23.8.2003

Um DDR-síðu vinstri/grænna og viðhorf hennar til RÚV.

Áskrifendum á póstlista mínum heldur áfram að fjölga og er ég þakklátur þeim, sem skrá nafn sitt á hann og láta þannig í ljós áhuga á að fylgjast með efni á síðunni minni. Vil ég jafnframt minna á, að það er jafnauðvelt að skrá sig af listanum og á hann.

Sumir setja mann óumbeðið á póstlista sinn. Þannig hef ég til dæmis fengið sendingar frá félögum í röðum vinstri/grænna, sem kenna síðu sína við East Germany – það er gamla þýska alþýðulýðveldið, og kjósa þeir af einhverjum sérkennilegum ástæðum að nota enskt heiti þess. Kannski er ástæðan fyrir því, að þessir ágætu menn hafa sett netfang mitt á listann hjá sér, að þeir vilja gefa mér tækifæri til að lesa athugasemdir og upphrópanir vegna skoðana minna. Virðist þeim álíka uppsigað við viðhorf mín og sumum nafnlausu hugleysingjunum, sem láta ljós sitt skína á innherja eða málverja síðum Netsins, en þeir telja vafalaust um markvert framlag til stjórnmálaumræðna að ræða, þótt oft sé þetta nagg og níð byggt á vanmetakennd og óvild, nema hvoru tveggja sé.

Er rannsóknarefni, hvers vegna áhugamenn um lýðræðislegar umræður hafa geð í sér til kenna vefsíðu sína við einræðisríki kommúnista í A-Þýskalandi, þar sem allar frjálsar umræður voru bannaðar. Í bókinni Á lífsins leið II  segi ég til dæmis frá örlögum Austur-Þjóðverjans Rudolfs Caspers, sem í desember 1948 sendi Skúla Ólafi Þorbergssyni, starfsmanni Ríkisútvarpsins, bréf og komst þannig að orði, að pólitíska ástandið í A-Þýskalandi væri ekkert betra þá en á tímum nasistanna, fólki væri bannað að segja skoðun sína, þýskar fangabúðir væru fullar af föngum og kommúnistar minntu á nasista. Rudolf póstlagði bréfið í Vestur-Berlín en hinn 8. marz 1949 var hann handtekinn af austur-þýsku öryggislögreglunni og síðan dæmdur í fangelsi fyrir að hvetja æsku Íslands til að snúast gegn kommúnisma! Var hann settur inn í Sachsenhausen, gömlu fangabúðir nasista. Honum var sleppt sem gangandi beinagrind í janúar árið 1954.  Skúli Ólafur fékk ekki bréfið, það var gert upptækt, þegar austur-þýska öryggislögreglan gramsaði í pósti, á meðan póstlestin fór um austur-þýskt landsvæði milli Vestur-Berlínar og Hamborgar.

Líklega þykir sniðugt að kenna sig við hið afdankaða DDR á Netinu en ef einhver kenndi vefsíðu við þriðja ríki harðstjórans Hitlers, forvera einræðisherranna í DDR, væri hann úthrópaður sem marklaus.

Robert Conquest, sagnfræðingur og skáld, sem kom hingað til lands fyrir um 30 árum, er heimskunnur fyrir afhjúpanir sínar af grimmdarverkum Stalíns og frægastur fyrir bók sína The Great Terror. Í viðtali við franska blaðið Le Monde árið 1997 var Conquest spurður að því, hvort honum þættu ofsóknir nasista á hendur gyðingum „verri“ en glæpir Stalíns. „Ég svaraði já, mér þætti það, en þegar blaðamaðurinn spurði mig hvers vegna, gat ég aðeins svarað heiðarlega með því að segja:  „Mér finnst það bara.““

Frá þessu segir Martin Amis í bók sinni Koba the Dread, þar sem hann lýsir ógnarstjórn Stalíns og fjallar meðal annars um muninn milli litla efrivararskeggsins (Hitlers) og stóra efrivararskeggsins (Stalíns). Ég hafði séð dóma um þessa bók Martins Amis, án þess að þeir vektu hjá mér áhuga á henni. Vladimir Ashkenazy hafði hins vegar nýlega orð á því við mig, að þessi bók lýsti einstaklega vel ástandinu í Sovétríkjunum. Varð það mér hvatning til að lesa hana og mæli ég með henni við aðra, sem vilja líta inn í þennan ógnarheim.

Robert Conquest kom hingað á sínum tíma og flutti erindi á vegum Samtaka um vestræna samvinnu. Áttum við Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, með honum ógleymanlegan dag á ferð um Suðurland. Conquest var vinur Kingsley Amis, föður Martins, og er bókin um Stalín að öðrum þræði uppgjör Martins við kommúnismann í lífi föður síns og eigin vinstrimennsku og blindu á glæpaverk kommúnista, dæmigert uppgjörsrit við þá grimmdarstefnu og því byggð á allt öðru hugarfari en til dæmis skrifin, sem dreift er undir póstheitinu East Germany á Netinu.

Í einu tölublaði þessa rits vinstri/grænna, sem mér var sent á dögunum segir:

„Nei, Björn Bjarnason nú fara vonandi þeir tímar í hönd þar sem fréttamenn hætta að vera hræddir við Sjálfstæðisflokkinn og valdablokk hans. Ríkissjónvarpið er að vísu á botninum þessa dagana og eins og sú stofnun kemur okkur fyrir sjónir í dag er allt eins hægt að leggja hana niður – slík er lágkúran. Fréttastofa útvarpsins, með flaggskip sitt Spegilinn, er hins vegar til fyrirmyndar að mörgu leiti (svo!). Sjónvarpið ætti að líta til hennar og sjá sóma sinn í því að veita ráðamönnum aðhald frekar en að birta óklipptar fréttatilkynningar þeirra.“

Tilefni þess að ég er ávarpaður á þennan hátt eru orð, sem ég lét falla um furðusamtal þeirra Finnboga Hermannssonar, fréttamanns RÚV á Ísafirði, og Kristins H. Gunnarssonar alþingismanns á Morgunvaktinni í síðasta pistli mínum hér á vefsíðunni.

Í þessari viku hefur fréttastofa hljóðvarps ríkisins haldið því fram, að ég hafi gengið gegn áliti dómara hæstaréttar við val á manni í réttinn, af því að dómararnir hafi talið tvo hæfasta í hópi umsækjenda. Í kvöldfréttum hljóðvarpsins miðvikudaginn 20. ágúst hófst frásögn af þessu máli þannig:

„Ragnar H. Hall, lögmaður og Eiríkur Tómasson, lagaprófessor, sem Hæstiréttur taldi hæfasta til að gegna embætti hæstaréttardómara segja það út í hött að meistaraprófsgráða í Evrópurétti geti ráðið úrslitum um skipun manns í dómaraembætti við Hæstarétt. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra sagði í hádegisfréttum að meistarapróf Ólafs Barkar Þorvaldssonar í Evrópurétti hefði ráðið mestu við val hans á nýjum dómara við Hæstarétt.

Hæstiréttur taldi Eirík Tómasson, lagaprófessor og Ragnar H. Hall, lögmann, hæfasta til að gegna embættinu.“

Er furða þótt spurningar vakni í huga þeirra, sem þekkja til mála, hvað fyrir fréttamönnum vaki, þegar mál eru matreidd á þennan veg. Hvergi í umsögn dómara hæstaréttar eru umsækjendur dregnir í dilka sem hæfir eða hæfastir. Dómararnir telja alla hæfa, síðan bæta þeir við vangaveltum um, að heppilegast sé fyrir réttinn að fá menn með kunnáttu í réttarfari og nefna þá tvo sérstaklega til sögunnar.

Að sjálfsögðu vakna alltaf spurningar og vangaveltur, þegar valið er í embætti á borð við hæstaréttardómara. Þær snúast um einstaklinga og aðferð við valið. Hvort sem sú aðferð er höfð, sem nú er í lögum, eða einhver önnur, fæst aldrei trygging fyrir því, að allir verði sáttir við niðurstöðuna. Þótt nefnd bæri ábyrgð á henni, yrði aðeins einn fyrir valinu, aðrir yrðu að una því, misjafnlega sáttir. Hið sama yrði að sjálfsögðu uppi á teningnum, ef alþingi kysi menn til setu í hæstarétti. Núverandi skipan hefur þann kost fram yfir nefnd eða atkvæðagreiðslu á alþingi, að hún gerir mönnum kleift að beina gagnrýni sinni að einum manni, sem ber ábyrgð á veitingu embættisins.

Fráleitasta hugmyndin við val á dómurum í hæstarétt er auðvitað sú, að fela þeim, sem eru í réttinum fyrir, að eiga um það síðasta orðið, hver bætist í hópinn. Það glittir þó í, að sú aðferð sé æskileg, í tali sumra um, að í því tilviki, sem hér um ræðir, hafi veitingavaldið leyft sér þá ósvinnu, að velja ekki annan þeirra, sem að mati sitjandi dómara voru heppilegastir til að bætast í hóp þeirra.

Af fréttabréfi vinstri/grænna er ljóst, að ánægja er í þeirra hópi með fréttastofu hljóðvarps ríkisins og Spegillinn á þar skilningsríkan markhóp. Raunar er sá þáttur oft eins og kennslustund í því, hvernig fréttir eru matreiddar frá vinstrisinnuðum sjónarhóli. Gerði ég slíka matreiðslu að umtalsefni hér á síðunni fyrir skömmu með því að nefna þau Ann Coulter og Bernard Goldberg í Bandaríkjunum til sögunnar.

Gæðastimpill fréttastofunnar kemur frá þeim, sem eru lengst til vinstri í íslenskum stjórnmálum. Hið sérkennilega er, að þetta þykir engum sérstökum tíðindum sæta, vera bæði sjálfsagt og eðlilegt. Segjum sem svo, að frjálshyggjumenn hrósuðu fréttaflutningi hljóðvarps ríkisins eða teldu skoðanamótandi þátt á vegum hennar sér mjög að skapi. Ætli það þætti ekki sérstökum tíðindum sæta? Jafnvel á fréttastofunni sjálfri?

Þann skugga ber á gleði vinstri/grænna vegna RÚV, að sjónvarp ríkisins er ekki þeim að skapi – og þá á ríkið bara að hætta að reka sjónvarp. Hvar er nú félagsskapurinn, sem stofnaður var á sínum tíma undir forystu fyrrverandi þjóðminjavarðar til að standa vörð um óbreytt RÚV? Er hlutverk hans það eitt að standa gegn því, að RÚV verði nútímavætt með því að breyta stofnuninni í hlutafélag í eigu ríkisins? Vonandi dettur engum í hug, að tryggja framtíð RÚV með því að flytja það undir Þjóðminjasafnið?