7.2.2009

Baugur í greiðslustöðvun.

 

 

Hinn 3. febrúar bárust fréttir um að farið hefði verið fram á greiðslustöðvun á Baugi og í vikunni missti Bónus-fjölskyldan stjórn á fyrirtækinu. Viðbrögð Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, starfandi stjórnarformanns Baugs, vöktu athygli og sagði Lárus Finnbogason, formaður skilanefndar Landsbankans, að Jón Ásgeir væri „líklegast ekki í tilfinningalegu jafnvægi.“ Hér birti ég fjórar fréttir um málið:

Hljóðvarp ríkisins hádegi 3. febrúar.

„Baugur Group og skilanefnd Landsbankans hafa farið fram á að fyrirtækið og dótturfyrirtæki þess fái heimild til greiðslustöðvunar. Jón Ásgeir Jóhannesson kveðst hafa upplýsingar um að Davíð Oddsson hafi sett það sem skilyrði fyrir starfslokum sínum í Seðlabankanum að Baugur færi á undan honum.

Baugur Group kveðst í tilkynningu hafa farið fram á það við Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun að fyrirtækinu og nokkrum dótturfyrirtækjum þess yrði veitt heimild til greiðslustöðvunar. Skömmu síðar barst hins vegar tilkynning frá Landsbankanum sem kveðst hafa lagt fram beiðni um greiðslustöðvun BG Holding, eins af dótturfélögum Baugs, fyrir enskum dómstól strax í gær. Baugur Group sagði upp öllum 15 starfsmönnum sínum á Íslandi og jafn mörgum í Bretlandi á föstudaginn. Baugur á engar eignir hér á landi en rekur verslanir í Bretlandi og Danmörku.

Jón Ásgeir Jóhannesson, starfandi stjórnarformaður Baugs: Við höfum lagt upp það plan að greiða bankanum allar sínar skuldir til baka, ekki farið fram á neinar afskriftir og þess vegna kom okkur þessi niðurstaða Landsbankans okkur mjög á óvart.

Sigríður Hagalín Björnsdóttir, fréttamður: Hvaða skýringar gaf bankinn á því?

Jón Ásgeir Jóhannesson: Bankinn gaf engar skýringar og faldi sig á bak við einhverja skýrslu frá Pricewaterhouse sem þeir neituðu að sýna okkur, sem þeir sögð að væri með afgerandi niðurstöðu um málið og þar sem að þeir töldu sig geta fengið meira út úr veðunum með þessum hætti. Hins vegar kemur það skýrlega í ljós í gögnum sem þeir lögðu fyrir dómara að það verðmat sem þeir eru með á eignunum er langt, langt undir því sem að við buðumst til að skila á þessar eigur.


Jón Ásgeir tekur þó fram að Baugur hafi boðist til að greiða upp skuldir sínar á lengri tíma en upphaflega var samið um. Hann furðar sig hins vegar á tímasetningu Landsbankans.

Jón Ásgeir Jóhannesson: Ég hallast að því að þetta sé nú eitthvað, einhver pólitík í þessu. Ég, það kannski hljómar sem gömul tugga en þetta er einkennileg tímasetning enn og aftur.

Sigríður: Hvað áttu við með því?

Jón Ásgeir Jóhannesson: Ja ég á bara við með því hvað að það sem er að gerast í þjóðfélaginu og hverjir eru að láta af störfum og þau tengsl eða ekki tengsl við þetta fyrirtæki í gegnum tíðina.

Sigríður: Heldurðu að þetta hafi eitthvað að gera með Davíð Oddsson?

Jón Ásgeir Jóhannesson: Ja það hringdi nú í mig maður í gærkvöldi í innsta koppi í Sjálfstæðisflokknum og sagði að það hefði verið skýlaus krafa af Davíð Oddssyni að Baugur færi á undan honum.


Fréttastofa náið ekki tali af formanni skilanefndar Landsbankans nú fyrir fréttir.“

Hljóðvarp ríkisins kvöldfréttir 3. febrúar:

„Það eru eingöngu viðskiptalegir hagsmunir að baki ákvörðun skilanefndar Landsbankans um að óska eftir greiðslustöðvun Baugs, segir formaður skilanefndarinnar. Nefndin hafi ekki verið beitt pólitískum þrýstingi.

Skilanefnd gamla Landsbankans óskaði eftir greiðslustöðvun BG Holding, dótturfélags Baugs til að tryggja hagsmuni bankans, segir Lárus Finnbogason, formaður nefndarinnar. Hann segir að greiðslustöðvunin eigi ekki að hafa nein áhrif á verslanir í eigu fyrirtækisins. Þær verði reknar áfram eins og ekkert hafi ískorist.

Lárus Finnbogason, formaður skilanefndar Landsbankans: Þessi fyrirtæki verða áfram í eigu, eigu hérna, BG Holding, áfram undir og verða bara undir stjórn Landsbankans og, og það eru engar áætlanir um það að fara að selja þessi fyrirtæki neitt á næstunni. Við, við hérna, erum ekki að fara í einhverja brunaútsölu á þessum eignum eins og, eins og ranglega hefur verið haldið fram.

Tekið skal fram að það er ekki Baugur sem rekur verslanir Bónus-fjölskyldunnar á Íslandi. Skilanefndin óskaði eftir greiðslustöðvuninni í gær og í morgun óskaði móðurfélagið, Baugur, eftir greiðslustöðvun. Jón Ásgeir, starfandi stjórnarformaður Baugs, sagði í hádegisfréttum okkar að Baugur hefði ekki óskað eftir neinum afskriftum og að fyrirtækið hefði gert áætlun um að greiða skilanefnd gamla Landsbankans allar skuldir. En af hverju óskaði skilanefndin þá eftir greiðslustöðvun.

Lárus Finnbogason: Við teljum bara að þessar hugmyndir þeirra að þær, þær séu ekki, eða gefa í rauninni ekki eins góðar endurheimtur á okkar kröfum eins og sú leið sem að við erum að fara.

Ragnhildur Thorlacius fréttamaður: Hann talaði um að verðmat ykkar á, á eignum Baugs sé langt undir því sem að Baugur hefði verið tilbúinn að greiða til baka. Er það rétt?

Lárus Finnbogason: Nei, þetta er nú einhver misskilningur hjá honum.


Lárus vill ekki gefa upp hverju skeikar eða hve mikið Baugur skuldar Landsbankanum. Í Financial Times í dag er því haldið fram að heildarskuldir Baugs nemi um milljarði sterlingspunda eða um 170 milljörðum króna. Í hádegisfréttum hélt Jón Ásgeir því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hefði haft áhrif á að óskað hefði verið eftir greiðslustöðvum. Þessu vísar Lárus Finnbogason á bug.

Lárus Finnbogason: Nei, nei nei nei, það, það hefur enginn þrýstingur verið á okkur og við höfum bara verið að taka okkar ákvarðanir eingöngu út frá viðskiptalegum forsendum. Þetta hefur auðvitað ta, tekið ákveðinn tíma, við þurftum að fá erlenda ráðgjafa til þess að aðstoða okkur við þetta líka. Þetta er algjör fjarstæða að halda því fram að hérna, það hafði verið einhver þrýstingur á okkur, hvorki sem sagt af hendi stjórnmálamanna eða, eða, eða Seðlabankans. Þetta, þetta eru alveg fráleitar fullyrðingar.“

Stöð 2 kvöldfréttir 4. febrúar:

„Skilanefnd Landsbankans sættir sig við að fá einn tíunda af skuldum Baugs greiddar samkvæmt heimildum fréttastofu. Baugur bauðst til að greiða 200 milljarða skuld sína við bankann að fullu á lengri tíma en um var samið í upphafi en því var hafnað. Pungspark segir Jón Ásgeir Jóhannesson.

Baugur og skilanefnd Landsbankans fóru í dag og í gær fram á að Baugur, BG Holding, ásamt nokkrum dótturfyrirtækjum þeirra færu í greiðslustöðvun. Þetta var gert eftir að skilanefndin sleit viðræðum við Baug um endurskipulagningu og endurfjármögnun. Baugur á í félögum sem reka um 3.500 verslanir, aðallega í Bretlandi og Danmörku en þar starfa um 50 þúsund starfsmenn. Baugur hefur átt í viðræðum við skilanefnd Landsbankans síðan 10. desember. Í þeim viðræðum bauðst Baugur til að borga skuldir sínar við Landsbankann en á lengri tíma en upphafleg lánskjör kváðu um. Skilanefndin ákvað, eftir að hafa ráðfært sig við endurskoðunarfyrirtækið Price Waterhouse Coopers, breska lögfræðistofu og starfsmenn Landsbankans í London að semja ekki við Baug um endurgreiðslu á skuldum. Samkvæmt heimildum fréttastofu var Baugur reiðubúinn að greiða allar skuldir félagsins við Landsbankans en talið er að þær séu eitthvað í kringum 200 milljarða. Baugur fór ekki fram á afskriftir en óskaði þess í stað eftir að fá að greiða skuldina á lengri tíma en samið var um þegar lánin voru tekin. Í skýrslu sem Price Waterhouse Coopers vann fyrir skilanefnd Landsbankans kom fram að hægt væri að fá tæpa 25 milljarða fyrir eignir Baugs ef þær yrðu seldar á næstu 2-3 árum. Skilanefndin komst að þeirri niðurstöðu að setja Baug í greiðslustöðvun og að hugmyndir forráðamanna félagsins um endurskipulagningu væru óraunhæfar. Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs, sagði í samtali við fréttastofu í dag að þetta væri pungspark frá Landsbankanum sem muni hafa það í för með sér að Bretar munu eignast verðmætustu fyrirtæki Íslendinga í útlöndum. Formaður skilanefndar Landsbankans segir þetta hafi verið það skynsamlegasta í stöðunni.“

 

Morgunblaðið 4. febrúar:

„Jón Ásgeir Jóhannesson, aðaleigandi Baugs, sagði í fjölmiðlum í gær að hann teldi ákvörðun skilanefndarinnar um að óska eftir greiðslustöðvun eiga sér pólitískar rætur sem hægt væri að rekja til Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands. Lárus [Finnbogason. formaður skilanefndar Landsbankans] er mjög undrandi á þeim ummælum. „Ég skil ekkert í honum að láta þetta út úr sér. Þetta er auðvitað alveg gríðarlegt áfall fyrir hann að horfast í augu við þetta en svona er einfaldlega staðan sem þessi félög eru komin í. Einhvern tímann verða menn að horfast í augu við staðreyndir mála. Hann er líklegast ekki í tilfinningalegu jafnvægi en ég er mjög undrandi á að hann skuli segja þetta og fara að tengja þetta við pólitík. Það er alveg með ólíkindum.““

Ég birti þessar fréttir orðrétta, af því að ég tel þær enn og aftur lýsa því, hvernig Jón Ásgeir Jóhannesson leyfir sér að draga stjórnmálamenn til ábyrgðar vegna hluta, sem varða einvörðungu hann sjálfan og stjórn hans á eigin fyrirtækjum. Þetta hefur einkennt allan málflutning hans í Baugsmálinu og hef ég oftar en einu sinni undrast, hve lögmenn Jóns Ásgeirs hafa gengið langt til að reka stoðum undir þessar ranghugmyndir hans.

Ég get tekið undir orð Lárusar Finnbogasonar um hið „tilfinningalega jafnvægi“ en þaau orð geta varla átt við þá, sem fá laun fyrir að reka erindi Jóns Ásgeirs fyrir dómstólum eða á öðrum vettvangi. Í áranna rás hafa þessir umboðsmenn hans lagt sig fram um að gera upphlaup Jóns Ásgeirs trúverðug. Að þessu sinni tók þó enginn  undir með honum.