24.5.2009

Breska þingið skelfur - aðildarrök á veikum grunni.

 

Frásagnir breska blaðsins The Daily Telegraph síðustu þrjár vikur af því, hvernig þingmenn í neðri málstofu breska þingsins hafa notað eða misnotað reglur um starfs- og húsnæðiskostnaðargreiðslur hafa vakið athygli langt út fyrir Bretlandseyjar. Michael Martin, forseti neðri málstofunar, tilkynnti þriðjudaginn 19. maí, að hann mundi hverfa af forsetastóli 21. júní og sagðist með því vilja stuðla að sátt um embætti forseta þingsins, en fram höfðu komið hugmyndir um vantrauststillögu á hann. Forseti neðri deildarinnar hefur ekki verið hrakinn frá störfum síðan 1695.

Hinn 18. maí reyndi Martin að draga úr gagnrýni á sig með því að flytja afsökun úr forsetastóli en honum fórst það svo illa úr hendi og þurfti svo augljóslega að treysta á embættismenn þingsins við öll svör sín, að ræðan hafði öfug áhrif og dró enn úr trausti á honum.

Í breska þinginu hefur verið venja um langan aldur, að embætti forseta, sem skal hafið yfir flokkaríg, sé til skiptis skipað fulltrúa stærstu flokkanna, Verkamannaflokksins og Íhaldsflokksins, en árið 2000 bar svo við, að Íhaldsflokkurinn fékk ekki forsetastólinn í sinn hlut, þegar Betty Boothroyd, Verkamannaflokknum, hætti og Michael Martin var kjörinn í hennar stað. Martin hefur sætt gagnrýni fyrir lélega fundarstjórn en einnig fyrir útgjöld í einkaþágu á kostnað skattgreiðenda. Hann var gagnrýndur á síðasta ári fyrir, að eiginkona hans hefði látið ríkið greiða fyrir sig  4.280 pund um 850 þúsund krónur vegna leigubíla.

Margir breskir þingmenn eru rúnir trausti kjósenda vegna fréttanna af fjármálum þeirra.  Þingkosningar verða í Bretlandi í síðasta lagi í júní 2010 en jafnan er  talið líklegt, að forsætisráðherra rjúfi þing nokkrum mánuðum fyrir lok kjörtímabils í stað þess að sitja fram á síðasta dag.  Með því að velja kjördag vonar forsætisráðherrann að geta stýrt atburðarás sem best fyrir sig og flokk sinn í aðdraganda kosninga í stað þess að vera neyddur til þeirra í tímaþröng. Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, á þó ekki neinna góðra kosta völ miðað við skoðanakannanir, þar sem fylgi flokks hans, Verkamannaflokksins,  mælist í lágmarki.

Gengið verður til sveitarstjórnakosninga og kosninga til Evrópusambandsþingsins í Bretlandi 4. júní næstkomandi og er stóru flokkunum almennt ekki spáð miklu fylgi þar eða þess vænst, að mikil þátttaka verði í kosningunum.

Í þýska blaðinu Handelsblatt var í síðustu viku rætt um stjórnmálaástandið í Bretlandi og sagt, að auðveldara hefði verið fyrir þingmenn að glíma trúnaðarbrestinn gagnvart kjósendum, ef Verkamannaflokkurinn hefði sterkari stöðu og efnahagsvandinn ekki svona mikill.

„Þjóðina vantar nú sterka ríkisstjórn til að takast á við þau mörgu vandamál, sem við blasa, auk þess að vinna að pólitískum umbótum.  Í landinu er ekki slík stjórn. Gordon Brown, forsætisráðherra, kann að hafa áunnið sér lof erlendis fyrir forystuhlutverk sitt við að takast á við fjármálakrísuna – en heima fyrir hefur fylgið við hann þorrið.“

Blaðið segir Nýja Verkamannaflokkinn hafa runnið sitt skeið, nú þurfi nýja pólitíska forystu. Hana sé að finna innan Íhaldsflokksins, sem hafi styrkt stöðu sína undanfarið, og njóti nú tvöfalt meira fylgis en Verkamannaflokkurinn. Hinum unglega David Cameron hafi tekist að höfða til fólks, á hinn bóginn sé ekki enn nægilega skýrt, hvað fyrir honum vaki. Flokkurinn hafi varið löngum tíma til að komast undan löngum skugga Margarétar Thatcher. Á hinn bóginn megi sjá þess merki, að Cameron sé tekinn til við að móta sér skýrari stefnu eftir því sem nær dregur kosningum.

Cameron noti fjármálahneykslið í þinginu til að sýna, hvað í honum býr. Hann taki ekki málstað þeirra, sem hafa brotið reglurnar. Hneykslið veiti honum tækifæri til að segja skilið við gamla, þingmenn og yngja upp í flokki sínum.

Vinstrisinnaða þýska blaðið Die Tageszeitung hefur einnig sagt álit sitt á þróun stjórnmála í Bretlandi. Það segir, að uppnámið í breskum stjórnmálum megi rekja til annars en ágreinings um hinar tiltölulega lágu fjáhæðir, sem valdi hneykslun í garð breskra þingmanna. Uppnámið sé frekar til marks um vaxandi vanmátt stjórnmálamanna, ekki aðeins í London, til að takast á við raunverulegan vanda vegna hnattvæðingarinnar, til að ræða á jafnræðisgrundvelli við almenning og til að finna leiðir út úr hinni einstaklega flóknu efnahagskrísu.

Almenningur treysti þeim ekki, sem stundi blekkingar til að fá kostnaðargreiðslur og eyði mánuðum við að reyna að koma í veg fyrir aukið gagnsæi til að bjarga illa leiknum bönkum, svo að ekki sé minnst á efnahagsumbætur eða hagsmuni heimilanna.  Þá segir Die Tageszeitung orðrétt:

„Vantrú á þingbundið lýðræði er ekki takmörkuð við Bretland. Frá Grikklandi til Litháens til Íslands hafa Evrópuþjóðir á síðustu sex mánuðum kynnst alvarlegum áföllum og að trú á getu ríkisstjórna þeirra hefur fallið.“

Samkvæmt lýsingu hins þýska álitsgjafa má rekja skjálftan í breska þinginu til hins sama og valdið hefur stjórnmálaskjálftanum hér á landi, það er að almenningur telur ekki, að ríkisstjórn og þing séu að sinna þeim verkefnum, sem eru brýnust til að bæta hag heimila og fyrirtækja fyrir utan að segja almenningi ekki alla söguna um stöðu bankamála, efnahagsmála og fjármála ríkisins.

Hér hefur þessi skjálfti leitt til afsagnar ríkisstjórnar, setu minnihlutastjórnar vinstri flokka í 90 daga og síðan kosningasigurs þessara flokka og myndunar nýrrar ríkisstjórnar. Segja verður þá sögu eins og hún er, að þessi umskipti í íslenskum stjórnmálum hafa hvorki leitt til nýrra eða skjótra úrræða til að takast á við vandann vegna bankahrunsins. Stjórnarskiptin hér hafa hvorki aukið  gagnsæi né vitneskju þjóðarinnar um stöðu banka eða ríkissjóðs. Þá er með öllu óljóst, hvernig ríkisstjórnin ætlar að takast á við hina „einstaklega flóknu efnahagskrísu“.

Eftir að minnihlutastjórnin tók við völdum 1. febrúar 2009 var mest áhersla lög á að losna við yfirstjórn seðlabankans og breyta stjórnarskránni. Hið fyrra tókst en hið síðara ekki. Breytingin á seðlabankanum hefur leitt til þöggunar af hálfu ríkisstjórnarinnar um störf bankans og stefnu, en ekki breytt peningastefnu bankans.

Eftir að vinstristjórnin tók við völdum 10. maí 2009 hefur athygli einkum beinst að óljósum áformum hennar um aðildarviðræður við Evrópusambandið.  Þar er þeirri blekkingu haldið á loft, að aðildarviðræður, án skilgreinds markmiðs, séu liður í brýnum aðgerðum til að takast á við hina á við hina „einstaklega flóknu efnahagskrísu“.

Aðildarrök á veikum grunni.

Á vefsíðunni amx.is er 24. maí vakin athygli á fögnuði Evrópusamtakanna yfir því, að í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins þennan sama dag er mælt með aðild að ESB og talið, að unnt sé að hafa Norðmenn og Maltverja til fyrirmyndar um sérlausnir fyrir Íslands. Kemur þetta fram í dálkinu Fuglahvísl á amx.is og segir þar:

„Smáfuglarnir vekja athygli lesenda sinna á því, að hvorki Morgunblaðið né Evrópusamtökin láta þess getið í frásögn sinni af samningi Norðmanna, að þessir fyrirmyndarsamningur, að mati samtakanna og blaðsins, var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu í Noregi, enda var hann talinn ganga þvert á hagsmuni norsks sjávarútvegs og landbúnaðar, þótt hann félli að skilyrðum Evrópusambandsins.

Um samninginn við Möltu hafa smáfuglarnir það að segja, að hann snerist um veiðar á um 1500 lestum af fiski á smábátum frá Möltu.

Fögnuður Evrópusamtakanna vegna ákafa Morgunblaðsins á að sannfæra Íslendinga um ágæti aðildar byggist á hálfsannleika, en hann virðist falla best að málstað aðildarsinna á Íslandi.“

Þegar þetta er lesið, vakna spurningar um, hvaða tilgangi það þjóni fyrir alvöru Evrópuumræður að vísa til sérlausna fyrir Noreg, sem Norðmenn felldu fyrir 15 árum, eða til sérlausna fyrir Möltu, sem eiga alls ekki afkomu sína undir sjávarútvegi heldur vildu verja strandveiðar. 

Nær væri að horfa til breytinga á Evrópusambandinu og fræða lesendur Morgunblaðsins og aðra um, hverjir verða óbreytanlegir stofnsáttmálar og lagabálkar Evrópusambandsins, eftir að Lissabonsáttmálinn kemur til framkvæmda, en fyrr hefjast ekki viðræður við nýja umsækjendur um aðild að Evrópusambandinu.

Sérlausnir annarra þjóða sanna aðeins, að Evrópusambandið hefur samið um slíkar lausnir en ekkert um varanlegt gildi þeirra. Evrópusambandsdómstóllinn getur afnumið slíkar lausnir, án þess að einstök ríki fái rönd við reist.

 

 ES 25. 05. 09.

Vefsíðan amx.is birti 25. 05. 09. eftirfarandi vegna þeirra orða, sem ég vitna til hér að ofan:

„Smáfuglunum varð á í messunni 24. maí, þeir lásu smáaletrið ekki nógu vel í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, þar sem talið var, að úr því að samningamenn Norðmanna náðu sameiginlegri niðurstöðu með Evrópusambandinu á árunun 1992 til 1993 um sjávarútvegsmál gætu Íslendingar gert það líka í kringum 2010. Smáfuglunum sást yfir, að höfundur Reykjavíkurbréfsins greindi frá því, að Norðmenn felldu samninginn.

Af þessu tilefni hefur smáfuglunum borist bréf frá Ólafi Þ. Stephensen, ritstjóra Morgunblaðsins, svohljóðandi:

„Hafandi lesið það [skrif smáfuglanna um Reykjavíkurbréfið], finnst mér rétt að benda þér [ritstjóra amx.is] á eftirfarandi málsgrein í Reykjavíkurbréfi dagsins:

Norðmenn felldu aðildarsamninginn naumlega í þjóðaratkvæðagreiðslu en það breytir ekki því að samningurinn, sem gerður var, sýndi vilja ESB til að koma til móts við hagsmuni norsks sjávarútvegs.

Þurfið þið ekki stundum að lesa betur áður en þið dembið yfir okkur svona blammeringum? “

Spurningu Ólafs svara smáfuglarnir auðmjúkir: Jú, þarna hefði mátt lesa betur, áður en ályktun var dregin. Smáfuglarnir telja, að um meginályktun Reykjavíkurbréfsins megi spyrja: Hvers vegna þurfa Íslendingar að ræða við ESB ef nægir að vísa til niðurstöðu frá Noregi og Möltu?“