26.7.2003

AP- frétt um varnarmál - rannsókn samkeppnisstofnunar.

 

 

Athyglin vegna fréttar AP-fréttastofunnar um erindi mitt í september 1995 um varnarmál og nauðsyn þess að Íslendingar litu í eigin barm við gæslu öryggis síns kom mér í opna skjöldu í þessari viku. Eins og ég útskýrði í Morgunblaðinu til að setja málið í rétt samhengi, hafði ég ekki átt annan orðastað við fréttaritara AP en í tölvupósti. Hann lagði fyrir mig nokkrar spurningar um afstöðu mína til þátttöku Íslendinga í eigin vörnum og ég vísaði til þessa erindis hér á vefsíðu minni. Fréttaritarinn las það og spurði síðan, hvort hann mætti taka úr því setningar og gera þannig viðtal við mig. Ég játti því.

 

Í fréttinni eins og hún var send um heiminn var sagt, að ég hefði “urged” eða hvatt ríkisstjórn Íslands til þess síðastliðinn mánudag, 21. júlí, til að ganga til þess verks að stofna íslenskan her og Íslendingar “should” eða ættu að hafa hann 500 til 1000 manna og gætu myndað allt að 21 þúsund manna varalið.

 

Gott og vel. Í erindinu hafði ég nefnt þessar tölur og sagt, að þær væru meira en fræðilega raunhæfar, ef til dæmis væri tekið mið af áætlunum stjórnvalda í Lúxemborg.  Í fréttinni voru orð mín ekki lengur vangaveltur um það, sem unnt væri, ef vilji væri fyrir hendi, þau voru orðin að tillögu, sem ég hafði lagt fyrir ríkisstjórnina sl. mánudag. Ég komst að þeirri niðurstöðu, að ég gæti ekki látið við það sitja, að í nafni AP hefði ég staðið þannig að málum. Ég hef aldrei lagt neina slíka tillögu fyrir ríkisstjórnina auk þess sem hún hittist ekki sl. mánudag og ég var raunar að leitast við að taka mér sumarfrí þann dag. Í samtali mínu við forstöðumann AP-skrifstofunnar í London að morgni fimmtudags bað hann mig afsökunar á þessum alvarlegu mistökum og lofaði að senda út leiðréttingu.

 

Ef litið er á þróun varnarmálaviðræðnanna við Bandaríkjastjórn, er það góðs viti um aukinn skilning á afstöðu íslenskra stjórnvalda, að Condolezza Rice, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, skyldi hafa hringt í Davíð Oddsson laugardaginn 19. júlí og rætt málið við hann og staðfest, að málið væri komið úr höndum Pentagon til Hvíta hússins, svo að talað sé fréttamannamál um helstu valdasetur Bandaríkjastjórnar.

 

***

 

 

Af fréttum vikunnar ber auðvitað frásagnir af hluta frumskýrslu samkeppnisstofnunnar hæst. Öllum er nokkur vandi á höndum í umræðum um málið á opinberum vettvangi, af því að ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða opinberra yfirvalda, sem stofnuðu til rannsóknar hjá olíufélögunum – greinilega ekki að ástæðulausu.

 

Greinarbesta frásögn af frumskýrslunni birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 19. júlí. Davíð Oddsson fjallaði ítarlega um málið á blaðamannafundi þriðjudaginn 22. júlí. Efnt var til fundar í tilefni af málinu í efnahags- og viðskiptanefnd alþingis. Pétur Blöndal, formaður hennar,  hafði á orði, að huga yrði að því, hvers vegna hluti frumskýrslunnar væri kominn til fjölmiðla.

 

Líklega fæst seint upplýst, hver lak efni skýrslunnar, en deilur um þann þátt fréttamennsku geta ekki síður verið harðar en um efni málsins sjálft, eins við erum nú vitni að í Bretlandi, þar sem stríðið milli forsætisráðuneytisins og BBC hefur fengið á sig nýja mynd vegna dauða eins helsta heimildarmanns BBC. Fylgistap Blairs og ríkisstjórnar hans og trúnaðarbrestur gagnvart kjósendum er meðal annars skýrt á þann veg, að almenningur beri meira traust til BBC en Blairs.

 

Í olíumálinu þykir mönnum líklega litlu skipta, hver lak hverju, aðalatriðið sé að upplýsa þjóðina um hin meintu ólögmætu vinnubrögð. Í opinberum málum getur þó ráðið úrslitum um niðurstöðu þeirra að lokum, að rétt sé staðið að allri málsmeðferð og ekki gengið á rétt einstaklinga eða annarra, án þess að þeir fái lögheimilað tækifæri til að verja hann.

 

Í ljósi þessa verða allir að gæta sín og ganga til dæmis ekki of langt í kröfum um atbeina lögreglu. Réttarríkið byggist á því, að hún hafist ekki að nema heimildir til þess séu skýrar og ótvíræðar.