Styrkur Davíðs - vandræði Gunnars Smára - samsærið og Borgarnesræðan.
Auðvelt er að leggja mat á hæfileika manna eftir því, hvernig þeir bregðast við gagnvart flóknum og vandasömum verkefnum. Davíð Oddsson þurfti eins og aðrir að bregðast við fimmtudaginn 20. nóvember, þegar hann frétti af kaupréttarsamningnum til Sigurðar Einarssonar stjórnarformanns og Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra Kaupþings/Búnaðarbanka (KB).
Davíð sagði frá því í samtali við Stöð 2 föstudaginn 21. nóvember, að sér hefði orðið svo mikið um þessi tíðindi, að hann hefði setið fram eftir nóttu í skrifstofu sinni í stjórnarráðshúsinu og velt fyrir sér, hver viðbrögð sín skyldu verða. Þau voru einnig skýr og afdráttarlaus. Hann fordæmdi þessa meðferð á fé KB og tilkynnti í útvarpsviðtali um hádegið, að hann ætlaði að taka inneign sína, 400 þúsund krónur úr bankanum. Þegar fréttir bárust síðan af því, að þeir Sigurður og Hreiðar Már hefðu sagt sig frá hinum ámælisverða samningi og semja ætti við þá að nýju, taldi Davíð þeim hollt að hafa í heiðri, það sem Hallgrímur Pétursson yrkir í Passíusálmunum um iðrun Júdasar:
Undirrót allra lasta
ágirndin kölluð er.
Frómleika frá sér kasta
fjárplógsmenn ágjarnir
sem freklega elska féð,
auði með okri safna,
andlegri blessun hafna
en setja sál í veð.
Nefndi Davíð erindið í viðtali við Morgunblaðið og las það einnig í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins laugardaginn 22. nóvember. Að ganga svo rösklega og skipulega til verks sýnir, að Davíð hefur ákveðið að láta ekki neinn velkjast í vafa um afstöðu sína í þessu máli frekar en öðrum, þar sem hann tekur af skarið. Við blasir, að hin einarða afstaða hans hafði gífurleg áhrif og er ekki neinum vafa undirorpið, að KB sá fram á brotthvarf fjölmargra viðskiptavina, ef afstöðu Davíðs og allra, sem eru honum sammála, hefði verið sýnt skeytingarleysi.
Raunar á eftir að koma í ljós, hvort nokkru sinni verður bættur skaðinn vegna þessa frumhlaups meðal stjórnenda KB, því að heilbrigð dómgreind, tilfinning fyrir umhverfi sínu og almenn kurteisi í garð annarra eru meðal höfuðkosta farsælla bankamanna, en allt þetta var að engu haft af hálfu æðstu stjórnenda KB í þessu máli. Við gagnrýninni er ekki brugðist af hógværð hin iðrandi manns. Sigurður Einarsson ræðst af offorsi á forsætisráðherra og Valgerði Sverrisdóttur viðskipatráðherra, en þó sérstaklega á Davíð. Segir gagnrýni þeirra „hneyksli“, sakar Davíð um „einelti“. Í Morgunblaðinu laugardaginn 22. nóvember segir Sigurður orðrétt:
„Það er mjög undarlegt að ráðamenn þjóðarinnar leyfi sér að ráðast á einkafyrirtæki með þessum hætti sem gert er. Það þekkist hvergi annars staðar, nema hugsanlega í Rússlandi og einhvers staðar í Afríku. Það gengur algerlega fram af mér að ráðherrar og æðstu ráðamenn reyni að stuðla að því að koma stærsta banka landsins í vandræði.“ Og í Morgunblaðinu segir ennfremur: „Hann [Sigurður] segist ekki vilja hugsa þá hugsun til enda hverjar ástæður ummæla ráðamanna eru.“
Af þessum ummælum verður ekki ráðið, að Sigurður hafi neina tilfinningu fyrir þeirri reiðiöldu, sem fór um allt þjóðfélagið vegna þessa máls. Hann skilur ekki, hvers vegna menn telja nauðsynlegt að sporna við fæti, þegar fréttist af þessari ráðstöfun á fé KB. Skírskotun til Rússlands er næsta kaldhæðnisleg í ljósi þess, sem þar er að gerast um þessar mundir vegna hneykslunar á framgöngu kaupenda ríkisfyrirtækja við einkavæðingu þeirra.
Vandræði Gunnars Smára
Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Fréttablaðsins og útgefandi DV, hefur brugðist við því, sem nú er að gerast í íslensku viðskiptalífi á einkennilegan hátt. Þessir miklu atburðir eru stærri en eru á valdi hans að ræða á hlutlægum forendum, einnig hefur hann beinna hagsmuna að gæta og beitir sér í samræmi við það.
Gunnar Smári hefur reiðst mjög umræðum um það, hvort nauðsynlegt sé að setja hér nýjar reglur um eignarhald á fjölmiðlum, eftir að húsbændur hans og eigendur Fréttablaðsins og DV eru teknir til við að seilast til áhrifa innan Norðurljósa, eftir að Kaupþing/Búnaðarbanki og Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrir hönd Baugs, tóku að ráðskast með eigur Jóns Ólafssonar.
Davíð Oddsson svaraði spurningum Álfheiðar Ingadóttur, varaþingmanns vinstri/grænna, um eignarhald á fjölmiðlum á alþingi miðvikudaginn 19. nóvember. Viðbrögð Gunnars Smára voru meðal annars þau að spyrja í Fréttablaðinu föstudaginn 21. nóvember, hvers vegna hann [Gunnar Smári] ætti ekki að leita pólitísks hælis í Norður-Kóreu. Í grein Gunnars Smára segir síðan meðal annars:
„Við aðdáendur opinna og frjálslegra samfélaga fögnum auðvitað aukinni fjölbreytni og eflingu samkeppni milli fjölmiðlanna. En ekki Davíð. Hann lætur eins og frekur krakki sem er ósáttur við gang leiksins og vill breyta reglunum til að hjálpa sínu liði; setja lög á andstæðingana og styrkja Moggann úr ríkissjóði.“
Hér rekst hvert á annars horn. Í huga Gunnars Smára er það til marks um aukna fljölbreytni, að hann sé ritstjóri eins dagblaðs og útgefandi annars og húsbændur hans á þeim bæjum leggi einnig undir sig sjónvarpsstöð með tveimur rásum og nokkrar hljóðvarpsrásir. Að halda því fram, að Davíð hafi lagt til ríkisstyrk við Morgunblaðið er einfaldlega lygi.
Einn morguninn mátti heyra sérkennilegt viðtal við Gunnar Smára í hljóðvarpi ríkisins, þar sem hann sagði fráleitt að lög giltu um fjölmiðlastarfsemi í öðrum löndum og ekki kannaðist hann við það, að eigendur hefðu áhrif á stefnu eða skrif blaða í sinni eigu. Allar voru þessar fullyrðingar hans rangar. Lög eru um eignarhald á fjölmiðlum í mörgum löndum. Íhlutun fjölmiðlaeigenda og afskipti af eign sinni er viðfangsefni greina, bóka og ævisagna hér á landi og um heim allan. Auk þess notaði Gunnar Smári auðvitað tækifærið til þeirrar eftirlætisiðju sinnar að vera með skítkast í garð Davíðs Oddssonar.
Forsíður Fréttablaðsins afsanna nú dag eftir dag kenningu ritstjórans Gunnars Smára um áhrif eigenda á fréttastefnu blaða sinna. Stjórnendur blaðsins vita, að þeir geta gengið fram af lesendum sínum, án þess að eiga hið sama á hættu og Kaupþing/Búnaðarbanki, að fólk mótmæli með því taka peninga sína úr vörslu bankans. Það getur enginn sagt upp Fréttablaðinu, því að menn fá það sent, hvort sem þeim líkar betur eða verr og fjárhagsleg afkoma ræðst af því, hve mikið eigendurnir vilja auglýsa í blaðinu. Auðvitað auglýsa þeir hvergi á síðum blaðsins neitt, sem kemur þeim illa; síst af öllu á forsíðunni eins og dæmin sanna.
Forsíða Fréttablaðsins laugardaginn 22. nóvember einkennist af málsvörn fyrir Sigurð Einarsson: Segja Davíð hafa lagt sig í einelti. Þetta er aðalfyrirsögnin. Í Morgunblaðinu segir í aðalfyrirsögn á forsíðu sama dag: Falla frá kaupréttinum vegna harðrar gagnrýni. Daginn áður, föstudaginn 21. nóvember, var lítill eindálkur á forsíðu Fréttablaðsins um kaupréttarsamning þeirra Sigurðar Einarssonar og Hreiðar Már.
Samsærið og Borgarnesræðan
Páll Vilhjálmsson ritar grein í Morgunblaðið laugardaginn 22. nóvember undir fyrirsögninni: Samsæri Baugs og Fréttablaðsins. Telur Páll, að ritstjórn Fréttablaðsins og eigendur Baugs hafi orðið sekir að samsæri í vor þar sem blygðunarlaust var reynt að hafa áhrif á lýðræðislegar kosningar til að þagga niður í gagnrýni á Baug. Þurfi í umræðu um sterka stöðu Baugsauðhringsins á fjölmiðlamarkaði að halda til haga vinnubrögðum auðhringsins. Fréttablaðið sé viljugt verkfæri forráðamanna Baugs og fari lítið fyrir blaðamannsheiðri og fagmennsku í ritstjórn blaðsins. Samsærið hafi verið um að koma höggi á forsætisráðherra og verið langt handan þess sem talin sé eðlileg blaðamennska.
Þegar Páll víkur að þessu rifjast einnig upp fyrri Borgarnesræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, forsætisráðherraefnis Smafylkingarinnar, í febrúar síðastliðnum.
Páll ræddi einmitt þessi sömu mál í athyglisverði grein í Morgunblaðinu miðvikudaginn 5. mars síðastliðinn, þegar samsærið gegn Davíð var tekið að skýrast, eftir að Davíð fór í frægt útvarpsviðtal við Óðin Jónsson að morgni mánudagsins 3. mars til að svara árásum Fréttablaðsins.
Í tilefni af þeim atburðum öllum skrifaði ég í Morgunblaðið laugardaginn 8. mars 2003:
„Ástæðulaust er að gleyma „frétt“ Fréttablaðsins. Bestu úttekt á henni gerði Páll Vilhjálmsson hér í Morgunblaðinu síðastliðinn miðvikudag. Orð Páls verða ekki vegin og metin á þeirri forsendu, að hann sé handgenginn Davíð Oddssyni með sama hætti og til dæmis ég, sem hef lengi átt með honum samleið í Sjálfstæðisflokknum og verið ráðherra í ríkisstjórn hans. Páll hefur látið að sér kveða á vettvangi Samfylkingarinnar. Hann segir „frétt“ Fréttablaðsins geta hafa verið skrifaða af almannatengli á launum hjá Baugi. Páll segir síðan:
„Til að flétta Baugsmanna gengi upp þurfti utanaðkomandi aðstoð. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar bauð sig fram sem nytsaman sakleysingja þegar hún í alræmdri Borgarnesræðu í febrúar bar blak af þrem nafngreindum fyrirtækjum sem tæplega eru fyrirmyndardæmi um atvinnurekstur, svo ekki sé meira sagt, og ásakaði forsætisráðherra fyrir að leggja fyrirtækin í einelti. Eitt þeirra er Baugur og annað Norðurljós/Jón Ólafsson.““
Fyrir þá sem muna ekki lengur eftir efni Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur má rifja upp, að þar dró hún taum þriggja fyrirtækja Baugs, Norðurljósa og Kaupþings, af því að á þau væri hallað af Davíð Oddssyni forsætisráðherra og mátti auðveldlega draga þá ályktun, að hún teldi Davíð koma ómaklega fram við fyrirtækin.