8.11.2003

Schengen í Brussel - vandræðamál í London

 

 

 

Í vikunni var í Brussel fundur innanríkis- og dómsmálaráðherra Schengen-ríkjanna,  það er þeirra ríkja, sem standa að Schengen-samkomulaginu auk Breta og Íra, sem standa fyrir utan það, þótt þeir séu í Evrópusambandinu (ESB), og ríkjanna, sem verða aðilar að ESB hinn 1. maí næstkomandi. Íslendingar og Norðmenn eru aðilar að Schengen-samkomulaginu en það snýst um sameiginleg landamæri og eftirlit með þeim.

 

Skipulag Schengen-samstarfsins er nokkuð á annan veg en EES-samstarfsins. Á vettvangi þess er efnt til sameiginlegra ráðherrafunda í svonefndri Mixed Committee og færist formennska í þeirri nefnd á milli ríkja eins og formennskan færist á milli ríkja ESB í samstarfi ESB-ríkjanna. Nú eru Ítalir í formennsku fyrir ESB og stýrði ítalski ráðherrafundi ESB-ríkjanna, sem hófst að morgni fimmtudagsins 6. nóvember. Þegar fundurinn breyttist í Mixed Committee-fund til að ræða um Schengen-málefni tók ég við fundarstjórn.

Umræður um Schengen-málefni snerust annars vegar um sameiginlegar ráðstafanir til að efla landamæraeftirlit og hins vegar um inntak samstarfsins og hvaða refsireglur ættu að gilda í því.

 

Að því er landamæraeftirlitið varðar er á döfinni að koma á fót sameiginlegri stofnun til að samræma aðgerðir. Þá stendur fyrir dyrum að efla sameiginlega þjálfun landamæravarða. Hér á landi verður í næstu viku efnt til ráðstefnu að frumkvæmi dómsmálaráðuneytisins um einn þátt þessara mála, það er landamæraeftirlit á flugvöllum með sérstakri vísan til þeirra aðferða, sem beitt er á Keflavíkurflugvelli og þykja árangursríkar.

 

Schengen-ríkin hafa vaxandi áhyggjur af smygli á fólki með skipum . Í  fréttum heyrum við æ oftar um hörmuleg afdrif þeirra, sem nýta sér tilboð óprúttinna flytjenda á lítt haffærum skipum. Einkum er þetta alvarlegt vandamál í Miðjarðarhafslöndunum, Grikklandi, Ítalíu og Spáni. Er nú í ríkari mæli en áður lagt sameiginlega á ráðin um viðbrögð við þessum ólögmæta ágangi fólks.

 

Þá var rætt um væntanlega sameiginlega stofnun um landamæraeftirlit en tillögur um skipan og inntak starfsemi á hennar vegum eru væntanlegar frá framkvæmdastjórn ESB á næstu dögum. Gert er ráð fyrir, að 30 manns starfi við þessa stofnun en ekki hefur verið ákveðið, hvar hún verður með höfuðstöðvar sínar.

 

Einstaklingsbundnar upplýsingar í dvalarleyfum og vegabréfsáritunum – það er biometrics á erlendum málum – eru einnig til meðferðar á þessum vettvangi.  Bandaríkjamenn vilja, að í vegabréfum þeirra, sem koma til Bandaríkjanna, séu slíkar upplýsingar, fingraför eða önnur einstaklingsbundin einkenni, sem ekki er unnt að eyðileggja eða falsa. Schengen-ríkin geta ekki sett sameiginlegar reglur um inntak upplýsinga í vegabréfum borgara sinna, því að Bretar stóðu gegn því, að ákvæði um sameiginlegar kröfur vegna vegabréfa yrðu sett inn í Amsterdam-sáttmála ESB.

 

Í drögum að nýrri stjórnarskrá ESB er hugtakið “European Citizen” – Evrópuborgari – kynnt til sögunnar og á þessi borgari ESB-ríkjanna að hljóta ýmis réttindi. Þegar rætt er um þau réttindi, minnist ég  umræðnanna um aðild okkar að evrópska efnahagssvæðinu (EES) og andstöðunnar við frjálsa för fólks og hættuna af henni fyrir okkur. EES-réttindin ganga að sjálfsögðu mun skemur en það, sem á felast í því að öðlast rétt sem Evrópuborgari. Að tengslum okkar Íslendinga við þetta nýja hugtak er því nauðsynlegt að huga á lögfræðilegum og pólitískum forsendum.

 

Umræðurnar um efnisinntak og refsingar með vísan til Schengen-samkomulagsins snerust um hina svonefndu ne bis in idem reglu, það er spurninguna um það, hvort mætti refsa á tveimur stöðum fyrir sama brot. Fyrir fundinum lá tillaga frá Grikkjum, sem hefur verið til umræðu á löngum embættismannafundum. Tillagan gerir ráð fyrir því að ne bis in idem reglan gildi innan Schengen, það er að aðeins megi refsa á einum stað fyrir brot og verði fyrirvarar, sem ríki hafa gert til að áskilja sér rétt til refsingar fyrir tiltekin brot heima fyrir, hvað sem líður refsingu annars staðar, fjarlægðir.  

 

Eftir að hafa rætt málið í um klukkustund, var ljóst, að ekki væri neinn grundvöllur fyrir því, að ríki féllu frá fyrirvörum sínum og gríska tillagan fengi brautargengi á þessum fundum frekar en öðrum. Dró ég niðurstöðuna saman á þann veg, að ítalska formennskan mundi enn hafa málið til athugunar í því skyni að leita að lausn, sem nyti stuðnings.

 

Efni þessa máls er flókið og viðkvæmt en stöðugar umræður um það byggjast á þeirri viðleitni framkvæmdastjórnar ESB að þrýsta á ríki til að falla frá öllum fyrirvörum og séróskum í því skyni að Evrópurétturinn gildi alls staðar án undantekninga eða undanþága. Þarna halda ríkin fast í fyrirvara, sem þau gerðu við undirritun Schengen-samkomulagsins. Ofurkapp er lagt á að fá þau til að falla frá þeim. Á ESB-máli heitir það að auka gildi samninga – það er gefa þeim “added value” – að fækka við þá fyrirvörum.  Eitt ráðið, sem reynt hefur verið að beita í þessu ágreiningsmáli, er, að setja inn í Schengen-samkomulagið “guillotine” – sólarlagsákvæði - varðandi fyrirvarana, en á þessum fundi var meirihlutinn andvígur því.

 

Umræðurnar um þetta mál endurspegla þá þróun, sem er alls staðar innan ESB, að steypa allt í sama mót og reyna að draga sem mest úr sérstöðu einstakra ríkja. Á þetta jafnt við á sviði refsiréttar og í sjávarútvegi. Tækist Íslendingum, ef þeir sæktu um aðild að ESB, að semja um einhverja fyrirvara gagnvart sjávarútvegsstefnunni, yrðu þeir aldrei varanlegir heldur með sólarlagsákvæði, það er að þeir féllu úr gildi eftir ákveðinn árafjölda.

 

Athyglisvert er, að samið var við nýju aðildarríki ESB á þeim forsendum, að þau gerðust aðilar að Schengen án fyrirvara, en eftir því sem umræðurnar um ne bis in idem verða meiri fjölgar í hópi ríkja með fyrirvara og vilja nú sum nýju ESB-ríkjanna koma í hópinn með fyrirvararíkjunum. Ráðherrafundurinn á fimmtudag hafði þannig ekki “added value” í augum framkvæmdastjórnar ESB, þegar ráðherrarnir ræddu  ne bis in idem.

 

Ferðina til Brussel notaði ég til að fræðast  um það, sem er efst á baugi í EES-samstarfinu almennt og einnig á vettvangi NATO og hitti Kjartan Jóhannsson, sendiherra gagnvart Evrópusambandinu, og Gunnar Gunnarsson, sendiherra og fastafulltrúa Íslands hjá NATO, með samstarfsmönnum þeirra sérstaklega í þessum tilgangi.

 

Á meðan ég dvalist í Brussel bárust fréttir um að stjórnvöld í Liechtenstein hefðu samþykkt að skrifa undir samninginn um stækkun EES, þótt deilur vegna eignarhalds furstans þar á löndum og mannvirkjum í Tékklandi og Slóvakíu væru óleystar.

 

Að mínu mati er ástæðulaust að hafa áhyggjur af EES-samningnum. Hann stendur fyrir sínu og tryggir vel hagsmuni okkar Íslendinga. Er fráleitt að samningurinn sé að veikjast. Breytingar á Evrópusambandinu og inntaki samstarfs ESB-ríkjanna leiða hins vegar til þess, að við stöndum frammi fyrir nýjum úrlausnarefnum og þurfum að taka afstöðu til þeirra með íslenska hagsmuni að leiðarljósi.

 

 

Vandræðamál í London

 

Frá Brussel hélt ég til London og hafði tækifæri til að kynna mér það, sem efst er á baugi í fréttum af lestri dagblaðanna. Michael Howard var einróma kjörinn formaður breska Íhaldsflokksins fimmtudaginn 6. nóvember og sama dag þóttu menn sjá nýja bresti í samstarfi Tonys Blairs forsætisráðherra og Gordons Brown fjármálaráðherra. Brown hafði snúið úr fæðingarorlofi með ögrandi yfirlýsingar fyrir Blair á vörunum og þótti sérstaklega ámælisvert, að Blair hefði ekki valið Brown í framkvæmdastjórn flokksins. Þótti þessi útilokun bera þess merki, að Blair hefði farið að ráðum Peters Mandelsons, sem að nýju væri farinn að láta að sér kveða í Downing-stræti 10, eftir að Alistair Campell, blaðafulltrúi og ráðgjafi Blairs, lét af störfum. Brown er sérstaklega uppsigað við Mandelson eins og fleirum, því að í leiðara eins blaðanna stóð að miðað við Mandelson væri Machiavelli eins og Móðir Teresa!

 

Var einhugur íhaldsmanna við valið á Howard borinn saman við sundrunguna innan Verkamannaflokksins og minnt á, að ekkert væri verra fyrir stjórnmálaflokk en deilur milli forystumanna hans. Að kvöldi fimmtudagsins 6. nóvember snæddu þeir Blair og Brown saman og leituðust við að sætta sjónarmið sín. Sögðu blöðin, að þar hefði Brown verið boðið að sitja þá fundi í framkvæmdastjórn flokksins, sem hann vildi, en án atkvæðisréttar, auk þess ættu nánustu samstarfsmenn ráðherrann að gæta þess að ýta ekki undir sögusagnir um ágreining þeirra með óvarlegu tali við fjölmiðlamenn eða á opinberum vettvangi.

 

Allt féll þó í skuggann á fréttum um Karl prins og atvik meðal starfsmanna hans, sem Mail on Sunday ætlaði að segja frá síðasta sunnudag en var bannað með afskiptum dómstóla. Síðan hefur nánasti samstarfsmaður Karls innan hirðarinnar gengið fram fyrir skjöldu til að verja málstað prinsins og slá á fjölmiðlaumræður, en prinsinn er sjálfur á ferð í Óman eftir heimsókn til Indlands. Þykir allt málið hið vandræðalegasta fyrir prinsinn, án þess að nokkurt blaðanna hafi skýrt frá því, hvert þetta atvik er. Þau segja hins vegar, að bannið eigi ekki við um erlend blöð og um málið megi lesa á Netinu, í skoskum blöðum, Corriera de la Sera  á Ítalíu og La Libération í Frakklandi.

 

Er með ólíkindum, hve lengi og mikið er unnt að ræða um vandræðamál í kringum Karl prins. Blöðin hljóta þó að seljast vel vegna þessa, því að hjá fleirum en einum blaðasala voru sum þeirra uppseld, þegar ég ætlaði að kaupa þau, sem mér finnst mest virði að lesa. Hitt er annað mál, að fá blöð standast hinum bresku snúning, hin mikla samkeppni milli þeirra tryggir lesendum spennandi þjónustu.