17.12.2005

Hlutur Geirs Hallgrímssonar – málfrelsi forseta og ráðherra.

Geir Hallgrímsson hefði orðið 80 ára föstudaginn 16. desember, en hann lést langt um aldur fram aðeins 64 ára árið 1. september árið 1990. Ég minnist með þakklæti og virðingu kynnum mínum af Geir, en hann réð mig til starfa sem deildarstjóra í forsætisráðuneytinu haustið 1974, þar varð ég síðar skrifstofustjóri, starfaði undir stjórn Geirs, þar til hann lét af embætti forsætisráðherra sumarið 1978 og síðan í rúmt ár undir stjórn Ólafs Jóhannessonar. Ég ákvað að segja af mér embætti í sama mund og það fjaraði undan stjórn Ólafs Jóhannessonar með brotthlaupi krata, en það leiddi til þingkosninga í byrjun desember 1979 og síðan stjórnarmyndunar Gunnars Thoroddsens 8. febrúar 1980.

Þetta skeið á merkum stjórnmálaferli Geirs hefur verið töluvert til umræðu undanfarið vegna frásagna í hinni fróðlegu bók Guðna Th. Jóhannessonar Völundarhús valdsins um stjórnarmyndanir Kristjáns Eldjárns. Vegna bókarinnar hafa hinar heitu deilur innan Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma verið ræddar og meðal annars efndu Landssamband sjálfstæðiskvenna og Tikin.is til umræðufundar á Sólon miðvikudaginn 14. mars með þátttöku Guðna og okkar Þorsteins Pálssonar undir stjórn Ástu Möller – birtist ágæt frásögn af fundinum í Morgunblaðinu á afmælisdegi Geirs 16. desember.

Þorsteinn Pálsson vakti máls á því á Sólon-fundinum, að bók Guðna tæki að sjálfsögðu mið af heimildum hans og þar væri litið á söguna og þróun hennar frá Bessastöðum og hagsmunum þess, sem stjórnaði atburðarásinni þaðan með því að veita mönnum umboð til stjórnarmyndunar, en ekki væri fjallað þar um ólíkar stjórnmálastefnur og strauma, sem hlytu ávallt að ráða að lokum, þegar tekist væri á um ólíkar leiðir að markmiðum á stjórnmálavettvangi. Þegar litið væri á sigur sjónarmiða eða stefnu frekar en stundarstöðu eða sigur einstakra manna, dró Þorsteinn þá ályktun, að Geir og stefna hans hefði sigrað.

 

Þorsteinn sagði Geir hafa sýnt mikið pólitískt hugrekki snemma árs 1978, þegar hann beitti sér fyrir óvinsælum efnahagsráðstöfunum til að sporna við hættulegri verðlagsþróun, og veturinn 1979, þegar hann fylgdi fram róttækri efnahagsstefnu, sem kennd var við leiftursókn.

 

Ég er sammála Þorsteini um, að bók Guðna bregði aðeins birtu á hluta sögunnar, en sú birta kemur vissulega úr óvenjulegri átt, þegar hún er byggð á einkagögnum forseta Íslands og lýsir viðhorfum hans á þeirri stundu, sem atburðirnir gerðust. Hér er því um stórmerkar heimildir að ræða, ekki síst um það, hve hóflega Kristján beitti valdi sínu, því að umþenkingar hans snúast samkvæmt bókinni aðeins um, hvernig hann skuli standa að því að veita stjórnmálaforingjum umboð, en hann er ekki að velta því fyrir sér, hvort hann eigi að stuðla að því, að mynduð sé ríkisstjórn með þessa stefnu eða hina – hvort ýta undir þá, sem hallast að markaðshagkerfi eða sósíalisma, hvort betra sé að fá stjórn, sem vill standa vörð um varnarsamstarf við Bandaríkin eða veikja þetta samstarf og jafnvel slíta því.

 

Samkvæmt bókinni eru lokaorð Kristjáns (9. febrúar 1980) um hlut forseta við stjórnarmyndanir þessi:

 

„Mér er farið að finnast þetta vera dálítið skrýtin sitúasjón, þetta leikstjórahlutverk forsetans þar sem hann leggur eiginlega ekkert aktívt til, reynir bara að gera rétt, að halda jafnvægi milli flokkanna, að allir fái það sem þeim ber, og það er nú kannski hans hlutverk, en mér finnst að það gæti nú vel komið til mála að blátt áfram stinga upp á einhverju munstri við menn, og þar með að styrkja þá móralskt.“

 

Við lok reynslu sinnar af myndun stjórna veltir Kristján því fyrir sér, hvort forseti ætti til að veita stjórnmálaforingjum móralskan styrk að nefna við þá eitthvert stjórnarmunstur – það er hvaða flokkar skyldu starfa saman. Færi forseti inn á þá braut væri hann að stíga lengra en Kristján gerði og umboð forseta væri veitt með smáu letri, sem fæli í sér skilyrði, sem ættu frekar að mótast á vettvangi stjórnmálamanna.

 

Geir Hallgrímssyni var mest í mun á þessum árum að mynda ríkisstjórn, sem gæti tekist á við verðbólguvandann á raunhæfan hátt. Ég taldi vonlaust að mynda þjóðstjórn á þessum árum og er raunar þeirrar skoðunar, að þjóðstjórn eigi aðeins rétt á sér á tímum einhverra hörmunga, sem hafa ekki dunið á þjóðinni til þessa og gera vonandi aldrei. Mér þótti því aldrei sannfærandi áhersla Geirs á þjóðstjórn en undir merkjum viðræðna um hana var hins vegar unnt að kanna um hvaða málefni næðist hugsanlega samstaða og átta sig á helstu álitaefnum.

 

Látið var á það reyna á ýmsan hátt, hvort unnt yrði að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags um áramót 1979/80. Hvorki innan Sjálfstæðisflokks né Alþýðubandalags reyndist til þess vilji, þegar á herti. Ágreiningurinn var of djúpstæður bæði um efnahagsmál og utanríkismál, þótt misjafnt væri innan hvors flokks hvorn málaflokkinn menn báru fyrir sig í innbyrðis viðræðum.

 

Alþýðuflokkurinn undir formennsku Benedikts Gröndals þorði aldrei að stíga skrefið, sem þurfti til að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Í ljósi sögunnar er furðulegt, að þetta skuli hafa orðið fylgja hins farsæla samstarfs flokkanna í viðreisnarstjórninni. Það tókst einfaldlega að tekja krötum trú um, að það yrði banabiti flokks þeirra að fara að nýju í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Sagan segir okkur núna, að flokkurinn og hugsjónir hans urðu að engu, þegar alþýðubandalagsmenn og kvennalistakonur náðu þar undirtökunum í nafni Samfylkingarinnar. Þótt Jón Baldvin Hannibalsson hafi í formannstíð sinni verið málsvari þess samstarfs, er nú hrópað á hjálp hans krötum til bjargar, en hann þorði þó að mynda tveggja flokka stjórn með Sjálfstæðisflokknum vorið 1991.

 

Eins og ég sagði á Sólon-fundinum er þetta sögusvið mér mjög kunnuglegt, þótt ekki tæki ég þátt í viðræðum stjórnmálamanna á þessum tíma. Ég dáðist af jafnaðargeði og þrautseigju Geirs Hallgrímssonar á þessum örlagatímum í sögu Sjálfstæðisflokksins og tek heilshugar undir þau orð fundarkonu, að sjálfstæðismenn standi í mikilli þakkarskuld við Geir fyrir að honum tókst að sigla  flokki þeirra í gegnum þennan ólgusjó og skila honum heilum af sér.

 

Forvitnilegt er að sjá, hvað lesendur Völdunarhúss valdsins, sem muna óljóst eftir þessum tímum hafa um þá að segja að loknum lestrinum.

 

Ágúst Borgþór Sverrisson ritar um viðhorfsgrein undir fyrirsögninni: Spennusaga ársins? í Blaðið föstudaginn 16. desember. Hann segist ungur hafa tekið afstöðu með Sjálfstæðisflokknum og segir „einhvern veginn fannst mér hann trúverðugri og ábyrgari en hinir þegar rætt var um efnahagsvandann .... og síðan spilaði kaldastríðshugarfar inn í þetta.“ Nú segir sagan okkur, að það var réttmæt afstaða með vísan til stjórnar efnahagsmála að styðja Sjálfstæðisflokkinn á þessum formannsárum Geirs Hallgrímssonar. En Ágúst segir einnig: „Hins vegar var ég aldrei aðdáandi Geirs Hallgrímssonar, mér leist svona álíka illa á hann og þjálfara sem nær ekki árangri og maður vill skipta út fyrir sigurvegara.“

 

Síðan snýr hann sér að bókinni og segir: „Annaðhvort er ég svona sérkennilegur eða höfundur bókarinnar er óvenjulega lipur penni því lesningin er æsispennandi.... Sérkennilegt er að fá óljósar barnshugmyndir mínar um stjórnmálaforingjana staðfestar. Geir Hallgrímsson var viðkunnanlegur maður en of varkár og hikandi. Ennfremur rennur upp fyrir mér við lesturinn hvers vegna ég bar alltaf virðingu fyrir Ólafi Jóhannessyni, þessum þunglamalega manni með hægan framsóknartalanda og skaðbrunnar tennur. Virðingin stafar af því að hann var í senn afar klókur og heiðarlegur. Það er ágæt blanda í persónuleika stjórnmálamanns: refur með siðferðisvitund.“

 

Að sjálfsögðu voru þeir Geir og Ólafur ólíkir og beittu ólíkum aðferðum og ég ber góðan hug til þeirra beggja. – En felst ekki munurinn á þeim sem stjórnmálamönnum líka í því, að annars vegar fór maður með fastmótaðar stjórnmálaskoðanir í flokki, sem lét brjóta á sér vegna stefnu sinnar, til dæmis í utanríkismálum, og hins vegar maður í forystu fyrir miðjuflokki, sem sneri sér til hægri eða vinstri, eftir því sem hentaði hverju sinni?

 

Páll Baldvin Baldvinsson skrifar um bókina í DV 17. desember undir fyrirsögninni: Pólitískur reyfari. Bókinni eru gefnar 4 stjörnur, þótt Páli Baldvini finnist sárlega skorta þar „samhliða greiningu á stefnumiðum flokkanna, en oft er eins og þau hafi varla skipt máli.“ Þá segir hann einnig:

 

„Lestur bókarinnar vekur margar spurningar: þeir menn sem virðast hvað heilastir í allri vinnu sinni og hugsjón í verkinu eru þeir Kristján [Eldjárn] og Geir [Hallgrímsson] sem báðir falla frá fyrir aldur fram. Var þátttaka í pólitískri ábyrgð á refilsstigum stjórnmála beinlínis til að stytta líf þeirra? Voru þeir einfaldlega of heilir menn að upplagi til að taka þátt í þessu geimi.“

 

Kristján Eldjárn kemur vel frá þessari bók, honum liggur aldrei illt orð til nokkurs manns og umgengst embætti sitt af einlægri virðingu og samviskusemi. Geir Hallgrímsson stígur einnig heill og sannur út úr Völundarhúsi valdsins.

 

Fyrir okkur, sem lifðum þessa tíma með þeim Kristjáni og Geir, gefur það þeirri reynslu nýja vídd, að henni skuli nú líkt við spennusögu eða reyfara – nema menn geti ekki lengur skrifað um áhugaverðar bækur á ylhýra málinu, án þess að kenna þær við þessa bókmenntagrein!

 

Málfrelsi forseta og ráðherra.

 

Í bókinni er sagt þannig frá samtali okkar Kristjáns í síma sunnudaginn 3. febrúar 1980:

 

„[Kristján Eldjárn]: Og hvað meinarðu með stemmning?.... Meinarðu meðal sjálfstæðismanna svona almennt?

[Björn Bjarnason]: Já, jafnvel.“

 

Við upphaf ferils síns naut stjórnin sem Gunnar Thoroddsen myndaði 8. febrúar 1980 mikils velvilja og kváðust þrír af hverjum fjórum styðja hana. Í ársbyrjun 1981 naut stjórnin enn stuðnings rúmlega 60% aðspurðra.

 

Ég get þannig fagnað því, að ég reyndist sannspár í þessu samtali okkar Kristjáns, en skilja má bókina á þann veg, að það hafi haft nokkur áhrif á hann, þótt það hafi auðvitað ekki ráðið neinum úrslitum. Ég sagði frá því á Sólon-fundinum, að mér hefði komið í opna skjöldu, að til væru skráðar frásagnir um samtöl Kristjáns við menn á þessum viðkvæmu tímum. Hafði ég orð á því við Guðna Th. Jóhannesson við gerð bókarinnar, að þessar heimildir hans væru svo óvenjulegar, að huga yrði sérstaklega vel að notkun þeirra, ef þær yrðu á annað borð notaðar. Mér finnst Guðni fara vel með þann trúnað, sem fjölskylda Kristjáns sýndi honum með því að heimila aðgang að þessum heimildum. Ég tek hins vegar undir þau orð Þorsteins Pálssonar á Sólon-fundinum að bókin geti haft áhrif á það, hvernig menn ræða við forseta Íslands í stjórnarkreppum framtíðarinnar.

 

Forseti Íslands hefur að sjálfsögðu fullt frelsi til að segja frá því, sem hann kýs, af samtölum sínum við aðra, þótt almennt líti menn á samtöl sín við forseta Íslands sem trúnaðarmál. Auðvitað kann forseti að afflytja mál á þann veg, að ástæða þyki til opinberra athugasemda viðmælenda hans. Ég hef ekki heyrt um neinn, sem telur sig hafa ástæðu til þess vegna Völundarhúss valdsins.

 

Undanfarið hefur verið tekist á um málfrelsi mitt sem dóms- og kirkjumálaráðherra í svonefndu Baugsmáli. Pétur Guðgeirsson héraðsdómari birti úrskurð sinn um þennan þátt málsins fimmtudaginn 15. desember og taldi mig ekki vanhæfan til að setja sérstakan ríkissaksóknara til að sækja málið. Í úrskurðinum er málavöxtum að því er þetta varðar lýst á þennan veg:

 

„Í málinu hefur verið lagður fram fjöldi gagna með ummælum dómsmálaráðherra um ákærðu Jón Ásgeir og Jóhannes, um Baug hf., um fjölmiðla í eigu þess fyrirtækis, um eitt og annað í stjórnmálum, sem snertir þessa aðila, og um málið sjálft. Er þar um að ræða tímaritsgrein eftir ráðherrann nú í haust [í fyrsta hefti Þjóðmála] og fjölmörg ummæli á heimasíðu hans á tímabilinu 8. mars 2003 til 10. október 2005. Telja verjendur ummæli þessi sýna óvild dómsmálaráðherra í garð Baugs hf. og ákærðu og það að hann hafi tjáð sig opinskátt um málið og varnir ákærðu í því. Þá telja þeir ummælin sýna það að dómsmálaráðherra tengist og styðji keppinauta Fréttablaðsins og DV og að hann hafi stutt Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, í andstöðu hans við Baug og sakborninga málsins. Loks hafi hann „margsinnis uppnefnt fjölmiðla, sem reknir eru af félögum sem Baugur hf. er hluthafi í, sem „Baugsmiðla”, „Baugstíðindi” eða „fjölmiðla í eigu Baugs”. Loks hafi „ráðherrann síendurtekið fjallað um þessa fjölmiðla, Baug og ákærðu með niðrandi hætti”.“

 

Um þennan þátt segir dómarinn í úrskurði sínum:

 

„Ekki verður annað sagt um ummæli dómsmálaráðherra í garð ákærðu og Baugs hf. og baugssamsteypunnar en að þau séu mjög gagnrýnin. Það verður þó ekki séð að gagnrýni ráðherrans tengist beint einstökum sakarefnum sem liggja fyrir dóminum. Líta verður einnig til þess að dómsmálaráðherra fer ekki með stjórnsýsluvald á neinu því sviði, sem ummæli hans varða. Hinn setti ríkissaksóknari er sjálfstæður að lögum og lýtur í engu boðvaldi ráðherra. Það er ennfremur álit dómsins að það hljóti að leiða af eðli stjórnmála í lýðfrjálsu landi að ráðherra hafi verulegt svigrúm til þess að ræða og rita opinberlega um stjórnmál og önnur opinber málefni, án þess að hann geri sig með því vanhæfan til stjórnvaldsathafnar. Væru að öðrum kosti settar óviðunandi skorður annars vegar við frjálsri stjórnmálaumræðu og hins vegar við nauðsynlegum embættisathöfnum ráðherra. Er ekki unnt að fallast á það að ráðherra hafi verið vanhæfur til þess að setja ríkissaksóknara yfir málið og því hafi ekki verið sótt þing í málinu af hálfu ákæruvalds.“

 

Þessi niðurstaða héraðsdómarans er í samræmi við skoðanir um þennan þátt málsins, sem komu fram í umræðum utan dagskrár á alþingi um Baugsmálið hinn 20. október síðastliðinn, það er að ráðherra hlyti að hafa þetta svigrúm til að taka þátt í frjálsri stjórnmálaumræðu. Í þeim umræðum sagði ég meðal annars:

 

„Því hefur verið haldið fram, að ég sé vanhæfur til að bregðast við þessu erindi ríkissaksóknara. Fullyrðingar í þá átt styðjast hvorki við stjórnsýslulög, skýringar á þeim né dómafordæmi hér á landi eða í Noregi og Danmörku, svo að aðeins tvö nálæg ríki séu nefnd til sögunnar.

 

Ég leyfi mér í lok máls míns að vitna í tvo fræðimenn á sviði stjórnsýsluréttar.

 

Hans Gammeltoft-Hansen, umboðsmaður danska þingsins, lýsti í fræðiriti um stjórnsýslurétt frá árinu 2002 þeirri skoðun sinni, að ummæli stjórnmálamanna um viðhorf þeirra til ákveðinna mála, í tilefni af einhverjum atburðum líðandi stundar, yllu almennt ekki vanhæfi þeirra.

 

Dr. Páll Hreinsson, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, sem samið hefur doktorsritið Hæfisreglur stjórnsýslaga, telur, að hafi ráðherra tjáð sig um viðkvæm einkamálefni manns í tengslum við úrlausn máls, sem ekkert tilefni hafi verið til að fjalla um á opinberum vettvangi, kunni ráðherra að verða vanhæfur til meðferðar málsins. Í því máli, sem hér um ræðir, er atvikum alls ekki þannig háttað.“

 

Sá þáttur Baugsmálsins, sem snýst um að málfrelsi mitt geri mig vanhæfan, hefur nú verið kærður til hæstaréttar.