20.7.2004

Enn kaflaskil í fjölmiðlamáli.

 

Fjölmiðlamálið tók nýja stefnu í dag, þriðjudaginn 20. júlí, þegar ákveðið var að fella úr gildi ákvæði fjölmiðlalaganna, sem valdið hafa efnislegum ágreiningi.  Er þetta gert í framhaldi af því, að Ólafur Ragnar Grímsson neitaði að staðfesta fjölmiðlalögin og hann tilkynnti á blaðamannafundi á Bessastöðum 2. júní 2004 og ég fjallaði um í pistli mínum 3. júní.

Ríkisstjórnin kom saman og ræddi málið á fundi sínum, sem boðaður var klukkan 09.30 í morgun og hófst nokkru síðar. Allir ráðherrar sátu fundinn fyrir utan Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sem var á Höfn í Hornafirði, en móðir hans lést í síðustu viku og verður hún jarðsungin á morgun – miðvikudaginn 21. júlí.

Þeir Davíð Oddsson og Halldór höfðu rætt stöðu fjölmiðlamálsins föstudaginn 16. júlí og síðan að nýju mánudaginn 19. júlí. Í ríkisstjórninni var farið yfir stöðu málsins en ákveðið að bíða niðurstöðu allsherjarnefndar alþingis, sem boðuð var til fundar klukkan 14.00 þennan þriðjudag, 20. júlí. Jafnframt var lagt á ráðin um að boða þingflokka stjórnarflokkanna til fundar klukkan 16.00 20. júlí.

Allsherjarnefnd alþingis notaði síðustu viku til að hlusta á lögfróða menn og aðra gesti. Stjórnarandstaðan vildi, að nefndin lyki meðferð sinni í síðustu viku. Bjarni Benediktsson, formaður nefndarinnar, ákvað hins vegar að bíða fram yfir helgi með að halda fund.

Var furðulegt að fylgjast með kvörtunum og hamagangi stjórnarandstöðunnar, vegna þess að nefndin var ekki boðuð til fundar á þeim tíma, sem andstaðan óskaði. Skrýtnast hefur verið að heyra Steingrím J. Sigfússon, formann vinstri/grænna, býsnast yfir því, að formenn stjórnarflokkanna hafi verið með einhvern yfirgang gagnvart nefndarmönnum, þegar allir formenn stjórnarandstöðuflokkanna þriggja ákváðu að ýta sínum mönnum í allsherjarnefndinni til hliðar og setjast þar sjálfir, þótt formennirnir hafi ekki  verið kjörnir til setu í nefndinni. Meira vantraust er varla unnt að sýna nokkrum en ryðja honum úr nefnd eins og formenn stjórnarandstöðuflokkanna gerðu.

Meðal sjálfstæðismanna var einhugur á þingflokksfundinum. Fallist var á þau sjónarmið, sem fram komu hjá Davíð Oddssyni og þeim, sem gerðu grein fyrir niðurstöðu meirihluta allsherjarnefndar. Var samþykkt, að áliti nefndarinnar og breytingartillögum yrði dreift á sérstökum útbýtingarfundi á alþingi að kvöldi þessa þriðjudags, 20. júlí.

Ég hef lýst skoðun minni á gangi málsins hér á síðunni. Þróun á fjölmiðlamarkaði er á þann veg, að lögfesta þarf leikreglur um þá, sem þar starfa. Skýrslan að baki frumvarpinu, sem varð að lögum, en forseti synjaði, er afdráttarlaus um nauðsyn þess að huga að nýjum leikreglum.  Allir fögnuðu þessari skýrslu, en eftir að Baugsmiðlarnir snerust gegn frumvarpinu, sem var samið á grundvelli hennar, snerist stjórnarandstaðan og síðan Ólafur Ragnar Grímsson á sveif með þeim.

Í málatilbúnaðinum gegn frumvarpinu og lögunum hefur mér þótt einkennilegast, þegar menn segjast tortryggnir í garð efnisatriða frumvarpsins, vegna þess að það var kynnt af hálfu ríkisstjórnarinnar um leið og skýrslan var gerð opinber. Þessi málsástæða til andstöðu við frumvarpið er eitt skýrasta merkið um, að menn leita allra leiða til að forðast að ræða efni þess.

Frá fyrsta degi hefur verið rekinn samfelldur áróður gegn frumvarpinu og Fréttablaðið, sem dreift er ókeypis í hvert hús, hvort sem húsráðendum er það að skapi eða ekki, er eins og hvert annað áróðursblað. Enginn stjórnmálaflokkur hefur rekið jafn umfangsmikinn og kostnaðarsaman áróður fyrir þröng stefnumið sín og Fréttablaðið hefur gert fyrir hagsmuni eigenda sinna. Tengslin milli Sigurðar G. Guðjónssonar, forystumanns eigendanna, og Ólafs Ragnars Grímssonar eru augljós og skýr, fögnuðurinn í DV,  annexíu Fréttablaðsins,  yfir því, að Ólafur Ragnar hætti við að fara í brúðkaup danska krónprinsins sýndi, að þar á bæ töldu menn sig eiga góðan bandamann í Ólafi Ragnari og vildu hafa hann við höndina.

Ólafur Teitur Guðnason, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, hefur skrifað reglulega um framgöngu fjölmiðla í þessum umræðum og eru lýsingar hans á þeim aðferðum, sem beitt er í áróðursskyni, oft lyginni líkastar. Þá hefur Vef-Þjóðviljinn á www.andriki.is lagt sitt af mörkum til að vekja athygli á hinum makalausa áróðri gegn frumvarpinu. Morgunblaðið snerist í ritstjórnargreinum á sveif með frumvarpinu, þótt stjórn Árvakurs væri annarrar skoðunar. Veist hefur verið að öllum þessum í Fréttablaðinu og DV á markvissan hátt, auk þess hafa þeir Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Jón Steinar Gunnlaugsson sætt sérstöku  ámæli í Baugstíðindunum. Spjótum hefur þó sérstaklega verið beint að Davíð Oddssyni og í því efni hefur Illugi Jökulsson, ritstjóri DV, gengið úr fyrir öll mörk. Yfir mér hefur verið vomað af Baugstíðindum, eins og ég hef áður lýst. Höggin á okkur Davíð, Hannesi Hólmsteini og Jóni Steinari eru líklega látin dynja til að hafa áhrif á sálir í liði stuðningsmanna okkar.

Þegar Ólafur Ragnar synjaði því að staðfesta lögin, sagðist hann ekki taka afstöðu til málsins, heldur væri hann að vísa því til þjóðarinnar. Þessi svonefndi „málskotsréttur“ hefur verið eins og rauður þráður í áróðri stuðningsmanna Ólafs Ragnars frá 2. júní. Í forsetakosningunum 26. júni fékk Ólafur Ragnar svo lítinn stuðning, að hann náði ekki máli að mati Gunnars Smára Egilssonar, ritstjóra Fréttablaðsins, sem breytti kvarða sínum þó tvisvar í kosningabaráttunni til að teygja sig í áttina til Ólafs Ragnars – þrátt fyrir fallið á prófinu taldi Gunnar Smári, að Ólafur hefði „sigrað“ í kosningunum.

Ríkisstjórnin vann að undirbúningi þjóðaratkvæðagreiðslu og fól lögfræðingum að semja skýrslu um, hvernig að henni skyldi staðið. Deilt var um, hvort setja mætti skilyrði um þátttöku í atkvæðagreiðslunni, þótt lögfræðingarnir teldu það heimilt samkvæmt stjórnarskránni. Ákveðið var að kalla þing saman mánudaginn 5. júlí, en 2. júlí samþykkti ríkisstjórnin að leggja ekki fram frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu á komandi þingi heldur um niðurfellingu á lögunum, sem forseti synjaði, og um ný fjölmiðlalög. (Ég var ekki á þeim ríkisstjórnarfundi, enda staddur í Kína frá 29. júní til 9. júlí.)

Davíð Oddsson hélt til Washington síðdegis 5. júlí, eftir að þing hafði verið sett, en hann hitti Geroge W. Bush á fundi þar 6. júlí. Halldór Ásgrímsson flutti frumvarpið á alþingi og hélt uppi vörnum fyrir það. Davíð kom að nýju til landsins fimmtudaginn 8. júlí.

Stjórnarandstaðan flutti frumvarp um þjóðatkvæðagreiðslu en hún hafði fengið tvo lögfræðinga, Dögg Pálsdóttur og Hróbjart Jónatansson, til að semja fyrir sig álit og héldu þau því fram, að með synjun forseta hefði hafist stjórnarskrárbundið ferli, sem ekki væri unnt að stöðva – það yrði að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, hvað sem tautaði eða raulaði.

Athygli vakti í umræðum um þessi mál á þingi, hve stuttar ræður voru fluttar og formenn stjórnarandstöðunnar tóku ekki einu sinni þátt í andsvarsumræðum.

Þegar allsherjarnefnd ræddi við lögfræðinga töldu þeir, fyrir utan Dögg og Hróbjart, að stjórnarskráin heimilaði alþingi að fella lögin úr gildi, tveir prófessorar, Eiríkur Tómasson og Sigurður Líndal, kynntu hins vegar þá nýstárlegu skoðun, að líða yrði einhver ótilgreindur tími við undirbúning og setningu nýrra laga um svipað efni, til að þau stæðust stjórnarskrána.

Laugardaginn 10. júlí birti Fréttablaðið niðurstöðu skoðanakönnunar, sem sýndi Framsóknarflokkinn aðeins með um 7,5% fylgi og þar með minnsta flokkinn. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut mesta fylgið rúmlega 32%, Samfylkingin stóð í stað sem annar stærsti flokkurinn en frjálslyndir og vinstri/grænir juku fylgi sitt.

Mánudaginn 12. júlí kom þingflokkur framsóknarmanna saman og staðfesti stuðning sinn við frumvarpið, sem Halldór Ásgrímsson flutti á þingi viku áður. Alfreð Þorsteinsson, talsmaður framsóknarmanna í borgarstjórn Reykjavíkur, snerist hins vegar öndverður gegn frumvarpinu og efnt var til fundar meðal framsóknarmanna í Reykjavík, þar sem Eiríkur Tómasson var framsögumaður. Var greinileg undiralda í flokknum og höfðu fréttamenn meðal annars samband við forsvarsmenn framsóknarmanna á Bolungarvík og Húsavík, sem sögðust andvígir frumvarpinu. Miklar vangaveltur voru í fjölmiðlum um það, hver yrði afstaða Jóníu Bjartmarz, fulltrúa framsóknarmanna í allsherjarnefnd til frumvarpsins, en Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður flokksins, snerist opinberlega gegn því.

Enginn ríkisstjórnarfundur var haldinn vikuna 12. til 17. júlí en menn báru óformlega saman bækur sínar, síðast formenn stjórnarflokkanna föstudaginn 16. júlí eins og áður sagði.

Kaflaskil urðu síðan enn í fjölmiðlamálinu þriðjudaginn 20. júlí, eins og áður er lýst. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 þann dag var málið borið undir Dögg Pálsdóttur, sem hafði talið stjórnarskrárbundið, að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslunnar, eftir að forseti synjaði. Nú sagði hún, að stjórnarskráin væri enn skýr en forsetinn yrði að velja á milli hennar og skynseminnar! Ólafur Hannibalsson talaði enn um stjórnarskrárbrot í sama fréttatíma en taldi tíðindi dagsins samt fagnaðarefni! Boðaði hann baráttu fyrir lýðræði gegn því, sem hann nefndi foringjaræði! Sú barátta mun þó ekki beinast gegn þeim foringja, sem situr á Bessastöðum og telur sig hafa í fullu tré við alþingi.

Frá því að þessar deilur hófust og spurningar vöknuðu um það, hvort Ólafur Ragnar mundi hugsanlega beita synjunarvaldinu, hef ég haldið þeirri skoðun á loft, að beiting þess sé aðför að þingræðinu. Talsmenn Ólafs Ragnars hafa ekki viljað viðurkenna þetta sjónarmið, enda beri að skilgreina þingræði á þann veg, að það nái aðeins til þess stjórnskipulags, að meirihluti þings verði að standa að baki ríkisstjórn eða þola hana. Þetta er ekki einhlít skýring eins og þessi tilvitnun sýnir: „meðan þingræði er eigi betur viðurkennt en svo, að lög þingsins ná eigi nema endur og sinnum samþykki konungs,“ en hún er úr blaðinu Austra frá 1884.

Eftir framgöngu Ólafs Ragnars vegna fjölmiðlalaganna vaknar sú spurning, hvort við stöndum í sömu sporum nú og Austri lýsir 1884, að lög alþingis nái ekki nema endur og sinnum samþykki hans. Allir skynsamir menn sjá, að slíkt stjórnarfar brýtur gegn þingræði. Í öllu þessu máli er sérkennilegast, að þeir menn, sem vilja teljast málsmetandi á alþingi, skuli ýta undir þá skoðun, að slík aðför að alþingi og þingræði sé við hæfi og í samræmi við okkar stjórnarskrá og stjórnskipan.

Stjórnskipunarkreppan vegna synjunar Ólafs Ragnars Grímssonar er öllum augljós og túlkanir þeirra, sem vörðu þennan gjörning hans, valda ekki síður óvissu en synjun sjálf. Ef menn telja leiðina til að forðast slíka kreppu, að þingmenn leitist við að geta sér til um afstöðu þess, sem situr á Bessastöðum, til frumvarpa á þingi, er veruleg vá fyrir dyrum í störfum alþingis. Hitt er ekki síður varasamt ef rafrænar kennitölusafnanir, sem síðan eru svipaðar leyndarhjúp, eiga að ráða því, hvort lögum er synjað eða ekki, þegar þau berast til Bessastaða.

Eina leiðin til að eyða óvissu og koma í veg fyrir nýja stjórnskipunarkreppu af þessum toga er að ljúka verkinu við smíði stjórnarskrárinnar 1944, að 26. grein hennar sé þannig úr garði gerð, að þar sé svarað öllum spurningum, sem vakna við beitingu hennar, en þær eru fjölmargar eins og umræður síðustu vikna hafa sýnt. Það er skylda stjórnarskrárgjafans, þings og þjóðar, að taka af skarið í þessu efni. Forseti hefur ekki synjunarvald um breytingu á stjórnarskránni.

Þingsins bíður á þessu kjörtímabili að ræða þetta mál til þrautar og leita samkomulags um breytingu á stjórnarskránni.

Þingsins bíður einnig að setja í lög ákvæði um fjölmiðla, sem hindra hina óeðlilegu samþjöppun á eignarhaldi.

Margt annað þarf að ræða í ljósi framvindu fjölmiðlamálsins, en hér verður numið staðar að sinni.