17.4.2004

Áfram jafnrétti - jákvæð mismunun - tilvistarkreppa kærunefndar

Í síðasta pistli ræddi ég fyrstu viðbrögð við þeim sakleysislegu orðum mínum í Morgunblaðinu, að ákvæði jafnréttislaga um kærunefnd jafnréttismála væru barns síns tíma og ég teldi, að þeim þyrfti að breyta, ef þau neyddu nefndina til að grípa fram fyrir hendur dómsmálaráðherra í nafni jafnréttis við málefnalegt val hans á dómara í hæstarétt.

Ég setti pistilinn inn á vefsíðuna mína föstudaginn langa en þá var ég staddur utan bæjar. Allan liðlangan daginn eftir það hafði Rut, kona mín, ekki stundlegan frið fyrir áköfum frétta- og blaðamönnum, sem vildu reyna að ná tali af mér. Þegar fleiri dagar liðu, án þess að ég kæmi í bæinn, var látið að því liggja í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna, að ég virtist ekki treysta mér til að ræða málið.

Laugardaginn 10. apríl lauk Þóra Kristín Ásgeirsdóttir frétt á Stöð 2 um málið á þessum orðum: „Björn Bjarnason hefur lýst því yfir að hann beri pólitíska ábyrgð á málinu. En fréttastofu Stöðvar 2 er ekki kunnugt um í hverju sú pólitíska ábyrgð er fólgin eða hvernig ráðherrann hyggst axla hana því hann hefur ekki viljað veita fréttastofunni viðtal um málið.“

Mér þótti þetta skrýtið niðurlag á frétt, þar sem Eiríkur Tómasson prófessor í lagadeild HÍ, einn af umsækjendum um þetta dómaraembætti, var aðalheimildarmaðurinn. Hann hefði þó getað leiðbeint fréttamanninum og bent á rit Ólafs Jóhannessonar um stjórnskipunarrétt, þar sem pólitísk ábyrgð ráðherra er skýrð og skilgreind. Spurningunni um þetta svaraði ég í þingræðu föstudaginn 16. apríl.

Að kvöldi páskadags birtist í sjónvarpi ríkisins viðtal Finns Becks fréttamanns við Davíð Oddsson forsætisráðherra, sem sagðist sammála afstöðu minni í þessu máli. Davíð virtist sem kærunefnd jafnréttismála tæki ekki mið af dómum hæstaréttar sem hefðu í tvígang snúið niðurstöðu hennar við. Þá sagði orðrétt í fréttinni:

„Davíð telur að dómsmálaráðherra hafi gert glögga og góða grein fyrir máli sínu á heimasíðu sinni.

Davíð Oddsson: Skoðanir hans er yfirleitt aðgengilegri fréttamönnum og öllum öðrum heldur en flestra annarra stjórnmálamanna. Hann gerir mjög skýra grein fyrir sínum sjónarmiðum.

Finnur Beck: En þar geta menn ekki spurt hann eins og menn eru að gera hér.

Davíð Oddsson: Nei, nei en hann fjallar um þær spurningar sem fram hafa komið og fer vel yfir þær, að mínu mati, þar og ég býst við því að hann verði reiðubúinn að svara öllum eins og ég er reiðubúinn að gera hvað þetta efni varðar þegar þeir tímar koma.

Davíð lagði ekki áherslu á lagabreytingu en taldi frekar, að kæruefndin ætti að vinna í anda þeirra dómsúrskurða, sem fallið hefðu. Honum þótti með ólíkindum, ef þeir hefðu ekki nein áhrif á störf nefndarinnar og þetta hefði dálítið skrítinn blæ. Hann vildi ekki segja pólitískan blæ en dálítið skrítinn blæ.

Þegar ég var kominn að nýju til Reykjavíkur annan páskadag hringdi fréttamaður af sjónvarpinu í mig og nálgaðist málið á þann veg, að líklega hefði ég engu frekar við málið að bæta í fréttasamtali og samsinnti ég því.

Ég ætla ekki að lýsa hér tökum DV  á þessu máli nú í vikunni, en blaðið hefur farið í lúsarleit að öllu, sem hugsanlega kæmi mér illa vegna þess og annarra mála. Best þótti mér, þegar tíðindamanni blaðsins tókst í þessari viðleitni sinni að flytja sumarbústað Kjartans Gunnarssonar, vinar míns, niður að Þingvallavatni og býsnaðist síðan yfir því, að ekki væri unnt að ganga við vatnið vegna hússins, enda væri ég formaður Þingvallanefndar! ? Bústaður Kjartans stendur nokkur hundruð metra frá vatninu og á ekki land að því!

Stundum við lestur DV detta mér í hug furðu- og lygafréttablöð, sem snúast aðallega um ferðir Mars-búa til jarðar eða hvenær og hvar Elvis Presley haldi næstu tónleika. Sá er þó munurinn, að þær fréttir eru skrifaðar til að skemmta og ýta undir ímyndunaraflið en markmið DV virðist helst að meiða og gera fólki lífið leitt.

Í þeim anda voru þau ummæli Sigurðar Líndals prófessors, að ég væri líkastur Hriflu-Jónasi í afstöðu minni til hæstaréttar, þrátt fyrir að frændur mínir hefðu gagnrýnt Jónas á sínum tíma. Jónas hafði meðal annars uppi áform um að leggja hæstarétt niður og veit ég ekki, hvernig Sigurður getur ályktað, að það sé vilji minn. Mætti ætla, að Sigurður væri ekki enn kominn inn á 20. öldina, þótt ég hefði staðið að því með öðrum sem embættismaður í forsætisráðuneytinu fyrir um það bil 30 árum að semja við hann um að ritstýra verkinu Saga Íslands en útgáfa þess var ákveðin í tilefni af 1100 ára afmæli Íslands byggðar ? Með hliðsjón af áhuga DV á söguritun á vegum ríkisstjórnarinnar er skrýtið, að blaðið skuli ekki leita frétta af lyktum þessarar útgáfu hjá Sigurði í samtölum sínum við hann um landsins gagn og nauðsynjar.

Þegar ég kom til vinnu í ráðuneytinu þriðjudaginn eftir páska, bárust boð um það bæði frá Íslandi í dag í  Stöð 2 og Kastljósi í sjónvarpinu, að óskað væri eftir mér í viðtöl um jafnréttismál. Ég hafði mörgum vikum áður lofað að vera við setningu Landssambands lögreglumanna í Munaðarnesi síðdegis þennan dag og flytja þar ávarp. Kom ekki til álita að hlaupa frá því fyrir þessa þætti.

Miðvikudaginn 14. apríl fór ég hins vegar fyrst í Ísland í dag og síðan beint þaðan í Kastljósið. Viðfangsefnið var hið saman en efnistök spyrlanna gjörólík.

Þau Jóhanna Vilhjálmsdóttir og Þórhallur Gunnarsson virtust ætla að þjarma að mér og beittu þeirri aðferð að leyfa mér tæplega að ljúka máli mínu, áður en sama spurningin dundi á mér aftur, enda sagði ég undir lokin, að spurningarnar þá, sem voru hinar sömu og um 15 mínútum áður, sýndu, að samtalið hefði líklega ekki orðið til mikils. Ég skil raunar ekki, að það þyki skemmtilegt sjónvarpsefni, sem hefur að markmiði, að spyrjendum takist að sanna einhverja kenningu, sem þeir hafa gefið sér fyrir þáttinn, þótt hún reynist alröng, þegar til umræðna kemur.

Viðræðurnar við þá Kristján Kristjánsson og Sigmund Gunnlaugsson í Kastljósinu voru á allt annars eðlis. Þær reyndu meira á, vegna þess að spyrjendur leituðu á vandaðri hátt að veikum punkti í röksemdafærslu minni. Ég heyri einnig á þeim, sem við mig hafa talað, að þeim þótti samtalið í Kastljósinu skilja mun meira eftir en gauragangurinn í hinum þættinum.

Fimmtudaginn 15. apríl var ég síðan á Hrafnaþingi á útvarpi Sögu, það er hjá Ingva Hrafni Jónssyni, þar sem við ræddum jafnréttismálin auk stjórnmála í Bandríkjunum, en Ingvi Hrafn talaði við mig í síma frá Flórída, en þaðan hefur hann stjórnað þætti sínum undanfarnar vikur.

Mér hefur því gefist gott tækifæri til að viðra skoðanir mínar á þessum málum og gera grein fyrir því, sem fyrir mér vakti með orðum mínum í Morgunblaðinu. Ég hef ekki verið virkur þátttakandi í umræðum um jafnréttismál áður og mig undrar sú heift, sem brýst fram hjá mörgum yfir því, að ég hafi „vogað“ mér að tala um þennan málaflokk, án þess að segja í raun lítið annað en já og amen eða réttara sagt kyssa vönd kærunefndar jafnréttismála.

Til marks um þennan reiðilega málflutning ætla ég að vitna í orð, sem féllu í umræðum um málið utan dagskrár á alþingi að morgni föstudagsins 16. apríl en Jóhanna Sigurðardóttir var þar málshefjandi. Feitletra ég áhersluorð hennar til að draga betur fram en ella, hve umburðarlyndið er lítið gagnvart sjónarmiðum annarra í jafnréttismálum.

Jóhanna taldi það áfall fyrir réttarkerfið og stjórnsýslureglur að réttarvitund og viðhorf okkar Davíðs Oddssonar væri jafnhraksmánarlegt gagnvart jafnréttislögum og raun bæri vitni. Þetta væri mikið áfall fyrir jafnréttisbaráttuna og raunar lítilsvirðing við þjóð sem kenndi sig við jafnrétti og mannréttindi. Veikburða rök mín væru ámátleg þegar ég sneri öllu á hvolf í jafnréttislögunum, misskildi þau og mistúlkaði sundur og saman eftir eigin geðþótta.

Það væri grafalvarlegt fyrir jafnréttisbaráttuna að í stóli dómsmálaráðherra og forsætisráðherra skyldu sitja menn með svona forneskjuleg viðhorf í jafnréttismálum. Spyrja ætti hvaða hætta leikreglum lýðræðisþjóðfélags væri búin ef dómsmálaráðherra teldi sig hafinn yfir lög um grundvallarmannréttindi eins og jafnréttislög.

Hroki og vankunnátta okkar Davíðs á jafnréttislögum væri hrópandi. Ég lifði í þeim gamla tíma að ég hefði ótakmarkað svigrúm til að velja á milli umsækjenda að eigin geðþótta. Margsinnis hefði komið fram hjá umboðsmanni alþingis að veitingarvaldshafar hefðu ekki frjálsar hendur um val á umsækjendum

Þessi vísan Jóhönnu til umboðsmanns alþingis stenst ekki. Ég rifjaði einmitt upp í ræðu minni við þetta tilefni álit umboðsmanns frá 1997, þar sem segir, að við mat sitt verði kærunefnd jafnréttismála að taka mið af þeim sjónarmiðum, sem atvinnurekandi leggur til grundvallar ákvörðun sinni að því tilskildu að þau séu málefnaleg og lögmæt. Innan þessara marka hafi hann visst mat sem ekki verði haggað. Þetta er einmitt kjarninn í málsvörn minni.
 

Jóhanna sagði, að hjá öðrum lýðræðisþjóðum hefði ráðherra sem bryti svo gróflega lög og reglur verið látinn fjúka. En hér á landi væri allt leyfilegt hjá ráðherrum og þeir kæmust upp með allt. Ef ráðherrar væru ósáttir við lög ættu lögin bara að víkja en ekki þeir að þeirra mati.

Í lokaræðu minni benti ég á, að Jóhanna gæti trútt um þetta talað, því að hún hefði verið félagsmálaráðherra, ráðherra vinnuréttar, í ríkisstjórn á sínum tíma, þegar sett voru bráðabirgðalög til að afnema kjarasamninga opinberra starfsmanna, bráðabirgðalög, sem hæstiréttur dæmdi síðar, að hefðu brotið í bága við stjórnarskrána. Ég minnist þess ekki, að Jóhönnu hafi orðið tíðrétt um ábyrgð ráðherra á þeim tíma.

Mér þykja stóryrði Jóhönnu til marks um skort á málefnalegum rökum en í seinni ræðu sinni talaði hún eins og hin innvígða og sagði mig þurfa að fara á skólabekk í jafnréttisfræðum eins og sænska ráðherra (!) til að geta lesið jafnréttislögin með öðrum gleraugum, því að viðhorf mitt til jafnréttismála væri afturhvarf til fortíðar og hættulegt jafnréttisbaráttunni.  Jafnréttisfulltrúi dómsmálaráðuneytisins ætti að taka mig í kennslustund og kenna mér jafnréttislögin, þannig að ég væri ekki að lesa þau aftur á bak.

Er þetta ekki í raun kjarni málsins? Með því að hreyfa því, að ákvæði jafnréttislaga væru barns síns tíma gerðist ég sekur um brot gegn hinum pólitíska rétttrúnaði og nú er nauðsynlegt að endurhæfa mig með innrætingu.

Viðtalsþættirnir í sjónvarpi og útvarpi snerust að öðrum þræði um að afhjúpa þennan pólitíska trúvilling og sýna fram á villukenningu hans ? þess vegna áréttaði ég í Kastljósinu, að ég skipti ekki um skoðun í þessu máli. Ég hef aldrei sætt mig við pólitískan dilkadrátt af þessum toga og tel hann í andstöðu við frjálslegar og opnar umræður.

Í viðhorfsgrein í Morgunblaðinu laugardaginn 17. apríl ræðir Eyrún Magnúsdóttir, ung blaðakona, um þetta mál allt og segir meðal annars:

„Með því að greina frá andstöðu sinni við tiltekin ákvæði jafnréttislaga tryggði Björn sér miklu meira andóf en annars hefði verið. Einmitt þess vegna eru ummælin, hversu fáránleg sem fólki kann að þykja þau, gleðitíðindi fyrir kjósendur. Það er miklu betra að ráðherra lýsi skoðun sinni en liggi á henni. Kjósendur eiga rétt á að vita að sá sem fer með ráðherravald í dómsmálum er ekki sáttur við þá löggjöf sem Alþingi kom sér saman um að setja um jafnan rétt kynjanna.

Ef Björn Bjarnason hefði einfaldlega gefið það út að hann harmaði álit kærunefndar, eins og ráðherrar gera gjarnan, þá hefði hann brugðist kjósendum.

Marklaus ummæli eins og að fagna og harma eru leiðinleg. Sprengjur eins og sú sem dómsmálaráðherra varpaði með því að segja að jafnréttislögin séu barn síns tíma eru hins vegar bæði skemmtilegar og nauðsynlegar. Þótt dómsmálaráðherra hafi tekist að reita fjölmarga til reiði skiptir það ekki öllu máli. Aðalmálið er að hann gerði grein fyrir þessari afstöðu sinni.

Kjósendur eiga heimtingu á að heyra að Björn Bjarnason telur sig ekki þurfa að fara eftir lögum sem Alþingi hefur sett. Og kjósendur eiga heimtingu á að vita að Halldóri Blöndal þykja miðaldra konur ekki eins líklegar og ungir karlmenn til að hrista upp í hópi miðaldra karlmanna. Án þessara upplýsinga er ómögulegt fyrir kjósendur að hrista upp í stjórnarliðinu.“

Þessi orð Eyrúnar varpa góðu ljósi á það, sem gerðist, þótt ég andmæli þeirri skoðun hennar, að ég telji mig ekki þurfa að fara að lögum.  Ég þarf að fara að lögum, hins vegar tel ég lög hvorki heimila né hafa knúið kærunefnd jafnréttismála til að komast að hinni umdeildu niðurstöðu. Kærunefndin hafi farið út fyrir lögmælt umboð sitt. Það sé ekki unnt að sýna fram á, að ég hafi beitt kynferðislegri mismunun í þessu tilviki. Sé unnt að færa lögbundin rök fyrir því, þurfi að breyta lögunum.

Ólafur Teitur Guðnason, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, lýsti þverstæðunni í jafnréttislögunum vel í blaðinu fimmtudaginn 15. apríl og segir raunar allt, sem segja þarf í fyrirsögninni: Röng leið að réttu marki. Í greininni segir Ólafur Teitur meðal annars, þegar hann hefur vakið máls á því, að kærunefndin taldi Valgerði H. Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra jafnréttismála, hafa mismunaða umsækjanda um leikhússtjórastarf á grundvelli kynferðis:

„Lögin breyttu kvenréttindakonu í karlrembusvín. ? Nema þau feli í sér að kynferði geti ráðið ákvörðun vinnuveitanda án þess að hann geri sér sjálfur grein fyrir því, sem er umdeilanleg forsenda.“

Reglan um jákvæða mismunun er ekki lögfest hér á landi. Tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi félagsmálaráðherra, um það efni var hafnað árið 1990. Jákvæð mismunun byggist á því að horfið er frá því að líta á einstaklinginn, stærsta minnihlutahópinn, og tekið til við að skipta fólki í hópa, konur og karla, svarta og hvíta o. s. frv. Síðan er einn úr öðrum hópnum valinn til að jafna hlut þess hóps gagnvart hinum ? hinir einstaklingsbundnu verðleikar víkja fyrir tölfræði í þágu hópsins.

Dr. Jóhann M. Hauksson stjórnmálafræðingur ritar grein í Fréttablaðið fimmtudaginn 15. apríl undir fyrirsögninni: Neikvæð „jákvæð mismunun“. Þar segir meðal annars:

„Hægt er að finna mismunun á hópum, sem sumir kalla „jákvæða“ og aðrir „sértækar aðgerðir“, tvennt til foráttu. Í fyrsta lagi er hún ósanngjörn og í öðru lagi gerir hún lítið úr þeim sem njóta góðs af henni....„Jákvæð mismunun“ miðast einmitt við hópa, þar sem ráðherradótturinni yrði gert hærra undir höfði en syni fátæka innflytjandans, ef feministar fá ráðið.

Í annan stað gætu kvennakvótar ekki annað en valdið fordómum, sem væru ósköp skiljanlegir, því þeir væru byggðir á raunverulegum grunni. Hugsað yrði um þær sem nytu góðs af „sértæku aðgerðunum“ sem „kvótakerlingar“.“

Ég minnist þess, þegar ég sat í hópi fólks, þar sem rætt var um, hvernig það hefði komist í embætti sín, að háttsettur bandarískur blökkumaður sagði sér líða illa, þegar hann velti því fyrir sér, hvort hann hefði komist til áhrifa fyrir eigin verðleika eða sem „the white man?s excuse“, það er vegna þess, að hinum hvítu hafi þótt nauðsynlegt að velja einhvern úr hópi svartra, til að fullnægja kröfunni um jákvæða mismunun eða „affirmative action“, sem er margrædd í Bandaríkjunum.

Við lagadeild Háskóla Íslands starfar sérstakur aðjúnkt í kvennarétti, Brynhildur Flóvenz, hún taldi óþarft að taka undir hugmyndina, sem ég reifaði í síðasta pistli um að skjóta niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála til félagsmálaráðherra. Ef ég hefði látið í ljós þá skoðun á gildi álits kærunefndarinnar, sem Brynhildur gerði í fréttum hljóðvarps ríkisins laugardaginn 10. apríl, hefði það vafalaust enn verið talið mér til álitshnekkis af þeim, sem vilja úthrópa mig sem andstæðing jafnréttis. Brynhildur sagði, að kærunefndin gæfi  „bara álit, þetta er ekki úrskurður og það skiptir svolítið miklu máli þegar verið er að tala um hvort við eigum að hafa kærustig innan stjórnsýslunnar, hvort um bindandi úrskurð er að ræða eða álit, niðurstaða kærunefndar jafnréttismála er bara álit sem að ráðherrann er í sjálfu sér ekkert bundinn af að fara eftir heldur er álit sérfræðinga í jafnréttislögum. Nú svo geta aðilarnir farið fyrir dómstóla með sín mál og þar held ég að réttaröryggið sé alveg nægilega tryggt, með því að fara fyrst í héraðsdóm og síðan í hæstarétt ef að þannig stendur á.“

Ég skil ekki í ljósi þessara ummæla og lágmarksþekkingar í lögum, hvernig lögfræðingar eins og Andri Óttarsson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, sem skrifa á Deiglan.com, og Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, geta fullyrt, að ég hafi gerst sekur um lögbrot á grundvelli þessa álits. Unnt er að afsaka Jóhönnu Sigurðardóttur vegna blindu í krafti pólitísks rétttrúnaðar og skorts á þekkingu og þjálfun á þessu sviði. Lögfræðingar hafa ekki slíkar málsbætur, þegar rætt er um lögfræðileg álitamál.

Í þessari sömu andrá er ástæða til að vekja athygli á því, að það er rangt, sem segir í ályktun stjórnar Kvenréttindafélags Íslands vegna þessa máls, að hæstiréttur hafi talið konan hafi verið hæfari til að gegna starfi hæstaréttardómara en karlinn, sem ég valdi. Hæstiréttur taldi þau bæði hæf og gerði ekki upp á milli þeirra.

Lögfræðileg staða kærunefndarinnar er sú, að hún gefur álit. Gunnar Ármannsson hdl. ritar síðan grein í Morgunblaðið laugardaginn 17. apríl, sem hann nefnir: Er kærunefnd jafnréttismála barn síns tíma? Gunnar hefur skrifað fræðilega ritgerð um ráðningar í störf hjá hinu opinbera í Tímarit lögfræðinga (4. hefti 2002). Í Morgunblaðs-greininni segir Gunnar meðal annars:

„Hjá hinu opinbera virtist hins vegar fyrst og fremst horft til menntunar og reynslu en ekki getið um persónulega eiginleika. Þegar kom að því að meta hæfni tveggja eða fleiri umsækjenda hjá hinu opinbera virtist oft sem eingöngu væri litið til þessara tveggja þátta og að þann ætti að ráða sem lengra mældist á þeirri mælistiku. Á þann hátt hefur kærunefnd jafnréttismála iðulega úrskurðað þegar hún hefur fjallað um ráðningar hjá hinu opinbera. Þetta sjónarmið er að mínu mati rangt. Ef umsækjendur fullnægja þeim skilyrðum sem sett eru um menntun og reynslu þá á ekki að skipta máli hvort þeir hafi einhverja „umfram“ menntun eða reynslu. Svo gripið sé til myndlíkinga getur hreinlega verið til trafala að hafa fjögurra metra stiga þegar ekki er þörf á nema 2 metra stiga. Það sem á að skipta meginmáli er hvort umsækjendur hafi til að bera einhverja persónulega eiginleika sem geri annan umsækjandann að fýsilegri kosti en hinn, að fullnægðum þeim skilyrðum sem sett eru um menntun og reynslu. Sem betur fer hafa umboðsmaður Alþingis og Hæstiréttur ekki fallið í þá gryfju að líta ekki til persónulegra eiginleika þegar tveir eða fleiri umsækjendur eru að öðru leyti hæfir. Hefur Hæstiréttur, t.d. í málum leikhússtjórans á Akureyri og sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli, sem og umboðsmaður Alþingis í umfjöllunum sínum bætt við persónulegum eiginleikum til að skera úr um hvor af tveimur umsækjendum teljist hæfari. Með því að horfa til þessara þriggja þátta, þ.e. menntunar, reynslu og persónulegra eiginleika, tel ég að nánast verði útilokað að segja tvo einstaklinga nákvæmlega jafnhæfa. Komi sú staða hins vegar upp er eðlilegast að mínu mati að umsækjandi sem telur á sér brotið snúi sér til umboðsmanns Alþingis eða dómstóla til að fá úr því skorið. Ef þessir þrír hæfnisflokkar eru teknir inn í matið ætti því tilvera kærunefndarinnar að vera óþörf.“

Á grundvelli rannsókna sinna er Gunnar með öðrum orðum sammála mér um að huga þurfi að því, hvort jafnréttislögin séu ekki barn síns tíma. Hann vill einfaldlega afnema lagaákvæðin um kærunefndina, hún noti vitlausa mælistiku við álitsgjöf sína.

Þegar farið er yfir þessar umræður undanfarna daga, er niðurstaðan sú, að mun sterkari málefnaleg rök hafi komið fram um þverstæðuna í jafnréttislögunum en fyrir því, að alls ekki megi huga að breytingum á lögunum. Jafnframt er ekki unnt að komast hjá þeirri hugsun, að offorsið í andstöðunni við að málið sé reifað kunni að stafa af viðleitni til að breiða yfir þennan innbyggða veikleika í lögunum.

Lokaorðin ætla ég að hafa úr grein Jakobs F. Ásgeirssonar í Viðskiptablaðinu 15. apríl:

„Er líklegt að Hæstiréttur leggi til að dómsmálaráðherra landsins gerist brotlegur við landslög? Ef Hæstiréttur hefði talið lögin um jafna stöðu karla og kvenna legðu þá skyldu á herðar dómsmálaráðherra að velja konu úr hópi hinna hæfu umsækjenda hefði hann vitaskuld látið þess getið í umsögn sinni. Annað væri fráleitt.“