. - 1.2.2007 23:57

Flaug heim frá Kaupmannahöfn kl. 20.10 og lenti hér 22.30 að íslenskum tíma.

Við blasti ný Gallup-könnun sem sýndi minnsta fylgi Samfylkingar á kjörtímabilinu 22%. Hvað skyldu þeir nú taka til bragðs? Svo virðist sem Dofri Hermannsson, starfsmaður Samfylkingarinnar, sé hinn eini, sem nú orðið tekur upp hanskann fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur flokksformann.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri, brá þó veikburða skildi fyrir Ingibjörgu Sólrúnu í Blaðinu miðvikudaginn 31. janúar og sagði hana hafa flutt „yfirgripsmikla“ ræðu á flokksfundi á laugardag, en þá taldi Ingibjörg Sólrún flokk sinn of póltískan, en sagði síðar, að þetta hefði verið sagt í gríni.

Steinunn Valdís segir. að það sé ,,orðin brýn nauðsyn að skipta um ríkisstjórn, breyta áherslum og skapa sátt um nýtt jafnvægi á Íslandi". Við eigi að taka stjórn sem skilji ,,líðan og líf venjulegra Íslendinga".

Síðan tekur Steinunn til við að rekja: ,,Önnur merkistíðindi helgarinnar."

Þau eru af landsfundi Frjálslynda flokksins og hefði þar farið eins og hana grunaði:,,í uppsiglingu væri ,,þjóðarflokkur" sem elur á fordómum, hræðslu og öðrum lægstu hvötum mannskepnunnar." Á sama tíma og haldið væri upp á 100 ára afmæli Kvenréttindafélagsins væru konur í þessum flokki niðurlægðar með illri meðferð á Margréti Sverrisdóttur og dæmalausu tölvubréfi Jóns Magnússonar hrl.. ,,Það er nefnilega eins og hælbítarnir séu alls staðar þar sem konur láta að sér kveða í stjórnmálum", svo sem formaður KRFÍ hefði bent á um þróun Frjálslynda flokksins.

Þessi hugleiðing Steinunnar Valdísar endar síðan svona: ,,Að síðustu legg ég til að Ingibjörg Sólrún verði gerð að forsætisráðherra í vor."

En nú er það svo, að ósk Steinunnar Valdísar um forsætisráðherrann rætist ekki nema Ingibjörgu Sólrúnu sé lyft til valda í landinu í krafti Kaffibandalagsins og þar ,eð af þessum sama þjóðarflokki, ,,sem elur á fordómum, hræðslu og öðrum lægstu hvötum mannskepnunnar." Það á að vera ,,hlutverk og verkefni Samfylkingar sem frjálslynds jafnaðarmannaflokks" og óskastjórn Steinunnar verður til með frjálsyndum, stjórn, sem á að skapa ,,sátt um nýtt jafnvægi á Íslandi, og skilur ,,líðan og líf venjulegra Íslendinga."!

Er Steinunni Valdísi Óskarsdóttur alvara í gagnrýni sinni á frjálslynda? Stuðningur hennar við Ingibjörgu Sólrúnu sem forsætisráðherra byggist á stuðningi frjálslyndra við þá ríkisstjórn.