18.1.2003

Átta ára vefsíða - sögulegur borgarstjórnarfundur - afstaða Ingibjargar Sólrúnar - ríkissósíalistar - tvíeyki - misskilin stjórnmálasaga. 

Átta ára vefsíða.

 

Í dag, laugardaginn 18. janúar 2003, eru átta ár síðan ég hóf að skrifa efni á þessa síðu. Eins og þeir sjá, sem fara aftur til 18. janúar árið 1995, kom þá fyrsti pistillinn á síðuna. Það voru þeir Arnþór Jónsson og félagar hans í Miðheimum, sem vöktu athygli mína á þessari leið til að hafa samband við kjósendur mína vegna þingkosningana vorið 1995. Hef ég haldið leiðinni opinni síðan og get nú litið yfir það, sem á daga mína hefur drifið í stjórnmálum og á öðrum vettvangi með því að skoða efni hennar.

 

Þakka ég öllu tölvufólkinu, sem hefur aðstoðað mig á undanförnum árum. Fyrst varð ég að hafa milliliði til að færa efni frá töluvunni minni yfir á vefinn. Nú geri ég þetta sjálfur og síðan í nóvember 2002 styðst ég við Eplica-forrit frá Hugsmiðjunni. Hinir ágætu samstarfsmenn mínir þar eru enn að kenna mér að nýta kosti forritsins, til dæmis að setja myndir inn á vefsíðuna.

 

Satt að segja hef ég ekki varið tíma mínum til að lesa gamla pistla, ræður, greinar eða dagbókafærslur. Ég veit aðeins af þessu öllu þarna. Ég hef aðeins einu sinni svo ég muni breytt efni, sem ég setti inn á síðuna (fyrir utan leiðréttingu á stafsetningar- og staðreyndavillum, sé mér bent á þær), það var fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor, þegar ég tók út vísan á aðra vefsíðu, sem sýndi sóðaskapinn í Reykjavík. Þótti mér, að athuguðu máli, hún ganga of nærri einstaklingum til að vísa til hennar.

 

Þegar ég var að fara af stað með þessa pistla, og sérstaklega eftir að ég varð menntamálaráðherra 23. apríl 1995, heyrði ég, að ekki væri við hæfi fyrir mig að skrifa á þann veg, sem ég gerði og gagnrýna menn og málefni. Þær raddir eru fyrir löngu þagnaðar og sem betur fer lét ég þær ekki setja mér nein mörk vegna viðfangsefna minna hér á síðunum. Svar mitt var gjarnan það, að ég væri ekki að biðja neinn að lesa síðuna mína, þeir kæmu þangað, sem vildu. Ég á ekkert yfirlit yfir hve margir hafa skoðað efnið á síðunni, frá því að hún hóf göngu sína. Hin síðari ár hefur glatt mig, hve margir hafa skráð sig sem áskrifendur að pistlum mínum á póstlista minn - að gefnu tilefni vil ég taka fram, að áskriftin er að sjálfsögðu ókeypis.

 

Ég hef stundum sagt, að það geti verið erfitt fyrir virkan stjórnmálamann að halda úti síðu sem þessari vegna þess að unnt sé að nota það, sem þar er sagt, gegn honum, ef hann er ekki sjálfum sér samkvæmur og segir eitt í dag og annað á morgun. Sem betur fer hef ég ekki lent í því. Væri ég að berjast við drauga, sem ég hefði sjálfur vakið, væri ég ótrúr því markmiði mínu í stjórnmálum að vera ekki á gráu svæði. Ég hef aldrei viljað geta hlaupið í hvaða átt, sem er, ef á móti blæs. Mér finnst miklu skipta, að kjósendur viti fyrir hvað stjórnmálamenn standa og þeir séu menn til að standa og falla með verkum sínum og skoðunum.

 

Davíð Oddsson gerði traustið og mikilvægi þess í mannlegum samskiptum  að umtalsefni í sjónvarpsávarpi sínu á gamlárskvöld. Var lærdómsríkt að sjá viðbrögð þeirra, sem töldu, að með því að ræða þessa dyggð og minna á gildi hennar, væri Davíð að ráðast að Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Sérstaklega voru viðbrögðin lærdómsrík vegna þess, að þau komu frá fólki, sem virtist hliðhollt Ingibjörgu Sólrúnu. Þetta heitir, að vita upp á sig skömmina.

 

Annarra er að leggja mat á efnisvalið og efnistökin.

 

Sögulegur borgarstjórnarfundur.

 

Fimmtudaginn 16. janúar var haldinn sögulegur fundur í borgarstjórn Reykjavíkur, þegar tekin var afstaða til tilmæla Landsvirkjunar um ábyrgð vegna lántöku í þágu Kárahnjúkavirkjunar. Er þetta stærsta mál, sem borgarstjórn hefur tekið á um langt árabil. Við afgreiðslu þess leystist R-listinn upp í frumeindir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ákvað að greiða atkvæði með okkur sjálfstæðismönnum með ábyrgðinni, en auk okkar voru tveir framsóknarmenn henni fylgjandi.

 

Við sjálfstæðismenn tilkynntum í borgarráði þriðjudaginn 14. janúar, að við mundum leggja sex atkvæði til að tryggja Landsvirkjunni ábyrgð. Eftir að við höfðum kynnt þá afstöðu okkar, bókaði Alfreð Þorsteinsson fyrir hönd tveggja framsóknarmanna, að þeir styddu ábyrgðina. Þar með var meirihluti í borgarstjórn tryggður. Á fundinum lýsti Stefán Jón Hafstein, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, andstöðu við Kárahnjúkavirkjun. Sama gerðu Árni Þór Sigurðsson, vinstri/grænum, og Ólafur F. Magnússon, frjálslyndur/óháður. Ingibjörg Sólrún sagði ekkert um afstöðu sína, hún sagðist vilja halda áfram að ræða málið og hlusta á umræður daginn eftir og síðan greina frá afstöðu sinni.

 

Afstaða Ingibjargar Sólrúnar.

 

Eftir þennan fund borgarráðs fór ég á fund í stjórnkerfisnefnd borgarinnar og lauk honum rúmlega fjögur. Þegar ég kom út af honum var fréttamaður Stöðvar 2 fyrir framan fundarsalinn og tók við mig viðtal. Þá hélt ég enn, að afstaða Ingibjargar Sólrúnar væri ekki kunn, en fréttamaðurinn sagði mér, að hún ætlaði að samþykkja ábyrgðina.

 

Skýring á því, hvernig Ingibjörg Sólrún stóð að því að taka ákvörðun sína, birtist í fréttum Bylgjunnar (Stöðvar 2) í hádeginu miðvikudaginn 15. janúar. Eiríkur Hjálmarsson flutti fréttina og var hún svona:

 

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fráfarandi borgarstjóri var löngu búin að gera upp hug sinn um Kárahnjúkavirkjun þegar hún gaf hann upp í gær. Sérkennileg refskák virðist hafa verið í gangi innan borgarstjórnar í málinu. Eftir að sjálfstæðismenn í borgarstjórn gáfu upp afstöðu sína til ábyrgðanna á borgarráðsfundi í gær var ljóst orðið að meirihluti var fyrir ábyrgðunum þar sem báðir framsóknarmennirnir innan R-listans styðja málið. Samkvæmt heimildum fréttastofu töldu sjálfstæðismenn að þeir gætu rekið flein í R-listasamstarfið með því að gefa ekki upp afstöðu sína og láta á það reyna hvort R-listinn gæti komið málinu í gegn á eigin spýtur. Sjálfstæðismenn höfðu lýst því yfir að þeir hygðust ekki taka afstöðu fyrr en á borgarstjórnarfundinum á morgun en lögðu engu að síður fram bókun fyrir borgarráðið í gær þar sem því var lýst yfir að allir borgarfulltrúar flokksins 6 að tölu styddu veitingu ábyrgðar. Eftir borgarráðsfundinn í gær ákvað Ingibjörg Sólrún Gísladóttir að gefa upp sína afstöðu til ábyrgðanna en var þó búin að ákveða sig fyrir nokkru síðan.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fráfarandi borgarstjóri: Ja, við getum sagt að ég hafi tekið hana fyrir nokkrum dögum svona fljótlega eftir að þessi eigendaskýrsla kom fram.

Ingibjörg sagði í þessu viðtali við Brynju Þorgeirsdóttur í gær að vissulega sé mjög stórt mál á ferðinni, fjárhæðirnar sem um ræðir séu geysiháar.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir: Hitt er svo annað mál að ég taldi enga ástæðu til þess að vera að gefa sjálfstæðismönnum það upp með hvaða hætti ég myndi greiða mitt atkvæði og nú liggur þeirra afstaða fyrir þannig að þá er mér ekkert að vanbúnaði.

 

Við sjálfstæðismenn vorum ekki í neinni refskák um þetta mál, heldur tókum afstöðu til þess, þegar borgarfulltrúarnir sex höfðu komið sér saman um, að ekki væri unnt að draga það fram yfir síðasta reglulega borgarráðsfundinn fyrir borgarstjórnarfundinn að taka af skarið. Við létum vandræðaganginn í R-listanum ekki ráða ferð okkar. Við vorum ekki heldur að draga lappirnar eins og Arnar Páll Hauksson, fréttamaður hljóðvarps ríkisins, sagði í vangaveltum sínum um afstöðu okkar í kvöldfréttatíma laugardaginn 11. janúar.

 

Það hlýtur að hafa verið undan rifjum einhverra talsmanna R-listans runnið, að um þetta mál hafi verið ágreiningur innan Sjálfstæðisflokksins. Vafalaust hafa þeir talið sér haf af því að spinna fréttir um ímyndaða afstöðu sjálfstæðismanna í von um að geta dregið athygli frá eigin vandræðagangi. Við borgarfulltrúar sjálfstæðismanna þurftum ekki að beita neinum aðferðum til að reka flein í R-listasamstarfið  R-listamennirnir sjálfir voru einfærir um það.

 

Ég birti frétt Bylgjunnar í heild hér að ofan vegna þess, að þar heldur Ingibjörg Sólrún því fram hinn 14, janúar, að hún hafi tekið ákvörðun um málið fyrir nokkrum dögum svona fljótega eftir að þessi eigendaskýrsla kom fram en það var þriðjudaginn 7. janúar. Hún hafi hins vegar beðið eftir að við sjálfstæðismenn segðum okkar skoðun.

 

Ættu fréttamenn að bera þessi ummæli Ingibjargar Sólrúnar saman við það, sem hún sagði í ræðu sinni í borgarstjórn 16. janáur. Þar komst hún meðal annars svo að orði við hrifningu þeirra, sem sátu á pöllunum: Sjálfstæðismenn skjóta fyrst en hugsa svo! Gaf hún með því til kynna, að við hefðum ekki gefið okkur nægan tíma til að skoða allar hliðar málsins, áður en við kynntum afstöðu okkar í borgarráði.

 

Var Ingibjörg Sólrún ekki að skjóta sjálfa sig í fótinn með þessum orðum? Sannaðist þarna, að oft verður villugjarnt, þegar menn þræða ekki vegi sannleikans í opinberum umræðum.

 

Hvernig getur Ingibjörg Sólrún rökstutt afstöðu sína til ábyrgðar Landsvirkjunar á þeirri forsendu, að hún hafi ekki viljað bregða fæti fyrir málið, eins og hún orðaði það? Við vorum níu, sem greiddum atkvæði með ábyrgðinni í borgarstjórn. Það þurfti ekki fleiri atkvæði en átta.

 

Ríkissósíalistar.

 

Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi og formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, er andvígur Kárahnjúkavirkjun. Hann fór mikinn í ræðu sinni, þrátt fyrir að Össur Skarphéðinsson, formaður (?) Samfylkingarinnar, segi flokkinn styðja virkjunina. Raunar voru þrír af fjórum samfylkingarmönnum, sem tóku til máls í borgarstjórn, á móti virkjuninni auk Stefáns Jóns þau Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Helgi Hjörvar  Ingibjörg Sólrún greiddi atkvæði með.

 

Stefán Jón kallaði okkur stuðningsmenn ríkisábyrgðar ríkissósíalista og líkti hugmyndum okkar við sjónarmið á tímum Brezhnevs Sovétforseta. Þetta heimasmíðaða hugtak er einkennilegt, því annað hvort eru menn sósíalistar og þá hlynntir ríkisafskiptum eða ekki  að vera ríkissósíalisti vegna virkjunar og álvers í Reyðarfirði, sem reist er af Alcoa, bandarísku fyrirtæki, er í mínum huga einhver misskilningur á hugtökum.

 

Tvíeyki.

 

Síðastliðinn mánudag mátti heyra langt samtal við Svan Kristjánsson, prófessor við Háskóla Íslands, í dægurmálaútvarpi Rásar 2, þar sem hann var að réttlæta þá ákvörðun Össurar og Ingibjargar Sólrúnar, að þau skiptu með sér verkum á þann veg, að hann væri formaður og umboðsmaður í stjórnarmyndunarviðræðum en hún talsmaður og forsætisráðherraefni.

 

Með sögulegum fordæmum vildi Svanur sýna fram á, að slík verkaskipting væri ekkiert einsdæmi. Auðvitað gat hann það ekki, þótt hann talaði af miklum sannfæringarhita og teldi sig í stöðu til að skáka viðmælendum sínum í krafti kennivalds og sagnfræðiþekkingar.

 

Aldrei fyrr hefur verið gengið fram með þeim hætti í forystu íslensks stjórnmálaflokks að ákveða, að því er virðist á fjölskylduforsendum, að taka einstakling inn í forystusveit, án þess að um það sé fjallað og tekin ákvörðun með formlegum hætti á viðeigandi vettvangi innan viðkomandi stjórnmálaflokks.

 

Eftir allt tal þingmanna Samfylkingarinnar eins og Bryndísar Hlöðversdóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur og Lúðvíks Bergvinssonar um nauðsyn lýðræðislegra og gegnsærra vinnubragða í starfi stjórnmálaflokka er með ólíkindum, að til dæmis þessir þingmenn láti þetta yfir sig ganga þegjandi og hljóðalaust. Er augljóst, að lýðræðistalið er bara í nösunum á þingmönnunum, þegar þeir telja það gefa sér færi til árása á andstæðinga sína.

 

Að Svanur Kristjánsson skuli bera það á borð sem niðurstöðu fræðilegra athuguna, að valdabrölt þeirra Össurar og Ingibjargar Sólrúnar núna jafnist á við samstarf Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar í Sjálfstæðisflokknum á fimmta og sjötta áratugi síðustu aldar, sýnir best, hve prófessornum er mikið í mun, að hafa ekki það, sem sannara reynist, til að afsaka það, sem þau Össur og Ingibjörg Sólrún kynntu fréttamönnum á Hótel Borg síðdegis sunnudaginn 12. janúar. Athyglisvert er, að hvorki formaður þingflokks, formaður framkvæmdastjórnar né varaformaður Samfyllkingarinnar var á þeim fundi.

 

Svanur vitnaði meðal annars í ævisögu Ólafs Thors eftir Matthías Johannessen máli sínu til stuðnings og nefndi atburði við stjórnarmyndunina 1947. Matthías hefur sagt mér, að Bjarni hefði ekki viljað taka að sér stjórnarmyndun í stað Ólafs þá, vegna þess að ekki væri unnt að hafa tvo kónga í sama ríkinu. Er Samfylkingin ekki einmitt að verða slíkt konungsríki?

 

Misskilin stjórnmálasaga.

 

Þorvaldur Gylfason er eins og Svanur Kristjánsson prófessor við Háskóla Íslands. Hann ritar Rabb í Lesbók Morgunblaðsins laugardaginn 18. janúar til að brýna fyrir sjálfum sér og öðrum, að hugsanlega kunni Sjálfstæðisflokkurinn einhvern tíma að tapa trausti kjósenda. Af  greininni má ráða, að Þorvaldur hefur lengi lifað í þessari von og hún sé þrátt fyrir allt ekki alveg kulnuð.

 

Þorvaldur vill, að stórnmálamenn hagi störfum sínum í samræmi við niðurstöður kannana í þjóðarpúls Gallups og hann hallmælir Davíð Oddssyni meðal annars fyrir að hafa hreyft þeirri hugmynd, að leitað verði sátta um stefnu Íslendinga í Evrópumálum með því að skipa þverpólitíska nefnd um málið. Þorvaldur notar meðal annars þessi rök andstöðu sinni til stuðnings: Eitthvað þessu líkt hefði Einar Olgeirsson sennilega reynt, hefði hann verið forsætisráðherra árið 1949, þegar Íslendingum bauðst að ganga í Atlantshafsbandalagið.

 

Þessi sögulega skírskotun prófessorsins er álíka mikil firra og tal Svans, starfsbróður hans, um sögulegar forsendur tvíeykisins í Samfylkingunni. Ef stjórnmálaátökum áranna eftir síðari heimsstyrjöldina hefði lyktað á þann veg, að Einar Olgeirsson hefði orðið hér forsætisráðherra, hefði spurningin um aðild Íslands að NATO aldrei komist á dagskrá ríkisstjórnarinnar, hvað þá heldur í nefnd á hennar vegum.

 

Háskólaprófessor, sem byggir niðurstöður sínar jafnveikum sögulegum forsendum og þessum, til að komast að þeirri niðurstöðu, að Sjálfstæðisflokkurinn sé staddur á flæðiskeri vegna þjóðarpúls Gallups, hefur ekki mikið bitastætt til stjórnmálaumræðu líðandi stundar að leggja.