Samfylkingin veitir Huang Nubo þjónustu
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sem ákvað 25. nóvember að veita Kínverjanum Huang Nubo ekki heimild til að kaupa Grímsstaði á Fjöllum sagði í hádegisfréttum RÚV sunnudaginn 4. desember:
„Ég á svolítið erfitt með að átta mig á því hvað verið er að tala um þegar sagt er að leiðbeina eigi í gegnum íslenskt lagaumhverfi. Að sjálfsögðu þarf að fara að íslenskum lögum og anda laganna.“
Ráðherrann vísar þarna til þess sem Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra boðaði í fréttum RÚV laugardaginn 3. desember þegar hún sagði að embættismenn á hennar vegum hefðu verið í sambandi við Huang Nubo og ætlan sín væri að þeir leiðbeindu honum „í gegnum íslenskt lagaumhverfi“ svo að hann gæti fjárfest hér á landi í ferðaþjónustu.
Ögmundur lýsti undrun á ummælum Katrínar og benti á að ætlaði Huang Nubo sér að leigja Grímsstaði á Fjöllum gildu um það skýr lög. Leigusamningurinn mætti ekki vera lengri en til þriggja ára eða hann væri uppsegjanlegur með minna en árs fyrirvara. Að öðrum kosti þyrfti undanþágu frá innanríkisráðuneytinu.
Þá sagði Ögmundur:
„ Og við verðum náttúrulega að gæta okkur á því að fara ekki að leiðbeina mönnum framhjá íslenskum lögum eins og því miður virðist hafa verið gert í Magma málinu hér fyrir nokkrum misserum þar sem einstaklingur utan hins evrópska efnahagssvæðis lagði sig ofan í sænska skúffu, bjó til skúffufyrirtæki og komst þannig yfir auðlindir á Reykjanesinu. Ég er ekki með neinar getgátur um að menn ætli að fara þessar leiðir en ég vara náttúrulega við slíku.“
Vinstri grænir lutu í lægra haldi í Magma-málinu innan ríkisstjórnarinnar án þess að það hefði áhrif á samstarf þeirra við Samfylkinguna í ríkisstjórn. Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og öðrum forystumönnum er þetta ljóst en þeir hafa allir lýst áhuga á því að Huang Nubo láti að sér kveða í íslensku atvinnulífi.
Margir samfylkingarmenn í trúnaðarstöðum eru nánir vinir Huang Nubos, þeirra á meðal er Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri í Þingeyjarsveit, sem sagði í grein í Fréttblaðinu 29. nóvember sl.:
„Umræðan um minn gamla kæra vin Huang Nubo hefur verið með þeim hætti að ég get ekki orða bundist. Fjöldi fólks hefur rægt hann og ætlað honum illar hvatir án þess að þekkja nokkuð til hans eða hafa fyrir því hin minnstu rök. Ég sé mig því knúinn til að andmæla íslenskum mannorðsmorðingjum. Huang er einstaklega ljúfur og traustur einstaklingur, kraftmikill og skemmtilegur. Um það getum við sem höfum kynnst honum náið staðfest. Ég ræddi við Huang góða stund um áform hans þegar ég hitti hann í haust. Hann var mjög spenntur fyrir verkefninu en sagðist jafnframt ekki nenna að standa í neinu orðaskaki við stjórnvöld á Íslandi ef hann væri ekki velkominn til landsins.
Rétt er að geta þess að Huang litli, eins og ég kallaði hann í skóla, er í engri fýlu og eflaust tilbúinn að standa við áform sín ef stjórnvöld sýna til þess einhvern vilja."
Af lokaorðunum má ráða að Tryggvi hefur rætt við Huang eftir að Ögmundur neitaði honum um undanþáguna. Að segja Huang í „engri fýlu“ kemur illa heim og saman við það sem kínverskir fjölmiðlar höfðu eftir honum á fyrsta sólarhringnum eftir að honum barst fréttin um neitun Ögmundar. Huang fór mikinn í samtölum við þessa fjölmiðla, hann var ekki aðeins fúll í garð Íslendinga heldur allan hinn vestræna heim sem hann sakaði um tvöfeldni og rangindi í garð Kínverja.
Tryggva og öðru samfylkingarfólki úr vinahópi kínverska auðmannsins hefur greinilega tekist að sleikja úr Huang fýluna og nú ætlar Katrín Júlíusdóttir að sjá til þess að hann verði leiddur á leiðarenda svo að hann nái áformum sínum. Fullyrða má að einsdæmi sé að íslenskur ráðherra gangi fram með þessum hætti gagnvart erlendum fjárfesti.
Á sínum tíma sameinaði stuðningur við Baugsmenn Samfylkinguna. Allir vita hvernig það fór allt saman. Þá varð Evrópusambandið og evran til þess að sameina Samfylkinguna. Allir sjá hvernig það er allt að fara. Nú er það hins vegar Huang Nubo sem er sameiningartákn Samfylkingarinnar. Þeim er ljúft að nota hann til að berja á Ögmundi Jónassyni og vinstri grænum.
Það er helsta helgarskemmtun innan ráðherraliðs Samfylkingarinnar að ögra vinstri grænum. Sunnudaginn 27. nóvember toppaði Jóhanna skemmtunina með árásum á Jón Bjarnason eftir að hún hafði fjargviðrast út í Ögmund. Nú tekur Katrín Júlíusdóttir sig til og leggur flokkssystkinum sínum til skemmtiefnið.
Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar, lætur vel af þessari framgöngu forystumanna flokks síns og segir í bloggi á dv.is sunnudaginn 4. desember:
„Stjórnarandstæðingur í þinginu sem oft á góða spretti kvartaði undan þessu [að athygli hefði beinst frá árásum Jóhönnu á Ögmund á árásir hennar á Jón Bjarnason] á mánudag. Rökin voru efnislega þessi: Alltaf þegar þið lendið í almennilegum skandal, þá komið þið með annan skandal ofan í þann fyrri sem gerir það að verkum að við þurfum að velja hvorn við setjum í forgang. Það dreifir athyglinni hjá okkur og minnkar slagkraftinn í okkar viðbrögðum! Athyglisvert viðhorf og aldrei að vita nema þessi taktík endi í handbókum um pólitíska herfræðilist– tveggja bombu kenningin – sem við gætum líka kallað öfuga smjörklípu. Stjórnarandstaða við þessar aðstæður veslast upp því hún fær enga athygli frá stjórnarmeirihlutanum sem er of upptekin við æsispennandi atburðarás í sínum eigin röðum.“
Af því að samfylkingarfólk getur aldrei unnt Davíð Oddssyni neins býr Skúli Helgason til eitthvað sem hann kallar „öfuga smjörklípu“. Davíð Oddsson lýsti smjörklípunni í sjónvarpsviðtali við Evu Maríu Jónsdóttur 3. september 2006 og sagði: „Þegar kötturinn hennar ömmu var grimmur og úrillur og vildi ráðast á fugla og veiða mýs, klíndi hún smjörklípu á rófu hans. Þá fór kötturinn að sleikja klípuna, og amma fékk frið.“
Síðan þetta var sagt hafa menn notað orðið „smjörklípu“ um það þegar einhverju er kastað fram til að leiða athyglina frá öðru. Með því að tala um „öfuga smjörklípu“ er Skúli Helgason að draga athygli frá því að Jóhanna Sigurðardóttir beitti einmitt smjörklípuaðferðinni.
Jóhönnu var bent á að hún ætti ekki að beina sérstakri athygli að neitun Ögmundar gagnvart Huang Nubo. Samfylkingin væri með plan B og það kynni að spilla framkvæmd þess ef þrengt yrði um of að Ögmundi. Þá greip Jóhanna til þess ráðs að veitast að Jóni Bjarnasyni með þeim fráleitu rökum að hann hefði kynnt ömurlegar hugmyndir í vinnuskjali nefndar um fiskveiðistjórnun. Síðar breytti Jóhanna um árásarefni og sagði Jón vinna alltof hægt að endurskoðun fiskveiðistjórnunarlaganna. Við svo búið tók Steingrímur J. að sér að losa Jóhönnu við Jón úr ríkisstjórninni.
Þegar umræðurnar um Jón og stöðu hans voru orðnar óþægilegar fyrir Jóhönnu og ríkisstjórnina var því lekið að það stæðí kannski fyrir dyrum að reka Árna Pál Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, úr ríkisstjórninni. Það yrði auðveldara að losna við tvo í staðinn fyrir einn eins og þegar Ragna Árnadóttir var rekin í september 2010 af því að Jóhanna vildi losna við Gylfa Magnússon.
Enn skal lýst undrun yfir því að enginn fjölmiðill brjóti til mergjar tengsl Samfylkingarinnar við Huang Nubo. Í erlendum fjölmiðlum efast sérfróðir menn ekki um tengsl Huangs Nubos við kínversk stjórnvöld og þar er litið á fjárfestingarbrölt hans hér á landi sem lið Kínverja í því að koma ár sinni fyrir borð til að styrkja stöðu sína á norðurslóðum.
Einn þátturinn í þessari viðleitni er að sjálfsögðu að eiga greiðan aðgang að valda- og áhrifamönnum í viðkomandi landi. Enginn þarf lengur að efast um að Huang Nubo á greiðan aðgang að forystumönnum Samfylkingarinnar. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur lýst ánægju með áform hans, sérstakur fulltrúi utanríkisráðuneytisins fór með Huang um landið til að kanna hvar hann ætti helst að láta að sér kveða. Ragnar Baldursson, starfsmaður sendiráðs Íslands í Kína, lét ekki við það eitt sitja heldur gekk með Huang á norðurpólinn. Kristín Árnadóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, núverandi sendiherra Íslands í Kína, tók þátt í blaðamannafundi með Huang Nubo í Peking í byrjun september til að staðfesta ánægju utanríkisráðuneytisins með kaup Huangs á Grímsstöðum á Fjöllum. Þann blaðamannafund sat Lúðvík Bergvinsson lögfræðilegur ráðunautur Huangs, fyrrverandi formaður þingflokks Samfylkingarinnar. Hér að ofan er viðmóti Tryggva Harðarsonar, sveitarstjóra í Þingeyjarsveit, lýst.
Þegar til þessa er litið og þess þrýstings sem beitt hefur verið á vettvangi ríkisstjórnarinnar til að skapa jákvæða afstöðu til Huangs Nubos, til dæmis með minnisblaði frá Árna Páli Árnasyni dags. 9. nóvember, er ekki að undra þótt Ögmundur Jónasson verði hugsi þegar hann heyrir Katrínu Júlíusdóttur lýsa áformum sínum með Huang Nubo.
Kínverjar ætla að láta reyna á það til þrautar hve langt þeir komast innan íslenska stjórnkerfisins að tilstuðlan Samfylkingarinnar. Þeir telja sig eiga hauk í horni að Bessastöðum þar sem Ólafur Ragnar situr en hann réðst á Evrópusambandsríki og Bandaríkin í þágu Kínverja og Indverja í fyrstu viku september sl. þegar honum þótti fjölmiðlar á Bretlandi ýta um of undir tortryggni í garð Huangs.
Nýjustu sviptingar í samskiptum Samfylkingarinnar við Huang sýna að að hálfu Kínverjans hefur snúist um annað en að eignast Grímsstaði á Fjöllum. Kjarni þess er að kanna hve langt Samfylkingin er tilbúin að ganga til að þóknast þeim sem gæta kínverskra hagsmuna.