24.1.1999

Microsoft-samningar - ekki prófkjör - Economist

Miðvikudaginn 20. janúar ritaði ég undir samning við fulltrúa frá Norðurlandaskrifstofu bandaríska tölvufyrirtækisins Microsoft, sem miðar að því, að á næstu níu mánuðum verði Windows 98 og Interenet Explorer íslenskað. Eins og ég sagði í ræðu af þessu tilefni er samningurinn merkur áfangi í tölvu- og hugbúnaðarsögu okkar. Í fyrsta sinn hefur okkur tekist að komast inn fyrir skörina hjá þessu öflugasta fyrirtæki heims á þessu sviði, en það heldur sjálft á öllum réttindamálum, þegar að því kemur að þýða og staðfæra stýrikerfi eða annan hugbúnað. Er íslenskan 31. tungumálið, sem það samþykkir að verði hluti af tungumálaheimi Microsoft, ef þannig má að orði komast.

Um þessar mundir eru þrjú ár síðan við settum okkur það markmið í menntamálaráðuneytinu að frumkvæði nefndar, sem Ásdís Halla Bragadóttir, þáverandi aðstoðarmaður minn, stýrði, að íslenska þennan hugbúnað. Guðbjörg Sigurðardóttir, sem nú er orðin verkefnisstjóri í upplýsingatækni á vegum forsætisráðuneytisins, stýrði þeim starfshópi í vinnunni undir forystu Ásdísar Höllu. Þegar við Guðbjörg hittumst í Þjóðarbókhlöðunni síðastliðinn miðvikudag við undirritun samningsins, hafði hún á orði, að það hefði verið efi í ýmsra huga, hvort raunhæft væri að setja sér þetta sem markmið, að íslenska hugbúnaðinn, hvort menn væru ekki að reisa sér hurðarás um öxl. Sem betur fer tókum við þá ákvörðun á sínum tíma að gera kröfu um íslenskun á hugbúnaðinum, en með fyrstu gestum mínum í ráðuneytið, eftir að ég varð menntamálaráðherra vorið 1995 voru einmitt skólamenn, sem töldu óviðunandi, að íslenskan væri ekki hærra skrifuð í tölvum í skólum landsins, bentu þeir á Macintosh til marks um, að unnt væri að íslenska stýrikerfi og hugbúnað. 1993 hafði hins vegar verið ákveðið að DOS/Windows yrði lagt til grundvallar við gerð kennsluhugbúnaðar.

Í sjálfu sér lá ekki í hlutarins eðli, að Microsoft kæmi til móts við óskir okkar um íslenskun. Má segja, að erfiðast hafi verið að ná sambandi við réttu mennina innan þessa stóra fyrirtækis, þegar það hafði tekist, kom fljótt í ljós, að það væri unnt að ná samkomulagi um að íslenskan fengi þann sess innan dyra þess, sem henni ber. Hefur nú verið gengið frá því með samkomulagi.

Sjálfstæðismenn í Reykjavík komu saman síðdegis laugardaginn 23. janúar til að ákveða, hvernig staðið skyldi að skipan framboðslista þeirra fyrir kosningarnar 8. maí næstkomandi. Baldur Guðlaugsson, formaður Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, greindi þar frá því, að til þess að prófkjör færi fram í höfuðborginni yrði að bera upp tillögu um það á þessum fundi, kæmi engin slík tillaga fram mundi kjörnefnd raða á listann, en stjórn fulltrúaráðsins hafði ákveðið, að Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Granda hf., yrði formaður kjörnefndar. Engin tillaga um prófkjör kom fram og verður því raðað á framboðslistann að þessu sinni.

Röksemdir fyrir því að efna ekki til prófkjörs að þessu sinni eru margar. Meðal annars var það nefnt, að næðu hugmyndir um nýja kjördæmaskipan fram að ganga, yrði Reykjavík skipt í tvo kjördæmi í næstu kosningum, árið 2003. Næst yrðu því gjörbreyttar aðstæður í höfuðborginni og áreiðanlega efnt til prófkjörs til að skipa framboðslistann. Þá var nefnt, að þeir væru næsta traustir í sessi, sem nú væru á lista flokksins í Reykjavík og þess vegna ólíklegt, að miklar breytingar yrðu með prófkjöri. Loks var bent á, að prófkjör kallaði á mikil útgjöld og auk þess hættu á sundurlyndi og vandræðum innan flokksins.

Allt er þetta gott og gilt. Ég hugsaði mig tvisvar um haustið 1990, þegar ég ákvað að fara í prófkjör við skipan framboðslistans vegna kosninganna vorið 1991. Ég hafði þá verið blaðamaður á Morgunblaðinu síðan 1979 og einkum fjallað um öryggis- og varnarmál auk þess að stýra erlendri fréttadeild blaðsins og skrifa stjórnmáladálka þess. Lá það alls ekki í hlutarins eðli, að ég næði því sæti, sem ég óskaði eftir, þriðja sætinu. Mál fóru þó á þann veg, en baráttan var hörð. Hún var ekki síður hörð í prófkjörinu haustið 1994, þegar raðað var á listann fyrir kosningarnar vorið 1995. Þá stefndu fleiri á þriðja sætið heldur en ég. Hart var barist 1994 en áfram var ég í þriðja sætinu.

Ég þarf því ekki að kvarta undan prófkjörum, ef ég lít á þann árangur, sem ég hef náð í slíkum slag. Ekki síst ef miðað er við það, sem margir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins héldu fram, þegar þeir skilgreindu stöðu manna í prófkjörsslagnum. Nú beina spámenn einkum athyglinni að stöðu manna í prófkjörsslag hjá bræðingi eða vandræðabandalagi vinstrisinna. Er fyllsta ástæða til að benda frambjóðendum á að taka varlega mark á öllu slíku tali, það einkennist meira af óskhyggju spámannsins en hlutlægu mati eða innsæi, því að yfirleitt eru það nafnlausir heimildarmenn, sem spámaðurinn notar til að rökstyðja niðurstöðu sína.

Fyrir þessar kosningar efnir Sjálfstæðusflokkurinn til prófkjara í þremur kjördæmum, Reykjaneskjördæmi, þar sem Ólafur G. Einarsson efsti maður hættir, Austurlandskjördæmi, þar sem Egill Jónsson, efsti maðurinn hættir, og Suðurlandskjördæmi, þar sem Þorsteinn Pálsson, efsti maðurinn hættir. Í fimm kjördæmum raða kjörnefndir á listana. Má segja, að í þessu endurspeglist sá stöðugleiki, sem nú ríkir innan Sjálfstæðisflokksins undir forystu Davíðs Oddssonar. Ánæjulegt er, hve Arnbjörg Sveinsdóttr náði góðum árangri á Austurlandi og verður hún fyrsta konan til að leiða framboðslista fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þingkosningum.

Vikuritið The Economist birtir í síðasta tölublaði sínu úttekt á Norðurlöndunum og leggur mat á stöðu einstakra ríkja. Ísland fær mjög góða dóma í þessari úttekt. Þar er til dæmis ekki að finna neinar ráðleggingar, sem ganga út á það, að Íslendingar treysti stöðu sína með aðild að Evrópusambandinu, svo að dæmi sé nefnt. Hins vegar telur blaðið skynsamlegt að losa um þá tvípólun, sem því þykir ríkja í íslensku atvinnulífi vegna átaka milli kolkrabbans og smokkfisksins.

Í sama tölublaði The Economist er að finna úttekt á stöðu flokka hægra megin við miðju í Evrópu. Þar er meðal annars komist þannig að orði, að andstæðingar vinstrimennsku hafi unnið hugmyndafræðilega stríðið en tapað kosningaslag. Einnig er á það bent, að fyrir flokka hægra megin við miðju sé erfitt að skilgreina stöðu sína, eftir að gömlu vinstrisinnarnir hafi unnið kosningar með því að taka upp mörg helstu baráttumál andstæðinga sinna. Spáir blaðið því, að þjóðernishyggja, í jákvæðum skilningi, muni setja meiri svip á stefnu flokkanna hægra megin við miðju en áður.