Jóhanna er guðmóðir flokks Guðmundar Steingrímssonar
Þegar Ásmundur Einar Daðason, þingmaður í norðvestur-kjördæmi, hafði sagt sig úr þingflokki vinstri-grænna og gengið til liðs við Framsóknarflokkinn sá Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknarflokksins í norðvestur-kjördæmi, sína sæng uppreidda. Engar líkur stæðu til þess að hann næði kjöri í sama kjördæmi í þingkosningum sem verða fyrr en síðar.
Þá hefur Guðmundur skipað sér nær ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur en aðrir framsóknarmenn ásamt Siv Friðleifsdóttur. Þau áttu samleið í hjásetu við afgreiðslu Icesave-laganna og eru samstiga í jákvæðri afstöðu til ESB-aðildar.
Á sínum tíma var Guðmundur aðstoðarmaður Dags B. Eggertssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, þegar hann gegndi embætti borgarstjóra í Reykjavík. Í síðustu borgarstjórnarkosningum þurrkaðist Framsóknarflokkurinn út í borgarstjórn. Skömmu eftir að fréttir bárust af úrsögn Guðmundar tilkynnti Einar Skúlason sem skipaði efsta sæti flokksins í borgarstjórnarkosningunum að sér þætti Framsóknarflokkurinn hafa breyst svo mikið að hann ætti ekki lengur samleið með honum!
Andstaða Framsóknarflokksins hefur skerpst gegn ESB-aðild, ný stefna í málinu var mótuð á flokksþingi 9. apríl 2011. Nýlega ritaði Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, grein á evrópsku vefsíðuna EUobserver og lýsti þáttaskilum í afstöðu flokksins til ESB auk þess sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, skrifaði nýlega grein í Morgunblaðið þar sem hann hvatti til þess að ESB-aðildarumsóknin yrði lögð til hliðar og aðildarviðræðum hætt.
Í ræðu á fundi flokksstjórnar Samfylkingarinnar 29. maí höfðaði Jóhanna Sigurðardóttir til ESB-aðildarsinna . Hún sagðist fús til að leggja niður Samfylkinguna og stofna nýjan flokk:
„Samfylkingin á að standa öllum þessum hópum opin og við eigum að vera reiðubúin að ganga til móts við þá sem vilja stíga skrefið til fulls og leggja þessum mikilvægu málefnum lið í samstarfi við okkur.
Breytt skipulag, nýtt nafn, ný forysta eða annað á ekki að standa í vegi fyrir því að þessi mikilvægu málefni fái kröftugan framgang og jafnaðarmenn í öllum flokkum geti sameinast á öflugum flokksvettvangi. Í þessum efnum má ekki standa á okkur í Samfylkingunni.“
Innan Samfylkingarinnar stækkar hópur fólks sem sættir sig æ verr við stjórnarsamstarfið við vinstri-græna. Magnús Orri Schram alþingismaður er í þeim hópi og hann birti 22. ágúst grein í Fréttablaðinu til að viðra óánægju sína. Hann segir meðal annars
„Samfylkingin er í raun eini valkostur þeirra sem hafna stefnu einangrunar en vilja byggja upp fjölbreytt atvinnulíf í alþjóðlegum tengslum, og losa heimilin undan oki verðtryggingar og hárra vaxta. Samfylkingin ber því ríka ábyrgð sem valkostur frjálslyndra kjósenda á miðju íslenskra stjórnmála.“
Með þessu orðum stígur Magnús Orri skref frá Jóhönnu og Össuri Skarphéðinsson sem rembast við ESB-staurinn með vinstri-grænum á meðan ekkert gerist í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar.
Guðmundur Steingrímsson talar eins og ESB-aðildarsinni sem er laus undan oki Samfylkingar í bandalagi við vinstri græna.
Það verður erfitt fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur að standa gegn hreyfingu undir merkjum ESB-aðildar sem stillir sér upp á móti ríkisstjórn hennar vegna samstarfsins við vinstri-græna.
Dagur B. Eggertsson sér að hann nær hvorki að hrófla við Jóhönnu né sigra Össur Skarphéðinsson í formannskjöri innan Samfylkingarinnar hrökklist Jóhanna úr formennskunni um leið og grafið er undan ríkisstjórninni. Hann kann því að veðja á nýtt stjórnmálaafl með Guðmundi Steingrímssyni, Magnúsi Orra, Einari Skúlasyni og þeim sem eiga eftir koma fram næstu sólarhringa vegna athyglinnar sem beinist að ákvörðun Guðmundar Steingrímssonar.
Guðmundur hefur greinilega öflugt spunalið í fylgd með sér eins og sést af því að daginn áður en hann ætlaði að tilkynna afsögn sína úr Framsóknarflokknum ýtir undirbúningur hans undir afsögnina fréttum af falli Muammars Gaddafis í Líbíu til hliðar í ljósvakamiðlum. Enginn leki af þessu tagi er tilviljun. Þá var einnig haldið þannig á málum með beinni útsendingu í kvöldfréttum RÚV að tryggt væri að afsögnin kæmi samflokksmönnum Guðmundar og samþingmönnum hans í Framsóknarflokknum í opna skjöldu.
Jóhanna Sigurðardóttir er guðmóðir hins nýja flokks sem Guðmundur Steingrímsson ætlar að stofna. Hann er að framkvæma hugmyndina sem hún kynnti í ræðu sinni 29. maí. Frá þeim tíma hefur stöðugt sigið meira á ógæfuhliðina fyrir ríkisstjórnina og höfuðmál Samfylkingarinnar, ESB-aðildarmálið. Efnislega er ekki unnt að velja vitlausari tíma en þann sem Guðmundur Steingrímsson velur til að hefja stjórnmálabaráttu á Íslandi undir merkjum ESB-aðildar. Þótt látið sé eins og það sé „málið“ er hitt sönnu nær að með skrefi sínu er Guðmundur að búa í haginn fyrir upplausn innan Samfylkingarinnar. Hann er að skapa nýjan kost fyrir þá innan hennar sem vilja ekki starfa með vinstri-grænum. Jóhanna Sigurðardóttir ætlaði einmitt að ögra samstarfsflokki sínum með ræðunni 29. maí.