20.5.2007

Starfsstjórn - atburðarás - álitsgjafar.

Þegar ég var skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, rannsakaði ég, hvernig starfsstjórnir hefðu tekið á málum fram til þess tíma, að ég skrifaði ritgerð um málið haustið 1978 og birtist hún í 1. hefti Tímarits lögfræðinga, sem þá var undir ritstjórn Þór Vilhjálmssonar, prófessors og dómara. Þór hafði vakið máls á því í ritstjórnargrein, að enginn vissi þá, hvort vald eða ábyrgð starfsstjórna væri með einhverjum hætti annað en annarra ríkisstjórna.

Eftir að Geir H. Haarde baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt föstudaginn 18. maí og þar til ný stjórn hefur verið mynduð, situr fráfarandi ríkisstjórn Geirs sem starfsstjórn. Við smíði ritgerðar minnar beitti ég þeirri aðferð að rannsaka gerðir starfsstjórna í því skyni að leiða í ljós, hvort og hvernig þær væru frábrugðnar athöfnum skipaðra stjórna. Ég tók mið af stjórnarathöfnum frá stofnun lýðveldis 1944 og fram til starfsstjórnar Geirs Hallgrímssonar, sem sat frá 26. júní 1978 til 1. september 1978.

Í upphafi ritgerðar minnar sagði: „Ljóst er, að verulega þýðingu hefur, að sem gleggst sé, hvaða reglur gilda um starfsstjórnir. Þær sitja eðli málsins samkvæmt á umbrota- og breytingatímum á stjórnmálasviðinu. Gerðir þeirra geta verið þess eðlis, að þeim verði ekki breytt síðar. Starfsstjórn, sem nýtur ekki stuðnings meirihluta Alþingis, gæti til dæmis gripið til efnahagsráðstafana með bráðabirgðalögum og bundið hendur nýrrar stjórnar.

Ritgerðin er 32 blaðsíður og ætla ég ekki að rekja hana hér en ég leitaðist við að fara ofan í saumana á öllum stjórnarathöfnum í tíð starfsstjórna. Undir lokin segi ég:

 

„Niðurstaðan af því sem hér hefur verið rakið er í stuttu máli sú, að ekki verði á almennum grundvelli fordæma dregin lögfræðileg mörk milli umboðs starfsstjórnar og skipaðrar ríkisstjórnar. Menn eru þó sammála um, að einhver munur sé að þessu leyti.“

 

Þennan mun skýri ég með þessum orðum: „Störf starfsstjórna hafa takamarkast af óeiningu á Alþingi eins og sannast hefur við afgreiðslu fjárlaga, sem þær hafa lagt fram. Þingræðisreglan setu því starfsstjórnum valdmörkin.“

 

Þegar upp er staðið er auðvitað ljóst, að þingræðisreglan setur öllum ríkisstjórnum valdmörk, en hún er auðvitað þeim frekar fjötur um fót, sem ekki hefur öruggan meirihluta á alþingi, heldur en hinum, sem samið hefur um stuðning meirihlutans.

 

Þegar Ólafur Ragnar Grímsson tók við lausnarbeiðni Geir H. Haarde fól hann Geir, að veita starfsstjórn forystu, þar til ný stjórn hefði verið mynduð. Í dönsku stjórnarskránni er ákvæði um skyldu fráfarandi ríkisstjórnar til að sitja, þar til nýtt ráðuneyti hafi verið myndað, og einnig um að ráðherrar í starfsstjórn getið aðeins tekið sér fyrir hendur „hvað der er fornödent til embedsforretningernes uforstyrrede förelse“.

 

Í umræðum um stjórnarskrárbreytingar hér á landi hefur hlutverk starfsstjórna eða skylda ráðherra til setu í þeim aldrei verið á dagskrá. Niðurstaða mín er, að almennt ákvæði um valdmörk starfsstjórna hér á landi þjónaði engum tilgangi nema beinlínis væri ætlunin að þrengja hina víðtæku venju, sem skapast hefði.

 

Á grundvelli athugana minna og þeirrar niðurstöðu, sem ég hef hér lýst, er ótvírætt, að umboð okkar ráðherranna til embættisathafna breytist í raun ekki, þótt nú sitjum við sem ráðherrar í starfsstjórn.

 

Atburðarás.

 

Atburðarásin hefur verið hröð frá kjördegi. Ég ætla að stikla á stóru;

 

Mánudagur 14. maí.

 

Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman klukkan 18.00 og fögnuðu menn góðum úrslitum kosninganna fyrir flokkinn og veittu Geir H. Haarde óskorða umboð til að leiða viðræður um stjórnarmyndun fyrir flokkinn. Ekki var talið ólíklegt, að samstarf við framsóknarmenn gæti haldið áfram, þótt slík stjórn hefði aðeins eins þingmanns meirihluta.

 

Þegar ég kom út af þingflokksfundinum vildi fréttamaður sjónvarps fá viðbrögð við lausafréttum, sem fluttar voru af fréttastofunni, að útstrikanir í Reykjavík suður leiddu til þess, að ég félli niður um tvö sæti. Ég sagðist ekki hafa fengið neinar tölur um þetta.

 

Þriðjudagur 15. maí.

 

Ríkisstjórnin kom saman klukkan 09.30 og ræddu menn stöðuna að loknum kosningum. Fundurinn var stuttur enda voru viðræður um framtíð samstarfsins í höndum formanna flokkanna. Eftir fund ríkisstjórnarinnar sátum við ráðherrar Sjálfstæðisflokksins saman á fundi í um það bil klukkustund.

 

Þegar ég kom út af fundinum, vildi fréttamaður sjónvarps fá viðbrögð mín við fréttum sjónvarpsins um útstrikanir. Ég sagðist ekki vita neinar tölur og ekki geta tjáð mig um málið, þegar fréttamenn trítluðu á eftir mér niður stéttina fyrir framan Stjórnarráðshúsið.

 

Miðvikudagur 16. maí.

 

Í hádegisfréttum heyrði ég, að um 18% kjósenda Sjálfstæðisflokksins hefði strikað mig út í Reykjavík suður og ég hefði færst niður um eitt sæti. Af þessu tilefni sendi ég frá mér yfirlýsingu, þar sem ég hvatti menn til að staldra við og hugsa um inngrip auðmanna í stjórnmálin í krafti auglýsinga gegn einstökum frambjóðendum.

 

Síðdegis kom Ólafur Teitur Guðnason, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, til mín og tók við mig viðtal, sem birtist í blaðinu föstudaginn 18. maí.

 

Fimmtudagur 17. maí.

 

Síðdegis var sagt frá því, að Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, hefði hitt Geir H. Haarde og sagt, að framsóknarmenn vildu ekki halda stjórnarsamstarfinu áfram. Helsta ástæðan var sú, að farið hefði verið á bakvið þá, því að sjálfstæðismenn hefðu verið í viðræðum við Samfylkinguna, á meðan þeir létu eins og þeir vildu eiga samstarf við Framsóknarflokkinn.

 

Mér er ljúft að segja frá því, að einu samræðurnar, sem ég átti við annarra flokka menn frá ríkisstjórnarfundi fram til þess, að ég heyrði þessa tilkynningu, voru við framsóknarþingmenn í matsal þingmanna og tvo eða þrjá þingmenn Samfylkingarinnar í viðurvist þeirra.

 

Síðdegis hittust Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og að þeim fundi loknum lá ljóst fyrir, að Samfylking vildi ganga til meirihlutasamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn, án þess að forseti Íslands kannaði hug forystumanna flokkanna til annarra kosta. Þetta taldi Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, óeðlilegt, forsetinn ætti að ræða við formenn flokka. Í Kastljósi biðluðu þeir Steingrímur J. og Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, til Ingibjargar Sólrúnar. Hún sagði bónorðið of seint fram komið.

 

Föstudagur, 18. maí.

 

Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman klukkan 09.30 og gerði Geir H . Haarde honum grein fyrir gangi mála, kynnti mat sitt á því, hvers vegna Framsóknarmenn hefðu ákveðið að slíta samstarfinu, og lýsti ferli samskipta við Samfylkinguna.

Klukkan 11.00 gekk Geir H. Haarde á fund forseta Íslands og baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti. Forseti sá ekki ástæðu til að kanna hug forystumanna flokkanna, fól Geir umboð til að mynda meirihlutastjórn og ráðuneyti hans að starfa áfram sem starfsstjórn.

 

Síðdegis hófust viðræður formanna flokkanna í Ráðherrabústaðnum.

 

Viðtal birtist við mig í Viðskiptablaðinu.

 

Laugardagur, 19. maí.

 

Skýrt frá því, að formenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hafi fundað ásamt öðrum á Þingvöllum. Viðræðum miði vel.

 

Sunnudagur, 20. maí.

 

Viðræðum formanna flokkanna haldið áfram á Þingvöllum.

 

Þegar þessi atburðarás er skoðuð í ljósi kosningaúrslitanna, má auðveldlega færa fyrir því rök, að hún sé fyllilega eðlileg.

 

Framsóknarmenn eru að þrotum komnir, ekki vegna samstarfsins við okkur sjálfstæðismenn, heldur vegna innanmeina. Sókn þeirra inn á höfuðborgarsvæðið hefur misheppnast. Formannsskiptin leiddu ekki til þeirra breytinga, sem þeir væntu. Þótt Jón Sigurðsson legði sig fram af öllum mætti, dugðu kraftar hans ekki.

 

Steingrímur J. Sigfússon og vinstri/græn létu blekkjast af skoðanakönnunum og eftir kosningar hefur Steingrímur J. haldið illa á sínum spilum. Þótt hann hafi verið líf og sál flokksins, hljóta að vakna spurningar um framtíðarleiðsögn hans.

 

Aðför Jóhannesar Jónssonar kaupmanns og Hreins Loftssonar, stjórnarformanns Baugs, að mér er einstakt atvik í stjórnmálasögunni og sýnir, hve menn telja sig mikils megnuga í krafti auðs og verslunarumsvifa. Ef reynt er að setja stjórnmálamönnum afarkosti – hvað þá um keppinauta í viðskiptalífinu?

 

Álitsgjafar.

Ólafur Teitur Guðnason ræðir viðbrögð fjölmiðla við áskorun Jóhannesar í Viðskiptablaðinu  18. maí og segir meðal annars undir fyrirsögninni:

 

Þessir tuttugu og átta þúsund sem gleymdust.

 

„Þá að því sem sumir fjölmiðlar hafa nánast gert að aðalmáli í kjölfar kosninganna. Dögum saman hafa verið sagðar ótal fréttir af því að margir kjósendur hafi strikað yfir nafn Björns Bjarnasonar á laugardaginn var. Málið er auðvitað fréttnæmt enda mun vera einsdæmi að svo margir striki frambjóðanda út, eða liðlega 2.500 manns.

 

***

 

Þótt útstrikanir í þessum mæli eigi sér fá ef nokkur fordæmi er ekki ýkja langt síðan býsna margir kjósendur fóru á kjörstað beinlínis í þeim tilgangi að lýsa yfir óánægju með tiltekinn frambjóðanda. Í forsetakosningunum sumarið 2004 skilaði um það bil fimmtungur kjósenda auðu. Það er álíka hátt hlutfall og þeir kjósendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík-suður sem strikuðu Björn Bjarnason út. Andstaðan við forsetann var þó mun umfangsmeiri því liðlega tíu sinnum fleiri skiluðu auðu þar en strikuðu út Björn núna, eða um 28 þúsund manns. Það eru talsvert fleiri en allir kjósendur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í nýafstöðnum alþingiskosningum, svo að dæmi sé tekið.

 

***

 

Séu þeir taldir með sem kusu aðra frambjóðendur en sitjandi forseta varð niðurstaðan sú að tæplega 43 þúsund manns mættu á kjörstað til þess að gera annað en að kjósa forsetann. Það eru álíka margir og allir kjósendur Samfylkingarinnar í kosningunum núna að frátöldu næstminnsta kjördæminu, Norðausturkjördæmi.

 

***

 

Enginn sitjandi forseti hefur nokkru sinni fengið viðlíka útreið í kosningum.

 

***

 

Skyldi fjölmiðlum ekki hafa þótt þetta merkilegt, rétt eins og útstrikanirnar þykja merkilegar nú?

 

***

 

Ekki aldeilis.

 

***

 

Lögð var á það höfuðáhersla í fréttum Stöðvar 2 að auð atkvæði teldust ekki gild. Báðar sjónvarpsstöðvarnar kynntu úrslitin með þeim hætti að auðu atkvæðunum var sópað undir teppið og sagt að forsetinn hefði fengið 85,6% atkvæða. (Að teknu tilliti til auðu atkvæðanna fékk hann aðeins 67,5%.) Sama var uppi á teningnum í fréttum Útvarpsins.

 

***

 

Nær allir fjölmiðlar drógu markvisst fjöður yfir hinn ótrúlega fjölda auðra atkvæða og engin umræða fór af stað um hvort úrslitin hefðu einhver áhrif á stöðu forsetans.

 

***

 

Núna hneykslast sumir fjölmiðlamenn á því að Björn Bjarnason skuli halda því fram að auglýsingar Jóhannesar Jónssonar daginn fyrir kosningar, þar sem hann hvatti til þess að kjósendur strikuðu Björn út, hafi ráðið úrslitum um hvernig fór.

 

***

 

„Þegar kjósendur tala, þá er betra að svara með auðmýkt en hroka. Annars er eins og menn séu að segja að þeir séu bjánar,“ skrifar Egill Helgason á vef sinn í tilefni af viðbrögðum Björns og fer háðulegum orðum um þau.

 

***

 

Ólafur Ragnar Grímsson brást við úrslitum forsetakosninganna 2004, þar sem um 28 þúsund manns skiluðu auðu, með þessum hætti: „Á lokaspretti þessarar kosningabaráttu hafa áhrifaöfl í þessu þjóðfélagi og elsta og öflugasta blað landsins beitt sér á þann veg að hvetja fólk eindregið til þess að skila auðu.“

 

***

 

Í reynd höfðu kjósendur hvergi verið hvattir til þess að skila auðu. Enginn áróður var rekinn fyrir því, hvorki í Morgunblaðinu né annars staðar. Samt fullyrti þáverandi ritstjóri Fréttablaðsins, Gunnar Smári Egilsson, að sú væri raunin og sagði: „Morgunblaðið og forystumenn innan Sjálfstæðisflokksins hafa hvatt fólk til að mæta á kjörstað en skila auðu til að lýsa yfir andstöðu við Ólaf Ragnar.“ Og undir þetta tóku meðal annars þeir Össur Skarphéðinsson (í fréttum Stöðvar 2) og Steingrímur J. Sigfússon (í fréttum Sjónvarpsins).

 

***

 

Hvar voru álitsgjafarnir þá, sem núna finnst það skammarlegt að menn bendi á að opinberar hvatningar til kjósenda með heilsíðuauglýsingum daginn fyrir kosningar hafi líklega ráðið mestu um fjölda útstrikana? Ég man ekki til að þeir hafi hneykslast á sams konar viðbrögðum forsetans, ritstjórans og stjórnmálaforingjanna, og hvatt þessa menn til að hlusta fremur á vilja kjósenda í stað þess að gefa í skyn að þeir væru bjánar sem færu í blindni eftir áróðri Morgunblaðsins – sem enginn var!

 

***

 

Svo ímynda menn sér að eitt gangi yfir alla í fjölmiðlaumræðunni.“

 

Enginn þarf að undrast, að Egill Helgason kveinki sér undan því nú orðið að vera kallaður álitsgjafi. Vinnubrögð þeirra, sem undir heitið falla, eru þess eðlis.

 

Matthías Johannessen birti ljóðabálkinn Hrunadans í Morgunblaðinu  síðastliðið sumar. Þar yrkir hann meðal annars um álitsgjafa og segir:

Það er vegið að þeim sem vitja síns tíma með dug

eins og vandræðaskáld sem telur sjálfum sér borgið

en það er víst erfitt að komast á krassandi flug

í kastljósi frétta og venja sig sífellt við orgið

í álitsgjöfum sem hatast við annarra hug

og halda í gislingu þjóð sem ráfar um torgið

þar sem frelsið er iðkað og afskræmt eins og gengur

og enginn veðjar á frelsisgyðjuna lengur.

Þegar ég birti þennan ágæta texta Matthíasar hér á síðunni í nóvember sl. brást Egill Helgason ómaklega við í garð Matthíasar. Skil Egils milli auðmýktar og hroka eru á þann veg, að óvarlegt er að láta álit hans ráða afstöðu sinni.