7.7.2007

Þorskkvótinn - Valgerður og evran - dómar í Strassborg.

Einar Kristinn Guðfinnsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, tók sögulega ákvörðun föstudaginn 6. júlí, þegar hann ákvað að fara að tillögu Hafrannsóknastofnunar um að takmarka þorskafla á næsta fiskveiðiári, sem hefst 1. september nk., við 130 þúsund tonn. Með ákvörðuninni verður þorskafli skorinn niður um 63 þúsund tonn eða úr 193 þús. tonnum í 130 þús. tonn.

Samkvæmt athugun Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands eru þjóðhagsleg áhrif þessa niðurskurðar á þorskveiðum þau, að aflaverðmæti þorsks dregst saman um 9,2 milljarða kr., útflutningsverðmæti um 16 milljarða kr. og verg landsframleiðsla um 0,8%.

 

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir réttilega, að þessi ákvörðun Einars Kristins sé til marks um hugrekki hans, ekki síst í ljósi þess, að hann er þingmaður fyrir kjördæmi, þar sem niðurskurðurinn leiðir óhjákvæmilega til erfiðleika fyrir einstök byggðarlög.

 

Samhliða þessari ákvörðun kom ríkisstjórnin sér saman um mótvægisaðgerðir vegna hennar. Þær byggðust á viðræðum milli forystumanna stjórnarflokkanna. Að gott samkomulag tókst um nauðsynlegar aðgerðir vegna þessarar erfiðu ákvörðunar við upphaf stjórnarsamstarfsins staðfestir sameiginlegan vilja stjórnarflokkanna til finna farsæla lausn mála.

 

Hér skal engu spáð um afleiðingu þessa samdráttar í þorskveiðum. Hún getur orðið allt önnur en virðist við fyrstu sýn.

 

Hverjum hefði dottið í hug, að innan árs frá því að varnarliðið fór úr Keflavíkurstöðinni, væri helsta deilumálið í tengslum við brottförina, hvort réttmætt sé að veita þriggja ára nýtingu á bandarísku rafkerfi í stöðinni? Stærri orð hafa fallið um hættuna af notkun þess kerfis en af brotthvarfi varnarliðsins.

 

Keflavíkurstöðin er að verulegu leyti að breytast í aðsetur námsmanna og menntastofnun og við brottför varnarliðsins tókst mun hraðar en nokkur gat vænst að koma í veg fyrir mikinn atvinnubrest hjá íslenskum starfsmönnum liðsins.

 

Á sama hátt og nauðsynlegt var að leita nýrra leiða við skyndilega brottför varnarliðsins er nú óhjákvæmilegt að huga að nýjum tækifærum í staðinn fyrir þorskinn.

 

Staða Einars Kristins minnir á stöðu Anthonys Croslands, sem var þingmaður í Grimsby, en varð utanríkisráðherra í ríkisstjórn Verkamannaflokksins í Bretlandi 8. apríl 1976, þegar stjórnmálasambandi Íslands og Bretlands hafði verið slitið vegna ágreinings um 200 mílna útfærslu fiskveiðilögsögu okkar. Við embættismenn í stjórnarráðinu, en ég var skrifstofustjóri forsætisráðuneytisins á þessum tíma, veltum því fyrir okkur, hvort Crosland yrði ekki vegna kjósenda sinna í Grimsby að sýna okkur Íslendingum meiri hörku en forverar hans. Niðurstaðan varð hins vegar allt önnur, Crosland áttaði sig betur á því en aðrir breskir stjórnmálamenn, að engum yrði til góðs að halda deilunni við Íslendinga áfram og hann beitti sér fyrir samkomulagi um málið, sem hann ritaði síðan undir í Ósló í byrjun maí 1976.

 

Einar Kristinn tók ákvörðun sína með vísan til vísindaráðgjafar en jafnframt í krafti eigin reynslu og þekkingar. Hann gaf sér tíma til að ráðfæra sig við þá, sem málið varðar mest og ræddi öll álitaefni, áður en hann tók ákvörðun sína. Hún nýtur víðtæks stuðnings á stjórnmálavettvangi og í fjölmiðlum. Gagnrýnendur henda á loft mörgum sjónarmiðum, án þess að færa betri rök fyrir niðurstöðu sinni en Einar Kristinn hefur gert fyrir ákvörðun sinni.

 

Valgerður og evran.

 

Viðskiptablaðið birtir nú um helgina viðtal við Valgerði Sverrisdóttur, fyrrverandi ráðherra og varaformann Framsóknarflokksins. Þar segir Valgerður meðal annars:

 

„Ég vildi að við skoðuðum hvort við gætum tekið upp evruna án þess að ganga í Evrópusambandið. En það var eins og ekki mætti ræða þetta við Sjálfstæðisflokkinn. Þeir höfðu þrjá útgangspunkta: Krónan er góð. Evrópusambandið er vont. Og Sjálfstæðisflokkurinn verður stór. Þetta eru boðorðin. Ég er hins vegar frjálslyndur stjórnmálamaður og vil ekki ákveða hlutina fyrirfram.“

 

Þetta er skrýtinn boðskapur, því að í gegnum hann skín, að teldi Sjálfstæðisflokkurinn krónuna vonda, Evrópusambandið gott, vildi flokkurinn ekki vera stór og allir stjórnmálamenn væru frjálslyndir og vildu ekki ákveða hlutina fyrirfram, gætu Íslendingar tekið upp evruna, án þess að ganga í Evrópusambandið.

 

Stjórnmálamenn hafa verið gagnrýndir fyrir að lemja hausnum við steininn og vilja ekki taka mark á ráðgjöf fiskifræðinga um verndun þorsksins – þangað til núna. Þegar hugað er að evrunni og Valgerði má spyrja: Hvers vegna tekur Valgerður ekki mark á öllum sérfræðingunum, sem segja, að upptaka evru án aðildar að Evrópusambandinu sé glapræði? Hvers vegna að lemja hausnum við steininn og láta eins og unnt sé að taka upp evruna með einu pennastriki? Hverjum er greiði gerður með málflutningi af þessu tagi? Sé Sjálfstæðisflokkurinn stór, vegna þess að hann tekur ekki þátt í þessum blekkingarleik, sýnir það aðeins, að kjósendur láta ekki blekkjast.

 

Hitt er síðan annað mál, að innan Framsóknarflokksins hefur ekki verið nein samstaða um Evrópumálin – þeir deildu um þau Halldór Ásgrímsson formaður og Guðni Ágústsson varaformaður og nú eru þau á öndverðum meiði Guðni formaður og Valgerður varaformaður. Enginn flokkur verður stór sé hann klofinn ofan í rót í málum af þessu tagi.

 

Dómar í Strassborg.

 

Í 2. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu er tekið fram að úrslausnir, sem ganga á hendur íslenska ríkinu fyrir mannréttindanefnd Evrópu, Mannréttindadómstól Evrópu eða ráðherranefnd Evrópuráðsins, séu ekki bindandi að íslenskum landsrétti. Þetta er í raun eingöngu tekið fram til að árétta beinlínis í lögum, að umræddar stofnanir geti sem fyrr eingöngu kveðið á um hvort íslenska ríkið hafi efnt þjóðréttarskuldbindingar sínar samkvæmt mannréttindasáttmálanum og eftir atvikum að því beri að greiða skaðabætur að tiltekinni fjárhæð, ef vanefnd er leidd í ljós. Úrlausnir þessara stofnana geta þannig til dæmis ekki haggað gildi íslenskrar löggjafar eða dómsúrlausnar. Sé kveðið á um skyldu ríkisins til að greiða skaðabætur í úrlausn mannréttindadómstólsins eða ráðherranefndarinnar er ekki hægt að fullnægja bótakröfu með aðför hér á landi á grundvelli úrlausnarinnar, heldur verður að afla aðfararheimildar fyrir bótakröfunni með dómi hér á landi.

 

Ástæða er til að minna á þessa meginreglu vegna umræðna um nýlega niðurstöðu mannréttindadómstólsins í Strassborg, þar sem hnekkt var niðurstöðu hæstaréttar í skaðabótamáli vegna læknamistaka á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Taldi dómstóllinn í Strassborg, að málsmeðferð fyrir hæstarétti hefði ekki verið réttlát, þar sem leitað var umsagnar læknaráðs og í því sátu fjórir starfsmenn Landspítala háskólasjúkrahúss.

 

Jón Steinar Gunnlaugsson, núverandi hæstaréttardómari, var lögmaður þess, sem sótti bætur vegna læknamistakanna í héraði og fyrir hæstarétti. Hann gagnrýndi hæstarétt fyrir að leita álits læknaráðs og færði fram rök gegn því í sjö liðum. Hann taldi það meðal annars ekki standast meginreglur um hlutlausa málsmeðferð fyrir dómi að byggja dóm á áliti starfsmanna annars málsaðilans. Þá taldi hann það beinlínis andstætt lögum um læknaráð að afgreiða umsögn um sérfræðileg málefni, án þess að kallaður væri til sérfræðingur á því sviði, sem mál varðaði.

Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Blaðsins, fjallar um niðurstöðuna í Strassborg í leiðara Blaðsins í dag, 7. júlí og segir meðal annars:

 

„Skömmu eftir að Hæstiréttur kvað upp þennan dóm [sem sætti gagnrýni í Strassborg] dæmdi hann í stóra málverkafölsunarmálinu og sýknaði þá sakborningana. Ástæðan var sú að vitnisburður sérfræðinga á vegum Listasafns Íslands taldist ekki tækur vegna tengsla þeirra við safnið, sem átti sum verkanna sem ákært var út af.“

 

Veltir ritstjórinn því fyrir sér af þessu tilefni, hvort hæstiréttur sé samkvæmur sjálfum sér í dómum sínum.

 

Niðurstaða dómstólsins í Strassborg hefur þegar leitt til þess, að heilbrigðisráðherra hefur boðað breytingar á lögunum um læknaráð. Eitt er að breyta lögunum um læknaráð hitt er að átta sig á hæfisreglum almennt, en um þær hefur dr. Páll Hreinsson ritað doktorsritgerð, þar sem finna má hafsjó af fróðleik og bætist nú enn eitt dæmið við hann.