Ólafur Ragnar synjar lögum.
Þar kom að því, þegar tæp 60 ár eru liðin, frá því að stjórnarskráin tók gildi og forseti Íslands kom til sögunnar, að Ólafur Ragnar Grímsson ákvað að blása lífi í 26. gr, stjórnarskrárinnar með því að synja nýsamþykktum lögum, svonefndum fjölmiðlalögum. Ólafur Ragnar hafði þó sagt í fræðilegri ritgerð, sem hann birti árið 1977, að þetta ákvæði stjórnarskrárinnar væri dauður bókstafur vegna notkunarleysis. Hann hafði einnig á alþingi í febrúar 1995 talað fyrir setningu laga um það efni, sem felst í fjölmiðlalögunum. Engu að síður ákvað hann, án þess að gefa alþingi til kynna, að það stæði fyrir dyrum, að ganga gegn ákvörðun meirihluta alþingis og synja lögunum á grundvelli 26. gr. Ég vakti máls á því í ræðu á alþingi 15. maí, að auðvitað ætti forseti að láta alþingi vita, að hann hefði áform um að synja lagafrumvarpi.
Hann tilkynnti hins vegar á blaðamannafundi á Bessastöðum síðdegis miðvikudaginn 2. júní, að hann ætlaði að nýta 26. gr. stjórnarskrárinnar. Að kvöldi fimmtudagsins 3. júní sagði Davíð Oddsson frá því í Kastljósi sjónvarpsins, að hann hefði ekki enn fengið lögin frá Bessastöðum til að koma þeim til birtingar. Ólafur Ragnar hefði látið duga að skýra sér frá því í 20 sekúndna símtali skömmu fyrir blaðamannafundinn, að hann ætlaði að synja. Undraðist Davíð, að Ólafur Ragnar hefði ekki óskað eftir fundi í ríkisráðinu í því skyni að skýra ráðherrum frá ákvörðun sinni og gefa þeim færi á að heyra rök hans og skýra sjónarmið sín. Enginn fundur hefur verið í ríkisráðinu, frá því að við komum saman án Ólafs Ragnars 1. febrúar 2004. Í stað þess að kalla á ríkisráðið kallaði Ólafur Ragnar blaðamenn til Bessastaða.
Að óreyndu hefði mátt ætla, að meiri formlegheit yrðu í kringum það, þegar 26. gr. stjórnarskrárinnar yrði beitt í fyrsta sinn – að tækifæri gæfist til að ræða málið á vettvangi ríkisráðsins og ráðherrar eða forseti alþingis fréttu af málinu annars staðar en með því að horfa á forseta lesa yfirlýsingu í sjónvarpi.
Ég hef lýst skoðun minni á inntaki 26. gr. og áréttað það sjónarmið mitt, að forseti geti ekki gengið á þennan hátt gegn vilja alþingis. Stjórnarskráin gerir ráð fyrir þingbundinni stjórn, með ákvörðun sinni hefur Ólafur Ragnar ákvörðun alþingis að engu.
Ólafur Ragnar kaus að hafa varnaðarorð af þessu tagi að engu. Hann gekk einnig gegn lögskýringu Þórs Vilhjálmsson, fyrrverandi prófessors og hæstaréttardómara, sem segir forseta brjóta stjórnarskrána með því að ganga fram á þann hátt, sem hann gerir.
Hvað sem þessum skoðunum líður eða því viðhorfi, að Ólafur Ragnar sé vanhæfur til að taka þessa ákvörðun vegna persónulegra tengsla hans við stjórnendur Norðurljósa og starfa dóttur hans hjá Baugi, er ljóst, að sú skylda hvílir á okkur ráðherrum að framfylgja ákvæðum stjórnarskrárinnar og efna eins fljótt og kostur er til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ég sé, að vísu, að Sigurður Líndal, fyrrverandi prófessor, sem helst hefur lagt sig fram um að lýsa yfir persónulegu valdi forseta til að skjóta málum til þjóðarinnar, lætur nú eins og alþingi geti bara breytt lögunum og þannig komist hjá því, að þjóðin segi álit sitt á þeim. Ef slíkum brellum yrði beitt, er ég hræddur um, að einvers staðar mundi heyrast hljóð úr horni.
Davíð Oddsson lýsti því réttilega í Kastljósinu fimmtudaginn 3. júní, hver atburðarásin verður. Taka þarf ákvörðun um það, hvenær þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram og hvernig henni verður háttað. Taldi hann þjóðina þurfa um tvo mánuði til að kynna sér málið, frumvarpið yrði sent til kjósenda, en ríkisstjórnin mundi ekki beita sér frekar vegna kosninganna og Sjálfstæðisflokkurinn mundi ekki verja einni krónu vegna kosninganna.
Guðni Ágústsson minnti á það í Íslandi í dag á Stöð 2 fimmtudaginn 3. júní , að R-listinn hefði sett það sem skilyrði fyrir bindandi niðurstöðu í atkvæðagreiðslu um flugvöllinn, að ¾ kjósenda tækju þátt í kosningunni. Þetta er ívið lægra hlutfall en almennt gerist hér í þingskosningum og því virðist ekki ósanngjarnt að miða við það.
Í hádegisfréttum Bylgjunnar fimmtudaginn 3. júní taldi Eiríkur Tómasson prófessor, að ákvörðun um aðferðina við þjóðaratkvæðagreiðslu mætti ákveða af ríkisstjórninni, ekki væri óhjákvæmilegt að setja lög um þetta efni.
Davíð sagði frá því, að þeir Halldór Ásgrímsson hefðu orðið sammála um að fela lögvísum mönnum að fjalla um málið og skila niðurstöðu til ríkisstjórnarinnar innan fáeinna daga.
Eftir að ég hafði flutt fyrri ræðu mína í alþingi um fjölmiðlafrumvarpið laugardaginn 15. maí veitti Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, mér andsvar og sagði meðal annars:
„Það er engin þörf á því að reifa það hér hvort forseti lýðveldisins þurfi að láta þingið fyrir fram vita af því hvort hann ætli að synja eða staðfesta lög. Á þá að ganga fyrir forsetann í hvert einasta skipti sem hér koma lög til afgreiðslu í þinginu og spyrja forsetann hvort hvaða skoðun hann hafi á því? Að sjálfsögðu ekki.
Hér er ekki um synjunarrétt að ræða. Hér er bara um málskotsrétt að ræða og forsetinn þarf ekki og eftir atvikum á ekki að hafa neina sérstaka skoðun á því. Það er réttur hans, ef það verður gjá milli þings og þjóðar, að vísa málum til atkvæðagreiðslu þjóðarinnar og það væri þá eftir atvikum þjóðin sem synjaði málsins.“
Athyglisvert er, að hér notar Össur nákvæmlega sömu ástæðu fyrir því, sem hann kallar ranglega málskot, og Ólafur Ragnar gerði í yfirlýsingu sinni á Bessastöðum 2. júní, þegar hann sagði:
„Því miður hefur skort samhljóminn sem þarf að vera milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli. Fjölmiðlarnir eru sá hornsteinn í lýðræðisskipan og menningu okkar Íslendinga að ekki er farsælt að varanlega verði djúp gjá milli þingvilja og þjóðarvilja. Slíka gjá þarf að brúa.“
Á þingi svaraði ég andsvari Össurar með því að minna á, að páfinn væri stundum kallaður hinn mikli brúarsmiður, pontifex maximus.
Þá sagði ég:
„Þetta tal um að forseti Íslands sé einhver brúarsmiður á milli þings og þjóðar er bara á misskilningi byggt. Það er hvergi rætt um það að einhver gjá á milli þings og þjóðar kunni að myndast og þá sé forsetinn hinn stóri brúarsmiður sem eigi að koma til sögunnar og brúa þetta bil. Það er hvergi fjallað um það neins staðar. Ég veit ekki hvaða kenningar þetta eru. Ég veit ekki hvers vegna menn allt í einu finna það upp að það sé líka í þessu máli einhver gjá mill þings og þjóðar. Hverjir eru að segja það?“ Taldi ég þá vera að verki í því efni, sem ýttu undir ágreining um málið og sagði síðan: „Svo á hinn mikli stóri brúarsmiður að brúa bilið á milli þings og þjóðar og koma eins og frelsandi engill. Er það þess vegna sem hann treystir sér ekki til að fara í brúðkaupið, af því að hann er að smíða þessa brú? Ég hef ekki orðið var við það. Ég skil ekki þetta tal að hann sé brúarsmiður á milli þings og þjóðar. Ég hef aldrei heyrt þetta. Hvar stendur það hann sé það? Kaþólska kirkjan tók þá ákvörðun að páfinn væri svona brúarsmiður. Það hefur hvergi verið tekin ákvörðun um það hér að forseti sé þessi brúarsmiður.“
Nú hefur það gerst með synjun Ólafs Ragnars á fjölmiðlalögunum, að hann hefur sett viðmið um hlutverk sitt og rétt til að meta, hvort gjá sé milli þingvilja og þjóðarvilja, sem hann verði að brúa.