18.8.2004

Útleggingar á Hólaræðu

 

Sunnudaginn 15. ágúst flutti ég ræðu á Hólahátíð og hefur hún vakið nokkrar umræður.  Hér ætla ég að nefna nokkur atriði, sem fram hafa komið frá þeim starfa við fjölmiðla.

Álitsgjafi RÚV

 

Í fréttum hljóðvarps ríkisins klukkan 18.00 mánudaginn ræddi Karl Eskil Pálsson á Akureyri við Birgir Guðmundsson, sem kynntur var sem ritstjóri Blaðamannsins  og aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, en auk þess er Birgir einn af föstum dálkahöfundum Fréttablaðsins. Fréttin í hljóðvarpsfréttunum var svona:

„Ritstjóri Blaðamannsins segir að það færist í vöxt að stjórnmálamenn dragi fólk í dilka eftir persónum, en ekki málefnum. Þeir þurfi því að líta í eigin barm hvað þetta varðar, ekki síður en fjölmiðlarnir.

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra flutti hátíðarræðuna á Hólahátíð í gær. Björn gerði fjölmiðla meðal annars að umræðuefni. Hann sagði að glöggt mætti sjá að stjórnmálamenn væru dregnir í dilka í fjölmiðlum, ekki vegna skoðana sinna eða verka heldur eftir því hvað þjóni hagsmunum viðkomandi fjölmiðils. Birgir Guðmundsson, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri er jafnframt ritstjóri Blaðamannsins og hann hefur ákveðnar skoðanir á þessu máli.

Birgir Guðmundsson, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri og ritstjóri Blaðamannsins: Ég held nú reyndar að þetta sé ekki svo í öllu... (hljóðtruflanir). Auðvitað er það í einstaka tilfellum alltaf hægt að finna dæmi um það að fjölmiðlamenn beri, eða það sem þeir eru að gera, beri einhvern svip af því hverjir eru eigendur þeirra eða hvers konar fjölmiðill þetta er, en almennt séð held ég að það sé ekki þannig samt. Björn er þarna að blanda saman, finnst mér, tveimur hlutum sem er kannski ekki alveg lögmætt að blanda saman. Annars vegar því hvað almennt, ágengni fjölmiðla hefur orðið meiri á undanförnum árum. Það er bara eðlilegur hluti og reyndar höfum við þekkt það í gegnum tíðina hér að, Steingrímur Hermannsson hefði til dæmis mátt kvarta mikið eða Sighvatur Björgvinsson þegar að hann var heilbrigðisráðherra, þannig að það er ekki kannski eitthvað nýtt. Og svo hins vegar er hann að tala um þetta, þessa spurningu og möguleika ríkisvaldsins til þess að setja reglur um starfsemi fjölmiðla sem er mjög mikilvæg og ég held að allir séu sammála um. Þegar hann síðan slengir þessu saman að þá fær hann þessa svona eineltiskenningu og að það komi út úr því einhver málefna eða ómálefnaleg umræða þar sem að menn ræðast ekki við á grundvelli málefnanna heldur sem sé á því í hvaða flokkum þeir eru í.

Fréttastjóri Fréttablaðsins

Í Fréttablaðinu þriðjudaginn 17. ágúst skrifaði Sigurjón M. Egilsson fréttastjóri um ræðuna. Hann sagði:

Björn og heiðarleikinn

Af starfandi alþingismönnum er enginn með ámóta reynslu af blaðamennsku og Björn Bjarnason. Merkilegt er að lesa hvaða augum hann lítur það starf og eðlilegt er að ætla að þannig hafi hann starfað sem blaðamaður. Í Hólaræðu sinni sagði blaðamaðurinn fyrrverandi meðal annars: „ Mat á atburðum líðandi stundar mótast mjög af því hvaða litum mynd er dregin í fjölmiðlum. Ef heiðarleiki og réttsýni víkja fyrir þröngri hagsmunagæslu, er auðvelt að haga áherslum þannig, að rangar ályktanir verði dregnar. Spunameistarar í þjónustu þeirra, sem vilja slá ryki í augu fólks með áróðri, leitast við að færa fréttnæman viðburð í gott ljós fyrir umbjóðanda sinn og í óhag andstæðingi hans.“ Eflaust er Björn að skrifa út frá eigin reynsluheimi.

Björn og arfurinn

 

Blaðamaðurinn fyrrverandi heldur áfram og talar um málfrelsi og ritfrelsi: „Einu má þó slá föstu, þau ýta undir fjölbreytni í skoðunum og eru litin hornauga af þeim, sem einir vilja ráða yfir almenningsálitinu til að halda í völd sín.“ Eflaust sótt í eigin reynsluheim, en auk þess að vera fyrrverandi blaðamaður er Björn einn af eigendum Morgunblaðsins. Á einum stað segir Björn: „Við erum með dýran arf í höndunum og höfum axlað þá ábyrgð, að skila honum enn verðmætari til afkomenda okkar.“ Auðvitað á hann ekki við eignarhlutinn í Mogganum, en það hljómar samt þannig.

Björn og sannleikurinn

 

„ Hvarvetna í lýðræðislöndum eykst mikilvægi þess, að haldið sé uppi gagnrýnu aðhaldi til að upplýsa almenning um það, hvenær verið er að miðla til hans lygi, hálfsannleika eða sannleika. Yfir okkur flæða dæmi um blygðunarlausa misnotkun á trausti fólks og opnum huga þess gagnvart því, sem það les eða sér.“ Gott væri fyrir Björn að muna þessi orð og haga sér samkvæmt þeim.

sme@frettabladid.is

Ritstjóri DV

 

Sama þriðjudag skrifaði Illugi Jökulsson leiðara í blað sitt DV  um ræðuna og sagði:

„Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hélt ræðu á Hólahátíð um síðustu helgi þar sem hann gagnrýndi meðal annars ónefnda fjölmiðla. Sumt í máli hans var ruglingslegt; hann talaði um „einelti fjölmiðla“ gegn einstökum stjórnmálamönnum og skoðunum þeirra en sagði um leið að skoðanir þeirra sömu stjórnmálamanna skiptu að því er virtist engu máli, heldur stöfuðu árásir hinna ónefndu fjölmiðla af því hver stjórnmálamaðurinn væri. Þetta skil ég ekki alveg.

Þótt hér á DV hafi iðulega verið fjallað af nokkurri gagnrýni um ýmisleg uppátæki stjórnmálamanna könnumst við ekki við að stunda einelti og ofangreint tökum við ekki til okkar.

Annað sem Björn sagði átti hins vegar augljóslega við um DV.

Hann sagði, að [y]fir okkur flæða dæmi um blygðunarlausa misnotkun á trausti fólks og opnum huga þess gagnvart því, sem það les og sér.“ Því miður nefndi Björn aðeins eitt einasta dæmi máli sínu til stuðnings: „ Nýlega mátti lesa um það, að í dagblaði hefði verið ráðist harkalega og persónulega á einstakling, eftir að hann nefndi í sjónvarpsþætti, að hillurými fyrir varning í stórverslun færi eftir því, hve mikið framleiðandi vörunnar auglýsti í fjölmiðlum dagblaðs- og verslunareigandans.“

Þetta eina dæmi sem Björn færir fram um hina „blygðunarlausu misnotkun“ er bersýnilega runnið héðan úr DV. Um var að ræða grein í dálknum Fyrst og fremst þar sem hent var gaman að fullyrðingum Snorra Más Skúlasonar, þáverandi kynningarfulltrúa Þjóðminjasafnsins, um samspil hillupláss og auglýsinga. Og beindist að fyrirtækinu Bónus sem á hlut í Frétt ehf. sem er hluti Norðurljósa og gefur út DV.

Greinin var því miður ekki nema miðlungi skemmtileg en ég get þó með engu móti fallist á að þar hafi verið um að ræða „harkalega persónulega“ árás. Og reyndar er þetta í eina skiptið sem hér í blaðinu hefur með einhverjum hætti verið tekinn upp hanski fyrir fyrirtækið Bónus. Þótt deila megi um hvort við hefðum átt að láta okkur nokkru varða skoðanir Snorra Más á hilluuppröðun eða auglýsingum Bónuss, þá get ég samt ekki – hvernig sem ég klóra mér í höfðinu – getað tengt essa mjög svo opinskáu smágrein við „blygðunarlausa misnotkun á trausti fólks og opnum huga þess.“

Ekkert annað í ræðu Björns get ég séð að við höfum þurft að taka til okkar.“

Dálkahöfundur Fréttablaðsins

Kristín Helga Gunnarsdóttir er fastur dálkahöfundur á baksíðu Fréttablaðsins. Hún skrifar miðvikudaginn 18. ágúst:

„Hólaræður eru vettvangur játninga og þar hafa menn áður upplýst um ótta sinn og varað við skelfilegum draugum í myrkrinu. Þar var nýverið varað við óheilbrigðum tengslum fjölmiðla og viðskiptajöfra. Umræðan er háværari nú en þegar flokkur einn stýrði af myndugleik skoðanaskiptum í landinu með áhrifum og ítökum í helstu fjölmiðlum landsins. Þá kvartaði enginn undan hægu andláti flokksblaða og frelsið var í öruggum höndum. Þá hrópuðu fáir að mótvægis væri þörf, en nú er óttinn allsráðandi.

Stólaskiptin virðast ætla að ganga mjúklega upp. Óbærileg hefði verið tilhugsun um herskáan skipstjóra í utanríkisbrúnni. Einhverjir voru farnir að sjá fyrir sér herkvaðningar og íslenskar víkingasveitir á erlendri grundu – Frónverja í felulitum að berjast við ósýnilega óvini á ókunnri strönd og fjölritaðar stuðningsyfirlýsingar við öll hugsanleg styrjaldarátök þar sem óttinn stýrir aðgerðum.“

Forystugrein Morgunblaðsins

 

Í forystugrein Morgunblaðsins miðvikudaginn 18. ágúst sagði:

Dilkadráttur og opinber umræða

 

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra flutti merkilega ræðu á Hólahátíð um síðustu helgi. Honum varð þar tíðrætt um frelsið og mörk þess og gerði m.a. að umtalsefni upplýsingatæknibyltinguna og hvernig hún hefði gert auðveldara en nokkru sinni fyrr að koma skoðunum og frásögnum á framfæri. „Málfrelsi og ritfrelsi eru undirstaða þess stjórnskipulags, sem við njótum og viljum efla og styrkja. Enn er of snemmt að segja, hvaða varanleg áhrif þessi umskipti í miðlun upplýsinga hafa á samfélag okkar eða þjóða heims,“ sagði Björn. „Einu má þó slá föstu, þau ýta undir fjölbreytni í skoðunum og eru litin hornauga af þeim, sem einir vilja ráða yfir almenningsálitinu til að halda í völd sín.“

Ummæli Björns um umræðuhætti á Íslandi nú um stundir hafa vakið athygli, en hann sagði m.a.: „Hvarvetna í lýðræðislöndum eykst mikilvægi þess, að haldið sé uppi gagnrýnu aðhaldi til að upplýsa almenning um það, hvenær verið er að miðla til hans lygi, hálfsannleika eða sannleika. Yfir okkur flæða dæmi um blygðunarlausa misnotkun á trausti fólks og opnum huga þess gagnvart því, sem það les eða sér.

Dæmi eru um, að fjölmiðlar leggi þá í einelti, sem þeim eru öndverðir eða eigendum þeirra. Nýlega mátti lesa um það, að í dagblaði hefði verið ráðist harkalega og persónulega á einstakling, eftir að hann nefndi í sjónvarpsþætti, að hillurými fyrir varning í stórverslun færi eftir því, hve mikið framleiðandi vörunnar auglýsti í fjölmiðlum dagblaðs- og verslunareigandans.

Þetta dæmi er nefnt hér vegna þess, að það snertir ekki stjórnmál. En það þarf ekki mikla glöggskyggni þeirra, sem fylgjast með stjórnmálaumræðu samtímans, til að sjá hvernig stjórnmálamenn eru dregnir í dilka - ekki vegna skoðana sinna eða verka heldur eftir því, hvað þjónar hagsmunum viðkomandi fjölmiðils.

Svo virðist sem styrkur í umræðum ráðist ekki af því, hvaða rök eru notuð til að halda málstaðnum fram heldur af aðferðunum, sem er beitt til sverta andstæðinginn og gera lítið úr honum. Ekki er spurt um, hvað sagt er og lagt mat á það, heldur hver sagði hvað. Deilur snúast ekki um meginsjónarmið og skoðanir heldur hvað hentar best þá stundina, til að koma ár sinni betur fyrir borð eða höggi á andstæðinginn.“

Þetta er þörf áminning til þeirra, sem þátt taka í opinberum umræðum á Íslandi. Hún á auðvitað ekki eingöngu við um fjölmiðla; hún á ekki síður við um stjórnmálamenn og aðra þátttakendur í umræðum, „álitsgjafana“ og alla hina. Skotgrafahernaður og dilkadráttur er miklu ólíklegri til að skila skynsamlegum niðurstöðum í umræðum en að menn leggi málefnalegt mat hver á annars rök. Þeim, sem tjá sig á opinberum vettvangi, er hollt að líta í eigin barm að þessu leyti.“

Dálkahöfundur Viðskiptablaðsins

 

Jakob F. Ásgeirsson, rithöfundur og dálkahöfundur Viðskiptablaðsins beinir athyglinni að öðrum þætti ræðu minnar en þeim, sem lýtur að fjölmiðlum. Hann segir:

„Í skjóli þess stöðugleika sem ríkt hefur í forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar frá árinu 1991 hafa orðið „orðið stærri breytingar á þjóðfélagi okkar og meiri efnahagsframfarir en á nokkru öðru skeiði í þjóðarsögunni,“ sagði Björn í ræðu sinni. Hann benti á að allir alþjóðlegir kvarðar sem mæla afkomu og hæfni þjóða og stjórnkerfa sýndu Ísland hvarvetna í fremstu röð í heiminum. Og ekki hefði tekist í nokkru landi að „virkja efnahagslega krafta á jafn farsælan hátt til stöðugs vaxtar í svo langan tíma“ og á Íslandi undir forystu Davíðs Oddssonar þar sem kaupmáttur almennings hefur vaxið hátt í 40% á síðustu tíu árum.

----------

Í ræðu sinni benti Björn Bjarnason á að undir stjórnarforystu Davíðs Oddssonar hefði fjárstreymi til rannsóknar og þróunar verið stóraukið, íslenska heilbrigðiskerfið aldrei verið öflugra, mikil gróska verið í íslensku menningarlífi og stjórnvöld stuðlað að því að þjóðin tileinkaði sér hinar stórstígu framfarir sem orðið hafa í upplýsinga- og fjarskiptatækni.

Þessi höfuðeinkenni Íslandssögunnar frá árinu 1991 – „markviss hagstjórn, öflugt vísinda- og menntakerfi, góð heilbrigðisþjónusta, blómstrandi menningarlíf og almenn upplýsingatækni“ – eru að mati Björns „besta trygging fyrir því, að þjóðfélagi farnist vel á líðandi stundu og til frambúðar.“

Alls þessa eigum við að minnast nú þegar Davíð Oddsson talar á ný til þjóðar sinnar eftir erfið veikindi. Enginn maður hefur sætt grimmari og svæsnari árásum en Davíð Oddsson á undanförnum misserum – og samt er hann sá maður sem íslensk þjóð á mest að þakka nú um stundir.

„Þótt oft skorti hófsama málflytjendur og réttláta dómara í samtímanum, er ég þess fullviss, að litið verði til okkar tíma sem hinna bestu í sögu þjóðarinnar,“ sagði Björn Bjarnason réttilega í sinni merku Hólaræðu.“

Niðurstaða.

 

Sama dag og ég flutti ræðuna ræddi Karl Eskil Pálsson við mig á Hólum og birti þetta í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins 15. ágúst:

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra: Ja ég hefði ekki sagt þetta nema að ég tel að svo sé. Það sem ég var að fjalla um í ræðu minni er frelsið og hið félagslega aðhald og þessa sígildu spurningu sem við stöndum alltaf frammi fyrir, á að setja frelsinu mörk og hvernig á að skilgreina þau mörk. Og ég tel í þessu tilliti að þá eigi náttúrulega fjölmiðlar að lýsa skoðunum manna, viðhorfum þeirra til þjóðfélagsmála en ekki draga menn í dilka eftir því hverjir þeir eru. Og mér finnst þess gæta um of í okkar umræðum núna þessa stundina, menn eru dregnir í dilka eftir því hverjir þeir eru, ekki endilega eftir því hvaða skoðanir þeir hafa.

Karl Eskil Pálsson: Ertu þá að tala um að deilur þær snúist ekki um meginsjónarmið?

 

Björn Bjarnason: Ja ég tel að það sé mjög mikilvægt að deilur snúist um meginsjónarmið og tek sem dæmi í ræðunni spurninguna um aðild okkar að Evrópusambandinu og nefni til sögunnar þá nefnd sem nú hefur verið skipuð um Evrópumálin og mikilvægi þess að við ræðum þau mál af opnum huga, og síðan ekki að draga menn í dilka á einhverjum annarlegum forsendum sérhagsmuna. Það er eitt stórmál sem við stöndum frammi fyrir og þau eru mörg stórmálin sem við stöndum frammi fyrir og það er nauðsynlegt að brjóta þau til mergjar með hliðsjón af meginsjónarmiðum en ekki endilega hverjir haldi þeim sjónarmiðum fram.

 

Karl Eskil spurði mig, hvort ég vildi nefna einstaka fjölmiðla. Ég sagðist ekki ætla gera það, enda hefði ég ekki gert það í ræðunni. Ég var auðvitað ekki aðeins að ræða innlenda fjölmiðla, því að ég get að sjálfsögðu rökstutt mál mitt með vísan til þess, hvernig tekið er á málum víðar en hér.

Ritstjóri DV hefur tekið undir þá skoðun, að ámælisvert hafi verið af blaði hans  að ráðast á Snorra Má Skúlason.

Birgir Guðmundsson er að tala um eitthvað annað en ræðu mína, þótt hann látist vera að gera það – ummæli hans eru einfaldlega dæmi um hin „hráu“ viðbrögð álitsgjafa, sem ég vík að í ræðu minni.

Sigurjón M. Egilsson er svo barnalegur í útlistun sinni að staðfesta réttmæti þeirrar skounar, að stjórnmálamaður sé dreginn í dilk – ekki vegna skoðana sinna heldur vegna þess, að hann á um 1% í hlutafélaginu Árvakri, sem gefur út Morgunblaðið. Orð Sigurjóns um „arfinn“ í skýringu hans á ræðunni eru gjörsamlega slitin úr samhengi. Undir lok ræðunnar segi ég, eftir að hafa í upphafi hennar vitnað í kvæði herra Jóns Arasonar um heimsósómann :

„Við komum saman hér í dag í vissu þess, að heimsósómi hefur ekki ráðið þjóðargöngunni, að tryggðin sé ekki tryllt né trúin veik, drengskapur hafi ekki verið drepinn eða dygðin rekin í óbyggð. Hitt er sönnu nær, að játa því, að fleira hafi orðið þjóð okkar til framdráttar en nokkur gat vænst.

Við erum með dýran arf í höndum og höfum axlað þá ábyrgð, að skila honum enn verðmætari til afkomenda okkar.“

Ef einhver hefur verið óttasleginn síðustu daga virðist það vera Kristín Helga Gunnarsdóttir yfir því, hver yrði utanríkisráðherra. Gott er, að sá ótti hennar er um garð gengin.

Morgunblaðið segir réttilega, að fleiri megi gæta sín á hættum ómálefnalegs dilkadráttar en fjölmiðlar.

Jakob F. Ásgeirsson bendir í raun á þungamiðju ræðu minnar, en ég nota þessa líkingar til að minna á, að ekki sé allt sem sýnist í fjölmiðlaglamri samtímans:

„Við getum enn leitað í smiðju hjá John Stuart Mill eftir líkingu, þegar hann segir, að kristnum mönnum hafi verið kastað fyrir ljón, en kirkja þeirra orðið veglegur meiður, sem vaxið hafi yfir eldri og kraftminni teinunga og kæft þá í skugganum. Félagslegur ofstopi drepi engan og uppræti engar skoðanir, en hann komi mönnum til að leyna þeim eða varni þeim að vinna að útbreiðslu þeirra.

Það er ekki endilega allt, sem sýnist á líðandi stundu. Hér eiga við orð Þorkels Jóhannessonar, sem vitnað var til í upphafi þessa máls, að hafi Jón Arason látið lífið sem réttur óbótamaður fyrir dómstóli óvina sinna og andstæðinga, hafi því dómsorði löngu verið hrundið fyrir dómstóli tímans í meðvitund þjóðarinnar.

Enginn Íslendingur kemst nær því að mega kallast þjóðhetja en Jón biskup Arason.“