Dagbók: nóvember 2008

Sunnudagur, 30. 11. 08. - 30.11.2008 15:10

Háskólastarfsemi á Bifröst hefur verið öflug og er ánægjulegt að heimsækja staðinn og finna þann kraft, sem í honum býr. Kom mér nokkuð á óvart, að Lilja Mósesdóttir, sem kenndi við skólann, en er nú tekin til starfa við Háskóla Íslands, skyldi ýja að því í einhverri umsögn sinni eða ræðu vegna bankahrunsins, að undirrótin gæti leynst í skorti á hagfræðilegum eða viðskiptafræðilegum rannsóknum hér á landi meðal annars vegna háskóla á borð við Bifröst og Háskólann í Reykjavík.

Engum háskólamanni hér á landi, hvar sem hann starfar kom áreiðanlega til hugar, hvílík umskipti gætu orðið hér í fjármálalífinu á skömmum tíma, þótt ýmsir sæju blikur á lofti. Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst, var vissulega í þeim hópi.

SSF-blaðið, sem gefið er út af Samtökum starfsfólks fjármálafyrirtækja, birti í mars 2008 viðtal við Ágúst um framtíðarhorfur í fjármálageiranum. Hann var spurður, hve slæmt ástandið væri, hvort íslensk fyrirtæki væru á „heljarþröm og fjöldauppsagnir“ á næsta leiti. Segir blaðið, að Ágúst hafi svarað báðum spurningunum neitandi og hefur orðrétt eftir honum:

„Mörg blaðaskrifin eru yfirborðskennd og lýsa frekar því að vilja fjalla um spennu og ágreining eins og nútímafjölmiðlun snýst nær alfarið um hérlendis. Hins vegar tel ég að fjármálafyrirtæki muni fækka eitthvað fólki á næstunni og meira hugsa um kostnaðinn en minna um tekjuhliðina, sem hefur verið einblínt á til þessa. Þetta ástand leitar jafnvægis.“ svarar Ágúst og bætir við að tímabundin niðursveifla eftir mjög langt uppgangstímabil sé eðlileg, jafn eðlileg og rigning eftir langt góðviðristímabil. „En því má ekki gleyma að á eftir rigningunni kemur aftur sól.““

Ágúst vill að hugað sé að aðhaldi með ofurlaunum og kaupréttarsamningum og segir: „Það er gott fólk sem vinnur í fjármálageiranum hérlendis, bæði á toppnum og annars staðar, en þarna eru engin ofurmenni enda eru þau ekki til nema í teiknimyndasögum.“ Hann hvetur til þess, að yfirmenn fjármálafyrirtækja taki til varnar fyrir þau í fjölmiðlum og skýri stöðuna með upplýstum hætti, almenningur sé skynsamur og vilji ábyrgan málflutning um banka eins og annað.

Hinn 5. nóvember 2008 var rætt við Ágúst í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins í tilefni af frásögnum um framgöngu æðstu stjórnenda Kaupþings. Þá sagði Ágúst:

„Nei þeir eiga ekkert erindi. Þetta fólk á allt að fara. Nú gildir öllu að það er að hafa traust í viðskiptum. Við erum búin að missa mannorð okkar erlendis og það gengur þá ekki að við höldum áfram að grafa undan öllu trausti hér innanlands með því að láta það fólk vinna að því sem að hugsanlega hefur misnotað aðstöðu sína með þessum hætti eins og sagt hefur verið frá í fréttum. Það er ekki búið að dæma svosem í málinu en allt þetta fólk hvar sem það er á raunverulega að koma sér í burtu. Og við verðum að reyna að endurreisa þetta samfélag með nýju fólki. “

Laugardagur, 29. 11. 08. - 29.11.2008 18:04

Á ruv.is má lesa í dag (feitletrun mín):

„Hörður Torfason, skipuleggjandi mótmælanna á Austurvelli segist búast við meiri mannfjölda en nokkru sinni, eða síðan 11.október þegar laugardagsmótælin hófust...Hörður segist vera í góðri samvinnu við lögregluna, hann ítrekar að fólk verði friðsamlegt. Hvort komi til átaka sé meira á ábyrgð lögreglunnar.“

Þarna birtir ruv.is endursögn af viðtali hljóðvarps ríkisins við Hörð í hádegisfréttum. Þegar á reyndi, hafði Hörður rangt fyrir sér um fjölda mótmælenda, þeir urðu færri en laugardaginn 22. nóvember. Fráleitt er að halda því fram, að það sé á ábyrgð lögreglu, hvort komi til átaka og Herði til álitshnekkis að fara með slík öfugmæli.

Í gær birtist mynd af lögreglumönnum í Morgunblaðinu með frétt um aukið launamisrétti karla og kvenna hjá hinu opinbera. Að birta þessa mynd með frétt um þetta efni er fráleitt, því að efni hennar á ekki við um lögregluna.

Í sjónvarpsauglýsingu er hvatt til þess að menn versli bók í Office one - hvers vegna er auglýsingin bara höfð á ensku? Þar mundu menn nota sögnina buy en ekki trade, þegar hvatt er til þess, að menn kaupi eitthvað í verslun. Málfátækt lýsir vissulega kreppu, en hún á ekkert skylt við bankahrun.

Kolbrún Bergþórsdóttir segir í Morgunblaðinu í dag:

„Steingrímur J. Sigfússon reiddist Birni Bjarnasyni á þingi og kallaði til hans fúkyrði og þreif svo í öxl Geirs Haarde. Geir fyrirgaf samstundis en ég veit ekki með Björn. Hann lítur stundum út eins og hann fyrirgefi ekki neitt. “

Þetta er dæmigert fjölmiðlahjal. Málið snýst hvorki um svip minn né fyrirgefningu Geirs. Það snýst um, að menn haga sér hvorki á þingi né annars staðar á þann veg, sem Steingrímur J. gerði.

Þegar Rudi Giuliani réðist gegn afbrotum í New York var það gert undir þeim formerkjum, að hvorki ætti að afsaka stór né smávægileg brot. Taka yrði á öllu. Hér hrópa menn á rannsókn og nauðsyn þess að kalla stjórnmálamenn og aðra til ábyrgðar - en síðan er samstundis tekið til við að bera blak af því, sem er ámælisvert, þótt smátt sé í sniðum. Var einhver að spyrja um trúverðugleika?

Í dag ritaði ég pistil á síðuna mína um LÍÚ og nýjan galdmiðil, vanda fjölmiðla, Bubba og byltinguna og Eið og sendiskýrsluna.

Föstudagur, 28. 11. 08. - 28.11.2008 23:56

Lög um stjórn á streymi gjaldeyris voru samþykkt um kl. 05.00 í morgun á þingi.

Sáum Hart í bak eftir Jökul Jakobsson í Þjóðleikhúsinu í leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar. Gunnar vinur minn Eyjólfsson lék af snilld. Áhorfendur fögnuðu innilega.

Í dag flutti ég ræðu á aðalfundi Dómarafélags Íslands.

Páll Magnússon, útvarpsstjóri RÚV, kynnti í dag rúmlega 700 m. kr. sparnað hjá ríkisfélaginu, sem annars hefði siglt í fjárhagslegt þrot, þrátt fyrir öruggar tekjur, sem nú eru að breytast í nefskatt. 

Fréttir af fjárhagslegri stöðu annarra fjölmiðla vekja ugg um framtíð þeirra. Þeir virðast geta orðið gjaldþrota eins og önnur fyrirtæki við þessar ótrúlegu aðstæður, þótt slíkt hafi mörgum þótt óhugsandi.

Fimmtudagur, 27. 11. 08. - 27.11.2008 19:49

Frumvarp forseta alþingis og flokksformanna um sérstaka rannsóknarnefnd vegna bankahrunsins var til fyrstu umræðu á alþingi í dag. Einnig var rætt um þingsályktunartillögu frá utanríkisráðherra um samninga vegna IceSave-reikninganna. Loks kom þingflokkur sjálfstæðismanna saman klukkan 18.00 og samþykkti, að lagt yrði fram frumvarp viðskiptaráðherra, þar sem heimild er veitt til að stjórna gjaldeyrisstreymi til varnar krónunni, þegar opnað verður fyrir viðskipti með gjaldeyri.

Þau koma þannig eitt af öðru fyrir þingið mál, sem snerta bankahrunið. Fráleitt er að láta eins og með því hruni hafi verið sveigt að rétti þingmanna til að flytja lagafrumvörp. Má helst skilja umræður í Spegli hljóðvarp ríkisins á þann veg, að alþingi eða íslenskir þingmenn standi eitthvað sérstaklega illa varðandi rétt þingmanna til að flytja frumvörp.

Fullyrðingar í þessa veru standast ekki og skrýtnast er að heyra þær frá þeim, sem telja bestu stjórnarhættina ríkja á vettvangi Evrópusambandsins. Í stjórnkerfi þess er það aðeins framkvæmdastjórnin, sem getur lagt löggjafarmál fyrir Evrópusambandsþingið, þingmenn þar hafa engan slíkan tillögurétt. Þeir geta hins vegar samþykkt bænaskrár til framkvæmdastjórnarinnar.

Eva Hauksdóttir, sem varð landsfræg um síðustu helgi í tengslum við árás á lögreglustöðina við Hverfisgötu, ritar í dag á vefsíðu sína:

„Þann 9. nóvember í fyrra gól ég seið gegn stóriðjustefnunni á Austurvelli. Vinnubrögðum alþingis var reist níðstöng, enda er hlutverk þingsins sem útverði lýðræðisins löngu orðið hlálegt. Ég særði vættir landsins til aðgerða“

Hún segir einnig:

„Nú þarf að gera enn betur og klára dæmið. Ég ætla því, þann 1. desember að halda vargastefnu við Stjórnarráðið. Ég mun særa fram reiði þjóðarinnar í vargslíki, vættum landsins til hjálpar.“

Miðvikudagur, 26. 11. 08. - 26.11.2008 21:58

Eftir hrópin í þingsalnum á mánudag, þegar vantraustumræðan rann út í sandinn vegna framgöngu Steingríms J. Sigfússonar, hefur hann ásamt þingflokki vinstri/grænna fallist á, að lagt verði fram frumvarp um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls bankanna 2008 og tengdum atburðum. Var frumvarpið lagt fram á þingi að loknum fundum þingflokka í dag.

Vantraustið var flutt í trausti þess, að stjórnarandstöðunni tækist að kljúfa stjórnarflokkanna. Hið gagnstæða gerðist. Stjórnarandstaðan klofnaði og hlaut frekar háðulega útreið, þegar Steingrímur J. missti stjórn á skapi sínu.

Á vefsíðunni Aftaka eru þeir, sem telja sig og málstað sinn skipta miklu til stuðnings því, að fólk komi saman á Austurvelli síðdegis á laugardögum að hvatningu Harðar Torfasonar. Höfundar síðunnar lýsa sér þannig:

„Við erum partur af þeirri andstöðu sem nú vex með degi hverjum. Við sinnum okkar sjálfskipaða hlutverki í baráttunni og það gerum við stolt.“

Þeir á Aftöku vanda ekki kveðjurnar til „Björns Bjarnasonar, rasista og valdníðings, auk sérsveitarhvolpana hans, sem hlakkar í þegar þeim leyfist að leika sér með piparúða og önnur vopn.“

Þeir ávarpa mann, sem gert hefur myndband, sem þeim er ekki að skapi, á þennan veg:

„En sértu hræddur og óttistu byltingu og valdarán, skaltu vera það. Reiði fólks eykst og eykst. Fólk er til alls líklegr því það er orðið hundleitt á því að mótmæla á ,,hefðbundinn” hátt; hátt sem yfirvöld taka ekkert mark á.

 Pétur: Drífðu þig ofan í kjallara og feldu þig.“

Er þetta til marks um hið nýja lýðræði eða umræður í anda þess?

 

Þriðjudagur, 25. 11. 08. - 25.11.2008 6:52

Fjölmiðlar hafa áhuga á atvikinu í þinginu í gær, þegar Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, missti stjórn á skapsmunum sínum undir ræðu minni, eins og sjá má og heyra á þessu myndbandi og ég lýsti hér á síðunni í gær. Fjölmiðlamenn hafa velt því fyrir sér, hvort Steingrímur J. hafi danglað í öxlina á Geir H. Haade, forsætisráðherra, þegar hætti við að stara á mig í ræðustólnum. Þeir Steingrímur J. og Geir vilja gera gott úr málinu.

Fyrrverandi þingmaður sendi mér tölvubréf, þar sem sagði meðal annars:

„Maður horfði orðlaus á framkomu SJS í þinginu í fréttatíma sjónvarps  í kvöld. Held að annað  eins hafi aldrei gerst í  sölum Alþingis.  Hvernig  skyldi standa á því  að  til  forystu í flokkunum  lengst  til  vinstri,  Alþýðubandalagi og   og  svo  VG   veljast  ævinlega orðljótustu  menn  sem  náð hafa  kosningu á  Alþingi.  Skrítið.“

Hér er ræða mín í heild með frammíköllum Steingríms J. 

Hitt stenst ekki, að ég hafi farið með rangt mál um, að áform um hina sérstöku rannsóknarnefnd á vegum þingsins hafi tafist vegna afstöðu visntri/grænna undir forystu Steingríms J. Mér skilst hins vegar, að nú sé málið komið á beinu brautina og ber að fagna því.

Ég hef sett inn á síðuna útskrift á viðtali Sölva Tryggvasonar við mig í þættinum Ísland í dag hinn 19. nóvember sl.

Þá hef ég sett inn á síðuna ræður, sem ég flutti á alþingi 21. nóvember í fyrstu umræðu um frumvarp mitt um sérstakan saksóknara vegna bankahrunsins.

Helga Vala Helgadóttir, fjölmiðlakona, bloggari og laganemi, segir á vefsíðu sinni í dag (feitletrun mín):

„Annað dæmi get ég nefnt. Í því tilfelli var það Björn Bjarnason sem hringdi í gsm símann minn. Hann var sömuleiðis að skamma mig fyrir umfjöllun í Speglinum. Benti mér sömuleiðis á að ég skyldi vara mig á því að þetta væri ríkisfjölmiðill og því ekki sjálfsagt að vera með umfjöllun þar sem gagnrýndi stjórnvöld svona. Undir lá vissulega að hann hefði völd til að láta mig fara. Þetta var á þeim tíma sem Spegillinn átti fótum sínum fjör að launa í samskiptum við útvarpssstjórann Markús Örn Antonsson og fleiri innanhússmenn sem ég nenni ekki að nefna. Hírakíið var algjört, stjórnmálamennuppnefndu útvarpsþáttinn og millistjórnendur ræddu við umsjónarmanninn sem átti svo að koma skilaboðum áleiðis til vinnudýranna. Aldrei nokkurn tímann, ekki einu sinni, fundum við fyir því að við nytum stuðnings þeirra sem við störfuðum hjá. Eingöngu sívaxandi hlustun á þáttinn, auk hróss frá almennum kjósendum hvatti okkur áfram á þeirri braut sem við vorum á.

 

Lesa meira

Mánudagur, 24. 11. 08. - 24.11.2008 21:56

Tillaga stjórnarandstöðunnar um vantraust á ríkisstjórnina var til umræðu á alþingi frá 13.30 til 19.00 og lauk henni með því, að tillagan var felld með 42 atkvæðum gegn 18. Athygli vakti, að Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður frjálslyndra, greiddi atkvæði gegn tillögunni, þótt Guðjón A. Kristjánsson, flokksformaður hans, væri flutningsmaður tillögunnar.

Ég var meðal ræðumanna og þegar ég lét þess getið, að ástæðan fyrir því, að ekki hefði verið flutt tillaga um rannsókn á bankahruninu á vegum alþingis, væri tregða Steingríms J. Sigfússonar, formanns vinstri/grænna, til samkomulags um slíka tillögu á vettvangi alþingis.

Eftir að ég hafði sagt þetta umturnaðist Steingrímur J. í þingsalnum og öskraði að mér: Étt'ann sjálfur! Ég sneri mér að forseta þingsins, Ragnheiði Ríkharðsdóttur og spurði, hvort framkoma þingmannsins væri þess eðlis, að una ætti við hana. Forseti brást við og hélt ég áfram máli mínu en þá strunsaði Steingrímur J. ógnandi að ræðustólnum og mátti ætla, að hann hefði ekki stjórn á reiði sinni, þegar hann starði illilega til mín, áður en hann gekk að forsætisráðherra og hvíslaði einhverju í eyra hans. Ég sagði þessa framgöngu Steingríms J. enn vera til marks um, að með tillögunni vildi stjórnarandstaðan ýta undir ófrið í stað þess að stuðla að sáttum og samstarfi á þessum örlagatímum.

Hér er sagt frá þessu atviki á visir.is og hér er sagt frá því á mbl.is.

Sunnudagur, 23. 11. 08. - 23.11.2008 21:43

Skruppum í Þjóðminjasafnið og skoðuðum ljósmyndasýningu Vigfúsar Sigurgeirssonar. Það er skemmtilegt að sjá, hve ljósmyndadeild safnsins nýtur sín vel, eftir að flutt var í endurnýjuð húsakynni safnsins. Safnbúðin er einnig góð og þar má meðal annars sjá afrakstur ljósmyndadeildarinnar í mörgum glæsilegum bókum. Ein mynd Vigfúsar er frá Hrafnseyri 1961, þegar Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands,  fór þangað í tilefni af endurreisn fæðingarstaðar Jóns Sigurðssonar. Á myndinni má sjá varðskipið Óðinn úti á Arnarfirðinum. Það minnti mig á, að ég var skipverji um borð í þessari ferð með forsetann en að lokinni athöfn á Hrafnseyri var siglt til Ísafjarðar.

Ég skrifaði einnig pistil á vefsíðu mína og áréttaði þar skoðun mína um hættuna á því, að bankaleynd væri teygð og toguð til að leyna upplýsingum, sem ætti að segja frá eftir bankahrunið.

Laugardagur, 22. 11. 08. - 22.11.2008 19:16

Í dag milli fjögur og fimm var ráðist á lögreglustöðina við Hlemm eins og lýst er hér og hér. Tilefni handtöku þess, sem mannfjöldinn vildi frelsa, var ekki, að hann hefði dregið Bónusfána að húni alþingishússins. Á síðunni www.aftaka.is segir: „En ástæða handtökunnar virðist ekki vera fánagjörningurinn, heldur gamall dómur sem Haukur [hinn handtekni] hefur ekki enn setið af sér.

Sumarið 2006 tók Haukur þátt í aðgerðum á vegum umhverfishreyfingarinnar Saving Iceland og var dæmt að greiða 200 þúsund króna sekt í ríkissjóð. Í stað þess að borga ákvað hann að sitja dóminn af sér í fangelsi.“

Hauki var sleppt úr prísundinni við Hlemm, eftir að ónafngreindur velgjörðarmaður greiddi sektina í ríkissjóð.

Katrín Oddsdóttir, laganemi, flutti ræðu á Austurvelli og hvatti til meiri hörku í mótmælum og sagði þjóðina ekki ætla að láta kúga sig. Félagi í svonefndri neyðarstjórn kvenna, Margrét Pétursdóttir, sveipaði styttu Jóns Sigurðssonar bleikum dúki í tilefni útifundarins og myndir birtust í sjónvarpi af konum, sem köstuðu eggjum í þinghúsið.

Femínistar hafa af þunga risið gegn því, sem þær telja hatur í sinn garð og má þar nefna þessa frásögn af síðunni feministinn.is:

„Karlahópur Femínistafélagsins hélt Hitt undir yfirskriftinni „Er í lagi að hata femínista?“ á Grand Rokk þriðjudagskvöldið 18. mars 2008. Erindi fluttu Katrín Oddsdóttir sérfræðingur í mannréttindum, Atli Gíslason alþingismaður og Sóley Tómasdóttir varaborgarfulltrúi. Fundarstýra var Magga Pé.

Öll gerðu þau Katrín, Atli og Sóley neikvæða umræðu um femínisma að umfjöllunarefni, ekki síst á netinu, og hvernig eigi að bregðast við. Katrín sagði að slíkt ofbeldistal, eða „hate speech“, væri ólöglegt samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðalögum og ætti aldrei rétt á sér. Hún sagði að ofbeldistalið virkaði, það hefði áhrif og mælti með því að það væri rakið og kært. Ef látið er óáreitt að fordæma femínista opnar það gluggann til að fordæma aðra hópa, sagði Katrín. Það var skondin tilviljun að sá fjandskapur sem var til umræðu minnti á sig í bókstaflegri merkingu á fundinum því Katrin var nokkrum sinnum trufluð í ræðu sinni af snyrtilegum og velklæddum herramanni, nokkuð við skál, sem var uppsigað við málflutning hennar. Hann hvarf fljótlega af vettvangi.“

Föstudagur, 21. 11. 08. - 21.11.2008 18:38

Flutti framsöguræðu fyrir frumvarpi um sérstakan saksóknara til að rannsaka sakamál vegna bankahrunsins. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar tóku frumvarpinu almennt vel nema Jón Magnússon, þingmaður frjálslyndra, sem gerði athugasemd við formið.
Orðaskipti urðu milli okkar Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um orð í ræðu Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra, sl. þriðjudag. Taldi Siv, að þau mætti skilja á þann veg, að lögreglu hefði borist ábending vegna Kaupþings en ekki hefði verið brugðist við henni. Ég taldi hins vegar, að orðalag Davíðs gæfi til kynna, að ástæða hefði verið að snúa sér til lögreglu en það hefði ekki verið gert.
 
Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, vék ranglega að athugun á vegum ríkissaksóknara og taldi með vísan til ræðu, sem ég flutti 17. október á 100 ára afmæli lagakennslu, að ég kynni að vera vanhæfur til að skipa sérstakan saksóknara. Ég mótmælti þessari skoðun harðlega en þá stóð Álfheiður Ingadóttir, þingmaður vinstri/grænna, upp og svaraði með ásökunum um, að ómaklegt væri að víkja orðum að Atla, þar sem hann hefði horfið af þingfundi. Ég sagði, að menn gætu ekki hindrað, að þeim yrði svarað með því að hverfa af þingfundi.
 
Stjórnarandstaðan hefur flutt tillögu um vantraust á ríkisstjórnina. Hún krefst sérstakrar meðferðar á alþingi, þar á meðal útvarpsumræðna. Oftast snúast svona tillögur í höndum flutningsmanna og þjappa þeim saman, sem á er ráðist. Að líkindum eflir tillagan þannig samstarf stjórnarflokkanna, þótt flutningsmenn stefni að öðru.
 

Fimmtudagur, 20. 11. 08. - 20.11.2008 6:10

Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins (ESB), sagði í samtali við fréttastofu RÚV, að það tæki að minnsta kosti fjögur ár, að Ísland yrði aðili að ESB, eftir að sótt yrði um hana, fyrst yrði Króatía aðili. Þetta hlýtur að koma þeim á óvart, sem hafa látið eins og dygði að smella fingri og við yrðum aðilar að ESB.

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri Granda, ritar grein um ESB-mál í Morgunblaðið í dag og minnir lesendur á, að mikilvægi sjávarútvegs í þjóðarbúskapnum sé að aukast og nauðsynlegt sé að gæta hagsmuna hans í öllum umræðum um ESB-aðild. Stuðningsmenn hennar verði aldrei trúverðugir nema þeir takist á við þann vanda, sem sjávarútveginum verði búinn með aðild. Eggert Benedikt segir:

„Á sama hátt getur sjávarútvegurinn ekki hundsað kröfu ýmissa atvinnugreina og borgara landsins um stöðuga mynt sem treystandi sé á. Ef krónan er dauð og evran, og þar með ESB, er eini kosturinn, þá þýðir lítið að loka augunum fyrir því.“

Birt var niðurstaða könnunar Capacent Gallup frá 29. til 31. október á afstöðu Íslendinga til upptöku evru og aðildar að ESB. 1300 voru spurðir, svarhlutfall var 69,1%. Hlynnt aðild reyndust 51,8%, óviss 21,1% og andvíg 27,1%. Hlynnt evru 63,8%, óviss 15,7% og andvíg 20,5%.

Ég er ekki sammála Eggert Benedikt, að evra og ESB-aðild skuli lögð að jöfnu. Segi ég þetta enn, þrátt fyrir allar umræður undanfarið, sem hnigið hafa til annarrar áttar.

Í norska blaðinu Aftenposten birtist í dag grein eftir Janne Haaland Matlary, prófessor í stjórnmálafræði við háskólann í Ósló, undir fyrirsögninni: Hvað þýðir það fyrir Noreg ef Ísland gengur í ESB? Prófessorinn telur, að Íslendingar sæki um aðild að ESB, jafnvel fyrir jól, og hefur það eftir Percy Westerlund, sendiherra ESB á Íslandi með búsetu í Ósló. Þetta hafi sendiherrann sagt nýlega í gestafyrirlestri í háskólanum og talið, að Ísland yrði hugsanlega komið í ESB árið 2010. Ísland þyrfti að ná efnahagslegum stöðugleika og hann fengist með evrunni, að mati sendiherrans, og evran krefðist ESB-aðildar.

Prófessorinn segir, að mótmælt sé í þágu ESB-aðildar í Reykjavík, 70% þjóðarinnar vilji í ESB, Geir H. Haarde forsætisráðherra hafi skipað nefnd, sem ljúka eigi störfum á skömmum tíma, svo að stjórnmálamenn geti fótað sig á nýrri stefnu, ríkisstjórnin sé svo óvinsæl, að hún eigi sér fátt til bjargar, og ESB sé neyðarhöfn í ofviðrinu.

Lesa meira

Miðvikudagur, 19. 11. 08. - 19.11.2008 2:56

Fór í hádeginu í alþingishúsið. Þegar að því kom, var fámennur hópur fyrir framan húsið, hélst fólkið í hendur og heyrðist mér einhverjir púa, þegar ég gekk í áttina að dyrum skálans, nýbyggingar við hlið þinghússins. Ég þekkti Ómar Ragnarsson og heilsaði honum, hélt síðan áfram för minni og varð að beygja mig meira en síðast, þegar svona hópur var við húsið, til að komast undir handlegg Ómars og þess, sem stóð við hlið hans. Þarna þekkti ég einnig Katrínu Jakobsdóttur, varaformann vinstri/grænna.

Skömmu eftir að ég hafði sest til matar í skálanum, kom Jón Magnússon, þingmaður frjálslyndra, og spurði mig, hvort ráðherrabíll fyrir utan væri á mínum vegum. Ég kvað já við því og sagði Jón mér þá, að kastað hefði verið í hann eggjum. Jón Geir, bílstjóri minn, fór á bílnum til að þrífa hann, en þegar ég gekk með Illuga Gunnarssyni alþingismanni út úr skálanum var enginn sjáanlegur við þinghúsið. Urðum við Illugi samferða í góða veðrinu út Austurstræti og upp Arnarhól.

Á mbl.is er sagt frá því, að samtökin Nýir tímar hafi staðið fyrir þessum aðgerðum við þinghúsið en þau berjist fyrir því að ríkisstjórnin víki og tímabundin þjóðstjórn verði skipuð. Að það markmið náist með því að kasta eggjum í ráðherrabíla, finnst mér ólíklegt.

Sagt var frá þessari færslu hér á síðuna á mbl.is og klukkan 20.30 höfðu nokkrir sagt álit sitt á fréttinni. Forvitnilegt er að kynnast hinum ólíku viðhorfum, sem birtast í blogginu um fréttina. Ummælin eru enn svæsnari hjá Agli Helgasyni eftir færslu hans um þessa frásögn mína. Egill telur, að vald ráðherra sjáist af því, hvar ráðherrabílum er lagt. Álitsgjafar hafa mörg viðmið við ályktanir sínar!

Hér má sjá myndir af því, hver stóð að eggjakastinu á mannlausan bílinn. Ekki er rétt að segja, að bíll sé grýttur, þegar kastað er í hann eggi, auk þess sem grýttur er með ý en ekki í.

Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður RIKK, rannsóknastofnu í kvenna- og kynjafræðum hjá Háskóla Íslands, var meðal ræðumanna á borgarafundinum á NASA að kvöldi mánudags 17. nóvember. Í ræðu sinni komst hún meðal annars svo að orði:

Lesa meira

Þriðjudagur, 18. 11. 08. - 18.11.2008 8:35

Björn Guðmundsson framahaldsskólakennari ritar grein í Morgunblaðið í dag undir fyrirsögninni: Frjálshyggjuflónin og fúafenið. Þar ræðst hann að Sjálfstæðisflokknum og síðan Samfylkingunni og lýkur grein sinni á þessum orðum (feitletrun mín):

„En bæði sjálfstæðismenn og samfylkingarfólk ættu að hugsa til þess að almenningur mun þvinga fram kosningar með handafli ef þarf. Brynvarðir bílar Björns Bjarnasonar munu ekki koma í veg fyrir það.“

Þegar ég las lokasetningu greinarinnar, sem hér er feitletruð, taldi ég mig í raun ekki þurfa að taka mark á öðru, sem í henni stendur. Hvernig getur höfundur rökstutt þá skoðun, að brynvörðum bílum á mínum vegum verði beitt til að koma í veg fyrir, að hér verði efnt til kosninga?

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, flutti ræðu í morgun á fundi Viðskiptaráðs. Ræðan var fréttaefni allan daginn, enda hefur hún að geyma mat Davíðs á bankahruninu.

Davíð vék oftar en einu sinni á hlutverki fjölmiðla í ræðu sinni. Í gærkvöldi var haldinn um 700 manna borgarafundur á NASA. Þar var einnig rætt um hlut fjölmiðlamanna, eins og lýst er hér á vefsíðunni Nei.

Björg Eva Erlendsdóttir var meðal annars þingfréttari fréttastofu hljóðvarps ríkisins. Hún sat fyrir svörum á NASA-fundinum í gær og á vefsíðunni Nei segir:

„Björg Eva Erlendsdóttir sagðist ætla að reyna að skýra hvers vegna fjölmiðlar séu ekki sterkari en raun ber vitni. Því miður hafi spillingin náð inn í fjölmiðlana – auðmenn hafi haft afskipti af ritstjórn. „Einn ætlaði að kaupa blað til að leggja það niður,“ sagði hún. „forysta Sjálfstæðisflokksins hefur árum saman haft puttana í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins. Sjálfstæðisflokkurinn fór mikinn á Ríkisútvarpinu ár eftir ár, fyrst sjónvarpinu en svo í fréttaflutningi öllum, svo liggur við að fréttastofan hafi orðið málgagn flokksins. Þeir sem ekki tóku þátt voru lagðir í einelti. Sumir hrökkluðust burt en aðrir þrauka þarna enn. Það hefur verið nauðsyn á flokksskírteinum á fréttastofum Sjónvarpsins síðasta áratug. Afskiptunum lauk aldrei.““

Ég skora á Björg Evu að rökstyðja þessa fullyrðingu sína um afskipti Sjálfstæðisflokksins með dæmum, því að þarna gefur hún til kynna að samstarfsmenn hennar hafi starfað sem handbendi Sjálfstæðisflokksins við flutning frétta.

Mánudagur, 17. 11. 08. - 17.11.2008 5:39

Alþingi verður svipminna og leiðinlegra, eftir að Guðni Ágústsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hverfur þaðan. Forseti alþingis hóf þingfund í dag kl. 15.00 á því að lesa tilkynningu frá Guðna um brotthvarf hans af þingi.

Við Guðni höfum um árabil setið saman í ríkisstjórn, svo að ekki sé minnst á Þingvallanefnd. Okkur tókst ávallt að leysa úr málum í góðri sátt og kveð hann sem vin á hinum pólitíska vettvangi, þótt flokksbönd hafið skilið á milli okkar.

Bjarni Harðarson, flokksbróðir Guðna og samþingmaður á Suðurlandi, kvaddi alþingi fyrirvaralaust á dögunum. Hann segir þetta um brottför Guðna úr formannsstóli Framsóknarflokksins, sem einnig var kynnt í dag (feitletrun mín):

„Líklega er það rétt hjá Guðna að eftirláta flokkinn því fólki sem hefur nú um langt skeið beitt öllum meðulum til að ná þar völdum. Leyfa þeim sem eyðilagt hafa flokksstarfið allt þetta kjörtímabil að spreyta sig. Kannski rís flokkurinn í höndum þessa fólks þegar við framsóknarmennirnir erum farnir.

Við Guðni ræddum þessa ákvörðun í gærkvöldi og ég studdi hann heilshugar í því sem hann er að gera. Ekki vegna þess að mér hugnaðist þessi lending, heldur vegna þess að ég tel að þær aðstæður sem honum voru skapaðar í flokknum hafi verið utan þess sem hægt sé að leggja á nokkurn mann.

Þegar þessi orð eru lesin, hljótum við, sem utan stöndum, að spyrja, hvað í ósköpunum sé á seyði í Framsóknarflokknum. Hvernig hefur verið vegið að Guðna? Af hverjum?

Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi formaður flokksins, sem sat miðstjórnarfund hans laugardaginn 15. nóvember segir á visir.is „Deilan á laugardaginn snérist um gagnrýni á alla forystu flokksins og sérstaklega á ráðherrana sem voru í ríkissjórn á þessum árum. Það var ekkert sérstaklega deilt á Guðna heldur á forystuna í heild sinni sem tók þátt í þessum hrunadansi.““

Í sama mund og sagt var frá afsögn Guðna á Stöð 2 var því slegið fram, að hann hækkaði í launum við afsögnina. Mátti skilja þetta á þann veg, að Guðni væri að segja af sér til að fá hærri laun. Skömmu síðar var Guðni beðinn afsökunar með þessum orðum á visir.is

„Í frétt Vísis í dag og á Stöð 2 í kvöld var því haldið fram að Guðni Ágústsson, fráfarandi formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi þingmaður, fengi hærri laun á eftirlaunum á næsta ári heldur en hann þiggur í dag. Það er rangt og biður Vísir Guðna afsökunar á því.

Guðni fær í dag um 843 þúsund krónur í mánaðarlaun sem þingmaður en mun fá 560 þúsund krónur á mánuði í eftirlaun. “

Lesa meira

Sunnudagur, 16. 11. 08. - 16.11.2008 18:10

Við litum inn á risamarkað í Rangárhöllinni á Gaddastaðaflötum við Hellu á leiðinni austan úr Fljótshlíð. Þar voru mörg söluborð og margt um manninn.

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í dag en afmælis Jónasar Hallgrímssonar var minnst á þennan hátt í fyrsta sinn árið 1996.

Ég ritaði pistil á síðuna mína í dag og velti fyrir mér Fréttablaðinu og eigendahollustu þess.

Tilkynnt var undir kvöld, að samkomulag hefði tekist milli íslenskra stjórnvalda og Evrópusambandsins vega IceSave reikninganna. Um það hefur verið deilt, hvernig háttað er ábyrgðum á innistæðureikningum samkvæmt Evrópugerð, sem snertir bankaviðskipti yfir landamæri. Evrópusambandinu er mikið í mun, að enginn vafi ríki um þessa ábyrgð. Vandi okkar Íslendinga er, að Evrópugerðin er óljós og þar er alls ekki tekið mið af því, að heilt banka- eða fjármálakerfi hrynji eins og hér gerðist.

Sé vafi um ábyrgð á grundvelli þessarar gerðar, vegur hann að trausti á allri bankastarfsemi á evrópska efnahagssvæðinu. Samningsstaða Íslands er því sterk í málinu, þótt þrengt sé að hagsmunum landsins með því að tengja IceSave óskyldum málum. Þeir, sem til slíkra ráða grípa, treysta ekki á eigin málstað.

Þegar samið er, hafa báðir nokkuð til síns máls. Ég hef aldrei hallast að þeirri skoðun, að samningar séu svik, þegar deilur milli ríkja eru leystar. Mér heyrist örla á því sjónarmiði í gagnrýni stjórnarandstöðu á samninginn um IceSave.

Það er siðaðra þjóða háttur að ljúka deilum með samkomulagi - hins vegar má ekki greiða samninga of dýru verði eða afsala sér rétti til að halda lagaskilyrðum til haga og nýta lögfræðilega túlkun til hins ýtrasta.

Laugardagur, 15. 11. 08. - 15.11.2008 22:33

Var í Hveragerði klukkan 13.00 og flutti ræðu hjá rannsóknarlögreglumönnum, ræddi embætti sérstaks saksóknara, endurskoðun lögreglulaga og skipan rannsókna á vegum lögreglu. Að loknu erindinu svaraði ég spurningum.

Deilt er um, hvað menn vissu í aðdraganda bankahrunsins og hvernig við skyldi brugðist fyrir utan gagnrýni á stjórnmálamenn og opinbera eftirlitsaðila.

Hitt er síðan sérstakt íhugunarefni, hvernig tekið er á málum á líðandi stundu, hvað sagt er og hvernig fjölmiðlar túlka atburði. Á leiðinni úr Hveragerði hlustaði ég á þátt á rás 1, Stjörnukíkinn, þar sem meðal annars komu fram sjónarmið 10. bekkinga á málefnum dagsins. Sumir sögðust vera hættir að hlusta á fréttir, af því að þær væru allttaf um það sama og neikvæðar. Fram kom, að á sínum tíma hefði verið rætt um fuglaflensinu og hættuna af henni en hún hefði ekki komið, þrátt fyrir hræðslufréttir í fjölmiðlum. Hvort eitthvað væri meira að marka þá núna?

Bloomberg er miðill, sem sérhæfir sig í fjármálafréttum. Þar birtist í gær frétt eftir Tasneem Brogger og Helgu Kristínu Einarsdóttur undir þeirri fyrirsögn, að Íslendingar mótmæltu því, að ríkisstjórnin gæti ekki náð samkomulagi við alþjóðagjaldeyrissjóðinn. ´

Sagt er, að þúsundir Íslendinga muni fara út á göturnar á morgun (það er í dag laugardag) og mótmæla því, að ríkisstjórninni haf ekki tekist að fá 6 milljarða dollara lán frá slþjóðagjaldeyrissjóðnum. Talið er, að 20.000 manns eða 6% þjóðarinnar muni fara út á götur Reykjavíkur og er Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, borinn fyrir þessum tölum. Haft er eftir honum, að ástæða fyrir þessum mikla fjölda mótmælenda sé reiði almennings vegna skorts á upplýsingum. Hann segir engan fá neinar upplýsingar!

Samkvæmt fréttum í kvöld er talið, að 6000 manns hafi verið á Austurvelli í dag. Líklegt er, að rifist verði um þessa tölu fram eftir vikunni og ætla ég alls ekki að blanda mér í þær deilur. Á hinn bóginn er ástæða til að undrast frétt eins og þá, sem Bloomberg birti og hafði eftir Andrési Magnússyni, ef þeir, sem að fréttinni standa, vilja hafa eigin áreiðanleika og Bloombergs í heiðri.

Bloomberg hafði ekki hugmynd um, hverju átti að mótmæla í dag og ég heyrði ekki um neinn. sem mótmælti seinagangi alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Heimildarmenn Bloombergs kunna þó að hafa verið meðal mótmælenda með spjöld í samræmi við efni fréttarinnar.

Á leiðinni frá Hveragerði hlustaði ég á Stjörnukíkinn á rás 1 eins og áður sagði en á leiðinni til Hvergerðis slökkti ég á þættinum Í vikulokin á rás 1 vegna vaðalsins í stjórnanda þáttarins. Er furðulegt að gestir þátta eigi fullt í fangi með að komast að vegna þarfar gestgjafans fyrir að láta ljós sitt skína.

Föstudagur, 14. 11. 08. - 14.11.2008 19:18

Miðstjórn og þingflokkur sjálfstæðismanna komu saman í Valhöll í hádeginu í og sátu fram undir 15.30. Þar voru teknar ákvarðanir um að flýta landsfundi frá hausti 2009 til loka janúar og setja á laggirnar nefnd, Evrópunefnd, undir formennsku Kristjáns Þórs Júlíussonar, alþingismanns, til að fara yfir samskipti Íslands við ríki Evrópu, Evrópusambandið (ESB) og alþjóðasamfélagið í heild í ljósi þeirra breytinga, sem hafa orðið og eru að verða í heiminum.

Eindrægni ríkti á fundinum í stuðningi við tillögu Geirs H. Haarde, flokksformanns og forsætisráðherra, um þessi efni. Ákvörðun þessara stofnana flokksins sýnir, að innan hans er vilji til þess að efna til opinna lýðræðislegra umræðna um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna við gjörbreyttar aðstæður.

Í ræðu, sem ég flutti hinn 17. október sl., kom fram sú skoðun, að nú þyrftu Íslendingar að búa sig undir nýja sjálfstæðisbaráttu til að styrkja stöðu sína. Ég tel, að í dag hafi Sjálfstæðisflokkurinn stigið fyrsta formlega skrefið á þeirri braut. Vilji Sjálfstæðisflokkurinn standa undir nafni á hann að sjálfsögðu að leiða þessa baráttu.

Eins og vék hér að í gær nefndi Dominique Strauss-Kahn, forstjóri alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Ísland til sögunnar í viðtali við kínverskt fjármálarit, þegar hann ræddi um þjóðir, sem hefðu orðið illa úti og leitað hefðu til sjóðsins. Þá hefur komið fram, að innan Evrópusambandsins er mönnum kappsmál að semja við Ísland um túlkun á tilskipun innan sambandsins um ábyrgð vegna gjaldþrots banka - ella kunni allt traust á bönkum að hverfa. 

Ísland er í margra augum víti til varnaðar - dæmi um, hve illa getur farið vegna skorts á skýrum og samhæfðum alþjóðareglum, sem nú er leitast við að móta og rætt verður um á fundi leiðtoga 20 ríkja í Washington um helgina. Ríkisstjórnir og fjármálafurstar annars staðar óttast, að þeir eigi eftir að lenda í sama vanda og ríkisstjórn Íslands og líkur á því hefðu aukist, ef ekki næðust samningar milli Íslands og ESB vegna IceSave.

Sjálfstæðismenn ætla að ræða alla þessa þætti, þótt tengslin við Evrópu beri að sjálfsögðu hæst. Ef menn vilja nálgast málið á þann hátt, að einblína á aðild að Evrópusambandinu, er sjónarhornið of þröngt með hliðsjón af hagsmunum Íslendinga og sögulegum tengslum við Bandaríkin. Viljum við eiga öll alþjóðasamskipti í gegnum Brussel?

Ríkissjónvarpið leitaði álits þriggja manna á ákvörðun sjálfstæðismanna í fréttum sínum í kvöld. Steingrímur J. Sigfússon, sem er á móti ESB-aðild, sagði flokkinn vera á villigötum. Össur Skarphéðinsson, sem vill ESB-aðild, taldi flokkinn hafa batnað í dag. Baldur Þórhallsson, sem vill ESB-aðild, en er fræðimaður, sagði flokkinn mundu lenda í vandræðum, ef skipun nefndarinnar og ný dagsetning landsfundar leiddi ekki til ESB-aðildarstefnu flokksins. Enginn þessara manna var óhlutdrægur 

Fimmtudagur, 13. 11. 08. - 13.11.2008 9:15

Gretar Mar Jónsson spurði mig um varalið lögreglu á þingi í morgun en var að ræða um héraðslögreglumenn. Í svari mínu sagði ég, að komið hefði í ljós, eftir að reglugerðin var gefin út í október um fjölgun héraðslögreglumanna, að henni þyrfti enn að breyta og fjölga í fleiri umdæmum úr 8 í 16. Það hefði nú verið gert og yrði heildartala héraðslögreglumanna því um 280.

Á ruv.is má lesa í dag:

„Dominique Strauss-Khan, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, gagnrýnir Íslendinga harðlega í viðtali við kínverskt fjármálatímarit og segir augljóst að það geti ekki gengið að bankakerfið hér á landi hafi orðið 12 sinnum stærra en íslenska hagkerfið.

Strauss Khan er mjög harðorður í garð Íslendinga og segir orðrétt: ,,Tökum Ísland sem dæmi, þar sem bankarnir þróuðust þannig að heildareignir í bankakerfinu íslenska voru 12 sinnum hærri en þjóðarframleiðsla landsins. Augljóslega getur það ekki gengið. Og einmitt af þeim orsökum þurfum við fleiri alþjóðlegar reglur til að koma í veg fyrir að svona staða geti komið upp aftur."“

Þegar viðtalið er lesið sést, að ekki er unnt að taka undir feitletruðu orðin í fréttinni á ruv.is. Eitt er að gagnrýna harðlega og annað að nefna dæmi um, hvernig getur farið, ef bankakerfi verður stærra en efnahagskerfi þjóðríkis þolir, eins og hér gerðist. Ísland er nefnt sem víti til varnaðar og þess vegna þurfi nýjar alþjóðareglur. Sjálfsgagnrýni er góð og gild en hún má ekki ganga út í öfgar.

Þessi túlkun á viðtalinu við forstjóra alþjóðagjaldeyrissjóðsins endurspeglar þá sterku liti, sem fjölmiðlar nota til að lýsa stöðu mála hér á landi. Stundum dettur manni í hug, að ástæða sé til að draga andann djúpt og hugsa sig um, áður en ýmislegt er sagt um Ísland innan lands og utan.

Mér var send mynd, sem átti að vera úr Politiken.dk þar sem sett hafði verið inn fyrirsögn á þýsku yfir ljósmynd af Ólafi Ragnari Grímssyni í tilefni af ræðu hans hjá danska sendiherranum í Reykjavík en þar var ræðu Ólafs Ragnars við Sportpalast-ræðu Göbbels. Trúði ég þessu í fyrstu en undraðist síðan, að hið danska blað gerði sig marklaust á þennan veg, og tók til við að leita að tilvísun á vefsíðu þess en fann ekki.

Það er ekki aðeins, að orð erlendra manna eru túlkuð um of heldur er einnig leitast við að færa orð innlendra manna í of dramatískan búning og dreifa þeim þannig.

Í Bandaríkjunum fer nú fram leit að manni, sem dreifði ósannindum á vefsíðum um Söru Palin, en finnst ekki, þegar að er gáð - hann sagði til dæmis ranglega, að hún vissi ekki, hvað Afríka væri! Bárust þau tíðindi um heim allan.

Málefni Íslands voru til umræðu í fyrirspurnatíma á sænska þinginu í dag og á vefsíðu Carls Bildts utanríkisráðherra má lesa:

Lesa meira

Miðvikudagur, 12. 11. 08. - 12.11.2008 7:13

Klukkan 13.00 var athöfn í alþingishúsinu en þá opnaði landskjörstjórn vefsíðu um kosningar og kosningafræði www.landskjor.is

Lagadeild Háskólans í Reykjavík efndi í dag til umræðna um lögfræðileg álitamál á umbrotatímum og má skoða slæður frá ræðumönnum hér.

Þórdís Ingadóttir dósent ræddi um gildi yfirlýsinga ráðamanna að þjóðarétti. Þegar efni er hennar er skoðað á vefsíðunni, sést, að ríki geta gengist undir þjóðréttarlegar skuldbindingar með einhliða yfirlýsingu. Vegna eðli starfa þeirra eru eftirfarandi ráðamenn sjálfkrafa taldir hafa umboð til að skuldbinda ríki: þjóðhöfðingi, forsætisráðherra og utanríkisráðherra.

Þórdís fór síðan yfir álitamál um það, hvort um væri að ræða undantekningu frá þessari meginreglu eða hvort unnt væri fyrir þjóðir að skorast undan að vera bundnar af slíkum yfirlýsingum. Nefndi hún dæmi til að skýra málið. Þar kemur meðal annars fram, að Malí hafi haldið því fram, að yfirlýsing þjóðhöfðingja á blaðamannafundi hefði einungis verið „a witticism of the kind regularly uttered at press conferences“.

Sama dag og þetta erindi var flutt bárust fréttir frá Noregi af frásögn sendiherra Noregs hér á landi af orðum Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, í hádegisverðarboði Lasse Reimann, sendiherra Dana á Íslandi, í bústað hans við Hverfisgötu föstudaginn 7. nóvember. Hádegisverðinn sátu sendiherrar erlendra ríkja á Íslandi.

Í norska blaðinu Klassekampen er hinn 12. nóvember á forsíðu vitnað í frásögn norska sendiherrans undir risafyrirsögninni: Islands president í skandalelunsj: Skjelte ut Sverige og Danmark. Þetta má íslenska á þennan hátt: Forseti Íslands í hádegisverðarhneyksli: Skammaði Svía og Dani. Sagt er, að diplómatar hafi verið „sjokkeraðir“ undir ræðu forsetans.

Inni í blaðinu er ítargrein um efnið undir fyrirsögninni: Inviterer Russland - Býður Rússlandi - undir er stór mynd af Ólafi Ragnari og í inngangi fréttarinnar segir á norsku: „Islands president Ólafur Ragnar Grímsson sjokkerte diplomatene i Reykjavik, da han skjelte ut Islands nære allierte og tilböd Russland a bruke Keflavik-basen.“

Blaðið segir, að forseti Íslands hafi minnt sendiherrana á mikilvægi N-Atlantshafs fyrir Norðurlönd, Bandaríkin og Bretland, en ríkin virtust ekki viðurkenna þá staðreynd. Íslendingar mundu þá leita nýrra vina, þeir ættu kannski frekar að bjóða Rússum að nota Keflavíkurstöðina. Þá hefði rússneski sendiherrann orðið undrandi á svipinn og sagt brosandi, að Rússland þyrfti ekki á aðstöðunni að halda.

Lesa meira

Þriðjudagur 11. 11. 08. - 11.11.2008 20:55

Fyrir réttri viku var allt að sjóða upp úr í fjölmiðlum, vegna þess að ekki væri nóg að gert til að rannsaka fjárþrot bankanna. Ráðist var að mér. ríkissaksóknara og Boga Nilssyni, fyrrverandi ríkissaksóknara, á röngum forsendum. Í dag var ég á rúmlega 90 mínútna opnum fundi í allsherjarnefnd alþingis og ræddi efni nýs frumvarps um sérstakan saksóknara til að fjalla um refsiverða þætti fjárþrotsins auk annarra mála.

Frumvarpið var lagt fram á alþingi í dag. Þar er meðal annars það nýmæli, sem hvergi er á Norðurlöndum, að veitt er heimild til að falla frá ákæru á hendur þeim, sem veitir lögreglu eða saksóknara upplýsingar vegna gruns um afbrot - ákvæði um uppljóstrara eða „litla landsímamanninn“ og sagt er hér á landi. Nú bregður svo við, að fjölmiðlar hafa lítinn eða engan áhuga á þessu máli.

Fundurinn í allsherjarnefnd hófst klukkan 11.00 og honum lauk um 12.30. Hann má sjá hér

  • Opinn fundur með dóms- og kirkjumálaráðherra 11. nóvember 2008
  • Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi, sagði af sér þingmennsku í dag, eftir að hafa orðið uppvís um skammarlegt prakkarastrik gagnvart Valgerði Sverrisdóttur, varaformanni Framsóknarflokksins, þegar hann ætlaði að fela aðstoðarmanni sínum að dreifa til fjölmiðla úr nafnlausu netfangi gagnrýnisbréfi tveggja framsóknarmanna í Skagafirði á Valgerði - þá varð Bjarna á að senda pukurtilmæli sín til aðstoðarmannsins til fjölmiðla.

    Bjarni sat með mér í Þingvallanefnd og kynntist ég honum helst á þeim vettvangi þann stutta tíma, sem hann sat á þingi. Þar hreyfði hann tillögu um breytingu á byggingarskilmálum sumarbústaða, sem hefur kallað á vinnu innan nefndarinnar, án þess að henni sé lokið við brottför hans.

    Prakkarastrik Bjarna er utan þess, sem þingmenn eiga að venjast í samskiptum sín á milli. Í pólitísku tilliti er það til marks um hatrömm átök innan Framsóknarflokksins og sýnir, hve slæm áhrif Evrópudeilur hafa á andrúmsloft innan flokka. Þurfa menn að kynda undir slíkar deilur á þessum örlagatímum? Ekki framsóknarmenn.

    DV heldur áfram stríði við lögregluyfirvöld og Morgunblaðið og telur sig geta sannað eitthvað um viðbúnað lögreglu með hálfkveðnum vísum og hreinum uppspuna. Getsakir DV um starfshætti lögreglu eru blaðinu síst til framdráttar.

     

     

     

     

     

    Mánudagur, 10. 11. 08. - 10.11.2008 9:48

    Helsta forsíðufyrirsögn Fréttablaðsins er: Óttast hörð viðbrögð við einhliða upptöku. Með þessum orðum er vísað til svara Ólafs Darra Andrasonar, hagfræðings ASÍ, við spurningu blaðsins um einhliða upptöku evru. Hann óttast, að við fáum hörð viðbrögð frá Brussel.

    1999 varð Bernard Kouchner, núverandi utanríkisráðherra Frakka, landstjóri á vegum Sameinuðu þjóðanna í Kosovo, hann ákvað einhliða upptöku þýsks marks þar í landi og síðan evru, án þess að verða ofsóttur af valdamönnum í Brussel. Kouchner er nú forseti ráðherraráðs Evrópusambandsins. Er líklegt, að hann leggi fæð á Íslendinga fyrir að feta í fótspor hans?

    Velvakandi Morgunblaðsins sefur á verðinum, ef marka má bréf í dálki hans í dag, þar sem Hafsteinn Sigurbjörnsson ræðst að mér og segir mig „endanlega“ firrtan „allri heilbrigðri skynsemi“ hvorki meira né minna. Hvers vegna? Jú með því að láta Valtý Sigurðsson, ríkissaksóknara, og Boga Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknara, rannsaka mál tengd bankahruninu og það, sem Hafsteinn kallar „fjárglæfra“ sona þeirra.

    Allt er þetta rangt hjá Hafsteini. Ég fól þeim Valtý og Boga ekki neitt, þeir hafa alls ekki verið að rannsaka einstök mál og fimmtudaginn 6, nóvember ritaði Valtýr mér bréf og sagði forathugun á sínum vegum lokið.

    Hafsteinn lýkur þessu dæmalausa bréfi sínu á þessum orðum:

    „Dómsmálaráðherra skipar ríkissaksóknara til að rannsaka gjörðir sona sinna og þjóðin horfir orðlaus á. Hversu lengi ætlar þjóðin að láta þetta líðast?

    Ef einhverjir ættu að vera orðlausir vegna þessa bréfs eru það þeir, sem vita hið sanna og rétta í málinu og hafa margsinnis leitast við að skýra frá því. Hafsteinn hefur því miður ekki fylgst með gangi málsins og Velvakandi lætur sig engu skipta, hvað birtist undir nafni hans.

    Á tímum sem þessum er ábyrgð allra mikil, þar á meðal fjölmiðla, til að halda trúverðugleika sínum og trausti. Birting þessa bréfs í Velvakanda sýnir, að þar er allt birt, hvort sem það er satt eða logið, tímabært eða ótímabært. 

    Páll Ásgrímsson hdl. skrifar grein í Morgunblaðið í dag um stjórnarsetu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem hann telur stangast á við lög. DV bregst illa við.

    Lesa meira

    Sunnudagur, 09. 11. 08. - 9.11.2008 18:47

    Skrifaði pistil í dag um kjör Obama, fjórða valdið og þekkingarvald.

    Í listasafni ASÍ er yfirlitssýning á verkum Gylfa Gíslasonar, teiknara og myndlistarmanns, sem andaðist árið 2006. Í tilefni af sýningunni hefur verið gefin út vegleg bók, Gylfi Gíslason, sem lýsir ævi, störfum og verkum Gylfa.

    Ég kynntist Gylfa í störfum mínum í Þingvallanefnd. Hann hafði mikinn og einlægan áhuga á Þingvöllum og lagði mikið af mörkum til kynningarefnis um þjóðgarðinn auk þess að skapa mörg eftirminnileg listarverk tengd honum.

    Á Kjarvalsstöðum er sýningin Augnasinfónía, myndlist Braga Ásgeirssonar í sextíu ár. Er fróðlegt að ganga um austursal safnins og kynnast verkum Braga allt frá fyrstu árum hans fram á þessa öld. Þá hefur verið gefin út vegleg sýningarbók um Braga og verk hans.

    Bragi var í marga áratugi myndlistargagnrýni Morgunblaðsins og hefur ritað ógrynni af greinum í blaðið um sýningar heima og erlendis, strauma og stefnur.

    Áhugi The New York Times á því, sem hér er að gerast, er ótrúlega mikill, eins og kemur fram á forsíðu blaðsins í dag. Önnur langa forsíðufréttin um Ísland á skömmum tíma.

    Laugardagur, 08. 11. 08. - 8.11.2008 20:34

    Halla Gunnarsdóttir (Sigurðssonar) er þingfréttaritari Morgunblaðsins og ritar þar þingbréf á laugardögum um störf alþingis í vikunni, sem er að líða. Í dag hófst bréf hennar á frásögn af mótmælum á Austurvelli. Þá segir: „Fyrir tæpum tveimur vikum var fullt út úr dyrum á brogarafundi í Iðnó. Færri fengu tækifæri til að tjá sig en vildu og mörgum var heitt í hamsi. Í dag munu eflaust margir mæta á borgarafund kl. 13 og færa sig að honum loknum á Austurvöll til að mótmæla.“

    Halla Gunnarsdóttir var auglýstur ræðumaður á fundinum í Iðnó og birtist galvösk í sjónvarpsfréttum frá honum með stóryrði* á vörunum. Gunnar Sigurðsson stendur fyrir þessum fundum.

    Mótmælendur á Austurvelli töldu það málstað sínum til framdráttar að draga orrustufána, Bónusfánann, að húni á alþingishúsinu og síðan kasta í það eggjum og tómötum. Sjónvarpsmenn spurðu mótmælendur á Austurvelli á þann veg, að þeim þótti augljóslega skiljanlegt, að þessi atlaga væri gerð að þinghúsinu.

    Í dagbókarfærslu í gær velti ég fyrir mér, hvort unnt væri að treysta á óhlutdrægni fjölmiðlafólks í þessari orrahríð allri. Ég hef fengið ábendingar um, að fleiri velti þessu fyrir sér.

    Annars bar það til fréttnæmra tíðinda á fundinum í Iðnó, að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, taldi það meira en vel koma til greina að hækka skatta, auk þess sem hann varði verðtryggingu lána af miklum þunga.

    *es. Halla Gunnarsdóttir sendi mér ræðu sína á fundinum og sé ég, að of sterkt er að orði kveðið hjá mér að nota orðið stóryrði um hana, þótt hún hafi birst mér þannig í hita fundarins, sem sýndur var í sjónvarpinu - þetta er ljóðrænt ávarp til Björgólfs Guðmundssonar.

    Föstudagur, 07. 11. 08. - 7.11.2008 19:09

    Hér hef ég sett inn viðtal Freys Eyjólfssonar við mig í Síðdegisútvarpi rásar 2 fimmtudaginn 6. nóvember.

    Í samtali okkar Freys er vikið að framkomu Evrópusambandsins og einstakra aðildarríkja þess í okkar garð. Ekki er unnt að setja þar öll ríki undir sama hatt eins og sannaðist í dag, þegar fréttir bárust af 200 milljóna evru lánstilboði Pólverja til okkar. Samband Íslendinga og Pólverja hefur verið mikið og gott undanfarin ár vegna hins mikla fjölda Pólverja, sem hér hafa verið við störf. Þá hafa pólsku Karmelnunnurnar í Hafnarfirði í mörg ár beðið fyrir landi og þjóð. Nú leggur pólska ríkið okkur lið með þessum góða hætti - megi það verða öðrum fyrirmynd innan Evrópusambandsins.

    Föstudagsumræður í ljósvakamiðlum eru oft forvitnilegar til að átta sig á hitamálum.´

    Á rás 2 ræddu þingmennirnir Bjarni Harðarson, Framsóknarflokki, og Katrín Jakobsdóttir, vinstri/græn, saman, án þess að upplýsa neitt. Þau ræddu til dæmis rannsóknir á bankahruninu, án þess að átta sig á því, hver eru viðfangsefnin í því efni - ég fer inn á það í viðtalinu á rás 2. Vanþekkingin var síðan notuð til að ráðast á ríkisstjórnina.

    Í Kastljósi stjórnaði Jóhanna Vilhjálmsdóttir samtali þeirra Bjðrns Inga Hrafnssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Mér finnst merkilegt, hvað Björn Ingi tekur mikið upp í sig í umræðum um þessi mál öll með vísan til aðildar hans á REI-hneykslinu. Þar vörðust sjálfstæðismenn í borgarstjórn, þegar Björn Ingi vildi draga Orkuveitu Reykjavíkur inn í ævintýraferð undir leiðsögn FL Group.

    Krafan um upplýsingamiðlun af hálfu stjórnvalda er hávær og mikil. Hún stafar meðal annars af því, að þjóðin treystir ekki einkareknum fjölmiðlum til að segja alla söguna - þeir eru allir í eignarhaldi, sem tengist bankahruninu á einn eða annan  hátt. Þegar einkareknu fjölmiðlarnir veitast að stjórnmálamönnum eða embættismönnum fyrir óhlutdrægni vegna tengsla við aðila að bankahruninu er holur hljómur í þeim aðfinnslum. Dæmin um sjálfsritskoðun í þágu eigenda eru svo mörg og skýr, að tilgangslaust er að afneita henni.

    Fimmtudagur, 06.11.08 - 6.11.2008 18:33

    Í dag fékk ég bréf frá Valtý Sigurðssyni ríkissaksóknara, þar sem hann telur rétt að framkvæma þá tillögu mína að koma á laggirnar sérstöku embætti saksóknara. Ríkissaksóknari var ekki að rannsaka starfsemi bankanna, eins og skilja mátti af frétt í hljóðvarpi ríkisins, hann var að kortleggja umfang málsins, sem kann að koma inn á borð ákæruvaldsins og telur að tvennt þurfi að gera: Kalla til erlenda sérfræðinga, en umfang þess verkefnis, er hann að kanna, og hins vegar að samþykkja frumvarp, sem ég er með í smíðum um sérstakan saksóknara.

    Ég tel, að þessi vinna Boga Nilssonar og Valtýs auðveldi okkur að takast á við framhaldið. Hvorugur var að rannsaka einstök mál. Það er ekki verkefni ríkissaksóknara heldur Fjármálaeftirlits og lögreglu og þangað eiga menn að snúa sér með kærur.

    Næsta skref af minni hálfu er að leggja fram frumvarp um sérstakan saksóknara.

    Hér birti ég útskrift af samtali Kristófers Helgasonar við mig í Bylgjunni þriðjudaginn 4. nóvember.

    Í DV í dag er forsíðufrétt með mynd af mér um vígbúnað íslensku lögreglunnar til að lemja á almenningi. Byggist þetta á einhverri rannsókn blaðsins, sem á að hafa leitt í ljós endurgerð bíla fyrir lögregluna. Þetta er birt, þótt margar orðsendingar hafi gengið milli mín og blaðamannsins í gærkvöldi, þar sem ég sagðist ekki hafa neina vitneskju um þetta og spurði hann að lokum, hvort hann væri að skrifa um rétt land. Í tilefni af fréttinni hefur lögreglan sent frá sér tilkynningu í dag og segir ríkislögreglustjóri:

    „Í DV í dag er fullyrt að lögreglan í landinu sé að "vígbúast gegn fólki".   Þetta er uppspuni.  Ekki er verið að útbúa nýja óeirðabíla fyrir lögreglu eða breyta strætisvagni í fjarskiptamiðstöð, eins og blaðið fullyrðir. “

    Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir:

    „Vegna fréttar í DV í dag um meintan vígbúnað lögreglu skal tekið fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er ekki að láta útbúa eða breyta bifreiðum sem nota á við óeirðastjórn og er heldur ekki að láta breyta strætisvagni í fjarskiptamiðstöð.“

    Uppspuni DV hefur gefið fjölmörgum nafnleysingjum í bloggheimi til að ausa yfir mig skít og skömm. Kannski var markmið blaðsins einmitt að kalla slíkt fram?

    Það var skemmtileg upplyfting að sjá nýju Bond-myndina í kvöld. Mæli með henni fyrir þá, sem vilja dreifa huganum.

    Miðvikudagur, 05.11.08. - 5.11.2008 21:28

    Barack Obama vann verðskuldaðan sigur í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Hann stóð sig einstaklega vel í kosningabaráttunni. Fundið var að reynsluleysi hans, en á það var bent, að maður, sem safnaði svo miklum fjármunum frá almenningi og sigraði kosningavél Clinton-hjónanna innan eigin flokks, hlyti að búa yfir miklum hæfileikum. Hann sigðraði kosningavél repúblíkana einnig örugglega, en hún hefur löngum verið talin öflugri en flest önnur slík kosningatæki.

    Í nýjasta þjóðarpúlsi Gallups (nóvember 2008) er spurt um viðhorf Íslendinga til nokkurra þjóða, þar á meðal Bandaríkjamanna, 22% eru jákvæðir, 34% hlutlausir og 44% neikvæðir. Jákvæðni í garð Bandaríkjamanna hefur minnkað mikið í stjórnartíð George W. Bush, 2001 voru 76% Íslendinga jákvæð í garð Bandaríkjamanna en 22%.

    Líklegt er, að fleiri þjóðir en við hafi misst álit á Bandaríkjamönnum síðustu átta ár, enda er sigri Obama vel tekið um allan heim. Framsóknarmenn fagna sigri Obama með þeim orðum, að hann sé flokksbróðir þeirra og Samfylkingin er sömu skoðunar. Hið skrýtna er, að demókratar eru almennt, þótt þeir séu taldir vinstra við miðju í Bandaríkjunum, til hægri við Sjálfstæðisflokkinn. En hvað gera menn ekki til að geta fagnað sigrum annarra?

    Ræða Obama, þegar hann fagnaði sigri í Chicago, verður talin til hinna merkustu í sögu Bandaríkjanna, þegar fram líða stundir, og oft mun vitnað til hennar, enda tímamótin vissulega einsök.

    Nokkrum klukkustundum eftir að Obama flutti sigurræðu sína hélt Dmitri Medvedev, forseti Rússlands, fyrstu stefnuræðu sína og þótti margt í henni minna á kalda stríðið. Rússar ætla að setja skotpalla fyrir skammdrægar Iskander-eldflaugar í Kaliningrad við Eystrasalt, þar sem Litháen og Pólland mætast. Er þetta svar þeirra við bandaríska eldflaugavarnarkerfinu í Póllandi og Tékklandi. Þá sakaði hann Bandaríkjamenn um að fylgja „eigingjarnri“ utanríkisstefnu, þegar Rússar áttu í átökum við Georgíumenn sl. sumar.

    Barack Obama tekur nú til við að velja menn í ríkisstjórn sína og utan Bandaríkjanna beinist athygli einkum að utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra. Vegna reynsluleysis í utanríkis- og öryggismálum er talið, að hann muni treysta mjög á góða ráðgjafa í þessum málaflokkum. Miklu meira en John McCain hefði gert. Þess vegna hugsa starfsmenn hugveita sér gott til glóðarinnar við valdaskiptin nú.

    Þriðjudagur, 04.11.08. - 4.11.2008 8:46

    Ómar Ragnarsson er reyndur fréttamaður til margra ára en hefur nú snúið sér að stjórnmálum sem forystumaður Íslandshreyfingarinnar. Hann heldur úti vefsíðu til að rækta samband við kjósendur. Þar segir hann í færslu:

    „3. Dómsmálaráðherra skipar tvo menn til að standa að hvítbók um fjármálahrunið og rannsaka hlut fyrirtækja þar sem synir þeirra eru í forsvari og flæktir í málin svo og tengdasonur ráðherrans.“

    Dæmalaust er að lesa þetta. Ég hef ekki skipað neina menn til að semja hvítbók um fjármálahrunið. Ríkissaksóknari átti frumkvæði að því að hafin yrði kortlagning vegna mála, sem tengdust fjármálahruninu, til að búa í haginn, ef til lögreglurannsókna kæmi. Þetta er að sjálfsögðu engin hvítbók um málið og gerð hennar er ekki á mínu forræði. Ríkssaksóknari fékk Boga Nilsson til að vinna að þessu verkefni, ég skipaði hann ekki. Bogi er ekki að rannsaka neitt, það verkefni verður á könnu sérstaks saksóknara nái hugmyndir mínar fram að ganga.

    Spurning hefur vaknað um hæfi Valtýs Sigurðssonar ríkissaksóknara og Boga Nilssonar til að vinna þessa undribúningsvinnu. Ég hef svarað henni á þann veg, að lögum samkvæmt eigi þeir síðasta orð um hæfi sitt. Ég mun að sjálfsögðu huga að eigin hæfi, þegar ég tek ákvarðanir, sem varða þessi mál öll.

    Eftir að hafa lesið þessi orð Ómars Ragnarssonar vaknar spurning um hæfni hans í málinu. Skyldi hann vera maður til að hafa það, sem réttara reynist, og leiðrétta þessi ummæli sín?

    Es. undir kvöld ritaði Ómar á vefsíðu sína:

    „Á vefsíðu sinni segist Björn Bjarnason ekki hafa skipað Valtý Sigurðsson og Boga Nilsson til verka við hvítbók og átelur mig fyrir ummæli þar að lútandi á vefsíðu minni. Ég skal fúslega hafa það er sannast reynist í þessu máli og biðja Björn Bjarnason afsökunar á því að bendla hann um of við þetta mál.

    Ég hefði gjarna viljað gera þetta í formi athugasemdar á vefsíðu hans en mér sýnist að það sé ekki hægt.“

    Ég þakka Ómari.

     

    Mánudagur, 03.11.08. - 3.11.2008 20:44

    Mér virðist þess misskilnings gæta um hlut þeirra Valtýs Sigurðssonar ríkissaksóknara og Boga Nilssonar, fyrrverandi ríkissaksóknara, að verkefni þeirra sé að rannsaka eða stjórna rannsókn einstakra mála, sem kunna að spretta af hruni bankanna og vísað er til lögreglu.

    Málsmeðferðin er tvíþætt.

    Í fyrsta lagi að kortleggja stöðuna, átta sig á umfangi og stofna til tengsla við þá, sem þegar eru teknir til við að rannsaka einstök mál, án þess að um lögreglumál sé að ræða. Þetta starf er að fara af stað. Ríkissaksóknari telur, að líklega þurfi erlenda sérfræðinga til að átta sig á öllum þráðum til að heildarmyndin fáist. Hann hefur kynnt málið fyrir allsherjarnefnd alþingis.

    Í öðru lagi að rannsaka einstök mál í samvinnu við lögreglu. Hugmynd mín er, að þarna komi sérstakur saksóknari til sögunnar og er frumvarp um hann á lokastigi í vinnslu á mínum vegum.

    Hvert skref, sem stigið hefur verið í þessu máli, hefur verið kynnt á opinberum vettvangi. Ríkissaksóknari kynnti hugmynd um kortlagninguna, ég samþykkti hana og skýrði fyrst frá henni á alþingi. Ég lít á hana sem nauðsynlegan og tímabæran undirbúning undir sakamálarannsóknina sjálfa, verði efnt til hennar, og viðleitni til að búa skipulega í haginn fyrir hana, einfaldlega til marks um vönduð vinnubrögð.

    Í bandarísku kosningabaráttunni hafa málsvarar Baracks Obama snúist harkalega til varnar, þegar þeir telja vegið að frambjóðanda sínum með áburði um eitthvað vegna tengsla við einhvern (guilt by association). Neikvæð barátta af þessu tagi hefur ekki skilað andstæðingum Obama öðru en skömm. Hvarvetna verða menn að gæta sín, þegar vegið er að heiðarleika og mannorði annarra. Þegar ég kynnti alþingi hugmyndir mínar um rannsókn réttvísinnar vegna bankahrunsins, varaði ég við nornaveiðum. Mér finnst enn ástæða til þess.

    Hér segir frá því, að breskir íhaldsmenn krefja Alistair Darling sagna um vitneskju hans og aðgerðir vegna íslensku bankanna í London.

    Hér er fróðleg grein um undirrót bankahrunsins, meira að segja Alan Greenspan hefur viðurkennt, að hann var of trúaður á, að fjármálamarkaðsmenn mundu sjálfir þekkja sín takmörk. Hödundurinn bendir þeim, sem vilja kynna sér hættur stjórnlausra áhættufjárfestinga, að kynna sér reynslu Íslendinga.

     

    Sunnudagur, 02.11.08. - 2.11.2008 11:16

    Hér er grein í The New York Times um fjármálakrísu okkar Íslendinga, sem vert er að lesa.

    Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og menntamálaráðherra, hefur verið víða í viðtölum undanfarið og nú síðast í kvöld hjá Sigmundi Erni í Mannamáli á Stöð 2. Athygli beinist einkum að því, sem hún segir um samskipti Íslands og Evrópusambandsins. Hún áréttaði á skýran hátt í samtalinu við Sigmund Erni, að skoðun hennar væri í fullu samræmi við Evrópustefnu flokksins, sem mótuð var á síðasta landsfundi hans, að afstaða til ESB ætti að byggjast á mati á hagsmunum þjóðarinnar. Hún taldi, að þeir atburðir, sem nú hefðu gerst, krefðust nýs hagsmunamats. Þetta er skynsamleg afstaða og stangast á við óðagot og uppnám þeirra, sem láta eins og unnt sé að smella Evrópufingri og leysa allan okkar vanda.

    Að leggja meiri merkingu í þessi orð Þorgerðar Katrínar en það, sem hún sagði, ber vott um skoðun álitsgjafanna en ekki hennar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt mótað utanríkisstefnu sína á köldu mati á þjóðarhagsmunum en ekki óskhyggju.

    Enn sannast í dag, hve misráðið var að bregða fæti fyrir dreift eignarhald á fjölmiðlum, þegar allir miðlar fyrir utan RÚV og Viðskiptablaðið virðast komnir á eina hendi. Þorgerður Katrín sagðist að vísu ekki átta sig til fulls á því, hvað gerst hefði miðað við fréttir dagsins.

    Kannski eru ekki öll kurl komin til grafar. Látið er í veðri vaka, að Nýi Landsbankinn hafi knúið fram kaup Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á fyrirtæki, sem áður var að mestu í hans eign. Að óreyndu hefði mátt ætla, að viðskipti af þessum toga væru fortíðarvandi.

    Þegar G. Pétur Matthíasson var fréttamaður hjá RÚV hreykti hann sér af því að lesa aldrei vefsíðu mína, hann þoldi ekki skoðanir mínar. Nú er hann upplýsingafulltrúi vegagerðarinnar og bloggar á eigin vefsíðu um, að ég eigi að láta af stjórnmálastörfum vegna skoðana minna á Evrópumálum. Hann segir: „Veröld Björns hefur vissulega lengi verið köld og svört og hvít og ástæðulaust fyrir hann sjálfan að breyta því en því meiri ástæða fyrir Sjálfstæðimenn að gefa honum frí og okkur hinum frí frá honum og hans sýn á sína fálita veröld. “
    G. Pétur er enn við sama heygarðshornið og þegar hann var óhlutdrægur, opinber fréttamaður.

    Laugardagur, 01.11.08. - 1.11.2008 20:14

    Flugvélin frá Boston lenti klukkan um 05.50 í morgun vel á undan áætlun.

    Í dag skrifaði ég pistil á vefsíðuna og reyndi að glöggva mig á umræðunum um fjármálakrísuna. Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kom síðdegis kemur fram, að fylgi Sjálfstæðisflokksins er 22,3% samkvæmt Gallup-könnun, Samfylkingin fær 36,9%, vinstri/græn 26,9%, 7,8% framsókn, tæp 80% segjast hafa misst trú á krónunni.

    Í Reykjavíkurbréfi blaðsins undrar höfundurinn sig á því, að ég skuli hafa vitnað í Ívar Jónsson, sem benti á að álagið á krónuna hefði minnkað með brotthvarfi útrásarinnar, af því að Ívar er marxisti að mati höfundarins.

    Eitt er að efast um dómgreind Ívars, af því að hann er marxisti, annað að halda því fram, að því er virðist í alvöru, að við Ívar höfum rangt fyrir okkur, þar sem Íslendingar kunni einhvern tíma að nýju að ráðast í útrás! Hér má segja. Den tid, den sorg og spyrja: Hvers vegna ekki að horfast í augu við núverandi vanda og gera áætlun um aðgerðir gegn honum? Hvers vegna vill höfundur Reykjavíkurbréfs forðast það eins og heitann eld?

    95 ára saga Morgunblaðsins einkennist af raunsæi og rökfimi stjórnenda þess, þegar mest hefur reynt á þrek og þol þjóðarinnar. Að láta óskhyggju og útúrsnúninga ráða ferð er sögulegt stílbrot við ritstjórn blaðsins.