27.3.2004

Skjallbandalag Baugsmiðla, gegnsæi og almannahagsmunir

 

Í vikunni hefur orðið nokkurt fjaðrafok út af ummælum, sem ég lét falla í samtali við fréttamann hljóðvarps ríkisins í hádegisfréttum þriðjudaginn 23. mars um birtingu DV á lögregluskýrslum. Þessi orð féllu þar í samtali okkar Hjördísar Finnbogadóttur, fréttamanns:

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra: Málið er grafalvarlegt og nauðsynlegt að átta sig á því að þetta er einsdæmi að menn gangi fram með þessum hætti og mjög erfitt að átta sig á því hvað fyrir þeim vakir sem stuðla að því að þetta sé birt á þennan veg. Ég veit ekki hvað verður gert í tilefni af þessu, það eru margir sem koma að því að hafa upplýsingar af þessum toga við rannsókn jafn viðamikils máls, þannig að það má segja að með þessari framgöngu sé kastað skugga á stóran hóp fólks en ég veit ekki hvort það er hægt að komast að raun um það og raunar aðeins blaðið sem gæti upplýst um það hvaðan það hefur fengið þessi gögn. En þetta er mjög alvarlegt mál.

Hjördís Finnbogadóttir: Sýnist þér ekki líkur á að lög hafi verið brotin?

Björn Bjarnason: Ég ætla ekki að segja neitt um það, ég er ekki í stöðu dómara, ég tel að þetta sé mjög alvarlegt mál og þetta sé aðför að réttarkerfinu að ganga fram með þessum hætti og sé ekki til neinnar fyrirmyndar og ég harma það að blaðamennska á Íslandi skuli vera komin á þetta stig.

Hjördís: En gerirðu ráð fyrir einhverjum viðbrögðum dóms- og réttarkerfisins við þessu?

Björn Bjarnason: Ég ætla ekki að segja neitt um það, það hefur sjálfstæða stöðu en ég lít þetta mjög alvarlegum augum.

 

Í Morgunblaðinu  miðvikudaginn 24. mars segir Bogi Nilsson ríkissaksóknari:

„Það er alveg ljóst í mínum huga að það er ekki hægt nema með einhverjum ólögmætum hætti fyrir dagblað að komast yfir svona skýrslu.“

Ríkissaksóknari segir jafnframt, að kveðið sé á um þagnarskyldu í málum af því tagi sem hér um ræðir í ýmsum lögum, s.s. lögum um meðferð opinberra mála, lögreglulögum, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og almennum hegningarlögum.

Í Morgunblaðinu miðvikudaginn 24. mars er þetta haft eftir mér:

„Einhver hefur greinilega brugðist trúnaði. Blaðið [DV] er einnig að fara á svig við þær reglur sem gilda við meðferð á slíkum gögnum. DV gengst upp í því að gera mikið úr þeim sem fara á svig við opinberar reglur og gengur þar hart fram, það virðist á hinn bóginn ekki eiga við þegar blaðið sjálft á í hlut. Spurningin er sú hvort lögunum og réttarkerfinu sé sýnd tilhlýðileg virðing þegar fjallað er um jafnalvarleg mál og þetta. Ég tel að svo sé ekki þegar gengið er fram á þennan hátt."

Ég birti þetta hér til að árétta þau sjónarmið, sem ég hef sett fram í þessu máli. Þau hafa ekki glatt þá, sem stjórna Baugsmiðlunum, en þeir hafa allir, Fréttablaðið, DV og Stöð 2, gengist upp í því að kynna viðhorf þeirra, sem sátu í gæsluvarðhaldi vegna líkfundarins í Norðfjarðarhöfn. Þá hafa ritstjórar DV  kveinkað sér undan gagnrýni minni á blað þeirra og útgefandi DV  og ritstjóri Fréttablaðsins Gunnar Smári Egilsson hefur vegið að mér persónulega vegna afstöðu minnar auk þess sem Róbert Marshall, formaður Blaðamannafélags Íslands, og fréttamaður á Stöð 2 hefur tekið upp hanskann fyrir samstarfsmenn sína á Baugsmiðlunum.

Róbert Marshall sagði í Fréttablaðinu miðvikudaginn 24. mars, að það væri fullkomlega eðlilegt af DV að birta í heild sinni lögregluskýrsluna. Honum finnst þetta upplýsingar, sem eigi fullt erindi til almennings. Þá segist hann ekki vita, hvernig blaðamennska væri hér á landi væri hún að mínu höfði.

Fréttablaðið veitir síðan Róbert Marshall hrósið föstudaginn 26. mars „fyrir að standa vörð um blaðamennsku DV og verja starfshætti blaðsins við birtingu skýrslu lögreglu vegna yfirheyrslna á grunuðum í líkfundarmálinu.“

Rétt er að halda því til haga hér á þessari síðu, hvernig DV og Fréttablaðið  hafa brugðist við vegna þessa þeirra orða, sem ég lét falla.

Í slúðurdálki DV miðvikudaginn 24. mars 2004 birtist frásögn af því, að daginn áður hafi þeim, sem lögðu leið sína í dómsmálaráðuneytið ekki litist á blikuna, því að ég hafi þar gengið milli herbergja og haft hátt. „Höfðu hvorki starfsmenn né gestir ráðuneytisins áður séð ráðherrann í þessum ham. Ástæðan mun hafa verið birting DV á yfirheyrslu og játningu Grétars Sigurðssonar í líkfundarmálinu í Neskaupsstað sem ráðherrann kallar aðför að réttarríkinu. Ein gestanna orðaði það sem svo að Björn hefði verið blár í framan. Líklega af reiði...“

Þegar ég sá þessa frásögn, velti ég því fyrir mér, hvaðan hún væri sprottin. Þennan dag var ég fyrst á ríkisstjórnarfundi, svaraði við komuna þaðan fyrirspurnum í síma frá fréttamönnum Stöðvar 2  og RÚV  um málefni mín á ríkisstjórnarfundinum og í spjalli af því tilefni við Hjördísi Finnbogadóttur kom samtalið í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins um framgöngu DV. Þótti Hjördísi afstaða mín til málsins greinilega fréttnæm. Síðan fundaði ég með ráðuneytismönnum um allt önnur mál en þetta, þar til ég fór í jarðarför og erfidrykkju en var við atkvæðagreiðslu á alþingi klukkan 15.00 og svaraði þar spurningum Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur á Stöð 2 um framgöngu DV. Valgerður Jóhannsdóttir, fréttamaður á sjónvarpi ríkisins, kom síðan til mín í ráðuneytið um klukkan 15.30 með myndatökumanni og ræddi við mig um blaðamennsku DV . Við svo búið hitti ég Neringu Gaidyt, embættismann frá innanríkisráðuneytinu í Litháen, sem var hér í kynnisferð. Um kvöldið var ég á fjölmennum, opnum fundi með sjálfstæðismönnum á Seltjarnarnesi, þar sem þetta mál bar á góma í fyrirspurnum og er ég viss um, að fundarmenn geti borið, að ég hafi ekki reiðst vegna þess.

Ég vek athygli á því, að DV gefur til kynna í slúðurdálki sínum, að kona í hópi gesta minna í ráðuneytinu þennan dag sé heimildarmaður þess um hinn bláa reiðilit á andliti mínu!

Þessi skrif DV voru aðeins forsmekkurinn að því, hvernig Baugsblöðin tóku á orðum mínum um DV.

Fimmtudaginn 25. mars hafði verið mótuð samræmd ritstjórnarstefna á blöðunum. Ég skyldi gerður ótrúverðugur á þeirri forsendu, að ég ætti 1,07% hlut í Árvakri hf., útgáfufélagi Morgunblaðsins, og hefði auk þess gerst svo bíræfinn að hrósa fréttaflutningi Morgunblaðsins vegna líkfundarins í Neskaupstað hér á vefsíðu minni.

Í Kastljósi að kvöldi þriðjudagsins 23. mars sat Sveinn Andri Sveinsson lögmaður fyrir svörum ásamt Herði Jóhannessyni, yfirlögregluþjóni rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík. Þar varði Sveinn Andri birtingu DV  á lögregluskýrslunni og gagnrýndi mig en í Fréttablaðinu miðvikudaginn 24. mars er þetta haft eftir Sveini Andra:

„Mér finnst ráðherra gera of mikið úr þessu og sakna þess að hann skyldi ekki hafa brugðist við þegar trúnaðargögn úr rannsókninni láku til fjölmiðla. Morgunblaðið birti frétt um játningu eins sakborningsins sem var unninn upp úr þessari skýrslu. Sú frétt birtist daginn eftir að skýrslan var tekin og hef ég ekki fengið skýringu á því hvers vegna sá leki var ekki rannsakaður.“

Í Kastljósinu hafði Sveinn Andri á orði, að ég hefði hrósað Morgunblaðinu hér á vefsíðu minni fyrir fréttir blaðsins af líkfundarmálinu. Mátti skilja hann þannig, að með því hefði ég verið að leggja blessun yfir fréttaleka til Morgunblaðsins.

Þessi staðhæfing lögmannsins auk þeirrar staðreyndar, að ég á 1,07% í Árvakri myndar meginstefið í ritstjórnargreinum DV og Fréttablaðsins  fimmtudaginn 25. mars.

Fyrirsögn í ritstjórnardálki DV þennan fimmtudag er þessi: Hluthafi í Mogganum verður reiður. Þar er því haldið fram, að birting DV á lögregluskýrslum skaði ekki rannsókn þessa máls og síðan vitnað af velþóknun til orða samstarfsmannsins hjá Baugsmiðlunum, Róberts Marshalls, í Fréttablaðinu daginn áður. Síðan er vísað í vefsíðu mína frá 21. febrúar 2004 og sagt frá því, að nokkru eftir að ég skrifaði það, sem þar stendur, hafi Morgunblaðið sagt frá því, að játning lægi fyrir í málinu og þá hafi ég talað af velþóknun um blaðið og sagt það flytja bestu fréttirnar í tengslum við líkfundinn, sjá pistil minn hér á síðunni frá 28. febrúar 2004. Fréttin um játninguna birtist einmitt í Morgunblaðinu 28. febrúar og hafði blaðið hana eftir öruggum heimildum auk þess sem blaðið birti viðtal við Arnar Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjón hjá Ríkislögreglustjóra, en hann vildi „ekki tjá sig um hvort játningar af hálfu þremenninganna lægju fyrir, “ eins og segir í frétt blaðsins þennan dag. Ég heyrði ekki neinn halda því fram, fyrr en DV tók að birta lögregluskýrslurnar í heimildarleysi og Sveinn Andri að verja DV  í Kastljósinu, að vinnubrögð Morgunblaðsins væru utan marka eðlilegrar blaðamennsku. Skýring ritstjóra DV á gagnrýni minni á blaðið í útvarpsfréttum 23. mars er að lokum þessi:

„Hér er ef til vill tilhlýðilegt að taka fram að Björn er ekki aðeins gamall starfsmaður Morgunblaðsins og ber þá væntanlega til þess hlýjan hug þess vegna, heldur er hann líka hluthafi í blaðinu. Hlutur hans er að vísu ekki stór, eða eitthvað um 1,07%, sem hann mun hafa fengið að erfðum eftir föður sinn.“

Á sömu síðu og DV  birtir þessar útlistanir ritar Jónas Kristjánsson þennan sama dag leiðara undir fyrirsögninni Leyndó. Hann hefst á þessum orðum:

„Gaman er að lesa að dómsmálaráðherrann hafi blár af bræði farið mikinn um ráðuneytið í fyrradag vegna birtingar DV á yfirheyrslum úr líkmannamálinu, sem héldu raunar áfram í blaðinu í gær. Það sýnir, að mikilvægt gat hefur verið rofið á þagnarmúrinn, sem yfirvöld hafa hlaðið um ýmsa málaflokka.“

Hér verða sem sagt uppdiktuð orð í slúðurdálki blaðs að upphafsþema í leiðara sama blaðs, sem lýkur á þessum orðum: „Leyndarmál valdakerfa eru farin að tröllríða lýðræðinu. Án gegnsæis breytist lýðræði í kerfisræði og auðræði. Og fréttastofur fjölmiðla eru lykill að gagnsókn lýðræðisins.“

Spyrja má, hvort þeir, sem þannig skrifa geti tekið sjálfa sig alvarlega?

Úgefandi DV , Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Fréttablaðsins, birtir síðan sína skoðun á viðbrögðum mínum við fréttum í ritstjórnardálki Fréttablaðsins fimmtudaginn 25. mars undir fyrirsögninni: Litli hluthafinn í Mogganum.

Gunnar Smári segir, að rétt sé að hafa í huga, þegar ummæli mín um DV  séu skoðuð, að ég sé hluthafi í Morgunblaðinu og velti verðmæti lítils hlutar míns í blaðinu á „stöðu samkeppni við hin dagblöðin tvö Fréttablaðið og DV.“ Telur Gunnar Smári, að ég eigi að geta um hagsmunatengsl mín, þegar ég í krafti áhrifavalds sem ráðherra gefi dagblöðunum palladóma á opinberum vettvangi. (Þetta er sami maður sem lengi hélt því fram, að engum kæmi það við, hver ætti Fréttablaðið.) Síðan vitnar Gunnar Smári af velþóknun til ummæla Sveins Andra um orð mín um Morgunblaðið.

Eftir að hafa fjallað um hagsmunatengsl og fleira beinist hugur Gunnars Smára að því, hvernig fyrirtæki undir forsjá ráðherra ráðstafa auglýsingum sínum. Nú talar útgefandi DV og segir:

„Það var til dæmis athyglisvert að við eigendaskipti á DV færðu flestöll sýslumannsembætti landsins auglýsingar sínar í Morgunblaðið, þótt þær hefðu áratugum saman birst í DV. Þetta var gert án útboðs og án tillits til þeirrar staðreyndar að nærri 25 prósent fleiri landsmanna lesa Fréttablaðið á hverjum degi en sjá Morgunblaðið. Sýslumenn heyra undir Björn dómsmálaráðherra og tengsl hans við Morgunblaðið varpa skugga á ákvörðun sýslumannanna – nokkuð sem óþarft er að búa við í opinberri stjórnsýslu í dag.“

Af þessum orðum getur lesandi hæglega dregið þá ályktun, að ég hafi með beinum eða óbeinum hætti komið að ákvörðun sýslumanna um val á auglýsingamiðli og látið eignarhlut minn í Morgunblaðinu ráða, því að miðað við það, sem áður segir í þessum hugleiðingum ritstjórans og útgefandans, hefur það verið leyndarmál, að ég væri meðal eigenda Morgunblaðsins. Gunnar Gunnarsson, fréttamaður á hljóðvarpi ríkisins, tók skilaboð Gunnars Smára á þann veg, að honum þótti ástæða til að hringja í ritara minn með ósk um að spyrja mig um auglýsingar sýslumanna – ég bað ritarann að skila því til fréttamannsins, að ég hefði engin afskipti af ákvörðunum sýslumanna um auglýsingar.

Sigurjón M. Egilsson, bróðir Gunnars Smára og fréttastjóri Fréttablaðsins, sendi mér þetta tölvubréf 15. desember 2003: „Tilefnið er lítilfjörlegt. Það er ítrekað verið að benda mér á þú eigir svo og svo mikið í Mogganum. Vildi bara spyrja þig af því. Annað var það ekki.“

Ég svaraði fréttastjóranum, að ég ætti 1,077% og síðan heyrði ég ekki meira frá honum um þetta mál. Auðvitað var ég ekki að ljóstra upp neinu leyndarmáli, því að frá þessari eign minni hefur verið sagt í bókum og blöðum. Ég var í 12 ár blaðamaður á Morgunblaðinu og starfaði meira að segja einnig sem fréttastjóri erlendra frétta á Vísi undir ritstjórn Jónasar Kristjánssonar fyrir þremur áratugum. Ég get því litið á ákvörðun útgefanda og ritstjóra DV um að birta lögreglugögnin með hliðsjón af reynslu minni sem blaðamaður auk þess að vera lögfræðingur og síðan dómsmálaráðherra.

Skjallbandalag þeirra, sem standa að Baugsmiðlunum og skrifa í þá er augljóst í þessu máli. Til þessa bandalags er ekki stofnað til að auka gegnsæi í þjóðfélaginu og vernda almannahagsmuni á þann veg, því að aðstandendur DV  þverneita að upplýsa, hvernig þeir komust yfir gögnin, sem þeir birtu.

Ríkissaksóknari telur, að það sé ekki hægt nema á einhvern ólögmætan hátt fyrir dagblað að komast yfir skýrslu eins og þá, sem DV  birti. Engir almannahagsmunir krefjast þess, að DV  birti þetta efni, hins vegar telur blaðið og útgefandi þess sig hafa mikinn hag af birtingunni og henni er dreift á nokkra daga til að selja blaðið sem oftast með vísan til hennar. Með brýna almannahagsmuni að leiðarljósi hefði blaðið átt að birta allt efnið strax í stað þess að höggva það í búta.

Þegar talað er um almannahagsmuni, vaknar auðvitað spurningin: hverjir eru almannahagsmunir í málum sem þessum? Þeir eru að mál upplýsist, að lögreglan komi höndum yfir hina seku. Það eru ekki almannahagsmunir, að almenningur geti lesið frá orði til orðs hvað hver segir í hverri yfirheyrslu.

Það eru einnig almannahagsmunir, ekki aðeins í þessu máli heldur almennt við rannsókn glæpamála, að lögreglan geti yfirheyrt vitni þannig að bæði lögregla og ekki síður vitni geti treyst því, að uppskrift samtalsins verði ekki boðin til sölu á næsta götuhorni morguninn eftir. Af hverju skilja blaðamenn, sem sýknt og heilagt tala fjálglega um „vernd heimildarmanna“, sístir manna, að mun erfiðara verður að fá menn til að bera vitni, þegar þeir taka að óttast, að yfirheyrsluskýrslan komist í hendur blaðamanna af þeirri gerð, sem bara birta hana til sölu ef þeir geta. Það eru ekki almannahagsmunir að skemma fyrir lögreglurannsóknum, draga úr tiltrú lögregluyfirvalda og minnka líkur á að mál upplýsist. Það getur verið að einhverjir hafi einkahagsmuni af slíku, en það eru ekki almannahagsmunir