21.11.2004

Málsvörn Matthíasar – varðskip og þyrlulæknar – sakleysingjar og DV.

Mér hlýnar jafnan um hjartarætur, þegar ég les minningarbrot eftir Matthías Johannessen um foreldra mína, hann skrifar um þau í anda þeirrar miklu vináttu, sem var milli þeirra og Hönnu og Matthíasar, vináttu, sem ég hef einnig fengið að njóta í áranna rás.

Matthías tekur í nýjustu bók sinni, Málsvörn og minningar, upp hanskann fyrir það viðhorf föður míns, að aðeins beri að líta á synjunarvald forseta Íslands samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar í ljósi þingræðisreglunnar. Matthías segir:

 

„Ákvæðið [í 26. gr.] var þannig sett sem öryggisventill gegn forsetavaldi sem mörgum stóð stuggur af og Bjarni Benediktsson taldi að aldrei mætti beita.

 

Ákvæðið er þannig alls ekki til styrktar neinu forsetavaldi, sem dregur dám af einhvers konar einræði, heldur því til höfuðs, enda gæti það leitt til stjórnarfarslegrar sjálfheldu.

 

Gölluð stjórnarskrá er ekki heilagt plagg, ekki frekar en hver önnur leiðamerking. Ef hún er ónákvæm eða misvísandi, getur hún leitt í ógöngur sem Bjarni kallaði glundroða. Við erum í miðjum slíkum glundroða. Og hver sá sem gerir sér ekki grein fyrir því ætti að fást við eitthvað annað en stjórnmál.

 

Nú hefur verið reynt að hafa endaskipti á 26. grein stjórnarskrárinnar og túlka hana með öðrum hætti en til var ætlazt af þeim sem mótuðu hana á sínum tíma. Og þar sem ég hlustaði á Bjarna Benediktsson útlista þetta í Morgunblaðssamtali okkar [í tilefni af forsetakosningum 1968], tel ég ástæðu til að skýra þennan aðdraganda að greininni. Má raunar telja með ólíkindum að nokkur þingmaður skuli hafa gengið fram fyrir skjöldu og ýtt undir þá ruglandi að táknrænn þjóðhöfðingi gæti tekið fram fyrir hendur á þingræðinu, ef honum byði svo við að horfa.“

 

Í bók Matthíasar er þannig að finna enn eina heimildina, sem nauðsynlegt er að hafa í huga, þegar leitast er við að vinda ofan af þeim útleggingum, sem notaðar voru síðastliðið sumar til að réttlæta þá ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar að synja um staðfestingu á svonefndu fjölmiðlafrumvarpi. Mér finnst langsótt að kenna þær útleggingar við stjórnlagafræði og að því er varðar orð föður míns og skilning hans á þessu ákvæði stjórnarskrárinnar var beinlínis um rangfærslur að ræða hjá Ragnari Aðalsteinssyni hrl., eins og Matthías áréttar í bók sinni.

 

Ég hafði gaman að því að lesa bók Matthíasar, sem er mikil að vöxtum, og skrifuð á þann veg, að hann er að skýra bréfvini frá viðhorfi sínu til lífsins og tilverunnar með skáldskap og trú að leiðarljósi. Málsvarnarþátturinn snýr meðal annars að því að svara Sigurði A. Magnússyni, sem vék ómaklega að Matthíasi í æviminningarbókum sínum. Við, sem þekkjum Matthías, vitum, að hann er ekki einhamur og í raun spannar bókin svo vítt svið, að hana má skoða sem kennslubók í skáldskap, trúmálum, blaðamennsku og stjórnmálum auk þess sem þar er gert upp við menn og málefni á þann hátt, sem Matthíasi er einum lagið, og brugðið ljósi, sem mótast af mikilli reynslu höfundarins, á þjóðkunna og heimsfræga samferðarmenn.

 

Matthías vitnar oft i bókinni til dagbókarblaða sinna, sem hann segir, að muni enda í kjallara Þjóðarbókhlöðunnar, enda hafi Ólafur Ragnarsson í Vöku-Helgafelli ráðið sér frá því, að setja dagbækurnar á prent. Hinn 16. október árið 2000 fer Matthías í SPRON og leggur inn gjaldeyri. Þar hittir hann Davíð Oddsson forsætisráðherra, þeir taka tal saman, en Matthías er greinilega með hugann við, að hann muni láta af störfum ritstjóra 1. janúar 2001. Hann skrifar í dagbók sína:

 

„Davíð nefndi ekki að ég væri að hætta á Morgunblaðinu, hvað þá að hann hefði hug á taka við af mér. Með því að segja mér frá því að þeir Halldór Ásgrímsson hefðu átt gott samtal, held ég hann hafi verið að gefa mér í skyn að hann hefði ekki áhuga á mínu starfi við blaðið. Ég sagði við hann að augljóst hefði verið að Halldór hefði verið orðinn argur í stjórnarsamstarfinu, en þá svaraði Davíð, Ég var líka orðinn mjög argur!“

 

Hér er margt sagt í fáum orðum, en eins og við vitum hætti Matthías á blaðinu, án þess að ritstjóri yrði ráðinn í hans stað, heldur tveir aðstoðarritstjórar í tilraunaskyni auk annarra breytinga á yfirstjórn ritstjórnar. Ég ætla ekki að leggja út af þessum orðum Matthíasar hér og nú, en endurtek að í bók hans er að finna mikinn fróðleik og finnst mér það eitt ámælisvert, að í henni skuli ekki vera nafnaskrá til að auðvelda þeim, sem vilja nota hana sem heimild. Matthías var ritstjóri Morgunblaðsins í meira en 40 ár og hann hefur greinilega kviðið því að hætta á blaðinu. Undir lok bókar sinnar segir hann feginshugar: „En það er hægt að lifa Morgunblaðið af og raunar auðveldara en ég hélt. Það er líf eftir Morgunblaðið!“

 

 

Varðskip og þyrlulæknar.

Þegar ég vann með Matthíasi á Morgunblaðinu voru erlendar fréttir að jafnaði á forsíðu þess. Það urðu að gerast mikil innlend stórtíðindi til að þau kæmust á forsíðunni. Þá sagði Matthías stundum, að það væru mikil forréttindi að starfa á blaði, þar sem ekki þyrfti að huga að því að smíða söluvæna forsíðu. Blaðið treysti þá eins og enn þann dag í dag á fasta áskrifendur, en nú hefur blaðið breytt stefnu sinni varðandi forsíðufréttir, þær eru ekki aðeins notaðar til að selja það heldur einnig í vaxandi mæli auglýsingar um efni þess, meðal annars útvarpsauglýsingar meira að segja um ritdóma í blaðinu.

 

Þessi breyting endurspeglar auðvitað þá staðreynd, að Morgunblaðið keppir við Fréttablaðið, sem dreift er á kostnað auglýsenda til lesenda um land allt – er líklega einsdæmi í heiminum, að áskriftarblað keppi þannig við blað, sem er sent lesendum að kostnaðarlausu inn á næstum hvert heimili í landinu.

 

Forsíða Fréttablaðsins ber þess að sjálfsögðu merki, að efni hennar þarf ekki að taka mið af því, hvort blaðið á að seljast eða ekki – við fáum það inn um lúguna hjá okkur, hvort sem við viljum eða ekki.

 

Í dag, sunnudaginn 21. nóvember, er aðalfyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins þessi: Nýtt varðskip ekki á fjárlögum. Fjárlagafrumvarpið var lagt fram á alþingi 1. október síðastliðinn, svo að ekki er hér um glóðvolga stórfrétt að ræða. Þá er hitt ekki heldur sérstaklega fréttnæmt, að ég vilji ekki nefna neina dagsetningu um það, hvenær nýtt varðskip fari á fjárlög. Í því efni hef ég jafnan vísað til stefnuræðu Davíðs Oddssonar forsætisráðherra á alþingi haustið 2003, þótt ég hafi ekki gert það við blaðamann Fréttablaðsins, sem hringdi í mig vegna þessa máls um kvöldmatarleytið laugardaginn 20. nóvember, en ég tók símann heima hjá mér, því að ég hélt, að eitthvert stórmál væri á ferðinni. Blaðið ber skort á fjárveitingu til nýs varðskips undir Sævar Gunnarsson, formann Sjómannasambands Íslands, sem er bölsýnn eins og fyrri daginn, þegar hann ræðir eitthvað tengt Landhelgisgæslunni og segir: „Ég hef alltaf verið afskaplega vondaufur um að nýtt varðskip verði eitthvað annað en hátíðarhjal í stjórnvöldum.“ Þannig að ekkert nýtt kemur fram í þessari forsíðufrétt frá Sævari.

 

Fyrr á þessu ári var Sævar Gunnarsson þungorður í fjölmiðlum um þyrlulækna og samstarf þeirra við Landhelgisgæsluna. Málið var meðal annars til umræðu utan dagskrár á alþingi 3. mars síðastliðinn og daginn eftir mátti lesa í Morgunblaðinu:

 

„Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagði í umræðu utan dagskrár á Alþingi í gær að enginn þyrfti að óttast það að hættuástand skapaðist um sjúkraflutninga Landhelgisgæslunnar vegna þess að samningum Landspítala - háskólasjúkrahúss, þriggja ráðuneyta og Landhelgisgæslunnar um þyrlulækna hefði verið sagt upp. Læknum sem starfa á þyrlu Landhelgisgæslunnar hefur verið sagt upp störfum frá og með 1. maí næstkomandi. „Það ríkir ekkert hættuástand,“ sagði ráðherra, „samningurinn er í gildi og það er verið að fylla það tómarúm sem skapast ef þessi samningur gildir ekki áfram. Og það þarf enginn að óttast að það skapist eitthvert slíkt tómarúm; að það verði hér hættuástand vegna þess að það verði ekki unnt að sinna þessari þjónustu á þann veg að öryggi landsmanna sé tryggt.““

 

Í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins var hinn 4. mars 2004 rætt við Sævar Gunnarsson um þetta mál og þá sagði hann meðal annars: „ Og það er bara verið að þvæla málinu pólitískt með því að segja við skulum bara sjá til, þetta verður allt í lagi. Það hefur aldrei verið sagt það verður áfram læknir, það verður bara... þetta verður allt í lagi. Og það getur vel verið að það sé mat dómsmálaráðherra að það sé allt í lagi að vera ekki með lækna í þyrlunni, en það er bara klárlega ekki mitt mat, það er alveg ljóst.“

 

Í morgunfréttum hljóðvarps ríkisins 30. apríl 2004 var enn rætt um þetta mál og talað við Sævar Gunnarsson. Þá urðu þessi orðaskipti:

 

Sævar Gunnarsson: Það er algjörlega óásættanlegt og ég vek athygli á því að dómsmálaráðherra beindi því m.a. til mín í vetur þegar ég hafði áhyggjur af þessu eða lýsti áhyggjum mínum að ég þyrfti ekkert að hafa áhyggjur af þessu, þetta yrði í lagi. Og auðvitað ætlast ég til þess að þau orð standi.

 

Jóhanna Margrét Einarsdóttir fréttamaður: Verðurðu var við það að sjómenn hafi áhyggjur af þessu máli?

 

Sævar Gunnarsson: Já verð var við það að sjómenn hafi áhyggjur af þessu máli, ég verð líka var við að aðstandendur sjómanna hafi áhyggjur af þessu máli. Ég verð jafnvel meira var við það að konur sjómanna sem við mig tala þær hafa miklar áhyggjur af þessu.

 

Jóhanna: En í ljósi þess sem hefur verið að gerast, nú er þessi deila alls ekki ný af nálinni. Áttu von á að það takist að leysa hana á einni viku?

 

Sævar Gunnarsson: Það þarf ekkert langan tíma kannski til þess að samningar takist um eitt eða annað en því miður finnst mér að það sé verið að þvæla málið svona aftur á bak og áfram og óttast að það takist ekki. En aftur á móti krafa mín er sú að það takist og þeir klári þetta mál.

 

Ég ræddi aldrei neitt við Sævar Gunnarsson um þetta mál á þessum tíma og hef ekki gert það síðan, hins vegar hlustaði ég nokkuð undrandi á þessar yfirlýsingar hans, því að uppsögn samninga við lækna var frestað fram að áramótum og lögð áhersla á að finna frambúðarlausn á málinu. Ég lagði fram minnisblað um hana í ríkisstjórn nú í október en hef hvorki orðið var við áhuga fjölmiðla né Sævars Gunnarssonar á lausninni, en í fjáraukalögum þessa árs og í fjárlögum næsta árs verður varið fé til að leysa málið á þeim forsendum, sem um var samið og ég kynnti ríkisstjórninni með fyrrnefndu minnisblaði.

 

Fái ég einhverju að ráða verður á jafnmarkvissan hátt unnið að því að endurnýja skipa- og flugvélakost Landhelgisgæslunnar á komandi árum. Hugmyndir um nýtt og stórt varðskip liggja fyrir og úr þeim þarf að vinna jafnframt þarf að móta stefnu um það, hvernig best og öruggast verði staðið að því að reka flugvélar til leitar- björgunar- og eftirlitsstarfa.

 

Fyrsta stórverkefni mitt varðandi framtíð Landhelgisgæslunnar er hins vegar að ráða henni nýjan forstjóra nú þegar Hafsteinn Hafsteinsson hverfur að eigin ósk til starfa að hafréttarmálum í utanríkisráðuneytinu. Samstarf okkar hefur verið gott frá því að ég varð dóms- og kirkjumálaráðherra og árna ég Hafsteini farsældar á nýjum vettvangi, þar sem lögfræðileg þekking hans og reynsla af forstjórastarfi gæslunnar mun nýtast vel.

 

Sakleysingjar og DV.

 

Í DV laugardaginn 20. nóvember er vitnað í það, sem ég sagði í síðasta pistli mínum um bók Ólafs Jóhanns Ólafssonar Sakleysingjana. Blaðið setur fram þá kenningu að hægrimenn hafi litið á Ólaf Jóhann sem sinn höfund en vinstri agentar gætu ekki unnt honum að skrifa vinsælar bækur. Þá segir blaðið:

 

„Samkvæmt því var Björn Bjarnason tryggilega í hópi aðdáenda Ólafs Jóhanns enda hefur hann oftar en einu sinni farið lofsamlegum orðum um höfundinn.“

 

Ef þessi kenning DV byggist á því, að ég hafi oft fjallað um bækur Ólafs Jóhanns er hún jafnsnarlega dauð og ómerk og hún birtist, því að ég hef aðeins einu sinni skrifað eitthvað um bók eftir Ólaf Jóhann og það var í fyrrnefndum pistli mínum. Eða getur DV  bent mér á fleiri dæmi?

Úr því að ég nefni DV get ég ekki látið hjá líða að vekja athygli lesenda minna á heift Jónasar Kristjánssonar, eins af leiðarahöfundum blaðsins, í garð Condoleezzu Rice, verðandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Jónas segir í leiðara: „Hún er trúarofstækismaður, sem situr á morgunfundum forsetans með Guði, þar sem lögð er harðlína gagnvart útlendingum, einkum villitrúarmönnum af meiði Múhameðs... Condoleezza Rice er dæmi um, að Bandaríkin eru orðin að mestu ógn nútímans við mannkynið og framtíð þess. Fólk, sem annars staðar væri á hæli, er við stjórnvöl Bandaríkjanna.“

 

Ég sagði frá því í síðasta pistli, að ég hefði heimsótt kommúnistasafn í Prag. Þar voru sýnd áróðursplaköt gegn Bandaríkjunum og þegar þau eru skoðuð kemur í ljós, að í þeim er einmitt sami tónn og í þessum leiðara Jónasar Kristjánssonar. Þegar ég starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu fengum við daglega sendingu úr sovéska sendiráðinu í nafni Novosti-fréttastofunnar og var uppistaðan í þeim áróðri, að ofstækismenn, sem best væru geymdir á hæli, stjórnuðu ferðinni í Bandaríkjunum og ógnuðu heimsfriði – nú er Novosti­ á öskuhaugi sögunnar en Jónas Kristjánsson heldur merkinu enn á loft!