26.5.2002

Að loknum kosningum – kaflaskil um hvítasunnu - umræðuþættir.


Úrslitin í borgarstjórnarkosningunum eru langt frá því, sem mér er að skapi. Eins og lesendur síðu minnar vita hef ég síðustu mánuði leitt framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og við stefndum að sjálfsögðu að því, að R-listinn færi ekki með völd í borginni þriðja kjörtímabilið í röð. Þetta markmið náðist ekki og hlaut listi okkar aðeins rúmlega 40% fylgi, en það er með því lægsta, sem hann hefur fengið í Reykjavík.

Um leið og þetta er sagt er jafnframt nauðsynlegt að taka fram, að nú bauð Ólafur F. Magnússon, sem hefur verið borgarfulltrúi sjálfstæðismanna í 12 ár, fram sérstakan lista og eftir því sem ég fæ séð hefur aldrei fyrr komið til klofnings Sjálfstæðisflokksins vegna bæjar- eða borgarstjórnarkosninga í Reykjavík. Í þingskosningum 1987 bauð Borgaraflokkurinn undir forystu Alberts Guðmundssonar, sem var borgarfulltrúi, þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, fram og þá hlaut Sjálfstæðisflokkurinn aðeins 29% atkvæða. Þeir Ólafur F. og Albert eiga það sameiginlegt, að báðir hurfu frá trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík í framboð gegn honum.

Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálafræðingur og túlkandi kosningaúrslitanna í RÚV, segir Sjálfstæðisflokkinn aldrei hafa fengið minna fylgi í kosningum í Reykjavík án þess að hafa nokkurn fyrirvara á yfirlýsingu sinni. Hefði þó mátt ætla, að fræðimaður léti þess getið, að nú væru aðstæður sérstakar vegna klofningsframboðs og einnig, hvort yfirlýsing hans byggðist aðeins á mati á borgarstjórnarkosningunum eða hann væri einnig með þingkosningar í huga, en þá ætti hann að minnast á kosningarnar 1987.

Þessi sögulega upprifjun breytir engu um niðurstöðuna núna. Hún er staðreynd, sem ekki verður breytt. Fyrir 12 árum varð það mér hvatning til að bjóða mig fram til alþingis, að Sjálfstæðisflokkurinn fékk ekki nema 29% í kosningunum 1987 og í þingkosningunum 1991 fékk flokkurinn 46,3% í borginni og hefur síðan farið með forystu í ríkisstjórn. Það staðfestir góða stöðu Sjálfstæðisflokksins, að í kosningunum núna minnkaði fylgi hans aðeins um 1,5% á landsvísu, þótt við töpuðum 5% í Reykjavík. Þetta sýnir að sjálfsögðu mikinn styrk Sjálfstæðisflokksins og furðulegt að hlusta á þá fjölmiðlamenn, sem láta eins og flokkurinn komi ekki almennt sterkur frá þessum kosningum, en segja síðan í sömu andránni, að R-listinn hafi unnið stórsigur í Reykjavík, þar sem hann tapaði 1%.

Kaflaskil um hvítasunnu.

Að sjálfsögðu er spurt um skýringu á niðurstöðunni í Reykjavík. Framboð Ólafs F. Magnússonar veitir skýrasta svarið. Þegar litið er á þróun fylgis samkvæmt skoðnanakönnunum má sjá, að laugardaginn fyrir hvítasunni, réttri viku fyrir kosningar, sýndu þær, að ekki væri tölfræðilegur munur á milli R-lista og D-lista en fram til þess, hafði munurinn verið á bilinu 10 til 17%. Að kvöldi þessa dags birtist frétt í sjónvarpinu þess efnis, að hugsanlega kynni Ólafur F. Magnússon að fella Ingibjörgu Sólrúnu. Það var hringt í mig frá RÚV rétt um klukkan 18.00 þennan laugardag og sagði fréttamaðurinn, að mikið lægi við að ná í mig í samtal vegna Gallup-könnunar sem sýndi þennan litla mun og hefði fréttastofan ákveðið að bregða upp þeirri túlkun á könnuninni, að keppnin stæði milli Ólafs F. og Ingibjargar Sólrúnar – hann gæti fellt hana. Það hefði verið rætt við þau en gleymst að ná í mig fyrr en núna um klukkustund fyrir fréttir, þótt könnunin sýndi 14% sveiflu til Sjálfstæðisflokksins. Ég varð undrandi á þessar túlkun um keppni þeirra Ólafs og Ingibjargar en tjáði mig ekki um það í fréttaviðtalinu heldur sveifluna yfir til Sjálfstæðisflokksins.

Eftir að þessi frétt birtist í RÚV gætti þess æ meira í auglýsingum R-listans, að hlut Ingibjargar Sólrúnar var haldið fram. Öllum öðrum frambjóðendum R-listans var í raun ýtt til hliðar í baráttunni og málefni hurfu einnig í skuggann fyrir Ingibjörgu Sólrúnu og var gefið til kynna, að hún væri að falla. Inn á hvert heimili í borginni var dreift blaði með mynd af Ingibjörgu með þessari fyrirsögn: Borgarstjórinn er í baráttusætinu, en texti meginmálsins hófst á þessum orðum: „Kosningarnar á laugardaginn snúast um framtíð Reykjavíkur og um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra.“

Lokaþátturinn í kosningabaráttu R-listans snerist um þetta atriði, þótt talsmenn listans reyndu einnig að nýta sér viljayfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar og Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra um aukinn þátt ríkisins í fjárveitingum til að koma upp hjúkrunarrýmum – í einhverjum viðræðum mínum við Ingibjörgu Sólrúnu kom fram, að hún vissi þó ekki um hvað yfirlýsingin snerist, því að hún hélt að þar væri verið að fjalla um rekstrarkostnað, þegar yfirlýsingin snerist um þátttöku í stofnkostnaði. Í sjónvarpsumræðum eftir kosningar hafa Ólafur F. Magnússon og fréttamenn talið, að athugasemdir úr ríkisstjórn vegna þessarar viljayfirlýsingar hafi snúið fylgi frá okkur sjálfstæðismönnum. Ég sagðist líta þannigt á, að kosningalestin okkar hefði farið út á hliðarspor vegna málsins en verið fljót að komast á rétta braut aftur, en málið komst í fréttir eftir ríkisstjórnarfund föstudaginn fyrir hvítasunnu, viku fyrir kosningar. Í lokaumræðuþættinum í sjónvarpinu föstudagskvöldið fyrir kjördag bar þetta mál ekki hátt, enda málstaður andstæðinga okkar sjálfstæðismanna ekki góður, vegna þess að stefna okkar réð því, að rætt var um hjúkrunarrými í kosningabaráttunni og líklega var það þunginn í þeirri umræðu af okkar hálfu, sem knúði R-listans og Jón að gefa út viljayfirlýsinguna, en það mátti skilja orð Helga Hjörvars, borgarfulltrúa og nú varaborgarfulltrúa R-listans, þannig í Silfri Egils eftir kosningar, að hann hefði fengið það hlutverk að vinna að yfirlýsingunni með Jóni.

Umræðuþættir

Síðustu vikuna fyrir kosningar vorum við oddvitar D, F og R-lista á fundi í beinni útsendingu á útvarpi Sögu, síðdegis annan í hvítasunnu. Síðan vorum við .þrjú í Silfri Egils að kvöldi miðvikudagsins 22. maí, við Ingibjörg Sólrún í Íslandi í bítið að morgni 23. maí. Klukkan 14.00 föstudaginn 24. maí var tekinn upp umræðuþáttur með okkur þremur á Stöð 2, sem síðan var sendur út sem Ísland í dag að kvöldi þessa föstudags fyrir kosningar skömmu áður en við fórum í lokasjónvarpsþáttinn fyrir kosningar hjá RÚV kl. 21.30.

Eftir kosningar vorum við þrjú saman í dagskrá RÚV um kl. 00.30 sunnudaginn 26. maí, klukkan 12.20 þann sama dag vorum við þrjú í aukafréttatíma Stöðvar 2 og síðan í Kastljósi kl. 19.40 um kvöldið.

Ég ætla ekki að endursegja þessa þætti eða fara orðum um efni þeirra. Það þykir áberandi, samkvæmt tölvubréfi til mín, hve Agli Helgasyni er tamt að grípa fram í fyrir okkur sjálfstæðismönnum. Leiddi ég hugann að þessu, þegar ég horfði á þátt Egils í dag, þar sem Guðlaugur Þór Þórðarson borgarfulltrúi okkar sjálfstæðismanna átti fullt í fangi með að ljúka setningum sínum vegna þess að Egill var alltaf taka af honum orðið. Stjórn Egils er stundum ómarkviss og tilviljanakennd auk þess sem hann nálgast málefni um of út frá frekar þröngum einkasjónarmiðum sínum.

Mér þótti stjórnendum Íslands í dag og þeim Boga Ágústssyni og Kristjáni Kristjánssyni hjá RÚV takast vel að stýra umræðuþáttunum föstudaginn fyrir kosningar.