23.11.2008

Litið til ársins 2004.

Leitin að merkisárum og merkisviðburðum er eitt af því, sem getur verið gagnlegt til að átta sig á tímamótum, sem skipta máli. Af samtíðarviðburðum er ekki deilt um, að hrun Berlínarmúrsins 9. nóvember 1989 skipti miklu og sömu sögu er að segja um árásina á tvíburaturnana í New York og varnarmálaráðuneytið í Washington 11. september 2001. Enginn sá þessa atburði fyrir, en þeir hafa báðir skipt miklu um framvindu heimssögunnar.

Árið 2004 var á sinn hátt þáttaskilaár í stjórnskipunar- og stjórnmálasögu Íslands. Þá ákvað forseti Íslands í tvígang að bjóða ríkisstjórn byrginn.

Í viðtali við Fréttablaðið sunnudaginn 23. nóvember segir Guðjón Friðriksson, höfundur nýrrar bókar um Ólaf Ragnar Grímsson (feitletrun mín):

„Varðandi heimastjórnarafmælið [þ.e. 100 ára afmæli stjórnarráðsins 1. febrúar 2004 og þess að Hannes Hafstein varð fyrsti íslenski ráðherrann] kemur fram í máli Ólafs Ragnars í bókinni að hann fór gagngert utan vegna þess að honum líkaði ekki hvernig heimastjórnarhátíðin þróaðist. Honum fannst óþolandi að forseti Íslands ætti ekki að hafa hlutverk í henni, eins og í fyrri þjóðhátíðum, og þess vegna fór hann utan þegar afmælið var. Það má segja að hafi verið mótleikur í þessu stríði [við Davíð Oddsson], svokallaða. Meðan Ólafur var í útlöndum var haldinn þessi frægi ríkisráðsfundur án þess að forsetinn, oddviti ríkisráðs, væri látinn vita. Deilurnar um það voru málefnalegar. Að mínu viti á að láta forsetann vita af ríkisráðsfundi og kynna sér hvort hann getur komið. Það er ekki snúnara að fljúga frá útlöndum en frá Akureyri. Mér fannst málefnaleg rök á bakvið það.“

Ég segi frá ríkisráðsfundinum, sem Guðjón nefnir hér. Að sjálfsögðu var fullt tilefni til þessa fundar þennan dag, enda voru breytingar á reglugerð um stjórnarráðið staðfestar á fundinum í tilefni dagsins.

Í frásögn Guðjóns í Fréttblaðinu er þversögn, því að í upphafi segir, að það hafi verið staðföst ákvörðun Ólafs Ragnars að verða fjarverandi þennan hátíðisdag í stjórnskipunarsögunni, af því hann taldi sig ekki fá að skipa nægilega veglegan sess við hátíðina, og síðan er látið í veðri vaka, að hann hefði brotið odd af oflæti sínu, ef hann hefði vitað af ríkisráðsfundinum.

Þegar forseti dvelst erlendis, gegna handhafar forsetavalds störfum fyrir hann, og ákveði forseti að vera erlendis er það hans ákvörðun og aðrir sinna störfum í hans stað, svo var einfaldlega í þessu tilviki. Að tala um „fyrri þjóðhátíðir“ í þessu samhengi er mjög villandi, svo að ekki sé meira sagt. Hér var ekki um neina þjóðhátíð að ræða heldur stjórnskipunarlegt afmæli, sem minnst var á veglegan hátt, þótt forseti Íslands kysi að sýna tilefninu fálæti ef ekki beina óvild, ef marka má orð Guðjóns.

Síðara sögulega atvikið, sem gerðist árið 2004, snertir einnig Ólaf Ragnar. Er þar vísað til ákvörðunar hans um að synja því að staðfesta fjölmiðlalögin, það er að segja lög um dreift eignarhald á fjölmiðlum.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, segir í Morgunblaðinu föstudaginn 21. nóvember:

„Íslendingar eru að súpa seyðið af því, sem gerðist fyrir hálfu fimmta ári, vorið 2004. Davíð Oddssyni, sem þá var forsætisráðherra, var ljóst, að valdajafnvægið í landinu raskaðist, ef auðmenn réðu ekki aðeins fyrirtækjum sínum, heldur líka skoðanamyndun í landinu. Hann bar fram frumvarp, sem átti að tryggja dreift eignarhald fjölmiðla. Jón Ásgeir sigaði fjölmiðlum sínum á Davíð, og hófst ein harðasta orrusta, sem háð hefur verið í íslenskum stjórnmálum. Alþingi samþykkti þó frumvarp Davíðs. En þá gerðist það í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins, að forseti gekk gegn vilja þjóðkjörins þings og synjaði frumvarpi staðfestingar. Ólafur Ragnar Grímsson forseti hafði góð tengsl við Jón Ásgeir. Kosningastjóri hans í forsetakjöri 1996 var yfirmaður eins af fyrirtækjum Jóns Ásgeirs, og dóttir hans var í hálaunastarfi hjá Jóni Ásgeiri. Við svo búið var frumvarpið dregið til baka, og skömmu síðar vék Davíð úr stóli forsætisráðherra.

Jón Ásgeir og auðmæringar honum tengdir hrósuðu sigri. Eftir þetta töldu þeir sér alla vegi færa. Forseti Íslands var tíður farþegi í einkaþotum þeirra og dugleg klappstýra á samkomum þeirra erlendis. Þegar erlendir kunningjar forsetans skruppu til Íslands til að gera sér glaðan dag eftir fangelsisvist (eins og Martha Stewart), voru Jón Ásgeir og aðrir lendir menn að sjálfsögðu boðnir á Bessastaði. Vinsælir rithöfundar, Hallgrímur Helgason og Einar Kárason, gerðust kinnroðalaust hirðskáld auðmanna.“

Þessi lýsing Hannesar Hólmsteins endurspeglar þáttaskil, eftir að Ólafur Ragnar tók þá afdrifaríku ákvörðun að snúast gegn niðurstöðu alþingis. Sú kenning Ólafs Ragnars stenst ekki, að ákvörðunin hafi orðið án afleiðingar. Dæmi um það eru óteljandi og sjást enn þann dag í dag, þegar í sunnudagsblaði Morgunblaðsins birtist grein eftir Agnesi Bragadóttur um lánasviptingar tengdar Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, eiganda Fréttablaðsins, og í sunnudagsblaði Fréttablaðsins, sem prentað er síðar en Morgunblaðið á laugardögum, birtist athugasemd Jóns Ásgeirs við þessa grein Agnesar á leiðarasíðu blaðsins. Meira að segja Hallgrími Thorsteinssyni er nóg boðið og segir á vefsíðu sinni: „Leiðarasíða Fréttablaðsins í dag er ekki samboðin fjölmiðli sem vill láta taka sig alvarlega, og þarf að vera hægt að taka alvarlega - einmitt núna, þegar mest á reynir.“

Andrés Jónsson, sem heldur úti vefsíðu undir heitinu Orðið á götunni segir í tilefni af því, hvernig athugasemd Jóns Ásgeirs er birt:

Orðið á götunni er að það hafi sannast áþreifanlega á Fréttablaðinu í dag hve heppilegt það er fyrir auðmenn að eiga fjölmiðla.

Í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins er mikil úttekt á meintum óleyfilegum milljarðaviðskiptum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og viðskiptafélaga hans með lán frá Glitni til FL Group og skúffufyrirtækja. Morgunblaðið var ekki almennt komið til áskrifenda þegar lögmenn Jóns Ásgeirs höfðu sent frá sér yfirlýsingu þar sem upplýsingum í greininni var hafnað.

Það nægði ekki Jóni Ásgeiri að fá athugasemd sína birta á netinu og síðan í Mogganum á morgun eins og venjulegt fólk í sömu stöðu þyrfti að sætta sig við. Jón Ásgeir er eigandi Fréttablaðsins og fékk grein sína birta á leiðaraopnu sunnudagsútgáfunnar þótt þar hefði verið búið að ákveða birtingu annarrar greinar. Sú grein var einfaldlega tekin úr blaðinu og eigandanum fengið plássið fyrir málsvörn sína.

Orðið á götunni er að harla ólíklegt sé að úttekt Morgunblaðsins á viðskiptum Jóns Ásgeirs, sem Agnes Bragadóttir samdi, hefði verið birt ef til framkvæmda væri komin fyrirhuguð sameining útgáfufélaga Morgunblaðsins og Fréttablaðsins.“

Jón Ásgeir Jóhannesson undrar sig á því, að í Morgunblaðinu skuli birtast eitthvað um viðskipti hans, sem hann segir falla undir bankaleynd. Af því tilefni vil ég vitna til þess, sem ég sagði í ræðu á alþingi föstudaginn 21. nóvember, þegar ég flutti þar frumvarp til laga um sérstakan saksóknara vegna bankahrunsins. Þar sagði:

„[V]erkaskipting milli fjármálaeftirlits og lögreglu hefur bæði kosti og galla. Víst er að málsmeðferð fyrir stjórnsýslueftirlitsaðila getur verið skilvirkari og kostnaðarminni en fyrir refsivörsluaðilum. Hins vegar tel ég að menn verði að gæta þess að aðgangur almennings sé jafn opinn að þessum stjórnsýslumálum eins og í refsimálunum. Ég tel ekki ásættanlegt að þau mál, sem upp koma vegna bankakreppunnar, sem fjármálaeftirlitið rannsakar og lýkur innan sinna vébanda, séu sveipuð leyndarhjúp. Þau mál verða að vera á borðinu rétt eins og refsimál, verði um þau að ræða. Almenningur á kröfu á að vita ef lög voru brotin í aðdraganda hrunsins eða í kjölfar þess. Hugtök eins og þagnarskylda og bankaleynd eiga að heyra sögunni til þegar jafn mikilvægir hagsmunir eru í húfi og nú er.

Af orðum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar er ljóst, að hann leyfir ekki að fjölmiðlar í hans eigu segi fréttir af því, sem að hans mati fellur undir bankaleynd. Afstaðan gerir fjölmiðlana í raun marklausa við núverandi aðstæður.

Raunar er almennt ástæða til að undrast, að fjölmiðlamenn skuli ekki taka undir sjónarmið okkar, sem viljum að bankaleynd sé aflétt, svo að aðgangur að upplýsingum sé greiður og opinn. Kvartanir um skort á upplýsingum hafa verið háværar, en þær eru að sjálfsögðu ekki veittar, ef menn telja sig bundna af þagnarskyldu um það, sem upplýsa þarf.

Miðvikudaginn 19. nóvember sat ég undir gagnrýni frá fjölmiðlamanni í þættinum Ísland í dag á stöð 2 fyrir að segja honum ekki símanúmer hjá ráðherrum í Bretlandi! Ég benti honum á, að ráðherrar í Bretlandi væru með tíða blaðamannafundi og hæg heimatökin að spyrja þá á slíkum fundum.

Öll erum við sammála um, að þáttaskil hafi orðið í Íslandssögunni í byrjun október 2008, þegar fjármálakerfið hrundi. Rætur þess, að þetta kerfi var orðið svona stórt og brothætt, liggja dýpra og atburðir árið 2004 skipta þar miklu. Þetta er hins vegar sá hluti bankahrunsins, sem liggur utan við rannsóknir og athuganir endurskoðenda, fjármálasérfræðinga eða efnahagsbrotalögreglu og ákærenda. Hér er um að ræða mál, sem eðlilegt er að ræða á stjórnmálavettvangi og þegar þróun íslenskrar stjórnskipunar er greind og metin.