6.12.2008

Stoðir FL bresta - ný bók.

Í umræðum um, hvað gerst hefur í íslensku fjármálalífi á þessu ári og sérstaklega við og eftir hrun bankanna, hefur verið krafist skýringa og kallað eftir ábyrgð. Þegar bent er á alvarlega og neikvæða þróun á alþjóðavettvangi, er gefið lítið fyrir þær skýringar. Menn eigi að líta sér nær og viðurkenna ábyrgð sína á heima vettvangi en ekki benda á það, sem er að gerast annars staðar.

Athygli hefur auk þess beinst svo mjög að seðlabankanum og þó einkum Davíð Oddssyni, formanni bankastjórnar hans, að annað hefur varla komist að vikum saman en reyna að ráða í hvað felist í orðum hans, hvort sem þau falla á fundi meðal viðskiptaráðsmanna eða í samtali við Bent A. Koch í Fjóns-stiftstíðindum.

Davíð sat auk þess fund viðskiptanefndar alþingis fimmtudaginn 4. desember, en hún starfar undir formennsku Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, en Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, hafði óskað eftir því að fá Davíð fyrir nefndina til að skýra það, sem hann sagði á fundinum með viðskiptaráðsmönnum.

Eftir fundinn í viðskiptanefnd þingsins fór Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, í ræðustól á alþingi og spurði Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, hvort hann hefði verið á fundi með seðlabankastjóra í júní 2008, þar sem hann hefði sagt 0% líkur á, að íslensku bankarnir ættu sér framtíð.

Björgvin G. sagðist ekki hafa rætt við Davíð Oddsson frá því í nóvember 2007 þar til Davíð kom á fund ríkisstjórnarinnar undir lok september 2008. Ríkisstjórnarfundurinn komst í fréttir vegna þeirra orða Davíð, að aðstæður í þjóðfélaginu væru svo alvarlegar, að með þeim mætti rökstyðja nauðsyn þess að mynda þjóðstjórn.

Eftir að fréttir birtust af samtali Davíðs og Bents A. Kochs, hafa umræður einnig beinst mjög að því, hvað gerast myndi, ef Davíð sneri sér að nýju að stjórnmálum, yrði honum ýtt út úr seðlabankanum. Er lagt út af þessum orðum á þann veg, að Davíð sé að vega að Geir H. Haarde, formanni Sjálfstæðisflokksins, sem á hinn bóginn segir, að þarna fari eitthvað á milli mála og vísar þr til þess, að hann hafi rætt við Davíð, eftir að fréttir birtust um Koch-samtalið. Geir segir ekki allt nákvæmt í frásögn Kochs af því, sem hann  kynnti sér í nýlegri Íslandsferð, þannig sé Geir sagður endurskoðandi, sem hann er ekki.

Þegar þessum fréttum og umræðum er velt fyrir sér, liggur beint við að spyrja, hvað þær komi því eiginlega við að skýra stöðu íslenska fjármála- og peningamarkaðarins.

Væri raunverulegur áhugi á því hjá fjölmiðlamönnum að skýra þessa stöðu á grundvelli upplýsinga, sem snerta framvindu íslenskra fjármálafyrirtækja síðustu ár og mánuði, ættu umræðurnar að snúast um annað og það, sem meira hald er í við að greina stöðuna. Þar má til dæmis nefna nýju bókina Stoðir FL bresta eftir Óla Björn Kárason, blaðamann, sem bókafélagið Ugla gaf út nú í vikunni.

Í bókinni, sem er 120 blaðsíður að lengd er hinni ótrúlegu sögu FL Group lýst. Undir bókarlok segir höfundur:

„Saga FL Group – Stoða – er dapurlegur vitnisburður um framgöngu  íslenskra viðskiptajöfra á undanförnum árum, áfellisdómur yfir sinnulausum almennum hluthöfum, varpar ljósi á dómgreindarleysi greiningardeilda bankanna og sýnir vel hve veikburða íslenskir fjölmiðlar hafa verið gagnvart ráðandi öflum í viðskiptalífinu. Þá verður ekki hjá því komsit að forráðamenn eftirlitsstofnana axli ábyrgð á því hvernig málin þróuðust. Þannig er augljóst að helsti veikleiki Glitnis banka var eignarhaldið.“

Óli Björn segir með öllu óskiljanlegt með hliðsjón af þeim upplýsingum, sem hann hefur getað aflað sér, að fjármálaeftirlitið skuli hafa látið það viðgangast, að jafnveikburða aðili og FL Group-Stoðir skyldi verða kjölfestu fjárfestir í einni stærstu fjármálastofnun landsins auk þess að starfa erlendis. „Engum blöðum er um það að fletta að fjárhagsleg staða FL Group hafði mikil áhrif á Glitni banka á síðustu misserum bankans og olli honum verulegum erfiðleikum við alþjóðlega fjármögnun.“

Það voru einmitt erfiðleikar við alþjóðlega fjármögnun, sem urðu til þess, að Glitnir sneri sér til seðlabankans og síðan voru teknar ákvarðanir um ríkisrekstur á bankanum. Jón Ásgeir Jóhannesson, lykilmaður í FL Group-Stoðum, kaus að kenna ákvarðanir seðlabanka, ríkisstjórnar og alþingis við bankarán. Með því var gefinn tónn í umræðunni, sem enn er hávær, þótt hann sé álíka mikils virði og háfleygar yfirlýsingar forráðamanna FL Group í áranna rás um eigin fjármálasnilld.

Bók Óla Björns er tímabært framlag til að upplýsa allan almenning um, hvaða aðferðum hefur verið beitt í íslensku viðskiptalífi undanfarin ár. Bókin er greinilega  unnin í kappi við tímann, en þar er á hinn bóginn að finna hafsjó af staðreyndum um ótrúlega framgöngu fámenns hóps og fyrirtækja hans til að auðgast með skjótfenginn  gróða  að leiðarljósi. Óli Björn segir:

„FL Group – Stoðir – var fremst í flokki íslenskrar útrásar. Félagið varð eitt fyrsta fórnarlamb alþjóðlegrar fjármálakreppu. Ekki vegna kreppunnar heldur vegna þess að forráðamenn félagsins höfðu ekki reynt að búa félagið undir hina mögru tíma. Aldrei var reynt að búa í haginn fyrir framtíðina og því var ekki borð fyrir báru þegar það gaf á bátinn.“

Fjármálasviptingar FL Group Stoða eru af þeirri stærðargráðu, að ekki er fyrir neinn venjulegan mann að ná upp í þær fjárhæðir eða skilja allar vendingarnar og stöðutökurnar, svo að notað sé orð úr fjármálaheiminum til að lýsa fjárfestingum, sem eiga að skapa eiganda þeirra stöðu til að hagnast enn frekar að því er virðist án tillits til þess, hvort um raunverulega verðmætasköpun sé að ræða.

Á sínum tíma skrifaði ég tvær langar greinar í tímaritið Þjóðmál um OR/REI hneykslið, sem ég nefndi svo, og mál lesa þær hér og hér, auk þess sem ég tók saman einskonar annál málsins, sem lesa má hér. Hér á síðuna skrifaði ég þennan pistil.

Af bók Óla Björns má ráða, að ekki hafi munað nema hársbreidd og vilja sex borgarfulltrúa sjálfstæðismanna í byrjun október 2007, að komið var í veg fyrir, að Orkuveita Reykjavíkur (OR) yrði dregin inn í fjármálavafstur FL Group eins og urðu örlög Glitnis.

Sjálfstæðismenn stóðu gegn því, að FL Group næði tangarhaldi á OR, en Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, sem síðan hvarf úr stjórnmálum, sleit meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn af þessu tilefni. Samfylkingarmaðurinn Dagur B. Eggertsson varð borgarstjóri með stuðningi Björns Inga og vinstri/grænna undir þeim merkjum, að ekki mætti leggja stein í götu útrásarinnar.

Dagur B. er nú þögull  í minnihluta borgarstjórnar en Björn Ingi er fjármálaritstjóri á flaggskipi Baugsmiðlanna, Fréttablaðinu, og leggur sitt af mörkum til að upplýsa menn um undirrót og afleiðingar bankahrunsins.

Eins og ég benti á í greinum mínum í Þjóðmálum er OR/REI málið skýrasta dæmið um það, hvernig viðskiptajöfrar reyna að draga til sín almannafyrirtæki til að styrkja eigin fjárhagsstöðu.  Markmið Hannesar Smárasonar var að sameina Geysi Green Energy (GGE), sem var að mestu í eigu FL Group, og Reykjavík Energy Invest (REI) í eigu OR. Um gildi þess fyrir FL Group segir Óli Björn:

„Sameining GGE og REI var gríðarlega mikilvæg fyrir FL Group og í raun bjarghringur félagsins sem á þessum tíma sigldi krappan sjó. Fullyrða má að Hannes Smárason hefði ekki látið af starfi forstjóra félagsins í desember [2007] ef sameiningin hefði náð fram að ganga.“

Fullyrða má, að greining og frásögn á borð við þá, sem er að finna í hinni nýju bók Óla Björns Kárasonar um FL Group-Stoðir, veiti okkur meiri upplýsingar um rót þess vanda, sem nú steðjar að íslensku þjóðinni en hvernig túlka ber orð Davíðs Oddssonar í viðtali við Bent A. Koch með fullri virðingu fyrir þeim báðum.