12.1.2012

Launamál Más, símhleranir, umpólun

Af þeim málum sem til umræðu eru og viðbrögðum við þeim má álykta að umpólun sé að verða í þjóðfélaginu. Tekið er á málum á allt annan hátt en áður var gert og umræður um efni sem áður þóttu efni til átaka verða engar. Meðal hinna ráðandi afla er sú skoðun ríkjandi að ástæðulaust sé lengur að hafa skoðun á málum. Við séum að ganga í ESB-klúbbinn og því beri okkur að samþykkja reglur hans og hætta að huga að málum á sjálfstæðan hátt.

Launamál Más


Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur stefnt seðlabankanum til að fá laun sín hækkuð um 300 þúsund krónur í 1.600 þúsund til samræmis við það sem hann telur sig hafa samið um þegar hann tók við embættinu árið 2009. Vill hann að hækkunin sé afturvirk. Málið verður flutt fyrir héraðsdómi Reykjavíkur. Kjararáð ákveður laun seðlabankastjóra. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra réð Má til starfa á sínum tíma. Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður, sérfróð um vinnurétt, er formaður bankaráðs seðlabankans.

Hinn 7. maí 2010 þegar launamál Más og deilur vegna þeirra voru á allra vörum birti Fréttablaðið viðtal við Láru V. Júlíusdóttur.  Af því varð ekki annað ráðið, en Lára hefði fengið fyrirmæli úr forsætisráðuneytinu um að flytja tillögu í bankaráðinu um hækkun launa Más um 400 þúsund krónur. Tillagan vakti mikla hneykslan og náði ekki fram að ganga. Lára  kaus að tjá sig ekki um, hver gaf Má fyrirheit um að hann fengi sömu laun og forveri hans hafði haft. Þótt þjóðin kynni að eiga heimtingu á að vita hver hefði gefið Má þetta fyrirheit taldi Lára að vitneskja um það ætti ekki að koma frá sér. Björn Þór Sigbjörnsson blaðamaður spurði Láru hver hefði borið henni boðin um að borga Má hærri laun. Jóhanna Sigurðardóttir hefði hvað eftir annað neitað að Má hefði verið gefið eitthvert fyrirheit. Hvernig ætti að skilja málið í því ljósi. Lára svaraði:

„Ég kýs að skilja það þannig að ekki sé vilji til að fylgja þeim fyrirheitum eftir í ljósi ástandsins.“

Þessi orð sýna, að Jóhanna hafi einfaldlega skipt um skoðun í málinu af hræðslu við almenningsálitið og ákveðið að skilja Láru eftir eina með launamál Más í fanginu. Sætti Lára ámæli af hálfu Marðar Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem vildi að hún yrði rekin úr bankaráðsformennskunni. Sama dag og viðtalið birtist í Fréttblaðinu lét Þórunn Sveinbjarnardóttir, þáverandi formaður þingflokks Samfylkingarinnar, einnig að því liggja, að Lára ætti að hypja sig á brott úr seðlabankanum. Lára hefði rofið trúnað. Lára skuldaði Jóhönnu og þeim í Samfylkingunni skýringu á orðum sínum og skýringu á því, að hún færi undan í flæmingi, þegar spurt væri.

Ég hélt því fram hér á síðunni í maí 2010 að Jóhanna Sigurðardóttir þyldi ekki, að sannleikurinn væri sagður í þessu máli, hvorki pólitískt né persónulega. Fingraför hennar væru svo greinileg frá upphafi, að hvert barn ætti að sjá hlut hennar, þótt hún neitaði staðfastlega hlutdeild.
Nú fer þetta mál sem sagt fyrir dómara. Þar hlýtur Már Guðmundsson að leggja fram gögn um hver lofaði honum hinum umsömdu launum. Þá verður Lára V. Júlíusdóttir að færa efnisleg rök fyrir því hvers vegna hún féll frá tillögu sinni um launahækkun fyrir Má.

Eina leiðin fyrir þær Jóhönnu og Láru V. til að komast hjá því að standa fyrir máli sínu í dómsalnum og hnekkja kröfu Más er einfaldlega að laun hans verði hækkuð. Í ljósi forsögu málsins kunna þær stöllur að líkja kröfu Más við fjárkúgun. Hún segir ljóta sögu um samskipti fólks í æðstu stöðum íslenska stjórnkerfisins.

Símhleranir


Vorið og sumarið 2006 varð mikið írafár í fjölmiðlum og á stjórnmálavettvangi vegna símhlerana. Uppnámið mátti rekja til skrifa Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings þar sem hann dró illa ígrundaðar ályktanir af heimildum dómara til lögreglu um símhleranir.

Ég rek umræðurnar um hleranirnar frá 2006 í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi auk þess sem ég skrifaði mikið um þær hér á síðuna á sínum tíma. Pólitískir andstæðingar mínir leituðust við að snúa ásökunum um „pólitískar hleranir“ upp á mig af því að faðir minn var dómsmálaráðherra hálfri öld áður.

Jón Baldvin Hannibalsson taldi að sími hans hefði verið hleraður þegar hann starfaði sem utanríkisráðherra og Árni Páll Árnason, síðar ráðherra, sagði sinn síma hafa verið hleraðan þegar hann starfaði í utanríkisráðuneytinu hjá Jóni Baldvini. Ríkissaksóknari lét rannsaka þessar fullyrðingar og var niðurstaðan sú að þær ættu ekki við nein rök að styðjast.

Síðar hefur æ betur komið í ljós að uppnámið vegna gamalla hlerana sem allar var unnt að skýra þegar málin voru skoðuð átti sér flokkspólitískar rætur. Á þessum árum þótti vinstri mönnum og fylgisveinum þeirra sér sæma að vega að þeim sem gættu laga og réttar. Var það í anda þeirra sem höfðu hagsmuna að gæta í Baugsmálinu. Markmiðið var að brjóta allt eftirlitsvald á bak aftur með árásum á lögregluna. Slíkar árásir væru besta leiðin til að fæla aðra eftirlitsaðila frá því að láta að sér kveða. Í þessu skjóli lögðu fésýslumenns síðan á ráðin um fjármálasviptingarnar sem leiddu til hrunsins og eru nú til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara.

Aldrei hefur neitt komið fram um að við rannsókn Baugsmálsins hafi saksóknari eða lögregla farið fram á heimild til hlerana. Í Fréttablaðinu 12. janúar 2012 er hins vegar skýrt frá því á forsíðu að tugum einstaklinga hafi á síðustu vikum verið tilkynnt um símhleranir sérstaks saksóknara. Þetta eigi til dæmis við um þá sem hafi verið til rannsóknar vegna falls Kaupþings og Sjóvár. Haft er eftir Ólafi Þór Haukssyni, sérstökum saksóknara, að tilkynnt sé um hleranir „um leið og ljóst sé að hlerunum verði ekki beitt frekar við rannsókn hvers máls. Í umfangsmiklum rannsóknum geti því liðið nokkur tími þar til upplýst er um hleranirnar,“ eins og segir í blaðinu en í fréttinni segir að dæmi séu um að meira en eitt og hálft ár líði frá því að embætti sérstaks saksóknara fái heimild til að hlera síma þar til eiganda símans sé tilkynnt um hleranirnar.

Fréttblaðið segir frá því 12. janúar 2012 að Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, hafi skýrt frá því í hæstarétti 11. janúar 2012 að skjólstæðingur hans og Ingibjörg Pálmadóttir, aðaleigandi 365 miðla, útgáfufélags Fréttblaðsins, hafi fengið bréf frá sérstökum saksóknara með tilkynningu um að símar þeirra hafi verið hleraðir.

Hefðu einhverjar svipaðar fréttir verið fluttar á tíma Baugsmálsins um aðgerðir gegn Baugsmönnum hefði allt farið á annan endann í fjölmiðlum og afsagnar dómsmálaráðherra hefði örugglega verið krafist með fullyrðingum um að enn sannaðist óvild hans í garð sakborninga með fyrirmælum um slíkar aðgerðir gegn þeim.

Á dögunum ritaði Sigurður G. Guðjónsson, óvildarmaður minn og Davíðs Oddssonar, verjandi manna sem eiga mál hjá sérstökum saksóknara, litla grein í Fréttablaðið þar sem hann náði varla upp í nefið á sér vegna hneykslunar yfir því að við Davíð ræddum saman á sjónvarpsstöðinni ÍNN í eigu Ingva Hrafns Jónssonar. Sótti að Sigurði G. mikil löngun til að æla vegna þáttarins af því að Ingvi Hrafn hefði hlotið dóm í skattamáli.

Fréttablaðið snýr sér til Sigurðar G. og spyr hann um hleranir sérstaks saksóknara. Sigurður G. veit ekkert um málið nema af afspurn en tjáir sig samt á þann veg að sérstakur saksóknari sé „á gráu svæði þegar komi að símhlerunum“. Þetta er vesældarlegt og skrýtið svar. Enginn sími er hleraður nema með heimild dómara. Vill Sigurður G. gefa til kynna að sérstakur saksóknari hafi blekkt dómara?

Árið 2006 var hér allt á öðrum endanum í fjölmiðlum og á pólitískum vettvangi vegna frásagna um áratuga gamlar hleranir. Nú segir í frétt að frá vori 2009 hafi sími verið hleraður hjá tugum manna og þeim hafi verið tilkynnt um hlerunina. Í fréttinni er „punkturinn“ sá að langur tími líði frá því að hlerunum ljúki þar til skýrt sé frá þeim, ekki hve víðtækar hleranir séu.  Málið er borið undir kjaftforan lögmann, vin Fréttablaðsins, hann segir einungis að málið sé á „gráu svæði“.

Umpólun


Brynjar Níelsson, formaður Lögmannafélags Íslands, sagði í ÍNN¬þætti mínum 11. janúar 2012 að orðið hefði sveifla í þjóðfélaginu frá hruni. Fjölmiðlar og almenningsálitið hefðu lagst á sveif með ákæruvaldinu gegn þeim sem sætu undir grun um hvítflibbabrot í stað þess að styðja þá sem væru til rannsóknar eins og gerðist í Baugsmálinu. Taldi hann mannréttindi í hættu vegna þessarar umpólunar í samfélaginu. Fréttin um símhleranir yfir tugum manna styður þessa skoðun Brynjars.

Öfgafullar sveiflur af þessu tagi segja að innviðir samfélagsins geta hæglega brostið. Margir ala á ótta við að íslenskt samfélag standist ekki áraun samtímans og þess vegna sé best að flytja ákvörðunarvaldið til annarra. Þetta sjónarmið birtist meðal annars í ræðu sem Arnór Sighvatsson, aðstoðarbankastjóri seðlabankans, flutti á morgunverðarfundi Alþýðusambands Íslands 10. janúar 2012 um íslensku krónuna. Hann sagði Íslandi hafa vegnað vel undir aga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann vildi að meira vald yrði tekið af ríkisstjórnum og stjórnmálamönnum á evru-svæðinu og flutt til evru- eða ESB-enbættismanna, aðild að slíku ríkisfjármálasambandi væri besti kosturinn fyrir Íslendinga til að náð yrði tökum á hagstjórninni.

Sjónarmið Arnórs er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Að framkvæmd hennar er unnið  án þess að öll sagan sé sögð. Stundum glittir þó í raunveruleikann hjá þeim sem fyrir aðild berjast.

Á mbl.is  miðvikudaginn 11. janúar 2012  birtist frétt um að Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, hefði stýrt fundi utanríkismálanefndar alþingis þann sama dag en þar hefði meðal annars verið farið yfir viðræður Íslands við Evrópusambandið. Á fundinum var ræddur aðildarkaflinn um utanríkismál. Eftir fundinn sagði Mörður að þetta hefði ekki verið átakafundur, þriðji fundurinn um utanríkismál, sameiginlegu utanríkisstefnuna og sameiginlegu öryggis- og varnarstefnuna og hvernig þetta allt saman snúi að Íslendingum.

Blaðamaður mbl.is spurði Mörð um sérstöðu Íslands, m.a. í ljósi herleysis þjóðarinnar, legu landsins og aðra sérstöðu. Mörður sagði að hafa þyrfti þessi atriði í huga við aðkomu landsins að sameiginlegri öryggis- og varnarstefnu sambandsins. Um undanþágur frá yfirþjóðlegu valdi Evrópusambandsins, til að mynda forgangsáhrifum Evrópugerða fram yfir íslensk lög, hefði ekki verið rætt né kæmi slíkt til greina. Þá var haft eftir Merði:

„Almennt er þetta þannig að við erum að ganga inn í klúbbinn og í honum gilda reglur klúbbsins og í þeim málum sem varða tollabandalagið og innri markaðinn þá hlítum við þeim lagaramma sem Evrópusambandið hefur og það eru engar undanþágur í því. Það erum við sem erum að ganga í Evrópusambandið, ekki Evrópusambandið í okkur.“

Þessi hugsunarháttur að við séum óhjákvæmilega að renna inn í nýja ríkjaheild ræður hjá meirihluta alþingis og hefur náð undirtökunum innan stjórnkerfisins. Það er helsta skýringin á því að línur í stjórnmálum hverfa og stjórnarhættir spillast á ótrúlega skömmum tíma. Dæmin hér að ofan um samskipti manna á æðstu stöðum og sveifluna í afstöðu almennings og fjölmiðla til sakamála sýna hve fljótt veður skipast í lofti. Það hefur orðið umpólun í samfélaginu.  Uppgjöf ræður ferð frekar en staðið sé á réttinum. Málssókn seðlabankastjóra gegn seðlabankanum til að fá ofurlaun hækkuð er undantekning sem sannar reglu því að ríkisstjórnin kemst upp með að svíkja aðila vinnumarkaðarins án þess að nokkur leiti réttar síns. Stjórnin er sögð svo léleg að ekki sé unnt að taka áhættu af því að segja upp kjarasamningum þrátt fyrir svik hennar. Hætturnar af þessari þróun fyrir samfélagið vaxa eftir því sem færri hafa þrek til að snúast gegn henni. Þeim fækkar óðfluga.