26.10.2002

Prófkjör - stjórnsýsla í Háskóla Íslands – mál- og fundafrelsi forsætisráðherra.

Sjálfstæðismenn í Reykjavík efna til prófkjörs 22. og 23. nóvember vegna alþingiskosninganna 10. maí 2003. 17 frambjóðendur gefa kost á sér, föngulegur hópur ungs fólks fyrir utan okkur þingmennina.

Ég hef lýst yfir áhuga á að fá fylgi í 3ja sætið í prófkjörinu. Allt frá því ég bauð mig fyrst fram í prófkjöri haustið 1990 vegna þingkosninganna 1991 hef ég sett markið á 3ja sætið. Ég náði því þá og hélt því í prófkjörinu haustið 1994 vegna þingkosninganna vorið 1995. Þá stefndu fleiri markvisst á 3ja sætið en ég og varð allhörð barátta um það. Friðrik Sophusson, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hlaut þá annað sætið. Hann hvarf af vettvangi stjórnmálanna fyrir kosningarnar 1999 – þá var ekki prófkjör og fluttist ég í annað sæti á listanum.

Við prófkjör skapast sérstakt andrúmsloft í hópi fólks, sem vinnur saman að hugsjónum Sjálfstæðisflokksins. Mitt markmið hefur alltaf verið að haga baráttu minni þannig, að henni sé ekki stefnt gegn neinum heldur að því að styrkja Sjálfstæðisflokkinn sem mest. Hef ég það enn að leiðarljósi.

Þegar nær dregur kjördegi opna ég kosningaskrifstofu. Hvet ég alla, sem vilja leggja mér lið, til dáða. Á kjörskrá eru um 16.000 manns, svo að höfða þarf til stórs hóps kjósenda, auk þess sem fólk utan Sjálfstæðisflokksins getur tekið þátt í prófkjörinu með því að skrá sig í flokkinn.

Góð ráð og ábendingar eru vel þegnar. Netfang mitt er bjorn@centrum.is


Stjórnsýsla í Háskóla Íslands.

Umboðsmaður alþingis hefur birt álit vegna kvörtunar umækjanda um starf við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Í álitinu segir:

„Umboðsmaður ákvað að fjalla sérstaklega um málsmeðferð við úrlausn um sérstakt hæfi þeirra sem taka þátt í að veita umsagnir um umsækjendur á fundum í skorum og deildum Háskóla Íslands. Taldi hann að ganga yrði út frá því að reglur II. kafla stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi giltu að jafnaði um það þegar skorir, stofnanir innan Háskóla Íslands eða deildarfundir veittu álit eða gerðu tillögu um veitingu starfs háskólakennara. Fengi hann hins vegar ekki séð að neinar skráðar reglur væru til um það innan Háskóla Íslands hvernig haga ætti málsmeðferð við ákvörðun um það hvort atkvæðisbær fundarmaður ætti að víkja sæti, sbr. 5. gr. stjórnsýslulaga. Taldi umboðsmaður því rétt að mælast til þess við Háskóla Íslands að tekið yrði til athugunar hvort og þá með hvaða hætti heppilegast væri að framkvæma í einstökum tilvikum þau fyrirmæli sem fram koma í 5. gr. stjórnsýslulaga að virtum þeim sérstöku aðstæðum sem einkenna málsmeðferð við veitingu starfa háskólakennara. Yrði þá tekið til athugunar hvort þörf væri á því að móta tilteknar skráðar reglur í þessu efni fyrir skorir, stofnanir innan háskólans eða deildir þar sem afstaða væri tekin til þess til hvaða aðila atkvæðisbærum fundarmanni bæri að tilkynna um hugsanlegt vanhæfi sitt og einnig til þess hver skyldi taka ákvörðun um hæfi hans.”

Varðandi rökstuðning til umsækjanda taldi umboðsmaður, að Háskóla Íslands hefði verið skylt að tilkynna honum um ákvörðun í málinu án ástæðulausrar tafar. Þá taldi umboðsmaður ótvírætt að umsækjandi ætti rétt á því að ákvörðun rektors í málinu yrði rökstudd. Það væri verulegur annmarki á málsmeðferð Háskóla Íslands að þess skyldi ekki gætt að haga undirbúningi ákvörðunar rektors þannig að unnt væri að rökstyðja þá ákvörðun sem tekin var. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til Háskóla Íslands að leitast yrði við að rökstyðja ákvörðun rektors í samræmi við lögákveðnar kröfur.

Þegar ég las þetta álit umboðsmanns, kom tvennt í huga minn:

Í fyrsta lagi hvar þeir fræðimenn við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, sem hafa oft gengið fram fyrir skjöldu og gagnrýnt okkur stjórnmálamenn fyrir að gæta ekki nægilega að stjórnsýslureglum við ákvarðanir, voru við afgreiðslu þessa máls. Einn þeirra Gunnar Helgi Kristinsson prófessor sendi árið 1994 frá sér fræðiritið Embættismenn og stjórnmálamenn um skipulag og vinnubrögð í íslenskri stjórnsýslu. Þar segir meða annars:

„Ef fagleg vinnubrögð eru ekki í heiðri höfð í stjórnmálum og stjórnsýslu leiðir það til spillingar og slakrar stefnumótunar. Vönduð efnisleg meðferð mála víkur þá fyrir annarlegum sjónarmiðum eða einfaldlega skipulagsleysi. Það er meira en bara illur grunur að nokkuð hafi skort á fagmennsku í opinberu lífi á Íslandi.”

Þessi orð eiga að sjálfsögðu við, ef teknar eru stjórnsýsluákvarðanir af öðrum en stjórnmálamönnum.

Hitt sem kom í huga minn voru umræður um stjórnskipulag Háskóla Íslands í tilefni af síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins vegna orða, sem féllu í setningarræðu Davíðs Oddssonar, formanns flokksins og forsætisráðherra. Davíð kvað fast að orði um nauðsyn þess að gera gagngerar breytingar á stjórnarfyrirkomulagi innan Háskóla Íslands, núverandi fyrirkomulag væri full veikt og stirt og ekki fyllilega í takt við nútíma stjórnarhætti, þótt þar héldu margir ágætir menn um stjórnartaumana og í Kastljósi eftir setningu landsfundarins sagði Davíð, að hann væri ekki að beina spjótum sínum að Páli Skúlasyni háskólarektor heldur að skipulaginu og nefndi þá, að hann teldi til dæmis stjórn einstakra deilda skólans alltof veika. Það yrði að vinna bráðan bug að því að taka upp nýja stjórnarhætti eins og gert hefði verið víða á Norðurlöndum til að styrkja háskólann til að keppa á alþjóðavettvangi. Í ræðunni sagði hann: „Það skortir mjög á að háskólamennirnir sjálfir hafi tekið stjórnunarlega veikleika Háskóla Íslands til alvarlegrar umræðu, en fjöldi dæma frá liðnum árum sýnir að nauðsynlegt er, að gera gagngerar breytingar án tafar eigi háskólinn að hafa í fullu tré við alþjóðlega samkeppni.”

Í Morgunblaðinu í dag er skýrt frá því, að Margrét S. Björnsdóttir hafi verið ráðin forstöðumaður nýrrar háskólastofnunar, Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála innan félagsvísindadeildar. Af því tilefni er tekið fram í fréttatilkynningu frá háskólanum, að mikið sé í húfi varðandi fagmennsku og skilvirkni í opinberum rekstri ekki síður en einkarekstri.

Skynsamlegt væri, að stofnunin léti það verða sitt fyrsta verkefni að kanna stjórnarhætti Háskóla Íslands. Þá hafa einnig skapast skilyrði fyrir því að bera saman rekstur ríkisins og einkaaðila á háskólum hér á landi, fyrir utan að bera saman háskólastarf á alþjóðlegum forsendum. Sú skoðun á vaxandi fylgi að fagna, að ríkisreknir háskólar eigi undir högg að sækja gagnvart einkareknum og losa verði skólana úr ríkisviðjum, til að þeir standist samkeppni og sífellt meiri kröfur nemenda.

Í ljósi umræðnanna um álit umboðsmanns alþingis á aðferðum félagsvísindadeildar við ráðningu á starfsmönnum, saknaði ég þess í frétt Morgunblaðsins um hina nýju stofnun, að þess væri getið hvaða aðferð eða ferli var notað við ráðningu forstöðumanns stofnunarinnar. Kannski gilda engar reglur um það innan Háskóla Íslands?

Mál- og fundafrelsi forsætisráðherra

Enn einu sinni standa vinstrisinnar á öndinni og eru að springa vegna hneykslunar á orðum eða athöfnum Davíðs Oddssonar. Þeir, sem fletta pistlunum á vefsíðu minni, sjá, að hvað eftir annað ár eftir ár hef ég brugðið upp mynd af því, hvernig þetta fólk hefur farið hamförum vegna þess, sem Davíð hefur gert eða sagt. Slík hrina hefur nú staðið um nokkra hríð og þá gerist það, sem venjulega einkennir viðbrögð hins almenna borgara, að vinsældir Davíðs aukast.

Hallgrímur Helgason rithöfundur hefur bæst í hóp þeirra, sem geta vart komið orðum að tilfinningum sínum vegna framgöngu Davíðs. Þykir Hallgrími mikið um, að Davíð bað hann að ræða við sig, eftir að Hallgrímur ritaði Morgunblaðsgrein um samsæri Davíðs gegn Baugi með aðild lögreglunnar.

Fram hefur komið, að Hallgrímur noti upplýsingatækni á þann veg, að sá, sem vill við hann ræða og hringir í síma til hans, fær boð um að senda rithöfundinum tölvubréf og greina frá erindinu. Síðan tekur Hallgrímur ákvörðun um, hvort hann bregst við erindinu. Þessa leið fór forsætisráðuneytið, þegar Davíð vildi skýra Hallgrími frá sínum sjónarmiðum eftir Morgunblaðsgreinina.

Hallgrímur skýrði frá samtalinu í einkasamtölum og ræddi það loks opinberlega í viðtali við Hallgrím Thorsteinsson á útvarpi Sögu 21. október. Daginn eftir varð sá einstæði atburður, að hluti viðtalsins var fluttur í Spegli hljóðvarps ríkisins og Hjálmar Sveinsson kallaði á Herdísi Þorgeirsdóttur þjóðréttarfræðing til að fjalla um skoðanakúgun og um ofríki valdsins eins og það birtist Herdísi og Hallgrími Helgasyni rithöfundi! Hvort fleiri viðtöl úr útvarpi Sögu verða endurflutt í Speglinum til að ýta undir „fræðilegar” umræður um stöðu fjölmiðla og skoðanakúgun, er ekki vitað. Hjálmar gæti til dæmis endurflutt sýnishorn af því, hve Sigurður G. Tómasson, þáttarstjórnandi á útvarpi Sögu, er hugrakkur, þegar hann ræðst að forsætisráðherra.

Í Sögu-viðtalinu sagði Hallgrímur Helgason meðal annars um viðbrögð fólks við frásögn hans af fundi þeirra Davíðs:

„ En svona gegnumsneitt þá er er fólk frekar hneykslað á þessu og ég hef fengið mikið af svona símtölum. Og það er svona kannski mest sláandi í sambandi við það er að fólk vill segja manni sko, fólk hefur verið mikið að segja sögur. Já, einmitt þetta er svona íslenska þjóðfélagið í dag. Davíð er bara með hendurnar á öllu, puttana í öllu og hann vill stjórna öllu og ég kann þessa sögu og svo segir það manni þessa sögu. En það þorir aldrei t.d. að segja þetta í tölvupósti. Mér finnst það svolítið svona einkennandi fyrir ástandið og mér finnst það dálítið svakalegt að ástandið sé orðið þannig að menn séu of hræddir að senda hluti í tölvupósti, bara einfaldlega hræddir við valdið.”

Merkilegt er, að Hallgrímur segir fólk hrætt við að staðfesta í tölvupósti það, sem sagt er við hann í síma [Hallgrímur talar einnig í síma], af því að það er hrætt við valdið. Hvað er hann að segja okkur, sem notum tölvupóst mikið? Að forsætisráðherra sitji og lesi hann? Að fólk óttist að Hallgrímur fari lengra með það, sem hann fær í tölvupósti? Stafar það af því, að hann fór að ræða einkasamtal sitt við forsætisráðherra opinberlega?

Upphlaupinu núna lýkur eins og endranær, þegar vinstrisinnar hrópa: Úlfur, úlfur! vegna Davíðs Oddssonar. Þegar allir Merðir á vinstri vængnum hafa blásið út, lýkur moldviðrinu og beðið er næsta upphlaups. Fróðlegast er að sjá, hverjir vitna um hneykslun sína fyrir utan hina hefðbundnu þátttakendur.

Nú bættist Ágúst Ólafur Ágústsson, formaður Ungra jafnaðarmanna og frambjóðandi í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík í hópinn, með ungæðislegri Morgunblaðsgrein undir heitinu Fall forsætisrráðherrans. Ef Ágúst Ólafur ætlar að leggja stund á stjórnmál án þess að ræða þau mál, sem hann vill, að forsætisráðherra ræði ekki, skil ég ekki, hvers vegna hann er að gefa kost á sér. Er það virkilega skoðun vinstri manna, að forsætisráðherra megi ekki ræða við þá, sem hann kýs, um þau málefni, sem hann kýs? Er hin pólitíska rétthugsun ekki í ógöngum, ef stjórnmálamenn mega ekki ræða stjórnmál, hafa skoðanir á þeim eða skýra eigin afstöðu í einkasamtölum og opinberlega?