Árásin á London – R-listinn hopar
Yfirlit
Árásin á London – R-listinn hopar
Þegar rætt er um hryðjuverkaárásina í London fimmtudaginn 7. júlí, láta ýmsir eins og hryðjuverk séu afleiðing þess, að snúist var gegn Saddam Hussein, einræðisherra í Írak, og honum komið frá völdum. Með slíku tali er einfaldlega verið að sneiða fram hjá þeirri staðreynd, að hryðjuverkaárásin á New York og Washington var gerð 11. september 2001 – áður en ráðist var inn í Írak.
Hryðjuverkamenn hefðu að sjálfsögðu getað látið að sér kveða í London, þótt ekki hefði verið ráðist gegn Saddam. Það eru ekki nein haldbær rök í þessu samhengi fyrir yfirlýsingum á þann veg, að ofbeldi geti aðeins af sér ofbeldi og þess vegna eigi menn einfaldlega að halda að sér höndum eftir árásir eins og gerð var 11. september 2001.
Við, sem tókum virkan þátt í umræðum um viðbrögð Vesturlanda við útþenslu sovéska kjarnorkuheraflans á tímum kalda stríðsins, vorum oft og iðulega sakaðir um að ýta undir hættuna á kjarnorkustríði. Sagt var: Ef NATO-ríkin sættu sig við sovéska yfirburði í kjarnorkuvopnabúnaðí Evrópu, væri best stuðlað að friði í álfunni og veröldinni allri. Þetta var kjarninn í stefnu svonefndra friðarhreyfinga á þessum tíma og þær höfðuðu til margra. Nú er hins vegar viðurkennt, að þessar hreyfingar voru á einn eða annan hátt hluti af áróðurskerfi sovésku kommúnistastjórnarinnar. Þá er söguleg staðreynd, að sovéska einræðiskerfið stóðst ekki áraun Vesturlanda undir forystu Ronalds Reagans og hrundi eins og spilaborg, þegar snúist var gegn því með vestrænni hervæðingu.
Trúverðugleiki margra sérfræðinga í alþjóðamálum varð að engu við hrun Sovétríkjanna og ætla mætti, að þeir, sem nú telja sig í þeirri stöðu, hefðu fyrirvara á illa rökstuddum yfirlýsingum um áform hryðjuverkamanna og tengsl aðgerða þeirra við ástandið í Írak. Hvað var að gerast í Írak, sem réttlætti árásina 11. september 2001? Ekkert.
Og hvað sem líður átökum í Írak er ekkert, sem réttlætir, að ráðist sé á friðsama borgara í lestum eða strætisvögnum á leið til vinnu sinnar í London eða annars staðar. Í raun er óskiljanlegt, að svonefndir sérfræðingar láti hafa sig til þess í fjölmiðlum að ganga þeirra erinda í þágu hryðjuverkamanna, að reyna að finna einhverja afsökunarskýringu á framgöngu þeirra.
Nú er það að gerast í Írak, að hópar hryðjuverkamanna ráðast gegn þeim, sem vinna að því að breyta þar stjórnarháttum frá einræði til lýðræðis. Hið sama er að gerast nú og á tímum kalda stríðsins, að einræðisöflin óttast enga meira en þá, sem hafa frelsi og lýðræði að leiðarljósi. Markmið þessara afla var að koma í veg fyrir lýðræðislegar kosningar í Írak í lok janúar 2005. Það mistókst. Síðan hafa grimmdaröflin leitast við að grafa undan stjórn Íraks. Kosningarnar í landinu höfðu hins vegar áhrif á stjórnarhætti í mörgum nágrannalanda Íraks og þær hafa ýtt undir lýðræðisþróun í þessum löndum. Slík þróun er fleinn í holdi öfgafullra múslíma, sem hika ekki við að grípa til hryðjuverka í þágu málstaðar síns.
Við sjálfstæðismenn í Reykjavík höfum nú ívið meira fylgi en R-listinn samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallups, 50,2%, R-listinn 49% og frjálslyndir eða Ólafur F. Magnússon 0,8%.
Tökum fyrst síðustu töluna, sem sýnir, að Ólafi F. hefur gjörsamlega mistekist að ávinna sér traust kjósenda með framgöngu sinni í borgarstjórn. Hann sveiflast í afstöðu sinni milli D-lista og R-lista en hefur hinar síðari vikur einkum beint athygli sinni, að húsum við Laugaveginn, flutt hverja tillöguna eftir aðra í borgarstjórn um verndun þeirra og lesið þar húsnúmer í belg og biðu. Fyrir okkur, sem viljum fara valrega í að breyta ásýnd Laugavegarins er þessi málatilbúnaður frekar til þess fallinn að spilla fyrir skynsamlegri lausn en auðvelda hana. Ólafur F. ber sér á brjóst sem umhverfisverndarsinni en treystir sér til dæmis ekki til þess, þegar á hólminn er komið, að styðja tillögu um umhverfismat á fyrirhuguðum stórframkvæmdum vegna Háskólans í Reykjavík á milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar, af því að taki svo langan tíma!
R-listinn er enn að takast á um, hver eigi að gefa út dánarvottorðið um R-listasamstarfið. Ef hinn dauðvona ræður útgáfu slíks vottorðs sjálfur, er oft skiljanlegt, að hann fresti henni – en það er fyrir löngu orðið óskiljanlegt, þegar litið er á vandræðaganginn innan R-listans.
Það eru ekki síst hin furðulegu stjórnartök Alfreðs Þorsteinssonar á málefnum Orkuveitu Reykjavíkur (OR), sem valda því, að traust til Framsóknarflokksins hefur síminnkað í Reykjavík. Fréttablaðið keppist við að reikna út á forsíðu sinni fylgi framsóknar í borginni og er blaðið nú komið með það undir 4%. Sú árátta Alfreðs að svara út í hött, þegar spurt er um einstök en erfið úrlausnarefni, dugar ekki lengur til að slá ryki í augu fólks.
Nýjasta ákvörðunin um ráðstöfun á milljörðum í nafni OR er gerð samnings milli forstjóra OR og Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur borgarstjóra um lagningu ljósleiðara í Reykjavík. Hér skal efast um, að nokkuð sé að marka tölur í þessum samningi miðað við ótrúlegar ranghugmyndir OR um kostnað við útboð á Akranesi á dögunum vegna lagningar ljósleiðara þar. Þar munaði hundruð prósenta á kostnaðarmati OR og tilboðum. Hér skal einnig fullyrt, að við þessar ákvarðanir OR nú sé ekki frekar en þegar sagt var á sínum tíma, að rafmagnsleiðslur yrðu ljósleiðari framtíðarinnar, tekið mið af örri þróun tækni til að nota hefðbundnar símalínur til að flytja gagnvirk boð á sama veg og gert er með ljósleiðara.
Fyrir nokkru var skýrt frá því, að OR myndi ekki koma að orkusölu til álvers, ef það risi við Helguvík. Var þessi ákvörðun rakin til þeirrar stefnu vinstri/grænna í stjórn OR og annars staðar, að ekki ætti að framleiða meira ál í landinu. Til að árétta þessa stefnu ritaði Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, grein í Morgunblaðið gegn álæði og taldi mál að linnti. Það leið þó ekki langur tími frá því, að þessi grein birtist, þar til skýrt var frá því, að OR hefði ritað undir samkomulag við ALCAN um sölu á orku til álversins í Straumsvík, yrði það stækkað. Var sérstaklega fram tekið, að fulltrúi v/g í stjórn OR væri sammála þessu samkomulagi eða viljayfirlýsingu og Alfreð Þorsteinsson sagði eitthvað á þá leið, að munur væri á því að selja raforku til álvers, sem væri nýtt eins og í Helguvík og kynni að valda deilum heima fyrir, eða þess, sem væri gamalgróið. Formaður v/g skilgreindi baráttuna gegn álæðinu ekki á þennan veg, en v/g í Reykjavík lætur sér enn á ný duga að vera í skjóli Alfreðs. Afstaða v/g í þessu máli er hin sama og til væntanlegu umhverfisspjallanna við Nauthólsvík; að vera með eitthvert orðagjálfur, sem ekkert þýðir, þegar á hólminn er komið.
Samfylkingin telur sig hafa í fullu tré við samstarfsflokka sína innan R-listans og hefur haldið þannig á málum í samningaviðræðum um framtíð listans, að hinir flokkarnir skuli leggja fram tillögur í þeim anda, að Samfylkingin kanni af vinsemd og lítillæti, hvort hún fallist á þær eða ekki. Tilgangurinn er með öðrum orðum að tryggja, að upplitið verði þannig, þegar upp er staðið, að það hafi ekki verið Samfylkingin, sem sleit viðræðunum og samstarfinu heldur samstarfsflokkar hennar, annar eða báðir.
Ástæða er til að undrast, hve langt fulltrúar v/g og framsóknar eru tilbúnir til að ganga í því skyni að þóknast duttlungum Samfylkingarinnar í þessum viðræðum, hljóta þeir þó að hafa áttað sig á því, að meginmarkmið Samfylkingarinnar er ekki að ná samkomulagi heldur hafa vaðið fyrir neðan sig, hvernig sem fer.
Ég hélt því fram, þegar Ingibjörg Sólrún hafði verið kjörin formaður Samfylkingarinnar, að hún mundi vilja R-listann feigan. Hún vildi geta sýnt og sannað með framboði Samfylkingarinnar til borgarstjórnar í Reykjavík, að það munaði mest um hana og flokkur undir hennar forystu nyti óskoraðs trausts borgarbúa, góður árangur Samfylkingarinnar í borgarstjórnarkosningum vorið 2006 yrði hennar leiðtogaveganesti inn í þingkosningar vorið 2007.
Tvær Gallup-kannanir á fylgi stjórnmálaflokkanna á landsvísu síðan Ingibjörg Sólrún varð formaður Samfylkingarinnar hafa minnkað líkur á, að þessi spádómur um vilja Ingibjargar Sólrúnar til að láta reyna á fylgi Samfylkingarinnar undir sinni forystu í Reykjavík vorið 2006 rætist. Samfylkingin hefur nefnilega ekki náð neinu nýju flugi undir hennar formennsku, fylgi flokksins hefur heldur dalað. Þegar könnun Gallup um fylgi flokkanna í maí 2005 var birt, það er í þeim mánuði, þegar Ingibjörg Sólrún var kjörin, var sagt frá því, að um og eftir flokksþingið og úrslitin í formannskjörinu hefði fylgið vaxið – könnun Gallup í júní sýnir á hinn bóginn ekki sterkari stöðu Samfylkingarinnar á milli mánaða, svo að stuðningur manna hefur fljótt dvínað, eftir að Ingibjörg Sólrún fór að láta í sér heyra sem formaður. Hin nýja könnun á fylgi fylkinganna í Reykjavík eykur hvorki Samfylkingarmönnum né öðrum aðstandendum R-listans bjartsýni.
Við sjálfstæðismenn í borgarstjórn getum fagnað þeim stuðningi, sem þessi könnun sýnir, hún er að minnsta kosti vísending um, að við séum á réttri leið. Borgarstjórnarflokkurinn er mjög samhentur og hann hefur nýlega kynnt stórhuga skipulagshugmyndir um leið og R-listanum er veitt sterkt aðhald. Fyrir þá, sem eru í stjórnarandstöðu, hvort heldur innan sveitarstjórnar eða á alþingi, er oft erfitt að finna hið hæfilega jafnvægi á milli aðhalds og frumkvæðis. Draga má þá ályktun af niðurstöðum þessarar könnunar, að við höfum fundið þetta jafnvægi og þar með eflt áhuga kjósenda á að styðja okkur.