8.6.2009

Lokastundir Browns og niðurstaða í ICESAVE-málinu.

 

Þegar litið er á úrslit kosninganna til Evrópusambandsþingsins (ESB-þingsins) um helgina og í síðustu viku, blasir við, að úrslit þingkosninganna hér á landi 25. apríl, þar sem vinstri flokkar juku fylgi sitt, brýtur gegn þróuninni í Evrópu, þar sem borgaralegir flokkar styrktu stöðu sína í ESB-þingkosningunum en jafnaðarmenn eða sósíalistar töpuðu og sumir mjög illa eins og í Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi.

Hér á landi er látið eins og frjálshyggja eða markaðshagkerfið eigi sérstaklega undir högg að sækja vegna fjármálakrísunnar og bankahrunsins og taka verði upp nýja stjórnarhætti með meiri opinberri forsjá og þess vegna beri frekar að treysta á flokka til vinstri en hægri. Raddir í þessa veru höfðu lítinn hljómgrunn í ESB-þingkosningunum og minni en í sambærilegum kosningum árið 2004.

Fyrir kosningar til sveitarstjórna og ESB-þingið í Bretlandi hinn 4. júní sl. settu stjórnmálaskýrendur og álitsgjafar nokkur skilyrði, sem þeir töldu, að Gordon Brown yrði að uppfylla, til að hann gæti vænst þess að njóta stuðnings þingmanna Verkamannaflokksins til að halda áfram sem flokksleiðtogi og forsætisráðherra. Þegar atkvæði hafa verið talin, hefur Verkamannaflokkurinn undir forystu Browns ekki náð því að uppfylla neitt af þessum skilyrðum og þar með fallið á prófinu.

Síðar í dag, mánudaginn 8. júní, fer Brown á fund þingflokks síns og gerir þar grein fyrir stöðu mála frá sínu sjónarhorni og hvetur til stuðnings við sig og ríkisstjórn sína, ef marka má yfirlýsingar hans til þessa. Hann stokkaði upp í ríkisstjórninni föstudaginn 5. júní, án þess að það yrði til að styrkja hann í sessi, þvert á móti var uppstokkunin skýrð á þann veg, að hún sannaði veika stöðu Browns, þar sem hann hefði hvorki getað hróflað við Alistair Darling, fjármálaráðherra, né David Miliband, utanríkisráðherra, þar sem þeir hefðu báðir hafnað breytingu á eigin stöðu.

Á sömu sólarhringum og breska ríkisstjórnin er í upplausn og þess er beðið með vaxandi eftirvæntingu, hvort Brown verði bolað frá völdum af eigin flokksmönnum, semur ríkisstjórn Íslands við Breta um ICESAVE-reikningana á þann veg, að full ástæða er til að spyrja, hvort ekki hefði mátt gera betur.

Hraði við lyktir samningsgerðarinnar vekur spurningar. Hann virðist meiri en fjármálaráðherra Íslands vænti  í þann mund, sem lokatörnin var að hefjast, eða miðvikudaginn 3. júní. Þá svaraði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, óundirbúinni fyrirspurn  á alþingi frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, um stöðu ICESAVE-málsins á þennan veg:

„Eins og þingmönnum er kunnugt var afgreidd ályktun um það á þingi þar sem stjórnvöldum var falið það verkefni að ræða við bresk og hollensk stjórnvöld um lyktir þessarar deilu og síðan hefur með reglubundnum hætti verið skýrt frá því hvað aðhafst hefur verið í þeim efnum og meðal annars utanríkismálanefnd verið haldið upplýstri um það. Viðræður eða þreifingar milli aðila hafa gengið hægar en ætlunin var, m.a. vegna þess að Bretar hafa ítrekað óskað eftir frestun á fundum sem fyrirhugaðir voru. Það er verið að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær eru ekki hafnar heldur eru könnunarþreifingar eða könnunarviðræður í gangi. Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála. Staða málsins er sú að það eru könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi.“

Daginn eftir fimmtudaginn 4. júní bárust fréttir um, að samningur um ICESAVE væri að fæðast og var þingmönnum gerð grein fyrir efni hans í trúnaði en ríkisstjórnin samþykkti hann fyrir sitt leyti 5. júní og hinn 8. júní flytur Steingrímur J. munnlega skýrslu um málið á alþingi. Annað hvort sagði Steingrímur J. þingheimi ósatt 3. júní, hann vissi ekkert um málið, sem þó var unnið í umboði hans, eða Svavar Gestsson, formaður samninganefndar Íslands, miðlaði röngum upplýsingum til fjármálaráðherra.

Morgunblaðið birtir 8. júní viðtal við Svavar Gestsson, sem er sigri hrósandi yfir samkomulaginu.  Þar er tímalína um gang málsins, sem segir:

„3-5. júní Aðilar málsins funda stíft samkomulag næst að kvöldi föstudagsins 5. júní um „Landsbankaaðferðina“.“

Af þessum orðum er ljóst, að sama dag, sem Steingrímur J. svaraði þinginu á þann veg sem hin tilvitnuðu orð hér að ofan sýna, stóðu yfir „stífir“ samningafundir  hjá Svavari Gestssyni og félögum,  þótt fjármálaráðherra segði aðeins „könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi.“

Spyrja má: Kröfðust Bretar þess, að gengið yrði frá þessu máli í sama mund og búist var við, að Brown mundi setja Alistair Darling af sem fjármálaráðherra,  eða Brown hyrfi sjálfur frá völdum vegna uppreisnar í eigin flokki?

Augljóst er á þingsvari Steingríms J. 3. júní, að hann telur hægaganginn ráðast af afstöðu Breta. Blaðamenn Morgunblaðsins láta undir höfuð leggjast að spyrja Svavar Gestsson um, misræmið í atburðarásinni og svörum Steingríms J.. Kannski hafa þeir ekki vitað um orð Steingríms, enda ekki sagt frá þeim, fyrr en í Fréttablaðinu 8. júní,  nema tilgangur samtalsins við Svavar hafi verið sá einn að gefa honum færi á að lofa samningsniðurstöðuna og eigin fórnfýsi fyrir land og þjóð til að ná henni. Vissulega er fréttnæmt að lesa texta sem þennan í samtali við embættismenn og þótt víðar væri leitað:

„Svavar segir að ef reikningarnir hefðu ekki verið gerðir upp hefði allt innstæðutryggingakerfið í Evrópu hugsanlega hrunið. „Við erum í rauninni að bera burt syndir heimsins, eins og sagt var um Jesú Krist,“ segir Svavar.“

Annars staðar í viðtalinu segir Svavar:

„Við stóðum einfaldlega frammi fyrir tveimur leiðum. Annars vegar leið A, sem snerist um að ná sátt við alþjóðasamfélagið. Hins vegar var leið B, sem var að brjóta sig frá því. Þá hefði hættan verið sú að Ísland myndi einangrast og þá held ég að fátæktin og erfiðleikarnir hefðu orðið mun sárari.“

Svavar segist hafa heyrt, að allt hafi verið „skjálfandi og titrandi“, áður en hann kom að málinu „líka EES-samningurinn, þótt ég kunni þá sögu ekki nákvæmlega.“ Þetta verður fyrirsagnarefni Morgunblaðsins á forsíðu á þennan veg: „EES-samningurinn skalf og nötraði“ . 

Hafi eitthvað skolfið og nötrað vegna þessa máls innan EES, var það vegna ótta við, að íslensk stjórnvöld kynnu að láta reyna á hinar evrópsku lagareglur fyrir dómstóli. Lögfræðingar Brussel-valdsins lögðust harkalega gegn öllum tilraunum til þess, vegna þess hve evrópska regluverkið er gallað á þessu sviði. Brussel-lögfræðingarnir vildu í lengstu lög komast hjá því, að hlutlaus þriðji aðili rýndi í regluverkið, Ísland var látið sæta því, en í Brussel hófust menn handa við að endurskoða reglurnar til að útiloka samskonar vandræði síðar.

ESB-ríkisstjórnirnar gerðu sjónarmið ESB-lögfræðinganna að sínum og breyttu þeim í pólitíska kröfu, sem varð að afarkostum vegna hryðjuverkalaganna í Bretlandi, og niðurstaða ríkisstjórnar Íslands var að fallast á kröfuna um pólitíska lausn í stað þess að halda fast í lögfræðileg rök. Það er rangt að segja, að í hinum lögfræðilegu sjónarmiðum felist neitun um að borga eða að með þeim, hefðu Íslendingar verið að „brjóta sig frá“ alþjóðasamfélaginu.  Alþjóðalög og reglur eru einmitt helsta haldreipi smáþjóða gagnvart hinum stærri ríkjum eða valdakerfi á borð við það, sem þróast hefur í Brussel.  Með kröfunni um, að dómarar úrskurði um greiðsluskyldu er ekki verið að skorast undan neinni skyldu heldur fá úr því skorið af hlutlausum þriðja aðila, hvort hún sé fyrir hendi. Í samtalinu við Morgunblaðið segir Svavar:

„[É]g get þó sagt að ég held að við höfum ekki átt neinn annan kost en klára þetta mál. Þegar Bretar settu Ísland á hryðjuverkalistann og frystu eignir Landsbankans kviknaði rautt ljós á Íslandi á öllum heimskortum og öllum kauphöllum. Það rauða ljós þýddi „ekki skipta við Ísland“.““

Af þessum orðum og raunar samtalinu öllu við Svavar í Morgunblaðinu má draga þá ályktun, að honum hafi þótt þrýstingurinn vegna krafna Breta og Hollendinga næsta óbærilegur og það hafi verið brýnt að losna undan honum. Lesandanum dettur helst í hug, að nauðsynlegt hafi verið að losna úr skrúfstykkinu „hvað sem það kostaði“ og eins fljótt og kostur væri.

ICESAVE-samningaviðræðurnar snerust um útfærslu og þá einkum vexti og afborganir af 650 milljarða króna höfuðstóli skuldar.  Samkvæmt samningnum eiga Íslendingar að greiða 5,5%  vexti en 10 ára vextir í Bretlandi eru 3,9%. Eignasafn Landsbankans á að greiða höfuðstól skuldarinnar niður á fyrstu sjö árum samningstímans og síðan á ríkissjóður að greiða það, sem þá stendur eftir á átta árum, en 5,5% vextir vegna sjö áranna leggjast við höfuðstól hvers árs.  Svavar Gestsson getur sér þess til, að vaxtaviðbótin við höfuðstólinn að sjö árum liðnum, verði ef til vill 180 milljarðir króna og þá standi ríkissjóður frammi fyrir 350 milljarða króna skuld árið 2015. Í dæmi sem þessu skiptir hvert 1% í vöxtum miklu. Hitt er síðan íhugunarefni, hvernig sjö ára tímabilið var fundið. Hvers vegna er það ekki lengra? Byggjast sjö árin á mati á eignasafninu eða pólitískri kröfu Breta?

Myndin, sem hefur verið dregin hér á landi af samningsstöðu Íslendinga í þessu máli, hefur verið ákfalega svört frá fyrsta degi. Stafar það af uppnámi innlánseigenda í íslensku bönkunum erlendis í október, þegar íslenska ríkið eignaðist þá. Stjórnvöld í Hollandi og Bretlandi beindu reiði þessa fólks markvisst að Íslandi til að losa sig undan ábyrgð. Brussel-valdið vildi ekki viðurkenna, að regluverk þess hefði brugðist og þrengt var að Íslendingum úr öllum áttum. Breska ríkisstjórnin greip síðan til hryðjuverkalaga gagnvart Íslands til að þrengja enn frekar að íslenskum bönkum og stjórnvöldum.

Myndin nú er ekki hin sama og í október. Fráleitt er, að íslenska banka- og hagkerfið eitt glími við mikinn vanda vegna hrunsins. Hann er ekki síður mikill víða annars staðar og þar á meðal í Bretlandi. Helsta haldreipi Gordons Browns í hremmingum hans heima fyrir er, að hann hafi sýnt frábæra snilldartakta við stjórn efnahagsmála og við að bjarga heiminum öllum frá allsherjarhruni. Það félli illa að þeirri mynd á úrslitastundu í pólitísku lífi Browns, ef deilan við Ísland leystist ekki á þeim nótum, sem hentar Brown.

Hinn mikli hraði Breta við að reka smiðshöggið á samninginn við Ísland er ef til vill ekki nein tilviljun, þegar litið er á veika stöðu Browns heima fyrir. Veik staða Browns hefði hins vegar átt að styrkja samningsstöðu Íslendinga.  Ekkert bendir til þess, að látið hafi verið reyna á þennan pólitíska þátt á lokastigum málsins, þvert á móti hafi verið hlaupið til að ljúka málinu á þeim tíma, sem ríkisstjórn Browns hentaði.

Þótt ákveðið hafi verið að leysa ICSAVE-málið á pólitískum forsendum í stað þess að láta reyna á lagalegu hliðina, bendir stutt lokahrina málsins eindregið til þess, að af Íslands hálfu hafi pólitísk staða ekki verið nýtt til hlítar, þegar Bretum þótti brýnt að ljúka málinu og ná sínu fram.