21.10.1995

Sinfónían heimsótt

Í samræmi við áform mín um að heimsækja sem flestar stofnanir menntamálaráðuneytisins fór ég til Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Háskólabíó að morgni fimmtudagsins 19. október.



Þar var í forystu gestgjafa Hörður Sigurgestsson, forstjóri Eimskips, sem er stjórnarformaður Sinfóníunnar. Við hlýddum á æfingu og slógumst síðan í hóp tónlistarfólksins í kaffihléi þess. Þar flutti ég nokkur orð og gat þess, að fyrir mér vekti að búa þannig um hnúta, að ríkisvaldið viðurkenndi aðild sína að byggingu tónlistarhúss.



Hingað til eru það Samtök um tónlistarhús, sem hafa borið hita og þunga af því að berhast fyrir því, að slíkt hús risi. Hvorki ríki né Reykjavíkurborg hafa viðurkennt, að framkvæmdin væri á þeirra verksviði. Ég vil beita mér fyrir því, að hlutur ríkisvaldsins verði skilgreindur og viðurkenndur jafnframt því, sem komist verði að niðurstöðu um það, hvernig hús er nauðsynlegt að byggja, hvar og hverjir standi að því. Slík vinna tekur nokkurn tíma, en sé skipulega að henni staðið ætti henni að ljúka, svo að málið væri hæft til ákvörðunar á kjörtímabilinu.



1989 var leitað eftir því við þáverandi menntamálaráðherra, Svavar Gestsson, og fjármálaráðherra, Ólaf Ragnar Grímsson, flokksbræðurna í Alþýðubandalaginu, að ríkisvaldið tæki ákvörðun um aðild sína að byggingu tónlistarhúss. Er skemmst frá því að segja, að menn höfðu síður en svo erindi sem erfiði í samskiptum um þetta mál við þá félaga.



Í mínum huga staðfestir það enn þá skoðun, að alls ekki sé á vísan að róa, þegar menn líta til Alþýðubandalagsins sem málsvara menningarlegrar starfsemi. Goðsögnin um að sósíalistar eða áhangendur þeirra séu eitthvað menningarlegri en við, sem aðhyllumst borgaraleg viðhorf, er til marks um villuljós.



Einnig ræddi ég sérstaklega um nauðsyn þess að gera ráðstafnir til að með skipulegum hætti sé unnt að bregðast við boðum til Sinfóníunnar frá útlöndum eða stuðla að því, að hún komi fram erlendis. Með því er ekki aðeins ýtt undir metnað í starfi hennar heldur einnig unnið að landkynningu með ákaflega jákvæðum hætti.



Eftir fund með starfsfólkinu hitti ég stjórnarmenn og framkvæmdastjórn á fundi, þar sem við ræddum ýtarlega um hljómsveitina og málefni henni tengd. Heimsóknir eins og þessar eru ómetanlegar. Þær auðvelda töku ákvarðana og öll samskipti.