Evruaðild - Guðnaráð - nýfrjálshyggja.
Yfirlit
Í ljósi vandræðagangsins innan Evrópusambandsins (ESB), eftir að Írar höfnuðu Lissabon-sáttmálanum, er sérkennilegt að fylgjast með ákafa þeirra hér á landi, sem telja þjóðinni einkum til heilla að gangast undir Brussel-veldið, helst strax á morgun, og afsala okkur efnahagsstjórn í hendur þess. Nú hefur Félag íslenskra stórkaupmanna kynnt bænaskrá í þessa veru með opnu bréfi til forsætisráðherra og utanríkisráðherra, sem birt er í heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu 12. júlí.
Stórkaupmenn vilja tafarlausan stöðugleika í gengismálum þjóðarinnar. Mikill meirihluti innan félags þeirra telur, að breytinga sé þörf á peningastefnu þjóðarinnar. Stjórn félagsins styður áskorun efnahagsnefndar stórkaupmanna til ríkisstjórnarinnar um að hafnar verði aðildarviðræður við ESB, enda virðist það eina raunhæfa leiðin til að taka upp evru sem gjaldmiðil á Íslandi.
Í opna bréfinu er tekið fram, að innan Félags íslenskra stórkaupmanna séu skiptar skoðanir um aðild að ESB, menn séu þó sammála um, að rétt sé að hefja könnunarviðræður til að kynnast valkostum við hugsanlega inngöngu. Mikill meirihluti stórkaupmanna vill innleiða evruna og því vill félag þeirra, að stjórnarskráin og lagaumhverfi „sé lagfært ef þörf er á, þannig að tæknilegar hindranir seinki ekki aðild að Evrópusambandinu meti meirihluti þjóðarinnar að sú leið sé íslensku þjóðinni fyrir bestu.“
Stórkaupmenn segja að með upptöku evru ættu lánskjör hér á landi að verða sambærileg við Evrópu og stjórn þeirra skorar á ríkisstjórnina að „gera ráðstafanir strax til að koma í veg fyrir enn alvarlegri samdrátt en þegar er orðinn.“
Ákall stórkaupmanna fellur ekki að stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum. Áður en ríkisstjórnin getur brugðist við því, þarf að semja nýjan stjórnarsáttmála, en forsætisráðherra hefur margítrekað, að hann hafi ekki hug á að breyta um stefnu í Evrópumálum. Sjálfstæðismenn efna til landsfundar á næsta ári og boðað hefur verið, að þar verði rætt um Evrópustefnu flokksins. Kjörtímabilið rennur út árið 2011. Yrði stjórnarskrá breytt, ríkisstjórn fengi umboð þings og þjóðar til ESB viðræðna og niðurstaða þeirra yrði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, þyrfti enn langan tíma til að laga ísenskt efnahagslíf að evru-kröfum.
Vissulega er rétt hjá stórkaupmönnum, að þessi ferð hefst með fyrsta skrefinu, sem stigið er. Á hinn bóginn ber opna bréfið með sér, að vandinn sé svo brýnn og krefjist svo skjótrar úrlausnar, að margra ára óvissuferð sé ekki rétta úrræðið.
Allt bendir nú til þess, að íhaldsmenn undir forystu Davids Camerons taki við stjórnartaumum í Bretlandi að loknum þingkosningum, sem verða í síðasta lagi árið 2010.
Í vikuritinu The Economist dagsettu 12. júlí er rætt um, hvaða áhrif stjórnarbreyting í Bretlandi muni hafa á afstöðu bresku ríkisstjórnarinnar til Evrópusambandsins og þróunar innan þess. The Economist hefur tekið þá afstöðu, að stjórnendur ESB eigi að hætta öllum breytingum í anda Lissabon-sáttmálans, eftir að Írar höfnuðu honum. Blaðið undrar sig á því, að valdamenn í Brussel láti eins og ekkert hafi í skorist og Írar muni bara greiða atkvæði aftur eða þeim verði „boðið“ í aðra deild innan ESB.
The Economist telur tvískipt ESB með Íra eina í annarri deild sé varla þess virði, að sú leið sé farin. Leiðin verði hins vegar ákjósanlegri að mati sambandsríkissinnanna í Brussel, ef breskir íhaldsmenn með Evrópuefa sinn mynda næstu ríkisstjórn í Bretlandi – þá yrði einnig samhljómur í málflutningi sambandsríkissinna, sem vilja ekki láta neinn trufla vegferðina að evrópsku sambandsríki, og Evrópuefamanna í Bretlandi, sem vilja losna undan Brusselvaldinu, án þess að slíta öll Evróputengsl, það er með einskonar EES-samningi.
The Economist segir, að næsta ríkisstjórn íhaldsmanna í Bretlandi verði með mestan fyrirvara allra breskra ríkisstjórna gagnvart Brusselvaldinu, frá því að Bretar gerðust aðilar að ESB árið 1973. David Cameron þurfi ekki að friða neina málsvara ESB innan flokksins, svo að ekki sé minnst á þingflokkinn, aðeins þrír þingmenn Íhaldsflokksins hafi greitt atkvæði með Lissabon-sáttmálanum á þingi, og þeir séu allir yfir sextugt.
Breskir íhaldsmenn muni stofna eigin þingflokk á Evrópuþinginu án nokkurra vandræða heima fyrir, 88% Breta mundu ekki nafnið á Evrópuþingmanni sínum í nýlegri skoðanakönnun. Hafi Lissabon-sáttmálinn verið settur til hliðar við valdatöku íhaldsmanna og ESB-ríki valið þann kost, að tína úr honum rúsínur, myndu Bretar setja enn fleiri fyrirvara við ESB-aðild sinni en þeir gerðu í samningum um sáttmálan. Hafi Lissabon-sáttmálinn ekki verið fullgiltur af ESB-ríkjunum 27 mundi David Cameron boða til þjóðaratkvæðagreiðslu og hvetja kjósendur til að hafna sáttmálanum. Bretar mundu þá hafna sáttmálanum og hann deyja drottni sínum.
Standi ríkisstjórn breskra íhaldsmanna frammi fyrir því, að Lissabon-sáttmálinn hafi verið fullgiltur, þegar hún tekur við völdum, telur The Economist að vandasamt verði fyrir Cameron að skapa sér það svigrúm gagnvart Brussel-valdinu, sem hann vill, en blaðið minnir á að Cameron og William Hague, skugga- utanríkisráðherra íhaldsmanna hafi sagt, að þeir myndu ekki „láta þar við sitja“. Líklegt sé, að þeir muni setja nýja fyrirvara af Breta hálfu.
Grein Charlemagne í The Economist lýkur með þessum orðum:
„Evrópa glímir nú við óstöðugleika, þar sem hvorki Bretar né aðrir þátttakendur þekkja styrk eða stöðu hver annars. Þess vegna er rólegt andrúmsloftið í Brussel meira en sjálfumgleði, það er stórundarlegt.“
Sé staðan svo stórfurðuleg hjá Brussel-valdinu eftir höfnun Íra, að minnir á afneitun, má segja enn undarlegra, að hér telji menn besta tímann nú til að taka upp viðræður við þetta sama vald um aðild Íslands að ESB. Satt að segja einkennist sú afstaða einnig á afneitun á vandræðunum innan Evrópusambandsins.
Í því felst leikaraskapur að segja annars vegar, að brýnasta ákvörðun við hagstjórn á Ísland sé að losna við krónuna, og leggja hins vegar til, að hafinn verði undirbúningur að aðild að ESB.
Íslendingar hafa valið þann kost, að tengjast ESB eftir tveimur meginleiðum: með EES-samningnum og Schengen-samkomulaginu. Hvernig væri að láta reyna á það á markvissan hátt, hvort unnt sé að setja þriðju stoðina undir þetta samstarf, það er um evruna? Engin lagarök eru gegn því, að það verði gert. Mun meiri pólitísk sátt yrði um þá leið en aðildarleiðina. Evruleiðin kann auk þess að hafa meiri hljómgrunn í Brussel en aðildarleiðin.
Þingflokkur framsóknarmanna kom saman föstudaginn 11. júlí og strax að honum loknum fór Guðni Ágústsson, flokksformaður, mikinn í fjölmiðlum og mátti ætla, að flokkurinn hefði komist að niðurstöðu um ný ráð við stjórn efnahagsmála. Þegar betur er að gáð, er megintillaga flokksins sú, að ríkið taki strax lán til að treysta bakland bankanna. Í Morgunblaðinu 12. júlí segir:
„Framsóknarflokkurinn kallar eftir því að ríkisstjórn og Seðlabanki komi fram með skýra áætlun um hvernig íslenskt þjóðfélag á að vinna sig í gegnum efnahagslægðina. „Seðlabankinn verður að auka gagnsæi ákvarðanatöku sinnar, m.a. með birtingu rökstuðnings fyrir vaxtaákvörðunum. Hafa ber í huga að Seðlabankinn er ekki aðeins bundinn verðbólgumarkmiði heldur einnig því að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi og framgangi efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar,“ segir í tillögum flokksins.
Guðni segir einnig afar mikilvægt að heimildir Alþingis til töku erlends láns verði nýtt sem allra fyrst. „Við trúðum því að það yrði gert strax og heimildin var veitt, en ekkert gerist. Það má velta fyrir sér, hvort stífni ríki á milli ríkisstjórnar og Seðlabanka um að taka lánið. Það er líka spurning hvort Evrópa veitir Íslendingum ekki lán á góðum kjörum. Þá þurfum við að hafa kjark til að líta víðar, því við eigum vini í fleiri heimsálfum, s.s. til Bandaríkjanna, Kína eða Rússlands.“
Guðni segir Framsóknarflokkinn hafa mikla reynslu í að leiða íslenskt hagkerfi á ögurstundu. Spurður hvort slík reynsla leynist ekki í Sjálfstæðisflokknum játar hann því. „En það er eins og samstarfið gangi ekki upp. Það er eins og Sjálfstæðisflokkurinn hafi dáið inn í Samfylkinguna og sé ábyrgðarlítill í efnahagsmálum við þessar aðstæður.““
Eins og af þessum texta sést leggja framsóknarmenn ekki neitt nýtt til málanna. Þeir ræða um upplýsingaskyldu seðlabankans. Varla verður breyting á aðferð bankans við að tilkynna ákvarðanir sínar til þess að gjörbreyta efnahagsástandinu? Framsóknarmenn vekja athygli á því, hvað seðlabankinn skuli hafa í huga við ákvarðanir sínar, að því felist nýmæli er af og frá.
Ríkisstjórnin sýndi þá fyrirhyggju undir lok þinghalds í maí að fá heimild til að taka erlent lán. Guðni Ágústsson vill taka lánið strax og veltir fyrir sér. hvar það skuli gert. Telur sig hafa meiri kjark til að leita að góðum lánveitanda en stjórnvöld.
Síðan telur hann Sjálfstæðisflokkinn hafa villst af leið, eftir að hann hætti samstarfi við Framsóknarflokkinn og hóf samvinnu við Samfylkinguna. Ráð Guðna sýna, að í raun ber ekkert efnislega á milli hans og ríkisstjórnarinnar. Hann telur, að framkvæmdin væri betri, ef hann sæti í ríkisstjórn – þó það nú væri!
Anna Björk Einarsdóttir, nemandi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, kveður sér að nýju hljóðs um náttúruvernd, virkjanir og nýfrjálshyggju í lesbók Morgunblaðsins 12. júlí. Þar heldur hún því fram, að orðræða forsvarsmanna Framtíðarlandsins einkennist af nýfrjálshyggju. Í fyrri lesbókagrein sinni um þetta efni hélt Anna Björk því fram, að Björk Guðmundsdóttir og Andri Snær Magnason aðhylltust nýfrjálshyggju. Ræddi ég þetta í pistli hér á síðunni. Af því tilefni segir Anna Björk í nýrri grein sinni:
„Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, birti á bloggsíðu sinni pistil þar sem hann fjallaði um þær tengingar sem ég gerði í grein minni „Ímyndin Ísland“ milli orðræðu umhverfisverndarsinna og nýfrjálshyggjumanna undir fyrirsögninni „Björk – nýfrjálshyggja – virkjanir“ (29.06.08). Í pistlinum ræðir Björn Bjarnarson „þriðju leiðina“ innan stjórnmála sem hann segir að vinstrimenn hafi tekið upp til þess að „ná eyrum kjósenda á árangursríkan hátt“ og tekur sem dæmi Tony Blair og stefnu Verkamannaflokksins í Bretlandi undir hans stjórn. Björn heldur því fram að þriðja leiðin sé í raun lítið annað en nýtt nafn yfir frjálshyggju sem Blair hafi tekið upp til þess að forðast það að „aðhyllast hreinræktaða jafnaðarstefnu eða sósíalisma“ enda hafi verið víst „að kjósendur myndu ekki kjósa slíkt yfir sig.“ Þessi tilhneiging vinstrimanna á síðustu áratugum til að taka upp stefnu frjálshyggjunnar og gera að sinni sé það sem stundum er kallað nýfrjálshyggja eða þriðja leiðin í stjórnmálum.
Þessi greining Björns á stefnu Blair og Verkamannaflokksins undanfarin ár er hárrétt. Þriðja leiðin í stjórnmálum hefur nefnilega falist í því að vinstrimenn hafa tekið upp orðræðu og hugmyndafræði frjálshyggjunnar og hafa stundum gengið svo hart fram í að framfylgja þeirri stefnu að mörgum hægrisinnuðum íhaldsmönnum þykir nóg um. Í íslensku samhengi nægir að nefna Samfylkinguna sem dæmi um flokk sem staðsetur sig á miðjunni í orði en fylgir frjálshyggjunni á borði. Ástæða þess að Samfylkingin hefur ekki megnað að veita stóriðjustefnu Sjálfstæðisflokksins viðnám í stjórnarsamstarfi þeirra er nefnilega sú að báðir flokkarnir aðhyllast gömlu góðu frjálshyggjuna og eins og ég benti á í greininni „Ímyndin Ísland“ þá samræmist stóriðjustefnan frjálshyggjunni vel. Opinberar framkvæmdir og stjórnun þurfa nefnilega ekki að fara gegn lögmálum frjálshyggjunnar eins Björn Bjarnason bendir í raun á þegar hann tekur Kína sem dæmi um land sem vegni vel vegna þess að það hafi „tileinka[ð] sér aðferðir og hugmyndir frjálshyggjunnar.“ Það þarf varla að minnast á það að á fáum stöðum í heiminum býr almenningur við jafn mikla kúgun af hálfu hins opinbera og í Kína um þessar mundir og því ljóst að þótt frjálshyggjunni sé beitt í efnahagslífinu fylgir henni ekki endilega, og raunar mjög sjaldan, frelsi og réttlæti líkt og frjálshyggjumenn vilja meina.“
Hér kemur Anna Björk með nýja skýringu á hugtakinu „nýfrjálshyggja“, það er að með því sé vísað til vinstrimanna, sem hafa tileinkað sér viðhorf frjálshyggjunnar í stað þess að aðhyllast sósíalisma. Með orðinu sé vísað til nýrra fylgismanna frjálshyggjunnar en ekki nýrrar frjálshyggjustefnu. Þessi niðurstaða er í góðu samræmi við þau orð Friðbjörns Orra Ketilssonar, sem vitnað er til í pistli mínum frá 29. júní, þar sem hann andmælir hugtakinu nýfrjálshyggju sem lýsingu á annarri stjórnmálastefnu en hinni klassísku frjálshyggju.
Þessi orðnotkun Önnu Bjarkar á einnig vel við, þegar hugað er að því að skilgreina, hvað felst í hugtakinu „neoconservatives“ í Bandaríkjunum. Hugtakið lýsir ekki nýrri stjórnmálastefnu heldur hópi bandarískra demókrata af gyðingaættum, sem sættu sig ekki við vinstrisinnaða utanríkisstefnu Demókrataflokksins eða forsetaframbjóðenda hans. Snerust þeir að lokum til fylgis við Ronald Reagan, forsetaframbjóðanda repúblíkana Áhrif þeirra hafa dvínað mjög í forsetatíð George W. Bush, gætir nú mikillar gagnrýni á þá og sundrungar meðal þeirra..