18.3.1995

Fundur með lögreglumönnum

Samband lögreglumanna bauð öllum flokkum að senda fulltrúa sína á fund, sem haldinn var í Borgartúni 6. föstudaginn 17. mars kl. 17.15. Fór ég þangað sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Er þetta í fyrsta sinn, sem lögrelumenn gangast fyrir fundi af þessu tagi.

Í ræðu minni lýsti ég þeirri skoðun, að standa bæri vörð um lögregluna og skapa henni sem best starfsskilyrði. Minnti ég, að undir lok þings hefði verið samþykkt að fella umdeilda grein úr hegningarlögunum, það er 108. grein, sem mælti fyrir um sérstaka vernd opinberra starfsmanna. Hefðum við sett inn í álit allsherjarnefndar um frumvarpið, að kæmi í ljós, að vernd eða réttarstaða lögreglumanna versnaði við þessa lagabreytingu yrði löggjafinn að bregðast við því. Það væri ekki ætlun hans að gera lögreglumönnum erfiðara að sinna störfum sínum.

Þá taldi ég, að gera yrði ótvírætt, hvert væri verksvið lögreglunnar við breyttar aðstæður. Minnti á, að í Bandaríkjunum væri svo komið, að 485.000 menn störfuðu í lögreglunni en um 800.000 menn sinntu einkaöryggisvörslu, sem kæmi óhjákvæmilega inn á verksvið lögreglunnar. Þessi þróun væri einnig hér á landi, hún mætti ekki veikja stöðu lögreglunnar.

Þess bæri og að minnast, að Ísland væri að verða hlið Evrópu, ef samningar um eitt passasvæði EES og ESB næðust. Það yrði að beita alþjóðlegri vinnubrögðum við skipulag lögreglumála. Einnig teldu ríki sér nú meira ógnað en áður af alþjóðlegum glæpahringjum. Við þessu yrðum við sjálfir að bregðast, þessu öryggismáli yrðum við að sinna með lögreglunni en ekki treysta á aðra.

Í umræðum kom ekki fram ágreiningur milli stjórnmálaflokkanna, þótt áherslur væru mismunandi. Var ánægjulegt að taka þátt í þessum fjölmenna fundi, sem sýndi, að lögreglumenn vilja meiri pólitískar umræður um málefni sín almennt en ekki aðeins um kjaramál eða fjárveitingar til löggæslu.