28.10.2006

Jón Baldvin og Guðni Th. í Morgunblaðinu.

Í Morgunblaðinu í dag birtist miðopnugrein eftir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, sem tekur endanlega af skarið um, að bægslagangurinn í honum vegna svonefndra hleranamála undanfarið hefur tengst prófkjöri okkar sjálfstæðismanna, eins og Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, vék að á eftirminnilegan hátt á fundi okkar í Valhöll laugardaginn 21. október.

 

Jón Baldvin fær inni í Morgunblaðinu síðari prófkjörsdag okkar sjálfstæðismanna fyrir grein, þar sem hann blandar sér beint í prófkjörsbaráttuna. Jón Baldvin veit sem er, að grein hans birtist á þeim tíma, að mér gefst ekki ráðrúm til að svara honum, áður en kjósendur ganga að kjörborðinu. Hann kýs að leggja mál þannig fyrir, að engu sé líkara en einhver sök sé hjá mér vegna atburða, sem gerðust löngu fyrir minn tíma sem dómsmálaráðherra.

 

Þetta er sérkennilegt framlag til stjórnmálabaráttunnar en til þess fallið að skýra, hvers vegna Jón Baldvin sá allt í einu ástæðu til að ganga fram fyrir skjöldu með yfirlýsingum um, að sími hans hafi verið hleraður á meðan hann var utanríkisráðherra og gera síðan allt tortryggilegt, sem miðar að því að upplýsa málið í samræmi við landslög, sem honum, mér og öllum landsmönnum ber að hlíta. Nei, þau duga ekki í þessu sérstaka máli hans og þá er skuldinni einfaldlega skellt að mig!

 

Ýmsu hef ég kynnst á stjórnmálaferli mínum en aldrei áður hef ég verið sakaður um að bera ábyrgð á atvikum, sem kunna að hafa átt sér stað löngu áður en til ábyrgðar minnar kom á nokkru því, sem til umræðu er.  Sýnir þetta best hve langsótt þetta er hjá Jóni Baldvini en ýtir aðeins frekari rökum undir tilgang hans, það er að reyna að hlutast til um innri málefni Sjálfstæðisflokksins.

 

Jón Baldvin lætur í það skína, að það hafi staðið á mér að leitast við að upplýsa alla þætti þessa máls og veita mönnum aðgang að þeim gögnum, sem er að finna í opinberum skjalasöfnum. Þetta er einfaldlega rangt og stenst alls ekki gagnrýni. Ég beitti mér fyrir því á vettvangi ríkisstjórnarinnar sl. vor, að flutt var þingsályktunartillaga um skipan sérstakrar nefndar til að fara yfir þessi gögn og veita fræðimönnum aðgang að þeim og studdi á þingi nú í haust, að nefndin fengi sérstakar lögheimildir.

 

Í þingræðu hinn 9. október sl. sagði ég:

 

„Ég hef verið talsmaður þess um langt skeið að öll gögn í þessum málum verði lögð á borðið. Ég heyri að hér koma þingmenn hver á fætur öðrum og taka undir það sjónarmið mitt. En að leggja það þannig upp að ég sé þar eitthvað ósamkvæmur sjálfum mér í málflutningi sem ég hef haft hér á þingi í tíu, ellefu ár, það er algjörlega rangt. Ég tel að það eigi að leggja öll þessi gögn á borðið, það eigi að leggja öll gögn sem varða Ísland á borðið, það eigi að leggja öll gögn sem varða samskipti íslenskra stjórnmálamanna við erlend ríki á borðið og upplýsa þjóðina um þetta. Öll gögn sem eru í opinberri vörslu eiga auðvitað að vera opin. Það er mín skoðun. Ég tel að ég hafi beitt mér fyrir því hér á þingi með ályktunum, lagabreytingum og við séum að leggja út í þann leiðangur.“

 

Ég tel, að þessi mál séu núna í þeim farvegi, að hið sanna hljóti að koma í ljós. Verði nauðsynlegt að stíga einhver frekari skref af hálfu löggjafans að þessu leyti, er ég að sjálfsögðu tilbúinn til að skoða allar hugmyndir um það. Ég er hins vegar ekki tilbúinn til að samþykkja, að unnt sé að bera saman ástand í Noregi eða Suður-Afríku og þau atvik, sem nefnd hafa verið hér á landi, og þess vegna þurfi að grípa til sömu aðgerða hér og þar. Það er fráleit röksemdarfærsla og byggist enn á þeirri viðleitni, að gera hlut íslenskra stjórnvalda og stjórnmálamanna sem verstan í stað þess að hafa sannleika að leiðarljósi. Sé það skortur á víðsýni að neita að fallast á falsrök af þessu tagi, viðurkenni ég fúslega þann skort.

 

Í sama tölublaði Morgunblaðsins og þessi grein Jóns Baldvins birtist er að finna grein eftir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing en segja má, að fyrirlestur hans sé upphaf þessa umróts vegna löngu liðinna atvika. Guðni Th. er þar að bregðast við málefnalegri grein Þórs Whiteheads í Morgunblaðinu 22. október, grein, sem Jón Baldvin kallar „langhund“ til að gera lítið úr henni og Þór, af því að hann hefur engin efnisleg rök máli sínu til stuðnings.

 

Í grein Guðna Th. kveður við annan tón en hjá Jóni Baldvini. Guðni Th. segir meðal annars:

Mér finnst ýmsar röksemdir hans [Þórs] í áðurnefndri Morgunblaðsgrein sannfærandi og tek þær til greina. Annað væri kjánaleg þrjóska. Ég hef líka séð heimildir núna sem gefa til kynna að Ólafi Jóhannessyni, forsætis- og dómsmálaráðherra árin 1971-74, hafi verið kunnugt um flesta þætti í starfsemi öryggisþjónustu lögreglunnar. Enginn er óskeikull og telji einhverjir að þeir hafi fundið hina einu réttu niðurstöðu í þessari sögu, þar sem afar fáar skriflegar heimildir eru tiltækar og ályktanir verða að ráða, fara þeir hinir sömu villir vegar að mínu mati.

Þar að auki tek ég alls ekki á mig sök af því að ýmsir fjölmiðlamenn og stjórnmálamenn hafa ákveðið að tala um „leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins“. Sjálfur leiðrétti ég þá mistúlkun fljótt og vel, eða um leið og ég var búinn að fullvissa mig um að það væri alls ekki sanngjarnt að misskilja orð mín á þann hátt sem reynt var. Sú leiðrétting hefur blessunarlega dugað nær öllum hingað til. Það væri líka stórkostlegt ofmat á nokkrum opnum spurningum og vangaveltum eins sagnfræðings að rekja til þeirra alla þá umræðu sem verið hefur um Sjálfstæðisflokkinn og öryggisþjónustu í kalda stríðinu. Til samanburðar má nefna að þegar símahleranir og persónunjósnir á tímum kalda stríðsins komust í hámæli í Noregi var Verkamannaflokkurinn vitaskuld í eldlínunni frekar en aðrir flokkar því hann var lengst af í stjórn. En ég segi það aftur hér svo það fari ekki milli mála: „Leyniþjónusta Sjálfstæðisflokksins“ er að mínu mati rangnefni yfir máttlitla öryggisþjónustu lögreglunnar í Reykjavík, svo máttlitla í raun að ráðamenn gátu nær aldrei farið offari þegar öryggi ríkisins þótti vera í veði. Það er líklega helsti munurinn á því sem gerðist hér og þeim viðamiklu persónunjósnum sem voru stundaðar á valdaskeiði jafnaðarmanna í Noregi og Svíþjóð, svo nærtæk dæmi séu tekin.

Að mínu mati hefur umræða um símahleranir og eftirlitsstarfsemi stjórnvalda stundum lent á villigötum síðustu vikur og mánuði. Senn eru liðin fjögur ár síðan ég fór að grafast fyrir um heimildir um þessi efni. Á þeim tíma hafa ýmsir orðið mér að liði og ég nefni til að mynda Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sem hefur aldrei sýnt mér annað en fyllstu hreinskilni. Hann getur verið innilega ósammála mínum ályktunum og niðurstöðum en ég fæ ekki séð að honum hafi nokkru sinni dottið í hug að leggja stein í götu mína. Mér þykir að vísu súrt í broti að hafa ekki fengið aðgang að gögnum um símahleranir sem eru nú á Þjóðskjalasafni Íslands en synjun um það barst ekki úr ráðuneytinu heldur frá safninu sem hefur nú hætt að taka ákvarðanir um aðgang að „viðkvæmum“ gögnum í vörslu þess.“

Ég feitletra nokkrar setningar í Morgunblaðsgrein Guðna Th. Jóhannessonar, þar sem hann tekur afstöðu til mála, sem hafa sett mikinn svip á umræður síðustu vikna og bendir á, hve þær hafa byggst á miklum ranghugmyndum.

Lesendur Morgunblaðsins eru hvattir til þess að lesa þær saman grein Jóns Baldvins og Guðna Th. í Morgunblaðinu í dag og glöggva sig annars vegar á viðleitni Jóns Baldvins til að koma pólitísku höggi á andstæðinga sína og hins vegar á viðleitni Guðna Th. Jóhannessonar til að hafa það, sem sannara reynist.