9.1.2010

Hörmungasaga Icesave-samninganna á reikning Steingríms J. og Svavars.

 

 

 

Hinn 1. ágúst 2009 skrifaði ég í dagbókina á vefsíðu minni:

„Eva Joly, ráðgjafi sérstaks saksóknara og þingmaður á ESB-þinginu, ritaði grein í Morgunblaðið, Aftenposten, The Daily Telegraph og  Le Monde í dag, þar sem hún tekur upp hanskann fyrir Íslendinga í Icesave-málinu.

Ef rétt er munað höfðu þau Kristján Kristjánsson, fjölmiðlafulltrúi forsætisráðuneytis, og Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytis, á orði, að þeirra höfuðverkefni væri nú að sjá til þess, að málstaður Íslands hlyti kynningu í erlendum fjölmiðlum. Eva Joly hefur svo sannarlega tekið af þeim ómakið. Umbjóðendur þeirra Kristjáns og Urðar, Jóhanna og Össur, hefðu auk þess aldrei viljað leggja nafn sitt við grein, sem skammar forseta framkvæmdastjórnar ESB eða Gordon Brown, forsætisráðherra Breta. Hvorugt samræmist þjónkun þeirra við ESB.“

Ætla hefði mátt, að þau Jóhanna Steingrímur J. eða Össur fögnuðu framtaki Evu Joly og nýttu sér athyglina, sem grein hennar vakti til að fylgja eftir málstað Íslands. Þau gerðu það að sjálfsögðu ekki en Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður Jóhönnu, fann að skrifum Evu Joly á fésbókarsíðu sinni 1. ágúst en dró í land á sama stað 2. ágúst, þegar honum bárust hávær mótmæli, sagðist hann sjá eftir „snubbóttri athugasemd“ sinni.

Hér er þetta rifjað upp til að minna á, að ríkisstjórnin og hjálparkokkar hennar hafa aldrei viljað ganga  fram af þeim þunga gagnvart breskum og hollenskum stjórnvöldum, að athygli vekti. Jóhanna, Steingrímur J. og Össur gera það ekki enn.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði fyrir fullum sal í Valhöll að morgni 9. janúar, að það hefðu verið mistök af  Íslands hálfu, að eiga samningaviðræður við fjármálaráðherra Bretlands og Hollands um Icesave. Þegar þetta er sagt, liggur réttmæti orðanna í augum uppi. Fjármálaráðherrar, blóðugir upp fyrir axlir vegna banka-  og fjárlagavanda á heimaslóð, fallast aldrei á annað en afarkosti gagnvart annarra þjóða mönnum, sem skulda þeim peninga.

Eftir að Össur Skarphéðinsson varð utanríkisráðherra, lét hann þess fljótt getið, að Icesave væri ekki á hans könnu heldur Steingríms J., fjármálaráðherra. Steingrímur J. hafði ekki verið lengi í embætti, þegar hann skipaði vin sinn og flokksfélaga, Svavar Gestsson, sendiherra í Kaupmannahöfn, formann samninganefndar.

Ég sat í utanríkismálanefnd alþingis, þegar Svavar kom þangað og lýsti verkefni sínu á næsta yfirlætisfullan hátt, hann starfaði í umboði fjármálaráðherra en auðvitað hefði hann sem sendiherra samband við „sitt“ ráðuneyti, utanríkisráðuneytið. Undir lok þingmeðferðar Icesave-laganna var upplýst, að Svavar hefði mælst til þess við breska lögfræðinga, að þeir létu Össur ekki vita um allt, sem hann fékk að vita. Þegar óskað var eftir, að Svavar skýrði mál sitt fyrir fjárlaganefnd undir árslok 2009, varð að samkomulagi milli hanns og Guðbjarts Hannessonar, nefndaformanns, að það væri óþarfi!

Bjarni Benediktsson minnti einnig á það í ágætri ræðu sinni í Valhöll, að Steingrími J. hefði verið mikið í mun, að skipa mann handgenginn sér formann samninganefndarinnar. Þegar þessi orð eru íhuguð kemur í ljós, að í Icesave-málinu hefur Steingrímur J. ekki haft aðra  pólitíska skoðun sem ráðherra en þá að snúa við blaðinu, frá því að hann var í stjórnarandstöðu. Í Icesave setti hann allt sitt traust á Svavar Gestsson og Indriða H. Þorláksson.

Eftir að Steingrímur J. hafði heyrt Svavar lýsa „Landsbankaaðferð“ sinni við lausn Icesave-deilunnar, fór hann í sjónvarp mbl.is og talaði um „glæsilega niðurstöðu“ í Icesave-málinu. Steingrímur J. dró þá yfirlýsingu síðar til baka og sagði á fundi utanríkismálanefndar, að menn segðu stundum meira en þeir vildu í „hita leiksins“.

Hinn 3. júní  2009, sólarhring áður en Svavar lauk samningagerðinni um Icesave, af því að hann „nennti ekki að hanga lengur“ yfir málinu, talaði Steingrímur J. á þann veg í þinginu, að enginn gat búist við öðru en viðræður við Breta og Hollendinga myndu enn standa um nokkurt skeið.  Hinn 4. júní 2009 voru Icesave-samningarnir hins vegar kynntir þingmönnum og opinberlega hinn 5. júní. Töldu Jóhanna og Steingrímur J. einsýnt, að þeir rynnu ljúflega í gegnum þingið.

Réttum sjö mánuðum síðar, 5. janúar 2010, sátu þau Jóhanna og Steingrímur J. enn með Icesave-samningana í fanginu og nú hafði Ólafur Ragnar Grímsson kastað þeim til þeirra með því að neita að skrifa undir önnur lögin, sem ríkisstjórn þeirra hafði komið í gegnum þingið með harmkvælum.

Þau efndu til blaðamannafundar og fluttu heimsslitaspá yfir þjóðinni vegna þeirrar ógæfu, sem á hefði dunið frá Bessastöðum. Einar Karl Haraldsson, sem hafði tekið við af Kristjáni Kristjánssyni sem upplýsingafulltrúi Jóhönnu, sagði, að í forsætisráðuneytinu hefðu legið fyrir þrír ólíkir textar að yfirlýsingu eftir því, hvað Ólafur Ragnar gerði.

Þá lét Jóhanna starfsmenn sína leka í RÚV minnisblaði, sem hún hafði sent til Ólafs Ragnars til að vara hann við að synja lögunum staðfestingar. Var skjalinu lekið til að ná sér enn frekar niðri á Ólafi Ragnari. Hann blés á þessi atriði og sagði þau til marks um einhverjar hugleiðingar embættismanna, ástæðulaust væri fyrir sig að taka mikið mark á þeim.

Bjarni Benediktsson sagði réttilega í Valhallarræðu sinni, að með ólíkindum væri, að forsætisráðherra léti slíka minnispunkta frá sér til opinberrar birtingar. Í þeim væri lýst öllu hinu illa, sem Bretar og Hollendingar gætu gert á okkar hlut. Vopn lögð þeim í hendur. Bjarni spurði fundarmenn, hvort nokkru sinni nokkurt sambærilegt innanhússskjal hefði verið birt úr breska eða hollenska stjórnarráðinu. Að sjálfsögðu ekki, sagði hann, því að ekkert stjórnvald hagaði sér á þennan veg, þegar þjóðarhagsmunir væru í húfi.

Steingrímur J. lét embættismenn sjá um Icesave-málið. Hann beitti sér aldrei sem ráðherra í málinu gagnvart starfsbræðrum erlendis og því síður gerðu Jóhanna eða Össur það.  Þriðjudaginn 21. júlí hringdi  Maxime Verhagen, utanríkisráðherra Hollands í Össur til að þrýsta á að alþingi lyki afgreiðslu Icesave-samkomulagsins og samþykkti það. Annars gæti liðið langur tími þar til Ísland fengi inngöngu í Evrópusambandið. 

Össur tók þessu að eigin sögn fálega. Miðvikudaginn 22. júlí sagði Steingrímur J. Sigfússon, að loknu símtali við Össur, að þeir félagar væru sammála um, að hollenski ráðherrann hefði verið að stunda „pólitíska loftfimleika til heimabrúks“, því að Icesave skipti engu vegna ESB-aðildar.

Hefur þetta verið „lína“ ríkisstjórnarinnar síðan. Össur hringdi í David Mililband, utanríkisráðherra Breta, 7. janúar eftir að Ólafur Ragnar hafði birt neitun sína. Sagði Össur sigri hrósandi, að í orðum Breta um að fara með Iceave til Brussel fælist ekki nein ögrun við ESB-stefnu ríkisstjórnarinnar. Utanríkisráðuneytið sagði, að hið sama hefði komið fram í símtali við Jóhönnu Sigrurðardóttur  við Gordon Brown um svipað leyti og Össur hringdi í Miliband. Forsætisráðuneytið hefur ekki sagt neitt um efni samtals Jóhönnu og Browns.

Jóhanna lét undir höfuð leggjast að sækja leiðtogafund NATO-ríkjanna 4. apríl 2009, þar sem kjörið tækifæri hefði gefist til að ræða við forsætisráðherra Bretlands og Hollands. Össur sótti NATO-fundinn og sagðist hafa átt „kurteisishjal“ við Gordon Brown. Jóhanna sótti loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn 17. desember 2009 og var birt mynd af þeim saman henni og Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Þær hefðu m.a. rætt um umsókn Íslands um aðild að ESB, stöðu efnahagsmála í ríkjunum tveimur og möguleika á fundi þeirra árið 2010.

Fram til þess að alþingi samþykkti ályktunina um aðildarviðræður við Evrópusambandið 16. júlí vildi samfylkingarfólkið ekki gera neitt, sem kynni að kalla fram neikvæð viðhorf frá Brussel eða forystumönnum ESB-ríkja. Hið sama varð síðan uppi á teningnum eftir samþykkt alþingis. Þá var látið í veðri vaka, að mestu skipti að Ísland slægi einhver „hraðamet“ í aðildarferlinu, svo að allt gæti farið á fulla ferð eftir leiðtogaráðsfund ESB-ríkjanna í desember 2009.

Þessar óraunhæfu tímasetningar rættust að sjálfsögðu ekki. Össur fundaði að morgni 9. janúar með utanríkisráðherra Spánar, Miguel Ángel Moratinos, sem situr í forsæti ráðherraráðs Evrópusambandsins. Á fundinum kom fram að sögn Össurar, að Moratinos liti svo á að umsókn Íslands að Evrópusambandinu og Icesave væru tvö aðskilin mál. Fyrr í vikunni hafði Moratinos á hinn bóginn sagt, að Icesave kynni að spilla aðildarviðræðum Íslands og ESB. Hvert ESB-ríki hefur neitunarvald gegn því, að aðildarviðræður hefjist við ríki, eða hvenær sem er í aðildarferlinu. Augljóst er, að Össur lítur á hlutverk sitt sem utanríkisráðherra felast í því einu að ræða um ESB við aðra ráðherra – hann eigi hvort sem er, aðeins að helga sig „hinum stærri“ málum.

Þegar Bjarni Benediktsson segir, að hann vilji taka Icesave-málið upp að nýju og leita pólitískra lausna, vill hann, að hagsmuna Íslands sé gætt af þeim pólitíska þunga, sem þarf í málum af þessu tagi. Það hefur ekki verið gert.

Í áratugi börðust alþýðubandalagsmenn gegn ríkjandi utanríksstefnu íslensku þjóðarinnar. Í þeim flokki voru Ólafur Ragnar, Svavar Gestsson, Steingrímur J. Sigfússon, Össur Skarphéðinsson og Einar Karl Haraldsson.  Fjórir úr hópnum, allir nema Steingrímur J.,voru auk þess um lengri eða skemmri tíma ritstjórar Þjóðviljans. Þeir töldu aðildina að NATO svik við þjóðarhagsmuni, þeir voru hatrammlega á móti varnarsamningnum við Bandaríkin, þeir vildu ekki inn í EFTA og börðust gegn aðild að EES.

Alþýðubandalagsmenn börðu sér á brjóst sem betri gæslumenn íslenskra þjóðarhagsmuna út á við en aðrir stjórnmálamenn.  Eftir að Steingrímur J. fékk forræði Icesave-málsins í hendur og fól það síðan Svavari, gafst þessum gömlu alþýðubandalagsmönnum einstakt tækifæri til að sýna hæfni sína við gæslu íslenskra þjóðarhagsmuna út á við. Þeir klúðruðu málinu með hjálp Össurar á svo dæmalausan hátt, að Ólafi Ragnari var nauðugur einn kostur að vísa því til þjóðarinnar. Einar Karl Haraldsson tók síðan að sér hlutverk spunamiðlarans í því skyni að sverta Ólaf Ragnar.

Þegar hnjóðsyrði Svavars Gestssonar í garð þeirra, sem mótuðu og framkvæmdu utanríkisstefnu Íslands, þar til hann varð sendiherra um miðjan tíunda áratuginn, verða lesin í framtíðinni, verða þau eins og fuglatíst miðað við þá réttmætu gagnrýni, sem formennska hans í Icesave-samninganefndinni mun sæta. Aldrei hefur verið staðið eins hörmulega að gæslu íslenskra þjóðarhagsmuna út á við eins og með Icesave-samningunum.

Frá því að umræður urðu um Icesave-málið á alþjóðavettvangi vegna umbreytingar þess í raunverulegt pólitískt milliríkjamál eftir neitun Ólafs Ragnars, hefur æ betur sannast, hve dæmalaust illa hefur verið haldið á málinu af þeim Steingrími J. og Svavari með dyggri aðstoð Jóhönnu og Össurar. Er í raun óskiljanlegt og ber vott um hættulegan veikleika innan íslensku utanríkisþjónustunnar, að efnisþættir málsins skuli ekki hafa verið lagðir fyrir á annan hátt en gert var. Það eru embættismenn hennar, sem bera ábyrgð á því að upplýsa íslensk stjórnvöld á skýran og ótvíræðan hátt um stöðu þjóðarinnar að Evrópu- og alþjóðarétti.

Ég minnist þess úr síðasta þorskastríði, vegna 200 mílnanna, þegar Hans G. Andersen, þjóðréttarfræðingur ríkisstjórnarinnar, kom á ríkisstjórnarfund og lagði spilin á borðið og gaf sitt kalda mat, án þess að kasta sér út í hina pólitísku hringiðu. Enginn dró þekkingu hans og tengsl út á við í efa. Enginn íslenskur embættismaður hefur sambærilega stöðu nú á tímum. Enginn hefur heldur áunnið sér hana í Icesave-málinu. Á stundum sem þessari birtast þeir oft, sem best duga, fái þeir á annað borð að njóta sín. Flest bendir til, að stjórnarherrarnir vilji ekki slíka menn nálægt sér.

Nú þegar alþjóðaréttarfræðingar, alþjóðahagfræðingar og álitsgjafar fremstu fjölmiðla Bretlands telja, að á Íslendinga hafi verið lagðar skuldabyrðar, sem séu í engu samræmi við skyldur þeirra, fara íslenskir ráðherrar og embættismenn í vörn vegna samstöðu þeirra með Bretum og Hollendingum. Þeir taka ekki upp hanskann þjóðinni til varnar.

Hvað hefur gerst?

Jú, Steingrímur J. vill ekki snúast gegn Svavari, vini sínum. Hann hét því að axla pólitíska ábyrgð á „glæsilegri niðurstöðu“ Svavars. Þjóðarhagur verður að víkja.

Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi sendiherra Íslands í Frakklandi, ritar grein í Morgunblaðið, 9. janúar, þar sem hann rifjar upp, að árið 2000 hafi frönsk bankanefnd unnið skýrslu, sem er undirrituð af núverandi forstjóra Seðlabanka Evrópu, Jean-Claude Trichet. Skýrslan segi, að Evrópusambandinu og Seðlabanka Evrópu hafi verið fullkunnugt um, að kæmi til kerfishruns, eins og hér varð í október 2008, væru reglugerðir ESB um tryggingarsjóði innistæðueigenda ekki nothæfar og leita þyrfti annarra leiða.

Tómas Ingi segist ekki vita, hvort íslenskum stjórnvöldum hafi verið kunn umrædd skýrsla frönsku bankanefndarinnar á ögurstundu, hinn 8. október 2008, í miðju moldviðrinu, þegar ríkisstjórn Íslands stóð ein gegn öllum. Hitt viti hann, að skýrslan var, fyrir rúmu ári, í desember 2008, meðal þeirra gagna, sem ríkisstjórnin hafði, eða átti að hafa, aðgang að. Hann spyr síðan:

„Var skýrslan kunngerð forsætisráðherra á þessum erfiðu tímum? Var hún meðal þeirra gagna sem samninganefndir íslenskra stjórnvalda beittu fyrir sig í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga? Hvers vegna var skýrslan rangtúlkuð af aðstoðarmanni utanríkisráðherra sl. sumar og notuð til að styðja sjónarmið Breta og Hollendinga?“

Þessum spurningum ber utanríkisráðuneytinu að svara. Í lokaorðunum vísar Tómas Ingi til þess, hvernig Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar, brást við, þegar skýrslan komst í hámæli í byrjun júlí 2009. Kaus Kristján að túlka hana á þann veg, að orð hennar nýttust ekki hagsmunum Íslands í deilunni við Breta og Hollendinga. Í ljósi þessarar skýrslu og alls þess, sem fram er að koma opinberlega núna, er með ólíkindum, sé rétt, að Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, tali á þann veg, að í utanríkisráðuneyti Íslands hafi menn ekki rekist á neinn, sem dragi lagalegar skuldbindingar Íslands  samkvæmt Evrópurétti vegna Icesave í efa.

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og varaþingmaður Samfylkingarinnar, talar enn eins og Íslendingar hafi ekki getað samið á annan veg en þeir Svavar og Steingrímur J. gerðu, af þvi að þjóðin hefði tapað samningsstöðu með lyktum kalda stríðsins. Þessi rödd fræðimannsins er svo úr tenglsum við raunveruleikann, að með ólíkindum er, að henni skuli hleypt í fréttir.  Þetta er aðeins enn ein tilbúna afsökunin fyrir því, að ríkisstjórnin gerði hina lélegu Icsave-samninga og situr uppi með innlendan og alþjóðalegan, pólitískan vanda, án þess að ráða við hann. Staðreyndir benda þvert á móti til þess, að samningsstaða Íslands sé sterk sé rétt á málum haldið. Ég bendi að þessu sinni aðeins á niðurstöðu tveggja áhrifamikla álitsgjafa í breskum stórblöðum í dag, 9. janúar:

Bronwen Maddox er helsti álitsgjafi The Times í London um alþjóðamál. Hún skrifar grein í blaðið 9. janúar undir fyrirsögninni: Iceland says ‘Can't pay, won't pay' — and it is right; Ísland segir: „Get ekki borgað, ætla ekki að borga“ – og hefur rétt fyrir sér. Hefst hún á þessum orðum:

„Ísland hefur rétt fyrir sér. Bretland (og Holland) eiga að gefa eftir af þeim kröfum sínum, að Ísland borgi þeim að fullu til baka tapið vegna hruns Icesave-bankans.  Ríkin munu líklega verða að gera það – en áður en þau láta undan kann þvermóðska þeirra að hrekja Ísland, sem nú hefur innan sjónmáls að ganga í Evrópusambandið, á stig hins alþjóðlega ruslflokks.“

Vicki Woods, dálkahöfunur í The Daily Telegarph lýkur grein sinni um sama mál 9. janúar ár á þessum orðum:

„Ég held, að [Gordon] Brown hafi verið ruglaður, þegar hann í upphafi ákvað, að skattgreiðendur ættu greiða innistæður sparifjáreigenda í Kaupþingi og Landsbankanum, og ég sé ekki neina ástæðu til þess, að Íslendingar verði að „endurgreiða“ þetta fé til fjármálaráðuneytisins. Ekki lánuðu þeir fjármálaráðuneytinu peningana. Þeir verða hins vegar að prjóna heil reiðinnar býsn af lopapeysum, greyin.“

Þarna er kjarni málsins: Gordon Brown tók ranga ákvörðun, fól fjármálaráðuneytinu að láta Íslendinga borga fyrir hana í orðsins fyllstu merkingu og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur lagt Brown lið undir forystu þeirra Steingríms J. Sigfússonar og Svavars Gestssonar.

Þetta er sorgleg staðreynd. Bjarni Benediktsson boðaði á fundinum í Valhöll 9. janúar, að hann vildi hnekkja þessari stöðu, taka málið upp að nýju á raunverulega pólitískum forsendum og berjast til þrautar. Þætti mætti gera strax, en yrði að gera að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu, því að þjóðin mundi örugglega kjósa með eigin málstað en ekki málstað ríkisstjórnar Íslands, sem er jafnframt málstaður ríkisstjórna Bretlands og Hollands, þökk sé þeim Svavari og Steingrími J.