20.2.1995

Línurnar skýrast milli flokkana

Línurnar skýrast milli flokkana.
20. febrúar 1995

Á sama og ríkisstjórnin undir forystu Davíðs Oddssonar hefur þau afskipti af lausn kjaradeilunnar, sem miða að því að viðhalda stöðugleika á raunsönnum grunni, leggja andstöðuflokkar sjálfstæðismanna áherslu á hið gagnstæða. Þetta kemur glöggt fram, þegar litið er á áherslur þessara flokka við stefnumótun vegna kosninganna. Alþýðubandalagið og óháðir héldu svokallað stefnuþing um helgina. Þar var lagt á ráðin um vinstri stefnu, eins og það var orðað. Alþýðubandalagið notar ekki glamuryrðið félagshyggju að þessu sinni heldur talar um að komandi vor verði "vinstra vor". Árið 1968 ræddu menn um vorið í Prag. Það var gert vegna þess, að stefnt skyldi frá vinstri stefnu, þótt ekki væri gengið lengra en tala um "sósíalisma með mannúðlegt yfirbragð". Alþýðubandalagsmenn segja, að þeir hafi sagt skilið við kommúnistaflokkana í Austur-Evrópu, eftir að sovéskir skriðdrekar kæfðu vorið í Prag. Áherslan nú á vinstra vor á Íslandi sýnir á hinn bóginn, að enn halda alþýðubandalagsmenn dauðahaldi í kenningar, sem hafa gengið sér til húðar í stjórnmálum.

Það, sem helst skilur á milli stefnu Sjálfstæðisflokksins og þeirrrar stefnu, sem Alþýðubandalagið og óháðir kynntu um helgina, er oftrú vinstri manna á opinbera sjóði, sem myndaðir eru fyrir skattfé almennings. Vinstri stefnan byggist á hækkun skatta. Boðað er, að með þessum opinberu sjóðum sé unnt að bæta kjör námsmanna, létta undir með húsbyggjendum og öldruðum auk þess sem hjúkrunarþjónusta verði efld. Kjarni málsins er hins vegar, að þessi millfærslustefna hefur hvarvetna gengið sér til húðar. Í Svíþjóð hefur næstum gert ríkissjóð gjaldþrota. Í Bandaríkjunum hefur Bill Clinton forseti kúvent og boðar nú sparnað og aðhald í stað aukinna útgjalda.

Alþýðubandalagið hefur ekki eitt boðað, að haldið skuli inn á þessa millifærslu- og sjóðabraut, heldur setur hið sama svip sinn á stefnu Framsóknarflokksins og Þjóðvaka. Eitt fyrsta verk ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar sumarið 1991 var að ráðast að því sjóðakerfi, sem þá var lýði. Þá urðu miklar deilur um fortíðarvandann. Þær snerust um uppgjör á botnlausum sjóðum.