Halldór, Ferðalok, Kristmann - ráðherraskipti.
Jólalesturinn heldur áfram og nú hef ég lokið við þrjár bækur, sem allar eiga það sameiginlegt að snúast um rithöfunda: Halldór eftir Hannes Hólmstein Gissurarson, Ferðalok eftir Jón Karl Helgason og Borgir og eyðimerkur, skáldsaga um Kristmann Guðmundsson eftir Sigurjón Magnússon.
Tvær fyrrnefndu bækurnar eru sagnfræðilegs eðlis, Hannes Hólmsteinn fræðir okkur um ævi Halldórs Laxness og Jón Karl gerir grein fyrir því, þegar líkamsleifar Jónasar Hallgrímssonar voru fluttar til landsins árið 1946. Þar kemur Halldór Laxness einnig við sögu, því að saga hans Atómsstöðin snýst að öðrum þræði um heimflutning beina Jónasar og á hinn bóginn um Keflavíkursamninginn frá 1946.
Í skáldsögunni um Kristmann er að nokkru stuðst við sögulega atburði en höfundur nýtir sér einnig skáldaleyfið til að draga upp dramatískar myndir í því skyni að skilgreina stöðu Kristmanns. Má þar nefna ræðu, sem hann er sagður hafa flutti til stuðnings Keflavíkursamningnum á fundi í Listamannaskálanum í september 1946. Lýsir Sigurjón viðtökum ræðunnar á þennan veg: “Og loks þegar hann hneigði sig og þakkaði áheyrnina var engu líkara en sprengja hefði enn á ný fallið meðal fundargesta ? þeir hófu þá upp raust sína og hatursópin urðu að ógnvekjandi drunu úti í myrkrinu.”
Ég bíð þess eins og aðrir, að Hannes Hólmsteinn svari þeirri gagnrýni, sem hann hefur sætt vegna bókar sinnar. Hann hefur skrifað mjög læsilega og fróðlega bók, sem bregður góðri birtu á þessi mótunarár í ævi Laxness.
Af umræðuþætti á rás 1 í dag, sunnudaginn 4. janúar, dreg ég þá ályktun af orðum þeirra Jóns Karls Helgasonar bókmenntafræðings og Þórunnar Valdemarsdóttur sagnfræðings, að ekki sé unnt að segja eina aðferð umfram aðra algilda við ævisagnaritun. Hefðir séu mismunandi eftir löndum, svo að ekki sé rætt um ólík efnistök höfunda. Höfuðmáli skipti að sjálfsögðu að koma efninu sem best til skila til hins almenna lesanda, sé bókin á annað borð rituð fyrir hann en ekki þröngan hóp fræðimanna. Ýmsar aðferðir séu fyrir hendi til að virða rétt annarra höfunda. Hins vegar verði aldrei undan því vikist, að í bókmenntum og sagnfræði eigi höfundar samtal, sem myndi þráð í allri úrvinnslu. Efnistök við ritun ævisögu byggist að sjálfsögðu á því efni, sem til er um söguhetjuna, hvort sem það er til frá henni sjálfri eða öðrum, sem um hana fjalla.
Strax og fréttist, að Hannes Hólmsteinn væri að skrifa ævisögu Halldórs Laxness var engu líkara en sprengja hefði fallið í ákveðinn hóp manna og viðbrögð einstaklinga innan hans hafa síðan minnt á lýsingu Sigurjóns á hrópunum, sem gerð eru að Kristmanni, þegar hann vogaði sér að styðja Keflavíkursamninginn.
Jón Karl minnir á það í Ferðalokum, hve erfitt getur verið að fjalla um Halldór Laxness. Hann segir undir lok bókar sinnar:
“Athyglisverðust er þó kannski sú staða sem Halldór Laxness hefur fengið hér á landi sem þjóðardýrlingur. Táknrænt auðmagn hans er orðið slíkt að það jaðrar við guðlast að ætla sér að vekja athygli á hans mannlegri hliðum.”
Vitnar Jón Karl síðan um þetta með persónulegri frásögn af því, þegar hann ætlaði með félaga sínum að nýta í íslenskukynningu á vegum Mjólkursamsölunnar tilvitnun úr bók Halldórs Dögum hjá múnkum sem geymir úrval úr dagbók Halldór, þegar hann var ungur í klaustri í Lúxemborg. Voru þessar tilvitnanir bornar undir útgefanda Halldórs, sem vildi ekki heimila notkun þeirra með þessum rökum: “Þið sem ímyndarsmiðir hljótið að skilja að við getum ekki fallist á að því sé komið inn hjá þjóðinni að svona hafi Halldór Laxness verið ? maður sem var öðru fremur þekktur af lítillæti og fyrir að hafa viljað rétta hlut kvenna.”
Þeir, sem vilja, að mynd lítillætis og kvenréttinda grópist í huga Íslendinga, þegar þeir minnast Halldórs Laxness, hafa fengið nýja áskorun með ævisögu Hannesar Hólmsteins.
Hannes er ekki kominn að árinu 1946. Við kynnumst Halldóri á þeim tíma í frásögn hans í næsta bindi. Af bókunum um bein Jónasar annars vegar og um Kristmann hins vegar fáum við á hinn bóginn nasasjón af samtvinnun kalda stríðsins og menningarumræðna. Verður ekki skilið á milli stjórnmáladeilna og innbyrðis átaka rithöfunda og skálda á þeim tíma hér á landi frekar en annars staðar á Vesturlöndum. Er þetta uppgjör sársaukafullt fyrir þá, sem mátu þróun heims- og þjóðfélagsmála rangt á tímum kalda stríðsins og töpuðu því.
Hef ég oft lýst þeirri skoðun, að ekki eigi að láta deilur þessa magnaða spennutímabils heima og erlendis liggja í þagnargildi heldur gera upp við það af einurð og hreinskilni.
Ráðherraskipti.
Tómas Ingi Olrich lét af störfum menntamálaráðherra á ríkisráðfundi 31. desember sl. og hættir jafnframt þingmennsku, enda hefur verið ákveðið, að hann verði sendiherra Íslands í París næsta haust. Við Tómas Ingi komum inn á þing saman eftir kosningarnar 1991 og höfum síðan átt samleið í þingflokki sjálfstæðismanna og verið samstiga í öllum meginmálum í stjórnmálabaráttunni. Hann tók við af mér sem menntamálaráðherra 2. mars 2002, þegar ég bauð mig fram til borgarstjórnar Reykjavíkur.
Þingmannahópur sjálfstæðismanna, sem náði fyrst kjöri 1991, hefur haldið vel saman og stuðlað að miklum breytingum á íslensku þjóðfélagi. Er skarð fyrir skildi, þegar jafnöflugur maður og Tómas Ingi hverfur úr hópnum, en hann tók að sér að leiða mörg vandasöm mál í gegnum þingið fyrir hönd þingflokksins.
Arnbjörg Sveinsdóttir sest á þing í stað Tómasar Inga. Hún var þingmaður Austurlands í tvö kjörtíambil, 1995 til 2003 og býr því að góðri reynslu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verður menntamálaráðherra. Hún var kjörin á þing 1999 og hefur áunnið sér traust og vinsældir innan Sjálfstæðisflokks og utan. Fylgja henni góðar óskir, þegar hún axlar hið viðamikla ráðherrastarf.