Álitsgjafi í Brussel: Segið nei við Íslendinga.
Jean Quatremer hefur verið Evrópusérfræðingur franska blaðsins La Libération frá árinu 1990 og heldur þar að auki úti margverðlaunaðri og áhrifamikilli vefsíðu, Coulisses de Bruxelles, þar sem hann fjallar um Evrópusambandið (ESB). Hann er einn virtasti álitsgjafi um innri málefni Evrópusambandsins og er blogg hans lesið í höfuðstöðvum ESB í Brussel og í Evrópudeildum utanríkisráðuneyta um allan heim.
Í bloggi sínu 8. mars leggst hann eindregið gegn því að gengið sé til ESB-aðildarviðræðna við Ísland og hvetur til þess, að leiðtogaráð ESB-ríkja hafi ráð framkvæmdastjórnarinnar um viðræður við Ísland að engu. Quatremer telur Ísland einfaldlega ekki tilbúið til aðildar og ESB eigi ekki að taka skell vegna þess, þegar Íslendingar hafni aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Hann segir jafnaðarmenn eða Samfylkinguna hafa þröngvað aðildarumsókn upp á þing og þjóð. Evrópusambandið eigi að krefjast þess, að Íslendingar gangi til þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort þeir vilji ræða ESB-aðild við ESB. Quatremer tekur með öðrum orðum undir ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins fyrir ári um það, sem kallað var tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla, það er fyrst um hvort ganga eigi til aðildarviðræðna og síðan um niðurstöðu viðræðnanna.
Þess er skemmst að minnast, að ESB-aðildarsinnar hér á landi töldu þessa tillögu sjálfstæðismanna hina mestu fásinnu og var henni hafnað af alþingi, áður en samþykkt var 16. júlí 2009 að ganga til aðildarviðræðna. Við Íslendingar vitum, hvort sem menn aðhyllast aðild eða ekki, að þessar viðræður eru sóun á tíma, fjármunum og mannauði. Embættismannavélin í Brussel hefur hins vegar komist að þeirri niðurstöðu, að hún eigi draga Ísland inn í ESB. Nú hefur hinn óháði, virti álitsgjafi hvatt evrópska stjórnmálamenn til að hafa ráð framkvæmdastjórnarinnar að engu.
Hér á eftir fer lausleg þýðing á bloggi Jeans Quatremers frá 8. mars:
Hinn 8. mars skrifar hann um stækkun Evrópusambandsins og segir, að hafna eigi aðild Íslands að því. Fyrirsögnin er: Élargissement : l'Union doit dire non à l'Islande – Stækkun: sambandið á að segja nei við Ísland.
Í upphafi greinar sinnar segir Quatremer, að framkvæmdastjórn ESB hafi ekki dregið lærdóm af fjármála- og efnahagskrísunni. Það sjáist af ákvörðun hennar á dögunum um að gefa grænt ljós á aðildarviðræður sem fyrst við Ísland. Nú beri að vona, að leiðtogaráð Evrópusambandsríkjanna hafi kjark til að hafna ósk Íslendinga.
Málið snúist ekki um að refsa Íslendingum fyrir að hafa hafnað samningi við Breta og Hollendinga um endurgreiðslur vegna Icesave með 93,3% atkvæða. Íslendingar verði á einn eða annan hátt að borga, vilji þeir öðlast traust félaga sinna og einkum á fjármálarmörkuðunum. Málið snúist um annað: annars vegar verði ESB að hætta að hefja viðræður um aðild við ríki, sem sambandið viti fullvel, að séu ekki tilbúin til aðildar, hins vegar verði ESB að átta sig á því, að hvert nýtt aðildarríki dragi dilk á eftir sér, ekki aðeins fyrir umsækjandann heldur einnig þá, sem taki á móti honum. ESB verði að horfast í augu við þetta, áður en um frekari stækkun verði að ræða.
Quatremer segir, að sé litið til Íslands blasi við, að aðild verði felld í þjóðaratkvæðagreiðslu Íslendinga, slík atkvæðagreiðsla sé fyrirfram töpuð fyrir ESB, þetta sýni nýjustu skoðanakannanir. Ríkisstjórn jafnaðarmanna hafi þröngvað aðildarumsókn upp á þjóð og þing. ESB muni með öðrum orðum að öllum líkindum hljóta skell eftir ár eða svo, skell, sem túlkaður yrði sem ósigur fyrir aðilarríkin 27, þótt slík túlkun yrði einstaklega óréttlát. ESB eigi ekki að taka á sig þessa áhættu heldur sé Íslendinga að skýra afstöðu sína „en procédant à un référendum sur la perspective d'adhésion“ með þjóðaratkvæðagreiðslu um vilja sinn til aðildar. Framkvæmdastjórnin láti undir höfuð leggjast að taka tillit til almenningsálitsins á Íslandi í áliti sínu til leiðtogaráðsins. Engu sé líkara en hún telji, að tíminn muni breyta öllu til betri vegar. Hið sama hafi hún einmitt gert, þegar rætt var um aðild Búlgaríu og Rúmeníu (þar sem spillingin hafi lítið minnkað), Tyrklands eða Grikklands.
Quatremer ræðir síðan um aðild Grikklands. Enginn hafi þorað að andmæla því árið 1981, þegar Valéry Giscard d'Estaing, Frakklandsforseti, mælti með aðild Gríkkja, þjóð, sem varla hefði verið komin af miðaldastigi, Þangað hefði verið mokað peningum í tuttugu ár og enginn hefði heldur þorað að segja nei við upptöku Grikkja á evrunni 2001. Ekki sé endalaust unnt að sópa vandamálum undir teppið, eins og sjáist nú í grísku krísunni.
Verst sé, að þessi krísa verði svona seint vegna Grikklands. Hún sýni, að aðild sé ekki ókeypis, hún snerti ekki aðeins hið nýja aðildarríki heldur einnig öll aðildarríkin, sem séu ekki aðeins treg til að veita þessu ríki fjárhagslega aðstoð heldur lendi sjálf í vandræðum vegna falls þess. Á vettvangi ESB hafi þegar verið samþykkt að hjálpa Lettum, Ungverjum og Rúmenum. Geti ESB aukið stöðugleika í einu ríki, geti eitt ríki dregið úr stöðugleika ESB, þetta gjörbreyti viðhorfinu til stækkunar. Þeir, sem efist enn um, að þetta sé svona, ættu að átta sig á því, að ESB er langtum meira en svæði frjálsra viðskipta, þótt sambandið sé langt frá því að vera sambandsríki. Með öðrum orðum er óhjákvæmilegt fyrir ESB að huga að eigin stjórnarháttum, áður en það stækkar frekar, þetta eigi við gagnvart Íslandi, sem sé ákaflega brothætt, en einnig gagnvart Balkanlöndunum og þó einkum Tyrklandi.