8.2.2004

Úlfaþytur vegna ríkisráðsfundar

Furðulegur úlfaþytur hefur verið gerður í tilefni af afmæli heimastjórnar og upphafi þingræðis á Íslandi. Allir vel upplýstir Íslendingar vita, að þáttaskilin, sem urðu 1904, skipta miklu í þjóðarsögunni.  Er bæði sjálfsagt og eðlilegt að minnast þeirra á hátíðlegan hátt.

Einkennilegt er, að einhver telji sæmd sinni samboðið að leggja það á sig að gera lítið úr því, að þessa atburðar sé minnst; fjargviðrast yfir því, að 45 mínútna hátíð sé haldin í Þjóðmenningarhúsinu og henni sjónvarpað; finna að því, hver var sjónvarpskynnir hátíðarinnar eða hvaða listamenn létu þar að sér kveða; gagnrýna gestalista á hátíðinni, hvernig myndavélum var beitt og þar fram eftir götunum. Þetta tal er svo fáfengilegt, að erfitt er að setja sig í spor þeirra, sem komast í svona skap, þegar minnst er viðburða í sögu lands okkar og þjóðar. Þegar 1000 ára afmæli kristni var minnst, þótti úrtölumönnum ofgert vegna þess að þjóðinni var boðið til hátíðar á Þingvöllum, nú kvarta þeir undan því, að ekki sé nógu mörgum boðið til hátíðarinnar. Eftir kristnitökuhátíð var hart vegið að forystumönnum kirkjunnar nú er vegið að forsætisráðherra og sagt, að hann geri veg Hannesar Hafteins of mikinn og efni til flokkshátíðar!

Þetta tal er þó aðeins stormur í tebolla miðað við fjölmiðlafárviðrið vegna fundarins í ríkisráðinu 1. febrúar 2004. Ég tók þátt í þessum fundi og þótti allt eðlilegt í kringum hann og varð því dolfallinn, þegar ég hlustaði á hinn reiða forseta Íslands tala til okkar fundarmanna og þjóðarinnar allrar að fundinum loknum. Dró ekki úr undrun minni, þegar forsetinn sá ástæðu til að gefa út sérstaka yfirlýsingu í tilefni af málinu og birtist hún meðal annars í ramma á forsíðu Morgunblaðsins.

Aðdragandi ríkisráðsfundarins er skýr og einfaldur. Ákveðið var í ríkisstjórn að frumkvæði forsætisráðherra, að uppfæra skyldi reglugerð um Stjórnarráð Íslands frá 1969 í tilefni af 100 ára afmæli stjórnarráðsins 1. febrúar 2004. Var hverju ráðuneyti um sig falið að ganga til þessa verks og hófst það í desember. Minnisblaði um málið var dreift til ráðherra og ráðuneyta.

Reglugerðin hefur þá sérstöðu meðal reglugerða, að hún er staðfest af forseta Íslands. Forsætisráðuneytið hélt utan um uppfærsluna og lauk henni í tæka tíð fyrir 1. febrúar og þá var ákveðið að kalla ríkisstjórn saman til fundar þann dag til að staðfesta niðurstöðuna og jafnframt að málið skyldi borið undir forseta til staðfestingar, en ekkert mál fer frá ríkisstjórn til forseta, án þess að borið sé upp í ríkisstjórn. Ráðherrar voru kallaðir saman til ríkisstjórnarfundar í Ráðherrabústaðnum klukkan 12.00 sunnudaginn 1. febrúar til að leggja lokahönd á þetta verk.

Forseti Íslands var erlendis og í tilefni dagsins komu tveir handhafar forsetavalds, forseti alþingis og forseti hæstaréttar, til ríkisráðsfundar í Ráðherrabústaðnum klukkan 12.30 1. febrúar til að staðfesta reglugerðina. Á fundinum minntist forsætisráðherra, þriðji handhafi forsetavalds, þess nokkrum orðum, að þennan dag væri 100 ára afmæli heimastjórnar. Var staðfesting reglugerðarinnar færð til bókar og fundi slitið en síðan rituðu allir viðstaddir undir fundargerðarbók. Tvo ráðherra vantaði á fundinn: Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra en bæði voru erlendis.

Allt hafði þetta yfir sér hátíðlegan og einfaldan blæ og eftir fundinn hvarf hver til sinna verkefna, þar til þessi sami hópur hittist að nýju í Þjóðmenningarhúsinu klukkan 13. 30, þar sem forsætisráðherra voru afhent fyrstu eintökin af Sögu stjórnarráðsins við hátíðlega athöfn – hafði forseta Íslands að sjálfsögðu verið boðið til hennar en hann kom ekki vegna dvalar sinnar í Bandaríkjunum, þar sem hann var þessa daga í einkaerindum.

Eftirleikurinn eftir þessa atburði og athöfnina í Þjóðmenningarhúsinu að kvöldi 1. febrúar hófst með reiði forseta Íslands í fjölmiðlum 2. febrúar. Samtímis byrjaði hörð fjölmiðlasókn til að setja þá ákvörðun forseta Íslands, að dveljast erlendis 1. febrúar í sem best ljós. Ákvörðun forseta um utanför, sem handhöfum forsetavalds var tilkynnt í símbréfi frá forsetaembættinu eftir lokun skrifstofa þeirra föstudaginn 23. janúar, leiddi til þess, að handhafarnir tóku við verkefnum hans í samræmi við íslensk stjórnlög. Hafa þeir síðan gegnt skyldum sínum í samræmi við það. Hefði forseti Íslands verið á landinu 1. febrúar, hefðu handhafar forsetavalds ekki komið í hans stað.

Forsetinn tók sjálfur ákvörðun um fjarveru sína frá afmæli heimastjórnar. Vilji menn ræða kjarna þessa máls eiga þeir að beina athygli sinni að þessari ákvörðun forseta Íslands og stjórnskipulegum réttaráhrifum hennar. Til lítils er að kveikja villuljós í von um, að menn komist að réttri niðurstöðu með því að fara eftir þeim. Hér skal rætt um nokkur slík ljós í fjölmiðlaumræðum síðustu daga.

1.     Það átti að hringja í forseta vegna staðfestingar á reglugerðinni. Mörg hundruð lög hafa verið staðfest af handhöfum forsetavalds, án þess að samráð hafi verið haft við forseta Íslands. Hér var um staðfestingu á reglugerð að ræða og efnt til funda í ríkisstjórn og síðan ríkisráði af því tilefni vegna aldarafmælis stjórnarráðsins. Forsætisráðherra hefur í hendi sér að óska eftir ríkisráðsfundi, hvenær sem honum sýnist tilefni til þess. Forseti verður að una því, að ríkisráðið komi saman í fjarveru hans. Það væri fráleitt, að hann gæti hindrað fundi þess með því að fara úr landi.

2.     Forsetinn hafði ekki nægilega miklu hlutverki að gegna á afmælishátíðinni. Forseti Íslands hefur í áranna rás tekið þátt í fjölda atburða án þess að  hafa þar öðru hlutverki að gegna en vera viðstaddur, heiðra menn og málefni með nærveru sinni. Sé það forsenda þátttöku forseta Íslands í stórviðburðum, að hann hafi þar einhverju hlutverki að gegna umfram að sýna sig og sjá aðra, er um þáttaskil í sögu embættisins að ræða.

3.     Forsetinn, Vestfirðingurinn, var ekki einu sinni boðinn til Ísafjarðar, þegar þar var afhjúpuð stytta af Hannesi Hafstein. Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðar, sagði í hljóðvarpsfréttum ríkisins 6. febrúar, að rætt hefði verið, hvort bjóða ætti forseta Íslands til Ísafjarðar vegna heimastjórnarafmælisins, en síðan ákveðið að beina sjónum að alþingi, ríkisstjórn og minningu Hannesar Hafsteins. Að telja slíka ákvörðun móðgun við forseta Íslands eða embætti hans er langsótt.

4.     Ekki var rætt með nægilegum fyrirvara um afmælið við forsetann eða skrifstofu hans. Forseta Íslands og skrifstofu hans mátti vera ljóst, að þessa afmælis yrði minnst og hefur undirbúningur þess verið lengi á döfinni, meðal annars var ákveðið árið 1999 að skrifa áfram sögu stjórnarráðsins.  Ef forsetaembættið ákveður í tilefni þessa atburðar, að það skuli draga sig í hlé á þeirri forsendu, að ekki hafi verið rætt við það með nægilegum fyrirvara, kallar það á, að af hálfu embættisins séu sett viðmið fyrir þá, sem æskja nærveru forseta eða hann birti dagskrá sína opinberlega, svo að unnt sé að haga dagsetningum atburða í samræmi við það, sé ekki um afmælisdaga að ræða.

5.     Hátíðin í Þjóðmenningarhúsinu var sjónvarpsdagskrá. Forseti Íslands lýsti athöfninni á þennan veg í yfirlýsingu sinn. Hann hefur greinilega misskilið eðli athafnarinnar.  Gerir það innsetningarathöfn forseta Íslands í Alþingishúsinu að sjónvarpsdagskrá, ef sent er beint frá henni?

6.     Forsetinn hefur skrifað fræðilega ritgerð um heimastjórnartímabilið og er sérfróður um það. Forseti Íslands fer víða og flytur fyrirlestra um ýmis málefni. Hann getur hvenær sem er fundið sér vettvang til að flytja erindi um heimastjórnina.  Hann hefði meira að segja getað sent frá sér yfirlýsingu um hana frá Banadríkjunum í tilefni þessara tímamóta.

7.     Júlíus Hafstein framkvæmdastjóri vegna heimastjórnarafmælisins lét neikvæð ummæli falla um forsetafrúna. Fréttastofa hljóðvarps ríkisins flutti þennan pistil í fréttatíma klukkan 18.00 hinn 3. febrúar:

„Júlíus Hafstein, skipuleggjandi hátíðahaldanna í tilefni heimastjórnarafmælisins fór hörðum orðum um Dorrit Moussaieff, forsetafrú á útvarpi Sögu 9. janúar síðastliðinn. Tilefnið var ummæli sem hún lét falla í viðtali við ísraelska dagblaðið Haaretz um öryggismál forsetaembættisins.

Júlíus Hafstein, skipuleggjandi hátíðahalda: Nei, það las nú bara einn fréttamaður og kannski ekki góður fréttamaður, hann las fyrir mig þennan pistil sem að hún hafði um öryggismál forsetans í blaði í Ísrael, já og maður hlýtur að staldra við þegar að forsetafrú Íslands er að tala um öryggismál þjóðhöfðingjans á erlendum vettvangi og sérstaklega í landi þar sem er nú hálfgert stríð og í landi þar sem að Arabaþjóðírnar fylgjast betur með hvað sagt er og gert er heldur en nokkurs staðar annars staðar, þær þjóðir sem að hýsa flest stærstu hryðjuverkasamtök veraldar. Það fylgja því skyldur og réttindi eða réttindi og skyldur og ábyrgð að vera maki þjóðhöfðingja hvar sem hann er, hér líka. Og þegar hún talar með þessum hætti þá er hún að segja jafnframt að það sé ekki eingöngu forsetinn heldur líka aðrir ráðamenn. Það er nefnilega þannig svo víða erlendis að það er litið á embætti forsetans númer eitt, en hér er það þannig að forsetinn er fyrst og fremst tákn, sameiningartákn þjóðarinnar, valdalaus, en erlendis er þetta ekki eins. Og þegar hún talar svona þá talar hún um alla ráðamenn. Og hér hefur forsetafrúin sko farið langt, langt út fyrir það sem að hún má gera. Ég held það séu allir sem að horfa á þetta með einhverjum sæmilega skýrum augum sjá það að forsetafrúin hefur sko verulega, verulega gert í rúmið..

Þetta var Júlíus Hafstein í þættinum Hrafnaþingi á útvarpi Sögu 9. janúar. Þetta var birt með góðfúslegu samþykki útvarps Sögu.“

Hlustendur fréttastofu hljóðvarpsins vita, að það gerist ekki nema mikið sé í húfi, að hún leiti til annarra eftir efni – ekki síst ef þau eru nærri mánaðargömul.  Væri forvitnilegt að rekja þráð þessara orða  Júlíusar inn í fréttatíma hljóðvarpsins. Hver var með hugann við þau í tilefni af heimastjórnarafmælinu og fjarveru forseta Íslands?

8.     Reglugerðina þarf að bera upp að nýju til staðfestingar í ríkisráðinu. Þessi staðhæfing stenst einfaldlega ekki. Allar embættisathafnir handahafa forsetavalds jafngilda athöfnum forseta Íslands.

9.     Forsetinn er einskonar yfirráðherra. Að prófessor í stjórnmálafræði (Svanur Kristjánsson) skuli tala um framkvæmdavaldið og ríkisstjórn á þann veg, að forseti Íslands sé einskonar yfirráðherra og geti meira að segja vikið ráðherrum úr embættum sínum sýnir alvarlegan þekkingarskort á íslenskri stjórnskipun. Tilraunir prófessorsins til að laga eðli forsetaembættisins að eigin skoðunum eru dæmdar til að misheppnast, því að þær eiga sér engar forsendur í stjórnskipun lýðveldisins Íslands.

10. Ríkisráðið er æðsta stofnun íslenska ríkisins. Ríkisráðið er háð þeim valdmörkum, sem alþingi setur því í krafti þingræðisreglunnar og þess vegna ekki æðsta stofnun lýðveldisins. Viðleitni þeirra Sigurðar Líndals prófessors og Svans Kristjánssonar til að skýra völd forseta Íslands án tillits til þingræðisreglunnar byggist í besta falli á hrapallegum misskilningi og hinu versta á dómgreindarbresti vegna upphafningar á embætti forseta Íslands.

Öll eru þessi 10 ljós þannig bersýnilega villuljós og sett fram í þeim tilgangi einum að draga athygli frá kjarna málsins: ákvörðun forseta Íslands um að dveljast erlendis á 100 ára afmæli Stjórnarráðs Íslands.

Engin meginrakanna til afsökunar á fjarveru forseta Íslands frá aldarafmæli heimastjórnar á Íslandi standast, Fyrir fjarvistinni eru hvorki efnisleg né málefnaleg rök. Málsvarar fjarvistarinnar hafa brugðið sér í hlutverk spunameistara til að slá ryki í augu fólks fyrir tilstyrk fjölmiðla. Morgunblaðið er eini fjölmiðillinn, sem hefur ekki tekið þátt í spunanum heldur skýrt frá málinu í samræmi við efni þess. DV komst að þeirri furðulegu niðurstöðu í æpandi forsíðufrétt, að forsetahjónin hefðu verið niðurlægð -  með hverju? Jú, væntalnega því, að ákveða að dveljast erlendis á merkisafmæli í þjóðarsögunni! Fréttastofa hljóðvarps ríkisins vék lengst úr vegi með því að fara á útvarp Sögu til að finna tæplega mánaðargömul ummæli Júlíusar Hafsteins í því skyni að skýra fjarveru forsetahjónanna.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru í þeim miklu fjölmiðlaumræðum, sem fram hafa farið vegna heimastjórnarafmælisins og fjarveru forseta Íslands. Ég hef staldrað við það, sem vakti athygli mína. Ég læt þess ógetið, hverjir hafa verið kallaðir til viðræðna um málið í því skyni að verja málstað forseta Íslands en þar hafa auk Svans Kristjánssonar meðal annarra verið fyrrverandi aðstoðarmenn Ólafs Ragnars sem fjármálaráðherra, samfylkingarfólkið, Svanfríður Jónasdóttir, fyrrverandi alþingismaður, og Mörður Árnason alþingismaður auk Einars Karls Haraldssonar, sem er handgenginn forseta Íslands í almannatengslum.

Eiríkur Bergmann Einarsson, helsti talsmaður aðildar Íslands að Evrópusambandinu, hefur ekki glaðst yfir heimastjórnarafmælinu, enda er hann ekki sérstakur málsvari þess, að ríkisstjórnir einstakra Evrópulanda hafi mikil völd – þær skulu lúta forystu þeirra, sem fara með völdin í nafni Evrópusambandsins í Brussel. Þar hefur þingræðisreglunni verið kastað út í ystu myrkur.

Heimastjórnarafmælið hefur vegna fjarveru forseta Íslands ekki aðeins dregið athygli að eðli forsetaembættisins heldur einnig  að því með hve veikum rökum er unnt að halda uppi efnislegri vörn fyrir tilvist embættisins, þegar á reynir í opinberum umræðum.

Ég fullyrði, að engum okkar, sem sátum friðsælan og stuttan ríkisráðsfundinn hinn 1. febrúar 2004 í tilefni af 100 ára afmæli heimastjórnar á Íslandi, hafi til hugar komið, að sú hátíðlega og formlega athöfn mundi valda þeim úlfaþyt, sem síðan hefur verið gerður. Síst af öllu hvarflaði að nokkrum, sem þarna sat, að forseti Íslands myndi blása til  fjölmiðlafárs. Frumskylda þess, sem situr í forsetaembættinu hverju sinni, er nefnilega að hafa þjóðarhag, einingu og virðingu embættis síns í fyrirrúmi.