25.10.2003

Þjóðkirkjuumræður - málfrelsi - í gerviheimi

Töluverðar umræður hafa orðið um kirkjuleg málefni í þessari viku kirkjuþings. Umræðurnar hafa snúist um ólíka þætti. Fríkirkjuprestur telur, að kirkja sín hafi verið sniðgengin fjárhagslega með samningi ríkisins og þjóðkirkjunnar árið 1997. Sagnfræðingur telur, að kirkjuþing sé of þröngsýnt í trúarlegum efnum og ætti að taka meira mið af Matthíasi Jochumssyni og frjálslyndum guðfræðingum í upphafi síðustu aldar. Forstöðumaður Krossins telur mig hafa túlkað stjórnarskrána á rangan hátt, þegar ég sagði í ræðu á kirkjuþingi, að þjóðkirkjuskipanin, sem er fest með stjórnarskránni ekki brjóta í bága við hana.

Hér hefur þó ekki verið kveðið jafnfast og neikvætt að orði um þjóðkirkjuna og hlutskipti hennar og gert er í nýrri bók í Danmörku, sem heitir: Nedlæg folkekirken – Det oppegående dödslæje og ritað er um í Politiken mánudaginn 20. október undir fyrirsögninni: Död over folkekirken.

Höfundar bókarinnar eru báðir guðfræðingar og hafa starfað sem prestar. Kemur á óvart, hve neikvæðum orðum þeir fara um þjóðkirkjustarfið í Danmörku og undirgefni kirkjunnar manna þar gagnvart yfirvöldunum, ekki síst konungsfjölskyldunni.

Í Politiken er þessi tilvitnun í bókina birt: “Enhver kan se, at kirkens folk har svært ved at styre sig.  De ligger gerne skiftevis på maven for dronningen og på ryggen for staten.” Þessi tónn er sem betur fer ekki í kirkjulegum umræðum hér, þótt oft sé seilst langt til lýsinga, þegar hiti færist í umræðurnar.

Málfrelsi.

Helgi Hjörvar kvartar undan því, að ég hafi í síðasta pistli mínum bent á hræsnina í málflutningi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur (ISG) á þingi, þegar hún hneykslaðist á því, að meirihluti fjárlaganefndar hafnaði ósk Helga um gögn við umræður um fjárlagafrumvarpið í nefndinni og sagði ISG, að minnihlutinn ætti greinilega bara að éta það, sem úti frýs. Gefur Helgi til kynna, að ég hafi takmarkað málfrelsi um þetta mál, af því að ég sé dómsmálaráðherra.

Ekki er langt síðan, að ISG veittist með offorsi að Kjartani Magnússyni, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, á fundi borgarstjórnar fyrir það, að hann leyfði sér að spyrja hana um greiðslur úr borgarsjóði til Stefáns Ólafssonar prófessors. Þá var engin spurning um það, hver skyldi éta það, sem úti frysi.  Þótti ISG vansæmd af því, að Kjartan nýtti rétt sinn sem borgarfulltrúi til að afla upplýsinga um útgjöld úr borgarsjóði.

Þessi árátta R-listans og samfylkingarfólks að vilja takmarka málfrelsi manna tekur á sig sérkennilegar myndir. Steinunn Birna Ragnarsdóttir sagði sig úr R-listanum og borgarstjórn, af því að hún var svipt málfrelsinu. Henni var bannað að tala á borgarstjórnarfundi áformin um að rífa Austurbæjarbíó.

Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar og oddviti vinstri/grænna, er ekki meiri málfrelsismaður en svo, að hann hefur látið í veðri vaka opinberlega, að réttmætt hafi verið að banna Steinunni Birnu að tala. Meira að segja Illugi Jökulsson sér rök fyrir því, að svipta hana málfrelsinu í pistli í Fréttablaðinu laugardaginn 25. október og skýtur sér á bakvið þá röksemd Birgis Guðmundssonar, annars dálkahöfundar Fréttablaðsins, að brotthvarf Steinunnar Birnu sé til marks um samheldni innan R-listans!

Svipaðar röksemdir eru notaðar af Castró á Kúbu, þegar hann herðir tökin á þjóð sinni og hneppir andófsmenn í fangelsi, til að þeir séu ekki að láta til sín heyra á opinberum vettvangi. Flokkurinn og þjóðin skuli tala einni röddu. Ég veit ekki um neinn frjálshuga mann, sem telur þessar aðfarir Castrós til marks um styrkleika hans. Miklu fremur er aðför hans að málfrelsi mennta- og menningarmanna talin til marks um veikleika og uppdráttarsýki. 

R-listamönnum og talsmönnum þeirra er svo mikið í mun að sanna, að þeir geti starfað saman, þrátt fyrir að ISG hafi um síðustu jól og áramót gengið á bak orða sinna, að nú er leitast við að afsaka allt í nafni samstöðunnar, meira að segja aðför að málfrelsinu.

Í gerviheimi.

 

Þegar vikið er að uppdráttarsýki á Kúbu, minnir það á málflutning þeirra, sem enn standa að Samtökum herstöðvaandstæðinga. Stefán Pálsson, formaður Samtaka herstöðvaandstæðinga, ræðir við Fréttablaðið 25. október. Þar segir í fyrirsögn: “Þó fararsnið sé á Bandaríkjamönnum af Miðnesheiði er engan bilbug á Samtökum herstöðvaandstæðinga að finna, segja verkefnin ærin, reka þurfi flóttann og Björn Bjarnason sé nánast lífsnauðsynlegur andófinu. Samtökin halda aðalfund sinn í dag í Þjónustumiðstöð aldraðra.”

Ekki kemur fram í viðtalinu, hvort staðurinn fyrir aðalfundinn sé valinn með hliðsjón af aldri félagsmanna, en kæmi í sjálfu sér ekki á óvart, þegar litið er á málstaðinn og því velt fyrir sér, hvenær á 20. öldinni samtökin  hættu að þróast eða laga sig að breyttum aðstæðum.

Í viðtalinu segir Stefán Pálsson: “En tengsl okkar herstöðvaandstæðinga við Björn einkennast af ákveðinni gagnkvæmri virðingu, þó skringilegt sé að segja það. Hann telur okkur vera mjög afgerandi illmenni. Nánast eins og við séum forsenda fyrir veru hans.”

Ég hef löngum talið og fært fyrir því rök, að herstöðvaandstæðingar lifi í gerviheimi, þegar þeir ræða öryggismál Íslands og sé, að þeir gera það á fleiri sviðum, ef hin tilvitnuðu orð Stefáns eru til marks um stefnu samtaka hans. Allt er þetta einber ímyndun formannsins og er miður, ef Samtök herstöðvaandstæðinga eru enn að berjast fyrir því að draga fram lífið á fölskum forsendum.

Ef unnt væri að friða félög eða stoppa þau upp, ætti að gera það við Samtök herstöðvaandstæðinga, því að þau eru orðin svo skringilega á skjön við samtímann. Álíka úrelt og allar haturs- og hræðslugreinarnar, sem ritaðar voru á sínum tíma, til að útlista þá hræðilegu ógn, sem steðjaði að Íslendingum, þegar þeir skipuðu sér í sveit vestrænna lýðræðisþjóða gegn sovét-kommúnismanum og heimsvaldastefnu hans.