25.2.2007

Sjálfstæðismenn og umhverfisvernd.

      

Á forsíðu Morgunblaðsins laugardaginn 24. febrúar er stutt fréttaskýring eftir Freystein Jóhannsson, þar sem rætt er um sjálfstæðismenn og náttúruvernd og gefið til kynna, að nokkurt nýmæli sé af því, að þingmenn sjálfstæðismanna láti sig náttúruvernd varða og síðan eru nefndir nokkrir einstaklingar til sögunnar í því skyni að að árétta þá skoðun, að áhugi þingmanna Sjálfstæðisflokksins á náttúruvernd kunni að vera að aukast.  Sama skoðun er síðan áréttuð í Staksteinum blaðsins sunnudaginn 25. febrúar.

 

Að láta eins og Sjálfstæðisflokkurinn eða einstakir þingmenn hans hafi ekki haft eða hafi alls ekki áhuga á náttúruvernd eða umhverfismálum byggist í besta falli á vanþekkingu en í hinu versta á vísvitandi rangfærslum. Þegar Katrín Fjeldsted, sem setið hefur á þingi í minn stað undanfarnar tvær vikur, segir, að Sjálfstæðisflokkurinn stefni í 10% flokk vegna skorts á stefnu í umhverfismálum, mætti til dæmis ætla, að hún hefði ekki tekið þátt í því á síðasta landsfundi flokksins að samþykkja stefnuna í umhverfismálum og um náttúruvernd, sem þar var samþykkt. Hefur svo mikið gerst síðan sá fundur var haldinn, að réttlæti þessi stóru orð um framtíð eigin flokks?

 

Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekkert að skammast sín fyrir stefnu sína í umhverfismálum og ástæðulaust er með öllu að láta eins og það sé nýmæli, að flokkurinn hafi áhuga á þessum málaflokki. Umræðurnar núna um þessi mál taka mið af því, að í leit að málefnum fyrir kosningarnar 12. maí vilja andstæðingar Sjálfstæðisflokksins gjarnan ná frá honum atkvæðum með því að bera hann rangri sök í þessu efni. Í slíkri orrahríð gerist það alltaf, að sumir þola hana svo illa, að þeir taka frekar undir með andstæðingnum en að halda fram eigin málstað og skýra hann. Ef litið er á skoðanakannanir og fylgisaukningu vinstri grænna, sem helst stæra sig af umhverfisvernd, er flokkur þeirra frekar að saxa á fylgi Samfylkingar en Sjálfstæðisflokks um þessar mundir og samkvæmt niðurstöðu könnunar, sem Fréttablaðið birtir sunnudaginn 25. febrúar yrðu vinstri græn og Samfylking með sama fylgi, ef kosið yrði núna og með 15 þingmenn hvor flokkur.

 

*

 

Á sjötta áratug síðustu aldar hófst undirbúningur að því að setja hér lög um náttúruvernd og þar gegndu sjálfstæðismenn lykilhlutverki, eins og auðvelt er að kynna sér í hinum ágætu endurminningum Ásgeirs Péturssonar Haustlitum, sem komu út fyrir síðustu jól. Þar rekur Ásgeir sögu laganna og lýsir hlut þeirra, sem að gerð þeirra komu, en þar var þáttur hans sjálfs ekki sístur. Ásgeir var meðal forystumanna ungra sjálfstæðismanna á þessum árum og hefur alla tíð síðan staðið vörð um einarða stefnu flokks í náttúruverndarmálum. Hann sækir enn landsfundi flokksins og fylgist náið með framvindu þessara mála.

 

Morgunblaðið hefur réttilega vakið máls á miklum og góðu framlagi Birgis Kjarans til náttúruverndarmála. Birgir, afi Birgis Ármannssonar alþingismanns, var einarður og öflugur forystumaður sjálfstæðismanna í Reykjavík á sjötta og sjöunda áratugnum og þingmaður í nokkur ár. Hann ferðaðist um land allt og lýsti upplifun sinni í náttúrunni á ógleymanlegan hátt í bókum sínum. Birgir hefði aldrei liðið flokki sínum að hvika frá vernd íslenskrar náttúru.

 

Upphaf nútímalegrar umhverfisverndar er gjarnan rakið til bókarinnar Raddir vorsins þagna eftir Rachel Carson en Almenna bókafélagið gaf hana út í íslenskri þýðingu Gísla Ólafssonar árið 1965. Ég minnist þess frá starfsárum mínum hjá Almenna bókafélaginu í upphafi áttunda áratugarins, hve Tómas Guðmundsson, skáld og formaður bókmenntaráðsins, sem kom að vali útgáfubóka, var stoltur af því framtaki félagsins að láta íslenska þessa bók.

 

Silent Spring eins og bókin heitir á ensku kom út árið 1962 og vakti strax heimsathygli fyrir gagnrýni höfundarins á framleiðendur eiturefna á borð við DDT, sem notuð voru gegn skordýrum, en Carson sagði, að væru í raun aðför að öllu dýralífi, og ekki síst lífi fugla.

 

Á þessum árum voru málsvarar sósíalisma eða kommúnisma, forverar vinstri grænna í stjórnmálum samttímans, engir talsmenn umhverfisverndar, enda féll sú stefna ekki að markmiðum sósíalísku ríkjanna. Í Evrópu hefur hvergi verið gerð harðari atlaga að umhverfinu en einmitt í Austur-Evrópu undir stjórn kommúnista. Á tímum kalda stríðsins var háð hörð barátta utan  Sovétríkjanna gegn þeim áformurm ráðamanna í Kreml að snúa við rennsli stórfljóta. Hvergi þykir mönnum haugar kjarnorkuúrgangs ógnvænlegri en á svæðunum í kringum Múrmansk í Rússlandi. Sagt var, að einhver eitraðasti blettur Mið-Evrópu væri umhverfis Karl Marx Stadt í A-Þýskalandi.

 

*

 

Af eigin reynslu sem þingmaður, bendi ég á, hve mikið hefur áunnist í þágu náttúruverndar á Þingvöllum undafarin ár, en að þeim málum hef ég unnið með mörgum góðum mönnum frá því skömmu eftir að ég kom á þing vorið 1991.

 

Þingvellir hafa ekki verið mikið til umræðu vegna náttúrverndar undanfarin ár. Skýringin er einföld: Við, sem þar höfum leitt starfið, höfum sýnt náttúrunni virðingu en jafnframt náð mikilvægum og góðum markmiðum, margfaldað þjóðgarðinn að stærð og fengið hann skráðan á heimsminjaskrá UNESCO, einn staða á Íslandi, og stefnum að frekari viðurkenningu á þeim vettvangi, einkum vegna aðgerða okkar í þágu náttúruverndar.

 

Þingvallanefnd hefur lagt sérstaka áherslu á verndun Þingvallavatns. Við lögðum fram tillögur í því efni, sem þóttu alltof róttækar og mættu andstöðu þeirra, sem vildu ekki ganga jafnlangt og við töldum nauðsynlegt til að vernda vatnasviðið. Drógum við þá þann hluta frumvarps okkar til baka í því skyni að fá samþykki við stækkun þjóðgarðsins og náðist það markmið með dyggum stuðningi Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Umhverfisráðherra tók við vatnsverndar-hluta frumvarpsins og leiddi hann í gegnum alþingi.

 

Nú hin síðustu misseri hef ég setið undir ásökunum fyrir að verjast því, að umferð stóraukist um þjóðgarðinn með lagningu nýs vegar yfir Lyngdalsheiði. Ég hef tekið undir sjónarmið Péturs M. Jónassonar vatnalíffræðings, þegar hann varar við því, að stóraukin umferð við Þingvallavatn, ekki síst í nágrenni viðkvæmra hrygningarstöðva bleikjunnar, kunni að valda óbætanlegu tjóni. Ég og fleiri höfum til lausnar á þessu máli með hagsmuni Þingvalla og vatnsins að leiðarljósi talað fyrir of daufum eyrum að mínu mati, þegar við hvetjum til þess, að vegurinn yfir Lyngdalsheiði verði mun sunnar en nú er ráðgert og tengist Suðurlandsvegi frekar en að fara inn í þjóðgarðinn.

 

Morgunblaðið getur ekki af sanngirni fjallað um sjálfstæðismenn og umhverfismál, án þess að minnast á hið mikla átak, sem gert hefur verið í þágu Þingvalla á liðnum árum, birtist þó viðtal við mig í blaðinu um verndun Þingvalla fyrir fáeinum mánuðum.

 

*

 

Þegar ég vakti máls á umhverfisvernd vegna ákvörðunar um framtíðaraðsetur Háskólans í Reykjavík í Vatnsmýrinni, milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar, á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur, gerðu andstæðingar mínir þar lítið úr viðvörunum mínum, þar sem það væri nýlunda, að ég hefði áhuga á náttúrurvernd og umhverfismálum! Rökin voru jafnmálefnaleg og venjulega á þeim bæ, en ég skrifaði greinar um málið í Morgunblaðið meðal annars vegna skoðana Katrínar Jakobsdóttur, varaformanns vinstri grænna, sem taldi ástæðulaust, að umhverfismat færi fram vegna þessarar miklu framkvæmdar. Já, meira að segja ósk um umhverfismat var talin fráleit í þessu tilviki. Nú hefur verið gengið frá endanlegau samkomulagi um byggingamagn og annað á þessum viðkvæma reit.

Laugardaginn 24. febrúar var skýrt frá því á vefsíðu Reykjavíkurborgar, að samkvæmt könnun félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands væri Öskjuhlíðin vinsælasta útivistarsvæði Reykjavíkurborgar en Elliðaárdalurinn fylgdi fast á eftir. Þrír af hverjum fjórum svarendum í könnununinni höfðu komið í Öskjuhlíðina og Grasagarðinn a.m.k. einu sinni á síðastliðnum 12 mánuðum, þar af höfðu 11% svarenda farið á þessa staði oftar en 12 sinnum. Nýr teljari í Grasagarðinum skráði u.þ.b. 48.000 heimsóknir í Grasagarðinn árið 2006. Svo virðist sem u.þ.b. 30% borgarbúa fari aldrei á helstu útivistarsvæði borgarinnar,  33% borgarbúa hafi aldrei farið í Heiðmörk, 30% aldrei í Elliðaárdalinn,  27% aldrei í Grasagarðinn og 25% aldrei í Öskjuhlíðina. Sérstaða Öskjuhlíðarinnar sem útisvistarsvæði er því ótvíræð í huga borgarbúa. 

Um þessar mundir standa yfir miklar deilur vegna þess, hvernig gengið er fram við framkvæmdir í Heiðmörk vegna vatnslagnar til Kópavogs. Er talið, að hirðuleysi gagnvart trjágróðri hafi verið meira en góðu hófi gegnir. Reykvíkingar hafa vissulega sterkar tilfinningar til Heiðmerkur en mun meiri til Öskjuhlíðarinnar og umhverfis hennar. Þegar ég hugsa um væntanlegar stórframkvæmdir og umbyltingu í Vatnsmýrinni við rætur Öskjuhlíðar og ítreka umhverfissjónarmið mín, koma mér í hug orðin, ekki veldur sá er varar. Ég læt í ljós þá einlægu von, að við framkvæmdina takist að sameina sjónarmið umhverfisverndar og háleit markmið Háskólans í Reykjavík.

*

Viðbrögðin vegna skoðana minna á nauðsyn umhverfisverndar í hjarta Reykjavíkur við rætur vinsælasta útivistarsvæðis borgarbúa hafa verið á þá þann veg, að mér er til efs, að í raun sé það umhverfisvernd, sem ráði alltaf ferðinni hjá þeim, sem nú tala mest um þau mál í þeim tilgangi að höfða til kjósenda, stöðva frekari framgang stóriðju í landinu eða til að útiloka að lagðir séu vegir inn á hálendið, svo að fleiri fái notið þess en eigendur stórra jeppa.

Hver vill vera sakaður um, að standa gegn því, að öflugur og góður háskóli eflist og styrkist enn frekar? Síst af öllu er ég andvígur miklum og góðum vexti Háskólans í Reykjavík. Ég beitti mér sem menntamálaráðherra fyrir því, að skólinn fékk þann grundvöll undir starfsemi sína, sem hefur gert honum kleift að vaxa og dafna. Ég hef alltaf lagt honum lið, þegar eftir hefur verið leitað. Ég vil veg hans og annarrra háskóla í landinu sem mestan og bestan. Þegar ég hreyfði því fyrst opinberlega, skömmu eftir að ég varð menntamálaráðherra, að ég vildi styrkja lagagrundvöll undir starfsemi einkarekinna háskóla, skrifaði Morgunblaðið leiðara og spurði með nokkrum þjósti: Er ekki nær að efla Háskóla Íslands, viðskiptadeildina þar? Þegar ég taldi of nærri náttúrunni gengið með fyrirhuguðum háskólaframkvæmdum milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar, var Morgunblaðið ósammála mér um það, þótt blaðið megi ekki til þess hugsa að lagt sé slitlag á veg yfir Kjöl.

Framvinda háskóla, vísinda og rannsókna hefur orðið ævintýranlegri en ég vænti, þegar ýtt var úr vör fyrir um áratug. Þar hefur sannast hið sama og gerðist við einkavæðingu bankanna, að frelsi einstaklingsins er margfalt betra en fjötrar ríkisvaldsins. Og nú fer einmitt saman, vöxtur hinna öflugu fjármálafyrirtækja og vöxtur háskólanna, þörfin fyrir menntað fólk vex í réttu hlutfalli við hin auknu umsvif á öllum sviðum.

Stóð stjórnarnandstaðan, vinstri græn og Samfylking, að því með okkur í ríkisstjórn að umbylta háskólastiginu og marka nýja stefnu rannsókna og vísinda? Nei, svo sannarlega ekki. Hafa lesendur gleymt öllum neikvæðu greinunum um það, sem ég var að gera sem menntamálaráðherra á þessum árum? Öll umbótaviðleitni var að þeirra mati til þess eins fallin að gera vont ástand enn verra – nú eru þær raddir móðuharðinda af mannavöldum að mestu þagnaðar.

*

Talsmaður vinstri grænna telur umhverfisvernd í hjarta borgar engu skipta, þegar um lóð undir háskóla er að ræða, en hún er úrslitaatriði, þegar aflað er orku til stóriðju, fjarri mannabyggð, þar sem aðeins náttúran fær að njóta sín.

Í borg hafa orðin að nýta og njóta, þegar náttúran er annars vegar, ekki sama inntak og í óbyggðum – með því að nýta óbyggðir fá fleiri en ella tækifæri til að njóta þeirra. Þessi staðreynd blasir við öllum, sem horfa fordómalaust á virkjanaframkvæmdir hér á landi. Þær hafa opnað leið að hluta Íslands, sem annars hefði verið öllum almenningi lokaður.

Með því að þrengja að lífi mófugla eða andrými útvistarsvæða í borg, er verið að ganga á hlut þeirra, sem vilja lifa í borg og njóta jafnframt þess, sem náttúran hefur að bjóða. Raddir vorsins munu þagna í Vatnsmýrinni, þegar Háskólinn í Reykjavík leggur undir sig helsta varplendi mófugla þar.

*

Andri Snær Magnason dregur í bók sinni Draumalandið (bls. 189) upp þessa mynd af atvinnuþróun: „Hefði mörgum hæfustu tæknimönnum þjóðarinnar ekki verið haldið inni á gráum kontórum hálfa starfsævina í þrotlausri bið eftir álsamningum hefðu þeir neyðst til að skapa eitthvað annað úr eigin höfði. Metnaðurinn hefði fundið sér farveg þar sem arðsemin er meiri og tækifærin fleiri. Nokkrir þeirra væru milljónamæringar í dag. Íslenskar verkfræðistofur yrðu stærri og öflugri ef þær færðu sig í alþjóðlegt samhengi og útrás. Mannauður á meðalverkfræðiskrifstofu að viðbættum viðskiptafræðingum, markaðsfræðingum, iðnhönnuðum, tölvufræðingum og vélsmiðum getur leyst hvaða verkefni sem er. Stærstu og umfangsmestu mannvirki sem maðurinn byggir í dag eru hugbúnaður og innviðir tölvuforrita.“

 

Þegar ég var að lesa Draumalandið eða hinn 27. júlí 2006 birtist frétt í Morgunblaðinu um, að velta íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja hefði tuttugufaldast að raungildi á síðustu tveimur áratugum á sama tíma og velta annarra atvinnugreina hefði tvöfaldast. Á árunum 2000 til 2005 hefði verðmæti útflutnings hugbúnaðar- og tölvuþjónustu aukist um 88% á föstu verðlagi, árið 2005 hefði velta fyrirtækja í hugbúnaðariðnaði verið 27,7 milljarðar króna og aukist um 10% frá árinu 2004. Á síðustu 15 árum hefði starfsmannafjöldi þessara fyrirtækja þrefaldast en í öðrum atvinnugreinum hefði starfsmönnum fjölgað um 17% - 2005 stöfuðu 2700 manns í hugbúnaðariðnaði.

 

Þessi lýsing á raunverulegum aðstæðum stangast á við þá mynd, sem Andri Snær dregur upp af atvinnuþróuninni. Auk þess er fráleitt að telja verkefni vegna mannvirkjagerðar í þágu virkjana og stóriðju þess eðlis, að úrlausn þeirra veiki íslenskar verkfræðiskrifstofur til alþjóðlegra átaka. Verkmenntunin, sem þróast hefur frá því að ráðist var í stóriðju og stórvirkjanir á sjöunda áratugnum, verður aldrei metin til fjár og áhrifa hennar gætir á öllum sviðum efnahagslífsins. Þá ber þess að geta, að á sviði jarðvísinda standa Íslendingar í fremstu röð á heimsmælikvarða og vegna virkjanarannsókna hefur gífurleg þekking orðið til á þessu sviði.

 

*

 

Þegar samið var við Alusuisse um álverið í Straumsvík, byggðust samningarnir á sérkjörum en síðan hefur jafnt og þétt verið dregið úr þeim. Nú á tímum óslökkvandi orkuþorsta hvarvetna í heiminum er með öllu ástæðulaust að semja um einhver sérkjör til að fá hingað álfyrirtæki. Unnt er að færa fyrir því rök, að samningar af því tagi séu til þess fallnir að fæla önnur og arðbærari fyrirtæki fyrir íslenska þjóðarbúið úr landi.

 

Eitt helsta náttúrulýti við tengsl orkuvera og stóriðjufyrirtækja eru raflínuturnarnir. Kostnaður við að setja rafmagnslínur í jörðu er alltaf að minnka. Víða um land hafa línur verið settar í jörð, þar sem þær hafa slitnað vegna vetrarveðra. Gera á afdráttarlausa kröfu til þess að í ákveðinni fjarlægð frá þéttbýli verði séð til þess, að raflínur verði lagðar í jörðu.

 

Röksæmdafærsla með stóriðju hlýtur að breytast. Sjálfskipuðum umhverfisverndarsinnum á ekki að líðast að misnota náttúruna til að leggjast gegn sjálfsögðum framkvæmdum. Leynd um orkuverð til stóriðju kallar á tortryggni. Verð á orku er þó ekki eini þátturinn, sem ræður staðarvali fyrir álver, þótt hann skipti miklu – hitt er ekki síður mikilvægt, hverning stjórnarháttum er háttað í viðkomandi landi, hver er menning þess og menntun. Í því efni geta fáar þjóðir keppt við Ísland. Fyrir þann eiganda, sem stendur frammi fyrir því að velja á milli Íslands og Venezúela, svo að dæmi sé tekið, ætti ákvörðunin ekki að vera erfið, þegar litið er til stjórnarhátta.

 

*

 

Erfitt er að skilja til fulls, hvernig tekist hefur að snúa umræðum um þessi mikilvægu mál á þann veg, að órjúfanleg tengsl séu á milli þess að sjá allt svart, þegar minnst er á stóriðju, og vilja vernda umhverfið. Á hinum pólitíska vettvangi felst í því blekking að láta eins og þarna sé um eitt og hið sama að ræða.  Í því felst einnig blekking að láta sem svo, að af stóriðju leiði ekkert annað en láglaunastörf í verksmiðju.

 

Ákvarðanir um stóriðju byggjast á mati á fjárhagslegum hagnaði og leitast er við að framkvæma þær, þar sem svigrúm gefst til þess.  Þegar ráðist var í samningana um álverið í Straumsvík var markmiðið að skjóta fleiri stoðum undir íslenskt efnhags- og atvinnulíf. Með nýjum og öflugum fyrirtækjum, einkum á fjármálamarkaði, hafa þessar stoðir orðið enn fleiri og öflugri. Ákvarðanir um þróun atvinnu- og efnahagsmála nú á tímum, hljóta að taka mið af því.