8.5.2010

Ósannindi Jóhönnu um laun Más

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa haft uppi stór orð um nauðsyn þess, að farið sé að ábendingum í hrunskýrslunni. Þau hafa einnig hreykt sér af því að hafa skapað seðlabankanum nýjan og ábyrgðarmeiri starfsgrundvöll. Umræður um launamál Más Guðmundsson hafa leitt í ljós, að hyldýpi er á milli gjörða og orða Jóhönnu og Steingríms J., þegar kemur að því að opna stjórnsýsluna og upplýsa almenning um, hvað þar er að gerast.  Már Guðmundsson er milli steins og sleggju, hann skuldar þjóðinni einnig skýringar, vilji hann njóta trausts. Lára V. Júlíusdóttir, formaður bankaráðs seðlabanka, hefur fórnað trúverðugleika sínum og formaður þingflokks Samfylkingarinnar treystir henni ekki lengur. Hér verður þetta mál rakið. Það styrkir enn þá skoðun, sem hér hefur áður verið kynnt, að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur beri að segja af sér.

Morgunblaðið birti 3. maí forsíðufrétt um, að Lára V. Júlíusdóttir, hrl. og formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, hefði lagt fram tillögu í bankaráðinu um, að laun Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, skyldu hækka um rúmar 400 þúsund krónur umfram það, sem kjararáð ákvað í febrúar 2010, þegar það, í samræmi við lög frá ágúst 2009, lækkaði laun 22 ríkisforstjóra.

Í meðförum alþingis sumarið 2009 var skotið inn í frumvarpið um kjararáð og launalækkunina sérákvæði um seðlabankastjóra. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sem ber stjórnskipulega ábyrgð á störfum kjararáðs og flutti frumvarpið sumarið 2009, sagði eftir ríkisstjórnarfund þriðjudaginn 4. maí, að breytingartillagan vegna seðlabankastjórans hefði komið frá forsætisráðuneytinu. Seðlabankinn heyrði undir það á þessum tíma.

Það var á grundvelli seðlabankastjóraglufunnar í lögunum um kjör ríkisforstjóra, sem Lára V. Júlíusdóttir flutti tillöguna um, að bankaráðið hækkaði laun Más Guðmundssonar. Lára sagði í samtali við Morgunblaðið, að ráðningarmál Más hefðu verið á döfinni á sama tíma og frumvarpið um kjaradóm var til meðferðar á alþingi „var farið yfir það hvort gera mætti ráð fyrir að þau kjör kæmu til með að skerðast, en honum var þá lofað að hann gæti treyst því, að þessi kjör [launakjör seðlabankastjóra á þeim tíma, þegar hann var ráðinn] giltu áfram,“ sagði Lára við Morgunblaðið 3. maí.

Hér fer ekkert á milli mála: Má Guðmundssyni var við ráðningu í embætti seðlabankastjóra lofað sömu launakjörum og Norðmaðurinn á seðlabankastjórastóli naut. Til að þetta gengi fram, þrátt fyrir að alþingi gæfi kjararáði fyrirmæli um að lækka laun ríkisforstjóra, beitti forsætisráðuneytið sér fyrir því, að frumvarpi fjármálaráðherra um kjararáð yrði breytt til að efna mætti loforðið við Má.

Efnahags- og skattanefnd alþingis fjallaði um frumvarp fjármálaráðherra um kjararáð Í áliti nefndarinnar (sjálfstæðismenn og framsóknarmenn rituðu ekki undir álitið) sagði:

„ Við umfjöllun nefndarinnar gerði kjararáð athugasemd við 6. gr. frumvarpsins og tók fram að ráðið ákvarðaði ekki biðlaun og eftirlaun fyrir embættismenn. Nefndin leggur því til að ákvæði b-liðar 28. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, verði breytt þannig að starfskjör seðlabankastjóra fari almennt eftir lögum um kjararáð með þeim fyrirvara að ákvörðun um biðlaun, eftirlaun og önnur atriði sem varða fjárhagslega hagsmuni hans verði í höndum bankaráðs bankans. Bankaráðið mun áfram ákveða laun og önnur starfskjör aðstoðarseðlabankastjóra og fulltrúa í peningastefnunefnd.“

Orðin, sem ég hef feitletrað, er sú heimild, sem vísað er til í tillögu Láru V. Júlíusdóttur um 400 þús. kr. launahækkun fyrir Má Guðmundsson. Ég hef ekki orðið var við, að Helgi Hjörvar hafi verið spurður að því, hvers vegna og fyrir áeggjan hvers hann beitti sér fyrir því að bæta þessu ákvæði inn í frumvarp Steingríms J. fjármálaráðherra. Helgi hefur ekki heldur stigið fram ótilkvaddur til að upplýsa þennan mikilvæga þátt málsins. Án breytingartillögu nefndarinnar undir formennsku Helga hefði Lára aldrei getað flutt tillögu sína um launahækkunina fyrir Má.

Eftir að Morgunblaðið birti frétt sína, varð nokkurt uppnám. Ógjörningur reyndist að fá uppgefið, hver hefði lofað Má Guðmundssyni þessum kjörum. Sjálfur sagði hann í Kastljósi 3. maí, að málið snerist um, hvort lækka ætti laun sín eða ekki. Viðmælandi hans hafði svo lítil tök á viðfangsefninu, að samtal þeirra Más varð með því furðulega, sem birst hefur í sjónvarpi. Er raunar með ólíkindum, að sjónvarpið skuli ekki geta gert betur, þegar jafnstórt mál er á ferðinni.

Jóhanna Sigurðardóttir lét ekki ná í sig en Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði hana um launamál Más, þegar þing kom saman fimmtudaginn 6. maí eftir kjördæmadaga. Í þingræðu sagði Sigurður Kári:

„Samkvæmt heimildum sem fjölmiðlar hafa aflað sér mun loforðið um launahækkunina til seðlabankastjórans hafa verið gefið í forsætisráðuneytinu. Hæstv. forsætisráðherra hefur reyndar verið á harðahlaupum undan þessu máli og virðist ætla að reyna að koma því yfir á einhverja aðra. En engum dylst að tilraunir hennar eigin fulltrúa í bankaráðinu til að hækka laun seðlabankastjóra eru lagðar fram á ábyrgð forsætisráðherra.

Nú vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra eftirfarandi spurninga og fer fram á skýr svör við þeim:

1. Hvenær var þetta loforð gefið? Hver gaf loforðið og hver hafði frumkvæði að því að það var gefið? Í umboði hvers var loforðið gefið og hverjir höfðu vitneskju um það?

2. Ég bið hæstv. forsætisráðherra að upplýsa líka um eftirfarandi: Hafði formaður bankaráðs Seðlabankans samráð við hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra áður en þessi tillaga var lögð fram í bankaráðinu?“

Jóhanna svaraði:

„Svarið við síðustu spurningunni er nei, það var ekki haft samráð við forsætisráðherra eða fjármálaráðherra um þetta mál. Ég hef gefið alveg skýr svör í þessu máli. Það hafa engin loforð eða fyrirheit verið gefin enda ekki á mínu færi að gefa slík loforð. Laun seðlabankastjóra fara eftir lögum og ákvæðum um Seðlabankann og ekki síst niðurstöðu kjararáðs. Ég sé ekki eftir niðurstöðu kjararáðs að það sé eitthvert svigrúm til þess að beita ákvæðum sem eru í seðlabankalögunum í þessu efni til að hækka launin.

Það er tvennt sem liggur fyrir: Að seðlabankastjóri sjálfur hefur sagt að hann mundi ekki taka við slíkri launahækkun þó að hún væri í boði og að formaður bankaráðs hefur sagt að líklega verði niðurstaðan sú að þessi hugmynd og tillagan sem liggur fyrir bankaráðinu verði dregin til baka. Það hafa engar ákvarðanir verið teknar í forsætisráðuneytinu enda ekki á færi þess né ráðherra um að gefa slík loforð. Það fer eftir lögum um Seðlabanka og niðurstöðu kjararáðs. Niðurstaða kjararáðs liggur fyrir og ég sé ekki annað en að í það stefni að eftir henni verði farið vegna þess að auðvitað á að fara eftir niðurstöðu kjararáðs í þessu efni.“

Þetta svar Jóhönnu er í besta falli kattarþvottur, líklegra er, að hún segi þingheimi ekki sannleikann í málinu. Hún þori það ekki, þar sem fréttin um tillöguna um launahækkun Más vakti bæði hneykslun og reiði. Þarna segir hún, að „í það stefni“ í launamálum Más, að fara eigi eftir niðurstöðu kjararáðs; „auðvitað“ eigi að gera það! Þetta segir sama Jóhanna, sem beitti sér fyrir því sumarið 2009 að sögn Steingríms J., að frumvarpi hans um kjararáð yrði breytt, svo að ekki þyrfti að fara að ákvæðum um kjararáð, þegar laun Más yrðu ákveðin.  Jóhanna segir, að það hafi ekki verið á sínu „færi“ að gefa Má loforð um launamál, samt beitti hún sér fyrir lagabreytingu, svo að laun Más þyrftu ekki að fara eftir niðurstöðu kjaradóms. Þá taldi Jóhanna, að hún kæmist upp það, sem hún vildi í þágu nýs seðlabankastjóra, úr því að þau Steingrímur J. hefðu bolað Davíð úr seðlabankanum.

Í Morgunblaðinu 7. maí birtist frétt með ummælum Ragnars Árnasonar, prófessors, sem situr í bankaráði seðlabankans þar segir:

„Formaður bankaráðs Seðlabankans [Lára V. Júlíusdóttir] sagði ráðinu að tillaga um hækkun launa seðlabankastjóra umfram það sem kjararáð ákvað væri lögð fram að höfðu samráði við forsætisráðuneytið og ætti rætur að rekja til viðræðna við Má Guðmundsson seðlabankastjóra áður eða um það leyti sem hann var ráðinn til starfa af forsætisráðherra. Þetta segir Ragnar Árnason, fulltrúi í bankaráði Seðlabanka Íslands. Jóhanna Sigurðardóttir sagði á Alþingi í gær að hún hefði aldrei gefið neitt loforð um launakjör seðlabankastjóra.

Ragnar segir að Lára V. Júlíusdóttir, formaður bankaráðsins, hafi lagt tillöguna um launahækkun seðlabankastjóra fram fyrir þremur fundum. Hún hefði þá upplýst að hún hefði einnig rætt málið við Gylfa Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra. »Sú staðreynd að málið hefur verið til umræðu á þremur fundum sýnir tregðu fulltrúa í bankaráðinu til að fallast á þessa tillögu og ég og að minnsta kosti einn annar fulltrúi höfum frá upphafi lýst andstöðu okkar við þetta mál,« segir Ragnar.“

Í þingræðu við upphaf fundar föstudaginn 7. maí sagði Sigurður Kári Kristjánsson:

„Í viðtali við Morgunblaðið í dag upplýsir Ragnar Árnason, fulltrúi í bankaráði Seðlabankans, að formaður bankaráðsins hefði sagt ráðinu að tillaga um launahækkun seðlabankastjóra hefði verið lögð fram að höfðu samráði við forsætisráðuneytið og hún hefði einnig rætt málið við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra.

Virðulegi forseti. Það virðist blasa við að í þessu máli hafi blekkingum verið beitt á æðstu stöðum og því miður hafi verið sagt ósatt um staðreyndir þess. Annaðhvort hefur formaður bankaráðsins beitt bankaráðið blekkingum þegar tillagan var lögð fram, hún sjálf verið beitt blekkingum eða hæstv. forsætisráðherra hefur ekki sagt þinginu sannleikann um aðkomu forsætisráðuneytisins að þeim loforðum sem gefin voru. Hvort tveggja er auðvitað grafalvarlegt. Sé það rétt að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki komið hreint fram gagnvart þinginu og ekki sagt sannleikann í gær um aðkomu sína eða ráðuneytisins að launahækkunum seðlabankastjóra þarf ráðherrann augljóslega að íhuga stöðu sína.

Það stendur ekki síður upp á samstarfsflokkinn í ríkisstjórn, Vinstri græna, sem ber ábyrgð á hæstv. forsætisráðherra, að gera það upp við sig hvort hann styðji  þessi vinnubrögð, ætli að bera ábyrgð á þeim og hvort hæstv. forsætisráðherra njóti enn þá trausts í ljósi þess sem fram hefur komið.“

Hér skal minnt á, að sé eitthvert eitt atriði, sem leiðir til trúnaðarbrests milli ráðherra og þings og þar með falls ráðherra, er það, að hann segi þingmönnum ósatt. Við blasir í þessu máli, að önnur hvor segir ósatt Jóhanna Sigurðardóttir eða Lára V. Júlíusdóttir. ­Böndin  berast að Jóhönnu. Lára átti ekki hlut að ráðningu Más.

Fréttablaðið birti viðtal við Láru 7. maí. Af upphafi þess verður ekki annað ráðið, en Lára hafi fengið fyrirmæli úr forsætisráðuneytinu um að flytja tillögu um hækkun launa Más. Hún kaus að tjá sig ekki um, hver gaf Má fyrirheit um að hann fengi sömu laun og forveri hans. Þótt þjóðin kynni að eiga heimtingu á að vita, hver hefði gefið Má þetta fyrirheit, taldi Lára, að vitneskja um það ætti ekki að koma frá sér. Björn Þór Sigbjörnsson, blaðamaður, spurði Láru, hver hefði borið Láru boðin um að borga Má hærri laun, úr því að Jóhanna hefði hvað eftir annað neitað því, að Má hefði verið gefið eitthvert fyrirheit. Hvernig ætti að skilja málið í því ljósi. Lára svaraði:

„Ég kýs að skilja það þannig að ekki sé vilji til að fylgja þeim fyrirheitum eftir í ljósi ástandsins.“

Þessi orð styðja þá skoðun, að Jóhanna hafi einfaldlega skipt um skoðun í málinu af hræðslu við almenningsálitið og ákveðið að skilja Láru eftir eina með launamál Más í fanginu. Björn Þór vék að þessu undir lok samtalsins við Láru, þegar hann spurði: Hvernig meturðu þína stöðu eftir þetta mál og samband þitt við forsætisráðherra sem valdi þig til formennsku í bankaráðinu? Lára svaraði:

„Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Jóhönnu Sigurðardóttur, ég var aðstoðarmaður hennar um tíma, og mér þykir hún afar skelegg og staðföst. Ég lít á þetta eins og hverja aðra uppákomu í samskiptum tveggja einstaklinga sem eru að vinna vinnuna sína. Hvað mig áhrærir kemst ég auðveldlega yfir þetta.“

Þetta svar verður ekki skilið á annan veg enn þann, að Lára líti á það „eins og hverja aðra uppákomu“ í samskiptum sínum við Jóhönnu, að Jóhanna geri Láru að blóraböggli með ósannindum. Það er því ekki að ástæðulausu, þegar spurt er, hvers vegna Lára kjósi að hylma yfir með Jóhönnu.  Hvort það sé virkilega svo, að í krafti aðdáunar sinnar á Jóhönnu hafi hún ákveðið að taka skellinn á sig. Björn Þór skynjar þetta eins og síðasta spurning hans bar með sér: Í ljósi þess að fyrirheitið var gefið og málið virðist hafa verið undirbúið um nokkurt skeið lítur út fyrir að þú sért skilin eftir á köldum klaka. Finnst þér það allt í lagi?

Lára svaraði:

„Ég lít ekki svo á að ég hafi verið skilin eftir á köldum klaka, og barma mér ekki. Í lögmennskunni er ég vön því að taka því sem að höndum ber. Sum mál vinnast, önnur ekki. En svona er lífið, allir takast þar á við miserfið verkefni. Stundum gengur vel og stundum ekki. Það vill bara þannig til að þetta mál er á allra vörum. Ég geri ráð fyrir að við komumst í gegnum þennan skafl eins og aðra.“

Lára gerir minna úr þessu máli en efni standa til með því að bera það saman við hvert annað viðfangsefni á sviði lögmennskunnar. Hún hefði átt að hlusta á erindi Eiríks Jónssonar, lektors við lagadeild Háskóla Íslands, um nauðsyn þess fyrir lögfræðinga að líta í eigin barm í ljósi hrunskýrslunnar. Hvort það sé í raun svo, að lögmenn hafi menntað sig og öðlast sérstök réttindi í samfélaginu til þess síðan, að setja kíkinn fyrir blinda augað, þegar mál eins og þau, sem hér um ræðir, koma til kasta þeirra. Formennska í bankaráði seðlanbankans er alls ekki venjulegt viðfangsefni lögmanns. Lára er ekki bundin af trúnaði við Jóhönnu, umbjóðanda sinn, eins og um málflutning fyrir dómi væri að ræða. Lára er gæslumaður almannahagsmuna í bankaráðinu og henni ber að haga sér í samræmi við það. Skyldur hennar felast ekki í því að koma Jóhönnu Sigurðardóttur í gegnum einhvern „skafl“.

Sé það pólitísk hollusta við Jóhönnu og trúnaður við Samfylkinguna, sem ræður afstöðu Láru, er ljóst, að innan Samfylkingarinnar er framganga hennar ekki mikils metin af öllum. Áhrifamaðurinn Mörður Árnason vill, að Lára fari úr bankaráðinu.

Í þingræðu sama dag og viðtalið við Láru birtist í Fréttablaðinu lét Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, einnig að því liggja, að Lára ætti að hypja sig á brott úr seðlabankanum. Lára hefði rofið trúnað. Lára skuldað Jóhönnu og þeim í Samfylkingunni skýringu á orðum sínum og skýringu á því, að hún færi undan í flæmingi, þegar spurt væri: Hvað veldur? Hver bað? Þetta þyrfti að skýra. Þórunn sagði, að sér líkaði ekki, að flokksmaður hennar [Lára] dylgjaði um formann Samfylkingarinnar, forsætisráðherra, og annað sem orðið hefði í samskiptum þeirra. Þórunn sagðist vita, að hér væri djúpt í árinni tekið hjá sér, en málið væri líka grafalvarlegt, vegna þess að stjórnmálaflokkarnir skipuðu trúnaðarmenn sína til starfa í bankaráði seðlabankans og það þyrfti að ríkja þar trúnaður á milli manna.

Þegar þetta er skrifað, hefur Lára ekki viljað segja neitt vegna orða Þórunnar. Hitt er ljóst, að skilaboð af þessu tagi til fulltrúa þingflokks frá formanni þingflokks verða ekki skilin á annan veg en þann, að annað hvort geri fulltrúinn það, sem fyrir hann er lagt, eða segi af sér. Er í raun óskiljanlegt, hvers vegna Lára kýs að þegja um, hver gaf henni fyrirmælin um að fylgja eftir þeim ákvörðunum, sem teknar voru að fyrirlagi forsætisráðherra sumarið 2009, þegar stjórnarliðar, úr Samfylkingu og VG ásamt fulltrúa Borgarahreyfingarinnar, fluttu tillögu um glufu til launahækkunar í bankaráði seðlabanka fyrir Má Guðmundsson. Skyldi Þórunn Sveinbjarnardóttir hafa óskað eftir því við Helga Hjörvar, formann efnahags- og skattanefndar, að hann gerði hreint fyrir sínum dyrum?

Hér skal því haldið fram, að Jóhanna Sigurðardóttir þoli ekki, að sannleikurinn sé sagður í þessu máli, hvorki pólitískt né persónulega. Fingraför hennar eru svo greinileg frá upphafi, að hvert barn ætti að sjá hlut hennar, þótt hún neiti staðfastlega hlutdeild. Þetta gerir hún í sömu andrá og hún situr við enda ríkisstjórnarborðsins með Steingrími J. og segir kampakát eftir handtöku á bankamönnum, að afar mikilvægt sé, að þeir, sem hafi komið að hruni, axli ábyrgð. Auðvitað sé stór liður í því, að unnt sé að ná sátt samfélaginu, að þeir axli ábyrgð sem hana beri.

Jóhanna neitar að axla ábyrgð á tillögunni um launahækkun fyrir Má. Hún neitar þessu sama tíma og hún lætur eins og hún ætli að taka mark á tillögum nefndar undir formennsku Gunnars Helga Kristinssonar, prófessors, um, að nauðsynlegt sé að lögfesta með skýrari hætti upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra. Skyldi Jóhanna líta þannig á, að sannleiksskylda hennar komi ekki til sögunnar, fyrr en hún hefur flutt nýtt lagafrumvarp um hana?

Þegar forsætisráðherra verður uppvís að hræsni og ósannindum, ber honum að víkja.