27.6.2004

Eftirskrift vegna úrslita.

 

Eins og kunnugt er eiga margir erfitt með að fóta sig á því, hvernig skynsamlegt sé að túlka úrslit forsetakosninganna. Stuðningsmenn Ólafs Ragnars drepa umræðum á dreif og hann svarar út í hött, eins og þegar hann segir, að mönnum hefði þótt árangurinn góður, ef Davíð Oddsson hefði átt í hlut!

Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Fréttablaðsins, bjó sér til mælistiku í blaði sínu laugardaginn 26. júní. Hann sagði í einskonar forystugrein blaðsins, að við mat á úrslitum kosninganna væri eðlilegt að taka mið af því, hvernig Vigdísi Finnbogadóttur vegnaði í kosningunum 1988. Þá hefði Vigdís fengið um 90% greiddra atkvæða með rúmlega 70% kjörsókn og þar af leiðandi stuðningsyfirlýsingu frá 65% landsmanna. Gunnar Smári taldi það verða tap fyrir andstæðinga Ólafs Ragnars, sem hann skilgreindi sem Morgunblaðið  og forystumenn innan Sjálfstæðisflokksins, ef þeim tækist ekki að fá 20% kjósenda til að skila auðu. Markmið þeirra hlyti að vera að berja stuðninginn við Ólaf Ragnar undir 50% af öllum atkvæðisbærum mönnum. Ef Ólafi Ragnari tækist að verjast þessu gæti hann túlkað það sem varnarsigur. Ef hann næði atkvæðum fleiri en 55 til 58% atkvæðisbærra manna, gæti hann túlkað það sem mikinn sigur.

Rúmlega 20% kjósenda skiluðu auðu, kosningaþátttakan var tæp 63% og Ólafur Ragnar hlaut atkvæði um 42% atkvæðisbærra manna.

 

Ólafur Ragnar féll gjörsamlega á prófinu samkvæmt mælistiku Gunnars Smára Egilssonar. Ólafur Ragnar vann ekki varnarsigur heldur tapaði illa.

Á forsíðu Fréttablaðsins sunnudaginn 27. júní er aðalfyrirsögnin þessi:

Ólafur sigraði – fimmti hver skilaði auðu.

 

Gunnar Smári Egilsson skrifar að nýju einskonar forystugrein Fréttablaðsins og fyrirsögn hennar er: Sigur fyrir Ólaf Ragnar.

Gunnar Smári segir, að næstu daga verði barist um túlkun á niðurstöðum forsetakosninganna, án þess þó að minna á mælistikuna, sem hann gaf daginn áður, til að auðvelt yrði að átta sig á því, hver ynni og hver tapaði. Nú er það niðurstaða Gunnars Smára, að hvorugur hafi tapað – þótt hann telji það í fyrirsögn sigur fyrir Ólaf Ragnar að hafa tapað miðað við alla mælikvarða á stikunni góðu. Nú er ekki unnt að taka mið af hinum 20% auðu „sökum þess hversu öflugir aðilar stóðu að þeim og beittu sér í kosningabaráttunni.“ Fyrir kjördag voru þó allir á einu máli um, að engin kosningabarátta hefði verið háð. Hver er málsvari þeirra, sem skiluðu auðu eða sátu heima?

Gunnar Smári segir Ólaf Ragnar sitja uppi með mun verri kosningu en Vigdís Finnbogadóttir fékk árið 1988, enginn hafi að vísu gert ráð fyrir, að Ólafur Ragnar yrði nokkru sinni jafningi Vigdísar að vinsældum. Gunnar Smári hafði að vísu gælt við þá von daginn áður.  Það vefst ekki fyrir honum að fegra hlut Ólafs Ragnars. Gunnar Smári segir: „Og þegar þessar kosningar eru bornar saman [nú og 1988] er munurinn ekki mikill í ljósi þess hversu öfluga andstæðinga Ólafur Ragnar var að glíma við.“

Andstæðingar Ólafs Ragnars voru Ástþór Magnússon og Baldur Ágústsson og síðan hinn huldi frambjóðandi Gunnars Smára. Huldi frambjóðandinn er raunar ekki annað en verk Ólafs Ragnars sjálfs, aðför hans að alþingi, með dyggum stuðningi Gunnars Smára. Daginn áður upplýsti Gunnar Smári lesendur sína um, að Vigdís hefði fengið 65% stuðning landsmanna en sambærilegur stuðningur landsmanna við Ólaf Ragnar var 42% - það munar 23% og Gunnari Smára finnst það nú ekki mikill munur, þegar Ólafur Ragnar á í hlut!

Undir lok hugleiðinga sinna segir Gunnar Smári:

„Við getum spurt okkur hvort við hefðum talið það sigur eða tap fyrir Ólaf Ragnar Grímsson fyrir nokkrum misserum síðan að fá þrisvar sinnum meira fylgi en sá kostur sem forysta Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðið börðust fyrir. Þótt það séu ekki góð tíðindi fyrir forseta að hátt í fimmtungur kjósenda skili auðu í mótmælaskyni eru niðurstöður þessara kosninga hins vegar nokkur sigur fyrir Ólaf Ragnar.“

Af hverju lítur Gunnar Smári ekki frekar til skoðunar sinnar á kjördag en mats á einhverju fyrir nokkrum misserum? Hvers vegna segir hann „hátt í“ fimmtung skila auðu, þegar rúmlega fimmtungur gerir það? Hvers vegna segir Gunnar Smári það nokkurn sigur fyrir Ólaf Ragnar, sem var daginn áður, samkvæmt hans eigin mælistiku, augljóst tap?