18.3.1995

Fundur um Stasi-málefni

Samtök um vestræna samvinnu (SVS) og Varðberg buðu hingað breskum prófessor David Childs til að fjalla um Stasi, eða austur-þýsku öryggislögreglunar. Var fjölmennur fundur haldinn með honum í hádeginu laugardaginn 18. mars. Eftir um klukkustundar erindi Childs stjórnaði ég pallborðsumræðum með honum Þór Whitehead prófessor og Árna Snævarr fréttamanni.

Umræður um Stasi og Ísland spruttu upp að nýju í tilefni af sjónvarpsþætti, sem þeir Árni Snævarr og Valur Ingimundarson gerðu og sýndur var í sjónvarpinu 5. febrúar síðastliðinn. Hinn 9. febrúar tók ég málið upp á Alþingi (sbr. ræðu mína, sem er að finna í greinasafni mínu hér undir utanríkismálum). Olli ræðan miklu uppnámi hjá alþýðubandalagsmönnum. Varð þetta allt kveikjan að því, að haft var samband við David Childs, en hann er að rita bók um Stasi.

Í fyrirlestri sínum rakti hann sögu þessarar einstæðu stofnunar, sem hafði 103.000 starfsmenn, þegar Berlínarmúrinn hrundi 1989, eða einn starfsmann á 165 íbúa A-Þýskalands. Fylgdist Stasi með stóru og smáu í landinu. Childs taldi bæði nauðsynlegt og eðlilegt að skoða Stasi-skjölin og ræða það, sem í þeim stæði fyrir opnum tjöldum, ekki síst, þegar menn í opinberum störfum ættu í hlut. Taldi hann, að sjálfsögðu kæmu í ljós mannlegir harmleikir, þegar skjölin væru skoðuð og yrði því að fara fram með fullri gát, á hinn bóginn fengi lýðræði ekki þróast án opinberrar umræðu um þessi mál.

Þeir Árni og Þór bentu á, að fyrir lægju skjöl, sem sýndu svart á hvítu, að hér hefðu starfað stjórnmálamenn fyrir fé og í þágu heimskommúnismans með sérstök tengsl við A-Þýskaland. Hvarvetna væri rætt um þessi mál, sem hluta af stjórnmálaumræðum, væri furðulegt, hve hér væri brugðist við af mikilli viðkvæmni.

Hjá fundarmönnum kom fram áhugi á því, að þessi mál yrðu könnuð frekar, því að ljóst er, að enn er mikið magn af skjölum órannsakað. Er raunar furðulegt, að íslenskir sagnfræðingar og stjórnmálafræðingar skuli ekki hafa lagt sig meira fram um að rýna í þessar heimildanámur. Er alls ekki útilokað, að unnt sé að finna skjöl, sem skráð eru afmáð í safni Stasi, þau kunni að vera í Moskvu og einnig hafi Bandaríkjamenn keypt mikið af skjölum.