Reagan kvaddur - afmælisraunir R-listans - á flótta undan 75%
Ronald Reagan verður talinn meðal merkustu forseta Bandaríkjanna. Hann þorði að taka umdeildar ákvarðanir og standa við þær, hvað sem tautaði og raulaði. Hann sætti gagnrýni ekki síst frá hinum talandi stéttum, fjölmiðlungum, háskólafólki og kaffihúsaspekingum, án þess að láta það hið minnsta á sig fá. Hann var sakaður um að stofna heimsfriðnum í hættu, vegna þess að hann vildi ekki una hernaðarlegum yfirburðum Sovétmanna. Hann yfirgaf fundinn í Höfða, án þess að láta undan og hélt fast við áform sín um stjörnustríðsáætlunina. Hann hafði skýr markmið, skýrði þau á einfaldan hátt og hélt ótrauður að þeim. Honum var einstaklega lagið að ná til áheyrenda sinna og hafði næma tilfinningu fyrir æðaslögum bandarísku þjóðarinnar. Hann var glaður og reifur og gat snúið málum sér í vil á leiftrandi hátt. Hans verður minnst fyrir að halda þannig á málum gagnvart Sovétríkjunum, að þau báru ekki sitt barr eftir friðsamleg átök við hann og lögðu síðan upp laupana.
Ég tel forréttindi að hafa sinnt störfum sem fréttaskýrandi og fréttastjórnandi erlendra málefna á Morgunblaðinu í forsetatíð Reagans og hafa haft tækifæri til að fylgjast með störfum hans og stefnu frá degi til dags auk þess að taka þátt í að verja stefnu hans og Atlantshafsbandalagsins gagnvart úrtölumönnum, sósíalistum og kommúnistum hér á landi á níunda áratug tuttugustu aldarinnar.
Þegar ég les í blöðum núna eða heyri í útvarpi, að Reagan hafi verið vanmetinn forseti Bandaríkjanna, hlýtur það að koma frá þeim, sem töldu í forsetatíð hans, að einörð stefna hans og málafylgja stefndi heimsfriðnum í hættu og vildu frekar efna til friðkaupa við Kremlverja og kommúnista en veita þeim andspyrnu og töldu orð Reagans um Sovétríkin sem heimsveldi hins illa ögrun við heimsfrið.
Ég kveð Ronald Reagan með sömu virðingu og ég bar fyrir honum, þegar hann var forseti Bandaríkjanna.
Í kvöldfréttatíma hljóðvarps ríkisins föstudaginn 4. júní flutti Guðmundur Hörður Guðmundsson frétt um, að málþingi sem Reykjavíkurlistinn ætlaði að efna til daginn eftir, vegna þess að tíu ár væru þá liðin, frá því að listinn náði meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, hefði verið frestað um óákveðinn tíma. Fulltrúar flokkanna í R-listanum (Framsóknarflokks, Samfylkingar og vinstri/grænna auk Dags B. Eggertssonar óháðs borgarfulltrúa, sem leiddi undirbúning afmælisins) hefðu ekki getað komið sér saman um fyrirkomulag málþingsins.
Deilurnar áttu rætur að rekja til þess, að sumum þótti sem of mikið væri gert úr hlut Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Þórólfs Árnasonar, borgarstjóra.
Fréttamaðurinn sagði, að þessi vandræði þættu til marks um stöðuna innan Reykjavíkurlistans um þessar mundir. Sérstaklega væri talið að fulltrúar vinstri-grænna væru óánægðir með samstarfið. Þætti mörgum til dæmis sem Þórólfur Árnason borgarstjóri sýndi lítinn áhuga á samstarfi við fulltrúa flokksins. Þá hefði komið fyrir, að mál væru borin upp í borgarráði, án þess að fulltrúar flokksins hefðu veitt þeim samþykki. Einnig greindi menn á um, hvort borgarstjórinn ætti að vera talsmaður Reykjavíkurlistans. Ljóst væri, að erfið mál gætu reynt á framtíð Reykjavíkurlistans á næstunni. Þannig hefði fulltrúi vinstri-grænna setið hjá í skipulagsnefnd þegar greidd voru atkvæði um niðurrif Austurbæjarbíós. Tillagan yrði aftur tekin fyrir á fundi nefndarinnar á næstunni og þá reyndi á límið í R-listanum, því að flest benti til að sjálfstæðismenn mundu ekki styðja niðurrif hússins. Þá ættu flokkarnir í Reykjavíkurlistanum enn eftir að ná samkomulagi um bílageymsluhús undir Tjörninni, stofnun þjónustumiðstöðva og hugmyndir um léttlestakerfi. Þá væri að vænta niðurstöðu Samkeppnisstofnunar og lögreglu vegna meints verðsamráðs olíufélaganna, en borgarstjórinn hefði verið starfsmaður ESSO, þegar samráðið hefði verið talið eiga sér stað og hann hefði verið yfirheyrður vegna þess. Þá væri það til marks um stöðuna innan Reykjavíkurlistans að laugardaginn 5. júní, á 10 ára valdaafmælisdegi listans, mundi birtast grein á heimasíðu vinstri-grænna í Reykjavík, vg.is/postur, þar sem Sverrir Jakobsson, sem sæti í nefnd á vegum borgarinnar og væri stjórnarmaður VG í Reykjavík, segði, að teikn væri á lofti um, að undanfarin ár hefði myndast umboðslaus ráðhúsklíka embættismanna sem væri engu betri en klíkan sem stjórnaði borginni á valdatíma Sjálfstæðisflokksins.
Góðir lesendur! Ég endursegi þessa frétt næstum í heild, því að loksins tók fréttamaður sig til og lýsti ástandinu hjá R-listanum eins og það blasir við okkur, sem sitjum í borgarstjórn Reykjavíkur. Hann hefði getað nefnt margt máli sínu til stuðnings um innbyrðis þrætur R-listamanna, en þessi stutta afmælisfrásögn um R-listans gefur smjörþefinn af því, sem þar er að gerjast.
Að R-listinn treysti sér ekki til að efna til málþings, þar sem Ingibjörg Sólrún átti að flytja upphafsræðu og Þórólfur Árnason lokaorð, vegna þess að innan listans líta sumir á Ingibjörgu Sólrúnu sem svikara og aðrir á Þórólf sem embættismann án sjálfstæðs umboðs, staðfestir þá skoðun, að aðeins óttinn við eigin dauða haldi lífi í R-listanum.
Reykjavík á annað skilið en búa við slík forystuleysi.
Á flótta undan 75%
Undarlegar umræður hafa orðið um efnisgreinina í síðasta pistli mínum, þar sem ég minntist á ummæli Guðna Ágústssonar um þá ákvörðun R-listans í febrúar 2001 að fara að tillögu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að setja skilyrði um 75% þátttöku í flugvallarkosningunni, til að hún væri bindandi.
Ég setti þetta á vefsíðu mína að kvöldi fimmtudagsins 3. júní, eftir að hafa horft á frábæran Kastljósþátt með Davíð Oddssyni. Laugardaginn 5. júní sló Morgunblaðið því upp á forsíðu, að ég teldi ekki ósanngjarnt að miða við 75% og þar með tóku aðrir fjölmiðlar við sér og nú var hafist handa við að leita álits alls konar fólks á þessu.
Allt í einu var þetta orðið að hugmynd ef ekki tillögu minni og keppst var við að fá fólk til að hallmæla dómsmálaráðherra fyrir þá ósvinnu að láta í ljós skoðun af þessu tagi. Össur Skarphéðinsson reyndi að vísu að gera lítið úr málinu með því að tala um „heimasíðusnakk“ og Steingrímur J. Sigfússon sagði í ríkissjónvarpinu að kvöldi sunnudagsins 6. júní:
„Nei, mér finnst þetta alveg með ólíkindum að dómsmálaráðherra, sem reyndar fer með framkvæmd kosninga og kosningalög heyra undir, skuli vera í æfingum af þessu tagi þó aldrei sé nema á heimasíðu sinni. Og það er nú reyndar sérviðfangsefni hvernig menn virðast telja að þeir geti sagt alla skapaða hluti á heimasíðum sem þeir þurfi svo ekki að standa við í hinni opinberu umræðu.“
Í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins sagði Ólöf Rún Skúladóttir fréttamaður, takið eftir feitletraða orðinu:
„Margrét Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins styður hins vegar hugmyndir dómsmálaráðherra um að verulega kosningaþátttöku þurfi til að þjóðaratkvæðagreiðsla um fjölmiðlalög verði látin gilda.
Margrét Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins: Ja ég er nú á því að hún þurfi að vera, þetta þurfi að vera mjög skýr niðurstaða. Ég held að það séu nú flestir sammála um það að það sé ekki æskilegt að taka mið af niðurstöðunni ef að um er að ræða mjög dræma kjörsókn til að mynda.
Ólöf Rún Skúladóttir: En hvað með hlutfallið, hversu mikill þarf meirihlutinn að vera?
Margrét Sverrisdóttir: Jú ég held það væri ekki óeðlilegt að miða við 75%.“
Í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins þennan sama sunnudag sagði sama Margrét hins vegar:
Margrét Sverrisdóttir: Auðvitað væri mjög æskilegt að ¾ kosningabærra manna mættu á kjörstað til að kjósa um svona mikilvægt mál sem að ritfrelsið og málfrelsið er, en það er að athuguðu máli þá er útilokað að setja þetta sem skilyrði. En ég trúi nú ekki öðru en að a.m.k. helmingur kosningabærra manna nýti sér þjóðaratkvæðisréttinn núna loksins þegar hann fær hann.
Nefndi einhver Ragnar Reykás?
Engum fréttamanni virtist detta í hug að skoða, hvernig R-listinn stóð að ákvörðun sinni hinn 13. febrúar 2001 um þetta efni og hvort ákvörðunin þá um að miða við 75% hefði vakið einhverjar deilur. Í stað þess að upplýsa forsöguna var látið í veðri vaka, að þetta væri einhver einkahugmynd mín og síðan kallað á Jónatan Þórmundsson, prófessor í refsirétti við Háskóla Íslands, til að ræða málið á Bylgjunni, en þar gaf hann til kynna í samtali við Arnþrúði Karlsdóttur, að ástæða væri til að gruna stjórnarherrana um græsku, þeir væru nefnilega, viljandi eða kannski óvart „að reyna að ræna þjóðina þessum rétti sem að hún hefur hlotið núna eftir ákvörðun forsetans.“
Þegar refsiréttarprófessor segir þetta um menn, hvort heldur stjórnmálamenn eða aðra, er ástæða til að spyrja enn og aftur: Hvaða hagsmuni er verið að verja með slíkum málflutningi? Af hverju er leitast við að setja umræðurnar um 75% kröfuna í þann búning, að hún sé heimasmíðuð af mér? Og síðan gefið til kynna, að ég eða ríkisstjórnin sé að búa sig undir að „ræna“ lýðræðislegum rétti af þjóðinni?
Í mínum huga er þetta allt flótti frá því að ræða eigin tillögu um 75% þátttöku og efni málsins auk viðleitni til að draga upp ranga mynd af okkur málsvörum fjölmiðlalaganna.
Að lokum birti ég hér til fróðleiks tillöguna, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flutti í borgarráði 13. febrúar 2001, en hún var samþykkt með 4 atkvæðum R-listans:
„Borgarráð samþykkir, með tilvísun til 5. mgr. 104. gr. sveitarstjórnarlaga og 19. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, að niðurstaða atkvæðagreiðslu um framtíðarnýtingu Vatnsmýrar og staðsetningu Reykjavíkurflugvallar 17. mars n.k. verði bindandi, ef a.m.k. 3/4 hlutar atkvæðisbærra manna taka þátt í henni. Jafnframt samþykkir borgarráð að niðurstaðan verði bindandi, ef a.m.k. 50% atkvæðisbærra manna greiða atkvæði á sama veg jafnvel þótt þátttaka í atkvæðagreiðslunni verði undir því marki sem ákveðið er í 19. gr. Greinargerð fylgir tillögunni.“
Greinargerðin er stutt og í henni segir:
„Samkvæmt 104. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 94/1998 er sveitarstjórn heimilt að efna til almennrar atkvæðagreiðslu um sérstök mál. Niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu er ekki bindandi nema að sveitarstjórn hafi fyrirfram ákveðið að svo skuli vera. Í 2. mgr. 19. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 60/1985, með síðari breytingum, er fjallað um skyldu til að efna til almennrar atkvæðagreiðslu ef fyrirhugað er að ráðast í ákveðna framkvæmd og áætlaður heildarkostnaður borgarinnar vegna hennar nemur hærri fjárhæð en áætluðum fimmtungi árlegra skatttekna borgarinnar á yfirstandandi reikningsári. Niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu er bindandi um afgreiðslu málsins ef a.m.k. 3/4 hlutar atkvæðisbærra manna í Reykjavík taka þátt í henni.
Til þess að taka af allan vafa þykir rétt að borgarráð samþykki sérstaklega að ákvæði 2. mgr. 19. gr. um bindandi kosningu eigi við um atkvæðagreiðslu 17. mars n.k. Jafnframt þykir rétt að rýmka skilyrði fyrir bindandi kosningu með þeim hætti að greiði a.m.k. 50% atkvæðisbærra manna annarri hvorri spurningunni atkvæði sitt verði kosningin bindandi jafnvel þótt 75% þátttöku verði ekki náð. Með þeim hætti hefur meirihluti atkvæðisbærra borgarbúa lýst samhljóða vilja sínum.“