Tilboð Breta: Íslendingar heimili veiðar, samþykki Icesave og fái hraðferð í ESB.
Ingibjörg Sólrún lét undirbúa hraðferðina með leynd.
Greint hefur verið frá bréfi breska Evrópumálaráðherrans, þar sem segir, að gangi Íslendingar til samningaviðræðna við Evrópusambandið, sem ráðherrann vill, að Íslendingar geri, muni Bretar óska eftir rétti til veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu. Hið litla magn af karfa, sem nú er heimilt að veiða, fellur greinilega ekki að markmiðum breskra stjórnvalda, þegar hugað er að nýtingu íslensku 200 mílnanna, þau vilja fá meira í hlut breskra sjómanna.
Jafnframt hefur komið fram hjá sama ráðherra, að sætti Íslendingar sig við sjónarmið Breta í Icesave-deilunni, muni bresk stjórnvöld beita sér fyrir hraðferð Íslendinga inn í Evrópusambandið.
Þegar vitað er um áhuga Samfylkingarinnar og hið ákafa kosningamál hennar, að Ísland gangi tafarlaust til viðræðna við Evrópusambandið, vakna spurningar um tengsl þessara yfirlýsinga breskra stjórnvalda og viðræðna Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þáverandi utanríkisráðherra, og Össurar Skarphéðinssonar, núverandi utanríkisráðherra, við David Miliband, utanríkisráðherra Breta. Þessi samtöl hafa bæði verið opinber og á flokkslegum grunni, en Verkamannaflokkurinn og Samfylking eru virkir þátttakendur í evrópsku flokkasamstarfi jafnaðarmanna.
Síðustu daga kosningabaráttunnar hefur birst samblástur milli Samfylkingarinnar og sendiherra ESB gagnvart Íslandi, Percy Westerlund. Breski Verkamannaflokkurinn virðist einnig standa að þessum samblæstri um, að koma Íslandi í Evrópusambandið.
Í grein í Morgunblaðinu 23. apríl segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir frá því, að í hennar tíð sem utanríkisráðherra hafi verið „vandlega undirbúið að Ísland gæti sótt um aðild að ESB um leið og slík ákvörðun lægi fyrir. “ Þá segir í greininni:
„Sérstakar samráðsnefndir hagsmunaaðila um sjávarútveg, landbúnað og byggðamál hafa starfað á vegum ráðuneytisins undanfarin misseri, drög að samningsmarkmiðum hafa verið unnin og við höfum markvisst ræktað sambönd við vinveitta lykilaðila í helstu aðildarríkjum og í framkvæmdastjórninni í Brussel. Við höfum ekki efni á að sóa neinum tíma meir. Umsókn þyrfti að komast á borð ráðherraráðsins í júní. Svíar taka við forystu í sumar og Carl Bildt utanríkisráðherra gjörþekkir stöðuna hér sem við höfum margsinnis rætt persónulega. Hið sama á við um stækkunarstjórann og fiskveiðistjórann. Næsta ríkisstjórn á lag sem kemur ekki aftur í bráð og Ísland er vel undirbúið.“
Fyrir ráðherra, sem sat í þeirri ríkisstjórn, þar sem Ingibjörg Sólrún var utanríkisráðherra, er lýsing hennar á starfsháttum og starfsemi innan utanríkisráðuneytisins með miklum ólíkindum og aðeins til marks um, að þar hafi verið unnið á svig við stjórnarsáttmálann.
Í ljósi orða Ingibjargar Sólrúnar, kemur ekki á óvart, að Percy Westerlund tali í landstjóratóni til íslenskra stjórnmálamanna, sem hann veit, að vilja ræða um alla þætti samstarfs Íslands og Evrópusambandsins fyrir opnum tjöldum og skoða til hlítar gjaldmiðilssamstarf við sambandið án aðildar að því. Orð Ingibjargar Sólrúnar skýra kannski einnig óðagotið í Westerlund sl. haust, þegar hann sagði Íslendinga ætla að sækja um aðild að Evrópusambandinu fyrir síðustu áramót.
Ingibjörg Sólrún vildi alls ekki, að haldið yrði til haga lögfræðilegum fyrirvörum gagnvart Bretum og Evrópusambandinu vegna Icesave. Málið ætti að leysa á pólitískum grundvelli. Nú hefur breski Evrópumálaráðherrann, flokkssystir Ingibjargar Sólrúnar, kynnt hina pólitísku lausn: Íslendingar gefa kröfur sínar vegna Icesave eftir og við hjálpum Íslendingum að komast með hraðlest inn í Evrópusambandið. Breski ráðherrann telur víst, að með þessum orðum sé komið til móts við eindregin tilmæli íslenska utanríkisráðuneytisins, enda hafi Bretar fengið skilaboð um slíkt frá íslenska utanríkisráðherranum. Breski ráðherrann bætir því svo við í bréfinu til Austin Mitchell, þingmanns í Grimsby og efasemdarmanns um ESB, að nú skuli hann átta sig á gildi Evrópusambandsins, því að aðild Íslands að því opni Bretum að nýju rétt til veiða á Íslandsmiðum.
Vitneskja um viðhorf ofangreind viðhorf breskra stjórnvalda til Icesave og Evrópusambandsaðildar Íslands komu fram í samskiptum forsvarsmanna Indefence-hópsins svonefnda við Austin Mitchell. Indefence-hópurinn hefur mótmælt ákvörðun breskra stjórnvalda um að setja Íslendinga í hóp hryðjuverkamanna. Ólafur Elíasson, talsmaður hópsins, er sannfærður um, að Bretar hafi ákveðið að bjóða Íslendingum aðstoð við að fá aðild að Evrópusambandinu ekki síst til að lama íslensku utanríkisþjónustuna í kröfugerð sinni í Icesave-deilunni
Hér eru nánar raktar fréttir í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu um Indefence-hópinn og viðbrögð Breta:
Miðvikudaginn 22. apríl birtist forsíðufrétt í Fréttablaðinu undir þessari fyrirsögn: Bretar hjálpi Íslandi inn í ESB á mettíma. Undirfyrirsögnin var þessi:
„Fulltrúum Indefence-hópsins var tjáð að Bretar myndu liðka fyrir aðild Íslands að ESB þegar hópurinn fordæmdi beitingu hryðjuverkalaga. Reynt yrði að koma landinu inn á einu ári. Ríkisstjórnin þarf að koma sér saman um Evrópumál.“
Indefence-hópur er sá hópur manna, sem safnaði undirskriftum meðal Íslendinga á netinu til að mótmæla þeirri ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar að beita hryðjuverkalögum gegn Íslandi. Í forsíðufréttinni er vitnað í Ólaf Elíasson, fulltrúa hópsins, en hann sagðist hafa skilið breska þingnefnd og fulltrúa bresku ríkisstjórnarinnar á þann veg, að Bretar vildu bæta fyrir það tjón, sem þeir ollu Íslendingum, þegar þeir beittu þá hryðjuverkalögum í bankahruninu, með því að liðka fyrir ESB-aðild Íslands.
Í Fréttablaðinu var 23. apríl sagt frá efni bréfs, sem Caroline Flint, Evrópumálaráðherra Breta, hefði ritað Austin Mitchell, þingmanni Verkamannaflokksins í Grimsby og formanni Íslandsnefndar breska þingsins, en Mitchell sendi það áfram til Indefence-hópsins. Í bréfinu segir, að „aðgangur að fiskimiðum“ yrði meðal mála, sem rætt yrði um við Íslendinga, ef þeir óskuðu aðildar að Evrópusambandinu.
Í þessu sama tölublaði Fréttablaðsins er viðtal við Ólaf Elíasson. Hann segir, að þeim í Indefence virðist sem bresk stjórnvöld hafi fylgt þríþættri áætlun gagnvart Íslandi síðan Bretar beittu hryðjuverkalögum gegn Íslendingum í október:
Í fyrsta lagi hefðu breskir ráðamenn beitt sér af gríðarlegri hörku í breskum og alþjóðlegum fjölmiðlum til að sverta mannorð Íslendinga og réttlæta gerðir sínar.
Í öðru lagi hefðu breskir þingmenn verið iðnir við að gera lítið úr beitingu hryðjuverkalaganna, einkum með því að halda því fram að það hefðu ekki verið hin eiginlegu hryðjuverkalög sem beitt var heldur annarri grein þeirra sem sneri að „vörnum gegn fjármálaglæpum“.
Í þriðja lagi virtust Bretar hafa ákveðið að bjóða Íslendingum aðstoð við að fá aðild að Evrópusambandinu ekki síst til að lama íslensku utanríkisþjónustuna í kröfugerð sinni í Icesave-deilunni.
Fréttablaðið ber þetta undir Ian Whitting, sendiherra Breta á Íslandi. Segir blaðið hann staðfesta þetta að nokkru leyti með því að taka fram, að fyrst verði að finna lausn á tvíhliða deilu ríkjanna um Icesave. Að henni leystri og að því gefnu að íslensk stjórnvöld ákveði að sækja um aðild að Evrópusambandinu, yrði Bretland „eitt dyggasta stuðningsríki Íslands.“
Morgunblaðið segir einnig frá bréf Caroline Flint, Evrópumálaráðherra Breta, hinn 23. apríl. Þar kemur fram, að ráðherrann ritaði bréfið 19. mars 2009 og er það svar við fyrirspurn frá Austin Mitchell um fiskveiðitengsl Íslands og ESB.
Í frásögn Morgunblaðsins segir, að í bréfinu sé minnt á að Evrópusambandsríki geti fengið heimildir til veiða á nokkrum stofnum í íslenskri lögsögu. Bresk stjórnvöld myndu eindregið styðja umsókn Íslands að ESB, enda sé Ísland bæði gamall og náinn bandamaður Breta. Því næst sé vikið að nokkrum „útistandandi málefnum sem myndu krefjast lausnar í umsóknarferlinu.“
Einni málsgrein síðar segi, að nokkur málefnasvið séu fyrir hendi, sem líklegt sé að verði sýndur sérstakur áhugi [af hálfu Evrópusambandsins]. Aðgengi að fiskimiðum sé eitt af þessum sviðum, meðal annars vegna þeirrar staðreyndar að samkvæmt núgildandi tvíhliða samningum hafi Evrópusambandið aðeins heimild til að veiða lítið magn af karfa í íslenskri lögsögu.
Á móti sé bent á að flökkustofna karfa í Irmingerhafi megi einnig finna á nærliggjandi veiðisvæðum, þar með talið í íslenskri lögsögu. Einnig sé síld bæði innan lögsögu aðildarríkja Evrópusambandsins og í íslenskri lögsögu. Evrópusambandsríkin muni hugsanlega öðlast rétt til að veiða af þessum stofnum báðum í íslenskri lögsögu. Þá kunni Íslendingar að öðlast rétt til veiða af þessum sömu stofnum og telur Morgunblaðið, að með þessum orðum sé vísað til veiðiréttar í lögsögu Evrópusambandsríkja. Í bréfi ráðherrans er greint frá heimildum Íslendinga til veiða á makríl og úr flökkustofnum, sem kunni að lúta sömu reglum.
Caroline Flint kveðst hafa fullan skilning á mikilvægi fiskútflutnings fyrir Íslendinga, um leið og hún minnir á, að sem aðili að EES-svæðinu geti Íslendingar flutt út takmarkað magn fisks til Evrópusambandsins tollfrjálst. Með inngöngu Íslands í Evrópusambandið gæti sambandið fellt niður öll gjöld á íslenskan fisk sem fluttur er til ríkja sambandsins. Þetta séu gjöld sem Íslendingar hafi um árabil lagt áherslu á að hyrfu.
Efni bréfs Evrópumálaráðherrans er ótvírætt. Bresk stjórnvöld segja, að gangi Íslendingar til samningaviðræðna við Evrópusambandið, sem þau vilja, að Íslendingar geri, muni Bretar óska eftir rétti til veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu. Hið litla magn af karfa, sem nú er heimilt að veiða, fellur greinilega ekki að markmiðum breskra stjórnvalda, þegar hugað er að nýtingu íslensku 200 mílnanna, þau vilja fá meira í hlut breskra sjómanna.