Umskiptingar og einfalt uppgjör við fortíðina.
Í síðasta pistli mínum fjallaði ég um hinn afstæða sannleika og vitnaði einnig til greinar um fjölmiðla í Lesbók Morgunblaðsins, þar sem höfundur tók undir með Pablo Picasso, að sannleikurinn væri lygi. Enn komu mér umræður um sannleikann í huga, þegar ég fylgdist með tveimur fréttum vikunnar, að Ólafur Ragnar Grímsson hefði ákveðið að bjóða sig fram til að sitja þriðja kjörtímabilið sem forseti og Sigurður G. Guðjónsson, forstjóri Norðurljósa, lýsti samskiptum sínum við Jón Ólafsson, fyrrverandi aðaleiganda fjölmiðlasamsteypunnar.
Ólafur Ragnar Grímsson sat fyrir svörum í Kastljósi fimmtudagskvöldið 18. mars, þar sem hann var meðal annars spurður um þau ummæli sín á blaðamannafundi mánudaginn 15. mars, þegar hann kynnti framboð sitt, að hann teldi sig eiga að verða virkari þátttakandi í umræðum líðandi stundar og svara, ef á sig væri hallað, en sér þætti, sem ýmsir teldu sig hafa „skotleyfi“ á forsetaembættið.
Mér virtist Ólafur Ragnar frekar draga í land í Kastljósinu, þegar hann sagði, að í orðum sínum á blaðamannafundinum fælust kannski ekki breytingar í sjálfu sér. Ólafur Ragnar svaraði að nokkurri þykkju, þegar hann var spurður að því í þessari lotu samtalsins, hvort hann ætlaði að taka aftur upp hætti sína sem formaður Alþýðubandalagsins í opinberum umræðum. Sagði hann ekkert réttlæta, að hann væri spurður á þennan veg.
Þegar Ólafur Ragnar bauð sig fram til forseta 1996, var það að sjálfsögðu meginstef hans, að hann mundi skipta um ham, frá því að vera flokkspólitískur leiðtogi á vinstri kantinum og verða málsvari allrar þjóðarinnar, þess vegna kom það greinilega illa við hann í Kastljósinu, að menn teldu sig enn sjá merki gamla flokksformannsins í persónu hans.
Í leiðara Stúdentablaðsins 2. tbl. 2004, sem ber fyrirsögnina: Er Ástþór nokkuð verri en Ólafur? rifjar Guðmundur Rúnar Svansson það upp, að fyrir síðasta prófkjör Samfylkingarinnar hafi Einar Karl Haraldsson, prófkjörsframbjóðandi, eindreginn stuðningsmaður Ólafs Ragnars og samherji innan Alþýðubandalagsins sáluga, í kosningabæklingi sínum brugðið nýju ljósi á forsetaframboð Ólafs Ragnars árið 1996. Í leiðara Stúdentablaðsins segir:
„Það kemur mjög skýrt og afgerandi fram [hjá Einari Karli] að Ólafur ætlaði sér aldrei að verða forseti þjóðarinnar. „Strax um haustið 1995 var rætt um að Ólafur þyrfti að finna sér nýjan upphafspunkt í pólitíkinni, en hann hafði þá látið af formennsku í Alþýðubandalaginu. Menn rifjuðu upp að Albert Guðmundsson hafði farið í forsetaframboð 1980 og fengið tuttugu prósent fylgi sem varð honum gott veganesti í pólitíska baráttu næstu ára,“ segir Einar um aðdragandann. „Þetta væri snjall leikur fyrir Ólaf, að byggja upp fylgisstokk í forsetakosningunum sem síðan væri hægt að nota við sameiningu vinstrimanna – því satt að segja datt engum í hug í fyrstu að Ólafur næði kjöri sem forseti.“ Eða með öðrum orðum – Ólafur ætlaði sér aldrei að verða forseti, heldur vildi halda áfram í pólitík.“
Ritstjóri Stúdentablaðsins nefnir síðan dæmi úr stúdentapólitíkinni, sem hann telur sýna, að Ólafur Ragnar hafi sem forseti tekið afstöðu með Röskvu í umdeildu máli.
Í Kastljósinu blasti við, að Ólafur Ragnar átti enga haldbæra málefnalega skýringu á fjarveru sinni frá 100 ára afmæli heimastjórnarinnar – það afmæli snýst ekki um þá, sem standa að því að minnast þess með reisn, heldur virðingu fyrir merkum þáttum í stjórnmálasögu og sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.
Að strika yfir fortíðina og koma fram sem umskiptingur er ríkur þáttur í öllu stjórnmálastarfi íslenskra vinstrisinna. Í því ljósi ber að skoða tilvist Samfylkingarinnar, vinstri/grænna og R-listans. Á hinn bóginn getur enginn komið fram sem hvítvoðungur í stjórnmálabaráttu, allir eiga fortíð og vandi tengdur henni er misjafnlega mikill. Augljóst er, að Ólafur Ragnar vill ekki ræða sína pólitísku fortíð nú frekar en í kosningabaráttunni 1996. Hann leitaðist við að árétta útþurrkun hennar með því að segja í Kastljósinu, að síðan 1996 hefði orðið gjörbreyting vegna þess að kalda stríðinu hefði lokið – því lauk árið 1991 ef ekki árið 1989 með hruni Berlínarmúrsins. Ekkert hefur breyst í því efni síðan 1996.
Ég er eindregið andvígur þeirri túlkun Sigurðar Líndals prof. e., að 26. grein stjórnarskrárinnar veiti forseta Íslands rýmra umboð en önnur ákvæði stjórnarskrárinnar um ábyrgðarleysi hans á stjórnarathöfnum eða hún ýti þingræðisreglunni til hliðar. Ólafur Ragnar talar hins vegar um hlutverk forsetans eins og Sigurður Líndal hafi lög að mæla og í skjóli þess gefur hann til kynna, að forsetinn hafi heimild til að brjóta gegn þingræðinu. Segist hann hafa velt fyrir sér tveimur málum í ljósi þessa stjórnarskrárákvæðis og var annað þeirra lögheimild um Kárahnjúkavirkjun, en lögin voru samþykkt með aðeins 9 mótatkvæðum á alþingi.
Það hefði verið skýr atlaga að þingræðinu, ef forseti hefði neitað að rita undir þau lög – eins og raunar öll viðleitni af hans hálfu til að hindra framkvæmd á vilja alþingis. Það er aðeins til að kynnast því, hve menn geta einangrast í fílabeinsturni við akademískar útlistanir og æfingar, að hlusta á rök þeirra, sem telja forseta Íslands heimilt að brjóta gegn þingræðinu og leitast við í nafni slíkra kenninga að draga embættið inn á grátt átakasvæði við þá, sem hafa skýrar valdheimildir samkvæmt stjórnarskránni.
*
Hinn 18. mars 2004 lagði Sigurður G. Guðjónsson, forstjóri Norðurljósa, fram skýrslu á aðalfundi félagsins fyrir árið 2003 en þar er rakin saga endurfjármögnunar fyrirtækisins.
Sigurður segir, að síðan í mars 2001 hafi viðræður um endurfjármögnun félagsins verið „afar ómarkvissar og í raun gengið út á það eitt að viðhalda yfirráðum Jóns Ólafssonar yfir félaginu í gegnum NLC Holding S.A.“ Hann segir, enga markvissa vinnu hafa átt sér stað af hálfu stjórnar Norðurljósa til að leysa félagið undan þeim skuldabagga, sem á því hvíldi. Jón Ólafsson, stjórnarformaður félagsins, hafi að mestu dvalist erlendis, einkum í London, og reynt að hafa uppi á hugsanlegum aðilum til að koma með nýtt fé inn í Norðurljós og/eða ráðgjöf um framhald og framgang endurfjármögnunar Norðurljósa.
Jóni Ólafssyni hafi verið veitt umboð stjórnar til að semja við ensk fjármálafyrirtæki um endurfjármögnun, þ.á m. ECO3 Capital, en frá því hafi hins vegar aldrei heyrst múkk. Jón hafi að mestu haldið sig utan við umræður við fulltrúa skuldabréfaeigenda og þá eins og endranær haldið sig að mestu utan íslenskrar lögsögu.
Í september 2003 hafi Jón Ólafsson enn gert grein fyrir áhuga erlendra fjárfesta á að festa fé í Norðurljósum, en einn þeirra hafi verið Marcus Evans sem síðar kom til Íslands og ræddi m.a. við forsætisráðherra, Davíð Oddsson, um aðkomu sína að Norðurljósum. Um þetta framtak Jón segir Sigurður orðrétt: „Það er skemmst frá því að segja að allt reyndist það sem fram hafði komið hjá stjórnarformanni Norðurljósa á stjórnarfundinum 9. september tálsýn ein og í raun bull.“
Í ársskýrslunni vitnar Sigurður í tölvupóst sinn frá 17. október 2003 með varnaðarorðum til Jóns Ólafssonar persónulega um að vandi félagsins verði ekki leystur með neinum leik „sem ég bið að verði stoppaður nú þegar, nema allt eigi til andskotans að fara.“ Í lok október 2003 sendi Sigurður síðan stjórnarmönnum Norðurljósa tölvupóst, þar sem segir meðal annars:
„Ágætu stjórnarmenn, ég vona að þið gerið ykkur grein fyrir því að ábyrgð ykkar er mikil í dag eins og fjárhag Norðurljósa er komið. Seta í stjórn þessa félags sem er með fast að þrjú hundruð stöðugildi starfsmanna og veltir nærri 6 milljörðum á ári en skuldar lánardrottnum öðrum en viðskiptamönnum 6,9 milljarða er ekki eitthvað sem afgreitt verður með þögn á stuttum mánaðarlegum stjórnarfundum heldur aktívu starfi."
Í samtali við Morgunblaðið, sem birtist 19. mars segir Sigurður, að sér hafi þótt tímabært að gera grein fyrir þeirri atburðarás, sem í byrjun þessa árs leiddi til endurskipulagningar Norðurljósa. „Þarna er bara verið að gera upp fortíðina,“ segir Sigurður.
Já, einmitt. Bara verið að gera upp við fortíðina. Hinn 27. júlí árið 2002 birtist langt viðtal Agnesar Bragadóttur við Sigurð G. Guðjónsson í Morgunblaðinu, þar sem hann taldi einsýnt, að Jóni Ólafssyni og félögum tækist að leysa fjárhagsvanda Norðurljósa, annað kæmi auðvitað ekki til álita.
Agnes spyr meðal annars: Það hefur komið fram að Jón Ólafsson og Sigurjón Sighvatsson hafi í áravís fengið greiddar mánaðarlega ráðgjafargreiðslur frá Stöð 2 inn á erlenda bankareikninga sína. Mér skilst að hér hafi verið um upphæðir að ræða sem hlupu á tugum milljóna króna á ári. Kom ekki til álita, þegar harðna tók á dalnum, að fella niður þessar ráðgjafargreiðslur?
Sigurður G. Guðjónsson svarar: „Alveg frá árinu 1995, þegar farið var í fyrstu endurfjármögnun Íslenska útvarpsfélagsins, og svo aftur 1999, við aðra endurfjármögnun, var sérstakt ákvæði um ráðgjafarsamninga við hluthafa félagsins eða aðila sem þeir kunna að vera hjá.
Ástæða þessa var sú að erlendu bönkunum var mikið í mun að halda Jóni Ólafssyni og Sigurjóni Sighvatssyni að félaginu, þannig að þeir gætu ekki labbað frá því og selt hluti sína eftir að hafa skuldsett það, með þeim hætti sem gert var.
Upphaflega vildu bankarnir fá veð í hlutabréfum þeirra Jóns Ólafssonar og Sigurjóns Sighvatssonar, en því var hafnað. Þá kröfðust bankarnir þess að þeir veðsettu ekki bréf sín með einum eða neinum hætti til þriðja aðila.
Fyrir þessa kvöð og svo hitt, að báðir eru sérfræðingar um fjölmiðlun, kvikmyndir, tónlist og þess háttar, þótti eðlilegt og sjálfsagt að þeim væru greiddar ráðgjafargreiðslur.
Það hefur þannig alltaf legið fyrir í gögnum félagsins að félagið er skuldbundið til þess að greiða þessum tveimur hluthöfum sérstakar greiðslur fyrir að mega ekki selja hlutinn sinn, fyrir að láta félaginu í té ráðgjöf og fyrir að vera bakbeinið í rekstrinum. Þetta hefur alltaf legið fyrir og er í raun og veru ekkert óeðlilegt og er í samræmi við það sem býr oft að baki við það sem gerist við samninga um skuldsett fyrirtækjakaup. Það er verið að treysta á að sá sem kaupir með þeim hætti sé bundinn fyrirtækinu og því tryggur og trúr og fyrir það eigi hann að fá ákveðna umbun eða þóknun.“
Í DV, sem er hluti Baugsmiðlanna eins og Norðurljós, er vakin athygli á því í dag, 20. mars, að skýrslu sína hafi Sigurður G. Guðjónsson lagt fram hinn 18. mars, en hinn 18. mars 1956 hafi hin fræga ræða Krútsjovs um uppgjör hans við illvirki og grimmd Stalíns, fyrrverandi leiðtoga síns, einmitt birst opinberlega. D V á hrós fyrir þessa sögulegu árvekni sína. Hún vekur spurningu um það, hvort innan fjölmiðlasamsteypunnar hafi menn búið sig undir þetta uppgjör, kannski Sigurður hafi fyrst kynnt skoðanir sínar hinn 25. febrúar á trúnaðarfundi hennar, en þann dag 1956 flutti Krútsjov ræðu sína um Stalín á 20. þingi sovéska kommúnistaflokksins.
(Raunar er með hálfum huga, sem ég treysti á sögulegar upprifjanir DV, eftir að fullyrt var í blaðinu síðastliðinn mánudag, að faðir minn hefði verið skírður í höfuðið á Bjarna frá Vogi auk þess að vera afi Guðrúnar Pétursdóttur, bróðurdóttur sinnar. Ég hef talið Bjarna nafnið komið frá Bjarna Magnússyni, skipstjóra og verkstjóra á Kirkjusandi, seinni manni Ragnhildar Ólafsdóttur, langömmu minnar, úr Engey, en Pétur, faðir Guðrúnar, ólst að verulegu leyti upp hjá þeim Ragnhildi og Bjarna að Laugavegi 18. Þessi missögn í DV er þó næsta meinlítil miðað við margt annað, sem þar birtist, eins og kunnugt er. Sannleikurinn getur þó varla verið afstæður í þessu efni og hann er jafnvel ekki lygi.)