6.11.2005

Glæsilegt prófkjör – uppdráttarsýki vinstrisinna - heimsókn til Noregs.

Úrslit í prófkjöri okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík liggja nú fyrir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hlaut örugga kosningu í fyrsta sæti, Hanna Birna Kristjánsdóttir náði mjög góðri kosningu í annað sæti og Gísli Marteinn Baldursson er traustur í þriðja sætinu og hefur tekið úrslitunum í einvígi sínu við Vilhjálm um fyrsta sætið með þeim hætti, að hann vex enn frekar af þeirri framgöngu.

Ég sé haft eftir Gunnari Helga Kristinssyni, prófessor í stjórnmálafræði, að Hanna Birna sé ótvíræður sigurvegari prófkjörsins en hún hlaut yfir 10.142 atkvæði af þeim 12.453, sem kusu, en það voru 59,4% af þeim 20.978, sem voru á kjörskrá. Kjartan Magnússon borgarfulltrúi var með næstflest atkvæði eða 9353 en hann hreppti 4. sætið á listanum.

 

Sif Sigfúsdóttir hlaut 8. sætið á listanum og er það einstaklega góður árangur, þegar til þess er litið, að Sif hefur ekki verið virkur þátttakandi í stjórnmálabaráttunni eins og aðrir frambjóðendur í efstu 10 sætunum. Kosningabarátta hennar einkenndist einnig af hógværð, sem sýnir, að enn er unnt að ná árangri í prófkjöri, án þess að slá mjög mikið um sig í fjölmiðlum.

 

Í 10 efstu sætum listans eru 5 konur auk þeirra Hönnu Birnu og Sifjar, þær eru Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir í 6. sæti, Jórunn Frímannsdóttir í 7. sæti og Marta Guðjónsdóttir í 10. sæti, en allar hafa þær starfað í borgarstjórnarflokknum á þessum kjörtímabili og sinnt störfum sínum af miklum áhuga og með ágætum. Kosningin er bindandi fyrir röðun manna í 9 efstu sætin.

 

Þegar ég lít á niðurstöðuna, er mér efst í huga, að í raun eru það Sjálfstæðisflokkurinn og stuðningsmenn hans, sem eru sigurvegarar í þessu glæsilega prófkjöri. Þegar samherjar berjast hart um einstök sæti, er hætta á því, að upp úr sjóði á þann veg, að einhver brennist illa. Sárin eru síðan oft lengi að gróa. Það hefur ekki gerst að þessu sinni. Þar ræður miklu góð framganga Gísla Marteins, eftir að úrslitin voru kunn og eindreginn vilji hans til að leggja rösklega hönd á plóginn til að prófkjörið skili sem mestum og bestum árangri í kosningunum næsta vor.

 

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins eiga vafalaust eftir að reyna að gera sér mat úr niðurstöðum prófkjörsins með því að setja þær inn í einhverja ímyndaða flokkadrætti, sem eru í raun víðsfjarri, þegar gengið er til kosninga af þessu tagi við þær aðstæður, sem nú eru í Sjálfstæðisflokknum. Viðfangsefnið að þessu sinni var að velja á milli fólks í forystusæti, fólks, sem flest kemur úr einstaklega samhentum borgarstjórnarflokki og hefur einsett sér að vinna af heilum hug að því að bæta hag Reykvíkinga og losa þá úr heljargreipum R-listaflokkanna.

 

Uppdráttarsýki vinstrisinna.

 

Sama dag og sjálfstæðismenn gengu til prófkjörs birti Grímur Atlason, en hann bauð sig nýlega fram í 300 manna prófkjöri vinstri/grænna, tapaði og kvaddi flokksstarfið, grein á vefsíðu sinni undir fyrirsögninni: Játningar bælds útkjálkapilts, þar sem segir:

 

„Hringbrautin er algjör bömmer. Lækjatorg er algjört disaster. Nýju húsin á Laugaveginum særa blygðunarkennd mína. Laun borgarstarfsmanna sem ekki teljast til vinkvennahóps Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur eru fyrir neðan allar hellur. Sorpmálin eru mér ráðgáta þrátt fyrir græna flokkinn í borgarstjórn. Engin brú í hugsun um almenningssamgöngur. Prítvatbíllinn er algjörlega búinn að sigra og það þorir ekki hræða í borgarstjórn að koma með djörf útspil þar. Í Viðey kasta menn peningum í rugl en frístundaheimilin standa ekki öllum börnum opin. Dagforeldrar hætta og litlir foreldrareknir leikskólar fá kaldar kveðjur. Ónýtt (eins og í ó-notað) húsnæði borgarinnar skal seljast, segir fulltrúi flokkanna en þar á hann við húsnæði eins af leikskólunum í Vesturbænum. Börn yngri en 18 mánaða eiga engan séns á plássi. 12 ár er langur tími og þau átti að nota betur en raun ber vitni.

 

Mér finnst R-listinn hafa staðið sig afar illa sl. 8 ár. Það er einkar grátlegt að teknókratisminn hefur algjörlega tekið völdin. Áður en menn byrjuðu af krafti á Hringbrautarslysinu sögðu fulltrúar R-listans að það þýddi ekki að rífast yfir þessu núna þar sem málið hefði verið í umræðunni svo lengi. Sömu fulltrúar segja í dag að það verði að setja brautina í stokk! Sama var sagt um Laugaveginn í vor - það er búið að ræða þetta og þá þýðir ekkert að ræða það meira. Síðan þegar búið er að rífa gömlu húsin og byggja og skipuleggja eitthvað rugl klóra menn sér í hausnum og botna ekki neitt í neinu.

 

Mér fannst D-listinn standa sig hryllilega þann tíma sem þeir voru með lyklana og hef enga trú á að það breytist komist hann aftur að kjötkötlunum. Frambjóðendur D-listans hljóta að standa í þakkarskuld við öfluga hagsmunaaðila og því er þeim engan veginn treystandi. Það er grátlegt ef aumingjadómur og teknókratismi færir D-listanum aftur völdin í borginni. Þá fer Garðabær að verða vænlegur kostur.

 

R-lista slyddurnar verða að rífa sig upp og sýna djörfung í stað endalauss ræfilsdóms.

 

Þennan sama prófkjörsdag sjálfstæðismanna ritaði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, grein í Morgunblaðið til að harma örlög R-listans og ráðast á vinstri/græna fyrir að slíta samstarfinu þar. Að öðrum þræði ber að líta á þessa grein, sem árás á Ögmund Jónasson, þingmann vinstri/grænna í Reykjavík, en hann hefur verið að útmála Samfylkinguna sem hægri flokk (!) undir formennsku Ingibjargar Sólrúnar.

 

Grein sinni lýkur Ingibjörg Sólrún á þessum orðum: „Við þessar aðstæður á ég þá ósk heitasta að allt óflokksbundna Reykjavíkurlistafólkið taki málið í sínar hendur, eins og það gerði 1994, búi sig undir verkefnin framundan og mæti til leiks. Prófkjör Samfylkingarinnar í byrjun febrúar verður opið óflokksbundnu fólki og þar getur áhugafólk um gott borgarsamfélag boðið sig til starfa. Nú er bara spurningin hvort fólk ætlar að stitja forviða hjá eða láta verkin tala.“

 

Líklega er einsdæmi, að flokksformaður telji sér sæma að höfða sérstaklega til fólks utan eigin raða til að láta að sér kveða og gefi til kynna, að flokksmenn sínir, þar á meðal Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri og Stefán Jón Hafstein, formaður menntaráðs Reykjavíkur, láti ekki verkin tala heldur sitji hjá forviða. Orð Ingibjargar Sólrúnar verða ekki skilin á annan veg en þann, að hún styðji hvorki Steinunni Valdísi né Stefán Jón í komandi prófkjöri Samfylkingarinnar.

 

Heimsókn til Noregs.

 

Í vikunni var ég Ósló og nágrenni að kynna mér umbætur, sem Norðmenn hafa verið að gera á lögreglunni hjá sér, og hvernig til hefur tekist. Um nokkurra ára skeið var unnið að því að móta tillögur um stækkun lögregluumdæma í Noregi og hinn 1. janúar 2002 var þeim fækkað úr 54 í 27. Reynslan er hin sama og að er stefnt hér á landi með stækkun lögregluumdæma, það er að styrkja lögregluna hvarvetna í landinu til að takast á við alvarleg afbrot og alþjóðalega glæpastarfsemi.

 

Í ferðinni fékk ég eindregna staðfestingu á því, að tillögurnar, sem framkvæmdanefnd um nýskipan lögreglumála hefur kynnt falla í svipaðan farveg og sambærileg nefnd mótaði í Noregi á sínum tíma. Við vorum einnig minntir á það í ferðinni, að Danir, Íslendingar og Norðmenn eiga sameiginlegar rætur, þegar hugað er að skipulagi lögreglu og ákæruvalds. Reynsla Dana og Norðmanna er þess vegna mikils virði fyrir okkur, en Danir eru um þessar mundir að stækka lögregluumdæmi sín. Hjá Norðmönnum hefur hið sama verið haft að leiðarljósi og hér, að ekki skuli hróflað við grunnskipan lögreglukerfisins, þótt umdæmi séu stækkuð til að sameina krafta lögreglumanna til að takast á við umfangsmeiri verkefni en áður, ekki síst að því er varðar rannsókn mála og ákærur.

 

Ég spurði lögreglustjóra, sem ég hitti, hvort dómarar væru á bakvakt í hans umdæmi til að bregðast við óskum lögreglu t. d. um heimild til húsleitar. Hann sagði svo ekki vera, ef grípa þyrfti til slíkra aðgerða utan vinnutíma dómara, gæti löglærður fulltrúi sinn, sem færi með ákæruvald, tekið ákvörðun um þetta, en hana yrði að bera undir dómara, þegar hann kæmi til starfa á venjulegum vinnutíma sínum. Ef um símhlerun væri að ræða frá kl. 16.00 á föstudegi fram til kl. 09.00 á mánudegi, gæti lögreglustjóri tekið ákvörðun um hana, enda yrði hún borin undir dómara, strax og hann kæmi til vinnu, og ætti það við, þótt hlerun væri lokið.

 

Hér á landi er kerfið þannig, að dómurum um land allt er gert að vera á bakvakt til að geta brugðist við, ef lögregla óskar úrskurðar þeirra um húsleit eða hleranir. Eins og umræður hér bera með sér telja ýmsir það brjóta í bága við mannréttindi, að hverfa frá þessu fyrirkomulagi. Á hinn bóginn hef ég ekki heyrt um, að norsk stjórnvöld hafi verið sökuð um mannréttindabrot fyrir þá skipan, sem er í landi þeirra.

 

Ég spurði að því, hvernig staðið væri að því að taka myndir af þeim, sem  sækja um passa. Svarið var á þann veg, að enn væri skipulagið þannig, að fólk notaði myndatökuklefa utan lögreglustöðva, en að því væri stefnt að færa töku mynda inn í lögreglustöðvar, bæði til að gæta öryggis og auka þjónustu við borgaranna, sem þyrftu þá ekki að fara á fleiri en einn stað til að fá vegabréf.

 

Athyglisvert var að heyra, að í Noregi hefði aldrei verið um það deilt, að náið samband og samstarf skyldi vera á milli rannsóknarlögreglu og saksóknara í efnahagsbrotum. Þegar ég spurði, hvort rætt hefði verið um að skilja þar á milli, var svarið einfalt og skýrt: Nei, það hefði aldrei verið til umræðu. Rökin voru hin sömu og hjá ríkissaksóknara og öðrum hér á landi, að við svo viðamiklar rannsóknir væri brýnt, að samband milli ákæruvalds annars vegar og rannsóknarlögreglu og samstarfsmanna hennar hins vegar væri náið, svo að rannsóknin beindist í þann farveg, sem saksóknari teldi skynsamlegastan.

 

Álitaefni af þessum toga, koma til athugunar og umræðu, þegar gengið verður frá frumvarpi til laga um meðferð opinberra mála en réttarfarsnefnd undir formennsku Markúsar Sigurbjörnssonar, forseta hæstaréttar, skilar tllögum sínum að frumvarpi til mín innan skamms, ef áætlanir nefndarinnar standast.

 

Ég minni enn á nauðsyn þess, að sem mest samræmi sé í löggjöf af þessum toga á milli okkar og nágranna okkar, því að gloppa í lögum, kann að kalla á, að hér festi eitthvað illgresi rætur, sem fær ekki þrifist annars staðar vegna varúðarráðstafana, sem þar eru gerðar.