3.7.2000

Kristnihátíð á Þingvöllum

Kristnihátíðin á Þingvöllum verður öllum ógleymanleg, sem hana sóttu. Veðrið var einstakt, dagskráin vel úr garði gerð og meðal mannfjöldans ríkti hátíðleg gleði. Hátíðin var vandlega skipulögð og undirbúin og skilaði öll sú vinna glæsilegum árangri.

Undirbúningur hátíðarinnar tók verulegt mið af því, að árið 1994, þegar minnst var 50 ára afmælis lýðveldisins á Þingvöllum, fór skipulag og stjórn umferðarmála úr böndum. Nú skyldi staðið betur að þessum þætti og var það gert af mikilli festu undir stjórn ríkislögreglustjóra og vegagerðarinnar. Gert var ráð fyrir, að umferðin yrði snurðulaus, þótt allt að 75 þúsund manns kæmu á hátíðina, og ákvörðunin um að skipta henni á tvo daga byggðist einnig á viðleitni til að dreifa umferðarþunganum.

Í fjölmiðlaumræðum var hátíðin að verulegu leyti kynnt á þeim forsendum, að búist væri við því, að allt að 75 þúsund manns sæktu hana. Þegar sú tala náðist ekki, var látið eins og einhverjir hefðu tapað í vinsældakeppni. Herra Karl Sigurbjörnsson biskup sagði réttilega í útvarpsviðtali að kvöldi sunnudagsins 2. júlí, að mestu skipti, að þeir, sem hátíðina sóttu væru ánægðir. Ef ég met það eftir þeim mikla fjölda fólks, sem ég hitti báða hátíðardagana á Þingvöllum, hef ég enga ástæðu til að draga ánægju gestanna í efa. Þvert á móti staðfestu viðbrögðin þá skoðun mína, að þeir, sem létu undir höfuð leggjast, að sækja hátíðina hafi sannarlega misst af miklu. Ýmsa hef ég hitt, sem þótti mjög ánægjulegt að fylgjast með hátíðinni í sjónvarpi RÚV.

Þetta er þriðja hátíðin, sem ég sæki á Þingvöllum, ellefu alda fmælishátíðin 1974, 50 ára lýðveldisafmælið 1994 og nú þessi. Eftir það, sem fór úr skorðum 1994, hafa menn spáð því, að þjóðvegahátíðin mundi endurtaka sig árið 2000. Skipuleggjendur hafa því í um það bil sex ár verið að berjast við, að hátíðin kafnaði ekki í umferðaröngþveiti - þannig sannaðist enn, að menn eru alltaf að heyja síðasta stríð, þegar þeir gera áætlanir um hið næsta. Allar skilja þessar hátíðir eftir góðar minningar en bæði nú og 1994 sat ég á alþingi og tók þátt í hátíðunum á þeirri forsendu.

Er hátíðlegt að ganga fylktu liði niður Almannagjá á þingpallinn og að þessu sinni var það ekki síst eftirminnilegt vegna tónlistarinnar, því að ómar frá hornaflokki og kórum fylgdu okkur á göngunni. Þáttur tónlistar var mikill á kristnihátíðinni og komu þar margir við sögu, ungir sem aldnir. Hápunkturinn var þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands efndi til tónleika með einsögvurum og kórum undir stjórn Harðar Áskelssonar síðdegis 2. júlí. Margir höfðu einnig orð á því, að gospel-tónleikarnir á laugardagskvöld hefðu verið skemmtilegir en þá var ég fjarri góðu gamni. Aðstaða til að flytja tónlist og talað mál var einstök á hinu mikla sviði.

Var einstakt að taka þátt í hinni miklu messu, sem efnt var til klukkan 13.30 á sunnudeginum að loknu ávarpi Davíðs Oddssonar forsætisráðherra og frumflutningi á eftirminnilegu , frumsömdu tónverki Tryggva M. Baldvinssonar. Hápunktur messunnar var altarisgangan, sem fór fram meðal mannfjöldans í hlíðinni fyrir ofan sviðið og framan við altarið. Var sú hátíðlega athöfn jafnvel skipulögð og annað, sem þarna gerðist.

Við þingmenn sátum á þingpalli fyrir hádegi á sunnudeginum og samþykktum þar samhljóða ályktun um Kristnhátíðarsjóð, vantaði aðeins einn þingmann, Jóhönnu Sigurðardóttur. Var næsta sérkennilegt að verða vitni að því, að of sterk sól og hiti truflaði gesti helst við þessa athöfn. Þingmenn sneru baki í sólu, þannig að hún skein beint í augun á þeim, sem sátu andspænis okkur. Edward kardínali Cassidy, sérlegur sendimaður páfa, hélt til dæmis oft blaði fyrir andliti sínu til að verja það fyrir sterkri sólunni. Cassidy kardínáli er háttsettur í Páfagarði, því að hann er í hópi þeirra kardínála, sem starfar næstur páfa, og félli páfi frá, myndi það að sögn koma í hlut kardínálans að kalla starfsbræður sína saman til páfakjörs og leiða það. Þarna var einnig Longin erkibiskup frá Klin, fulltrúi Ortodoxu-kirkjunnar. Hann er sendimaður kirkju sinnar með búsetu í Düsseldorf í Þýskalandi og var fróðlegt að ræða við hann en aldrei áður hefur mér gefist færi á að hitta háttsettan mann úr þessari kirkju. Taldi hann fulla ástæðu til að huga að því, hvort hún ætti að halda úti presti hér á landi til að þjóna fólki, sem er í Ortodoxu-kirkjunni.

Fyrri dag hátíðarinnar, laugardaginn 1. júlí, vorum við komin til Þingvalla um klukkan 10.30 og gengum með Júlíusi Hafstein, framkvæmdastjóra hátíðarnnar, frá Hakinu í Stekkjargjá, þar sem það kom í minn hlut að opna einstæða myndlistarsýningu en aðdraganda hennar lýsi ég í ávarpi mínu við athöfnina. Var ánægjulegt að fara um hátíðarsvæðið með Júlíusi og heyra, hve margir fögnuðu góðu skipulagi á svæðinu.

Töluverður hópur fólks var í Stekkjargjánni klukkan 11.30, þegar athöfnin hófst. Streymdi það niður hinar miklu tröppur, sem höfðu verið reistar fyrir sunnan Öxarárfoss og vestan við ána, og gekk fólkið síðan yfir brúna fyrir neðan fossinn, en mannvirkin voru hönnuð með það fyrir augum að geta sinnt um 10.000 manns á klukkstund. Hverfa þau að hátíðinni lokinni en í Stekkjargjá verður áfram einfaldur tréstígur, sem mun hlífa gróðri og einnig opna leið fólks að fossinum og norður í gjána frá nýhlöðnu steintröppum upp af Völlunum, en ætlun Þingvallanefndar er að móta nýja gönguleið upp að fossi, bæði til að auðvelda fólki að komast þangað og einnig í því skyni að hlífa náttúrunni.

Undanfarin ár hafa Þingvallanefnd og starfsmenn hennar undir forystu Sigurðar Oddssonar þjóðgarðsvarðar unnið að margvíslegum aðgerðum til að auðvelda umferð gangandi fólks um þjóðgarðinn. Hefur verulegur árangur náðst í stígagerð. Stærsta verkefni á þessu sviði verður að reisa gestastöðina, sem búið er að teikna og á að reisa á Hakinu. Hafa þegar verið gerð bílastæði þar í samræmi við hið nýja skipulag og er öll aðkoma bifreiða aulveldari en áður. Sömu sögu er að segja um bílastæði við Peningagjá en brúin þar hefur verið endurreist í fyrri mynd. Geta stórir bílar nú athafnað sig þar með mun auðveldari hætti en áður.

Meðal nýrra mannvirkja, sem standa eftir þessa hátíð, er tréstigi úr Hamraskarði í Almannagjá niður að Öxará að brúnum, sem við ákváðum að láta standa eftir hátíðina 1994. Stiginn nýttist okkur þingmönnum við gönguna á þingpallinn og framvegis mun hann hlífa gróðri á þessum stað og auðvelda umferð, en það er mjög vinsælt að ganga þessa leið.

Sem formaður Þingvallanefndar fór ég í snögga skoðunarferð um hátíðarsvæðið að morgni mánudagsins 3. júlí og sást ekki neins staðar, að unnið hefði verið tjón á náttúru þjóðgarðsins og hvergi sáust þess í raun merki, að mörg þúsund manns hefðu verið þarna um helgina svo snyrtileg var umgengnin og vel að verki staðið hjá þeim hópi ungs fólks, sem tók að sér að annast umhirðu á svæðinu. Menn höfðu hafist handa við að fella stóra sviðið, sem var fengið frá Bretlandi, og veislu- og þjónustutjöld. Mun ekki líða á löngu, þar til allar minjar um þessa góðu hátíð hverfa á Þingvöllum, þótt minningin um hana muni gleðja okkur, sem sóttum hana, um langan aldur.