Dagbók: desember 2015

Fimmtudagur 31. 12. 15 - 31.12.2015 16:00

Spurningunni um hvort Ólafur Ragnar Grímsson gefur kost á sér áfram sem forseti Íslands verður kannski svarað á morgun. Það eru því síðustu forvöð að velta málinu fyrir sér án þess að vita hvað hann segir. Ég geri það í pistli hér á síðunni í dag.

Ég þakka lesendum síðunnar samfylgdina á árinu 2015.

Miðvikudagur 30. 12. 15 - 30.12.2015 14:30

Fréttablaðið tilnefnir menn ársins af ýmsu tilefni. Í dag birtist mynd á forsíðu blaðsins af Kristínu Þorsteinsdóttir aðalritstjóra með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra og Bjarna Benediktssyni efnahags- og fjármálaráðherra þar sem hún afhendir þeim blóm fyrir að hafa gert viðskipti ársins með samningi við kröfuhafa föllnu bankanna og búa þannig í haginn fyrir afnám fjárhagshaftanna sem hafa gilt í sjö ár.

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, bregst illa við viðurkenningunni sem í tilnefningunni felst og enn verr við forsíðumyndinni sem hún kallar af smekkvísi „mellumynd“ sjá hér. Myndin sýni „fjölmiðil koma sér í mjúkinn hjá valdhöfum“ sem aftur njóti „góðs af hinni jákvæðu birtingarmynd þeirra framan við vörumerki mikilsráðandi fjölmiðils“. Þá segir Ólína:

„Myndin er óþægileg fyrir unnendur frjálsrar fjölmiðlunar og opinnar umræðu. Hún vekur óþægilegar minningar frá aðdraganda Hrunsins þegar lofgjörðir um „sterka“ (hægri sinnaða) stjórnmálamenn og útrásarvíkinga fylltu forsíður blaða og tímarita.[…]

Í því ljósi er þessi mynd eitt það óþægilegasta sem ég hef séð lengi. Hún er hvorki hlutlaus né upplýsandi. Hún er áróður þar sem saman tvinnast hagsmunir valdhafanna og fjölmiðilsins. Samtrygging.“

Þetta er merkileg yfirlýsing frá þingmanni Samfylkingarinnar. Í aðdraganda hrunsins var enginn stjórnmálaflokkur hallari undir eigendur Fréttablaðsins en einmitt Samfylkingin. Eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, forystumaður Samfylkingarinnar, flutti ræðu snemma árs 2003 í Borgarnesi þar sem hún myndaði bandalag með leynilegum eigendum Fréttablaðsins sameinuðust eigendur blaðsins og flokkurinn um tilraun til að bola Sjálfstæðisflokknum undir forystu Davíðs Oddssonar frá landstjórninni í þingkosningum vorið 2003.

Þá var boðskapurinn að sjálfstæðismenn siguðu lögreglunni á athafnamanninn Jón Ásgeir Jóhannesson og aðra Baugsliða. Sjálfstæðismenn sýndu þar með atvinnulífinu óvild. Þegar hæstiréttur felldi dóm í Baugsmálinu í júní 2008 sendi Ingibjörg Sólrún, þá orðin utanríkisráðherra í stjórn með sjálfstæðismönnum, frá sér yfirlýsingu sem sýndi að hún var enn á sömu bylgjulengd og Baugsmenn.

Sjálf Ólína Þorvarðardóttir sagði 7. júní 2008 í tilefni af dóminum: „Eftir því sem þetta mál [Baugsmálið] hefur staðið lengur, og því meira sem hefur verið um það fjallað, þeim mun frekar hef ég hallast á að fjármunum og tímanum, sem fóru í rekstur þess, hefði verið betur varið í annað.“

Hneykslun Ólínu Þorvarðardóttur nú ber ef til vill að skoða sem síðbúna yfirbót. Það er þó óvarlegt. Miklu nær væri að kenna hana við illkvitni eða öfund, hún breytir engu um stefnu og störf Samfylkingarinnar í aðdraganda hrunsins.

Þriðjudagur 29. 12. 15 - 29.12.2015 16:20

Þegar á sínum tíma var haldið af stað við endurskoðun á útlendingalögunum og skipuð nefnd með fulltrúum allra stjórnmálaflokkanna sem Óttarr Proppé, þingmaður, nú formaður Bjartrar framtíðar, leiddi var látið í veðri vaka að litið yrði til Norðmanna sem fyrirmyndar.

Síðan er mikið vatn til sjávar runnið og umræður um útlendingamál hafa tekið stakkaskiptum í nágrannalöndum okkar þótt annað sé uppi á teningnum á alþingi eins og sannaðist þegar fjallað var þar um málefni tveggja albanskra fjölskyldna sem vísað hafði verið úr landi, lögum samkvæmt.

Í dag berast fréttir frá Noregi um að Sylvi Listhaug, ráðherra innflytjendamála úr Framfaraflokknum, vilji tryggja að norsk útlendingalög geymi ströngustu skilyrði fyrir hælisleitendur sem fyrirfinnist í allri Evrópu. Hefur hún lagt fram 18 tillögur sem hafa að geyma 40 atriði til að herða á útlendingalögunum í því skyni að fæla hælisleitendur frá að leita til Noregs. Spár eru um að á árinu 2016 kunni 10.000 til 100.000 farand- og flóttamenn að leggja leið sína til Noregs.

Meðal þess sem felst í tillögunum er að norskir landamæraverðir geti sent alla hælisleitendur sem koma frá öðrum Norðurlöndum til baka við landamærin enda hafi verið gripið til þess ráðs í Svíþjóð. Einnig á að herða reglur um fjölskyldusameiningu, hún komi ekki til sögunnar fyrr en eftir að sá sem dvelst í Noregi hafi unnið þar eða stundað nám í fjögur ár auk þess að hafa þar heimild til búsetu. Rétt til búsetu eiga menn að geta öðlast eftir fimm ára dvöl í Noregi í stað þriggja ára nú.

Þá verður skilgreining á hugtakinu flóttamaður þrengd sem leiðir til þess að færri öðlast rétt til lífeyris og félagslegra bóta. Heimilt er að hafna umsókn um hæli ef sterk rök varðandi takmörkun á fjölda innflytjenda mæla með því. Þetta kemur meðal annars til álita leggi hælisleitandi ekki sitt af mörkum til að upplýsa hver hann er.

Frá því var greint á dögunum að fyrir lægi frumvarp í innanríkisráðuneytinu reist á tillögum hinnar þverpólitísku nefndar. Þingmenn sem sátu í nefndinni hafa kallað eftir að fá málið til afgreiðslu á þingi. Í ljósi þess hve þingmenn sem helst láta sig þessi mál varða eru víðsfjarri þeim varfærnislegu stjórnmálastraumum sem einkenna nú umræður um útlendingamál í nágrannalöndunum er ástæða til að hvetja til varúðar á pólitískum vettvangi hér.

 

Mánudagur 28. 12. 15 - 28.12.2015 16:20

Uppnám varð á spjallsíðu sem Píratar halda úti, Pírataspjallinu, vegna orða sem Smári McCarthy lét falla þar sunnudaginn 27. desember og  „kvartaði yfir tröllaskap, persónuárásum og fávitalegum umræðum“ svo að vitnað sé í pistil hans á stundin.is í dag, 28. desember. Smári kynnir sig sem áhugamann „um tækni, pólitík og samfélagið allt“. Hann býr í Sarajevo í Bosníu-Herzegóvínu og rannsakar skipulagða glæpastarfsemi og spillingu á heimsvísu. Hann var meðal stofnenda Pírata á sínum tíma. Hann er formaður European Pirate Party, kjörinn á fyrsta ráðsfundi flokksins í júlí 2015.

Í pistlinum sem Smári birtir í dag segir hann „pólitískt ægivald“ yfir íslenskum fjölmiðlum „skammarlegt“ og gæði fjölmiðlunar „út í hött“, flestir fjölmiðlar virðist „sáttir við að láta frá sér hvaða rætnu drullu sem er“. Um alþingismenn segir hann: „Það er með ólíkindum að hægt hafi verið að finna svona mikið af fólki sem getur talað viðstöðulaust með rassgatinu.“

Ég hef ekki skoðað Pírataspjallið en þegar þeir tala á þennan veg um menn og málefni sem verður nóg boðið vegna þess sem sagt er á þeirri spjallsíðu má gera sér í hugarlund talsmátann þar.

Smári telur að umvandanir hans 27. desember hafi orðið til þess að umræðan á Pírataspjallinu „hafi smollið í nýjan farveg. […] Þjóðarsálin fékk smá valíum og allir eru hressir. Gott mál. Í bili,“ segir hann nú en bætir við um hættuna sem við blasi:

„Það mun koma sá tími þar sem enginn hreinlega man hvernig á að færa rök fyrir máli sínu, vera kurteis og gagnrýninn, og jafnvel stafsetja einföldustu orð. Kommentakerfið étur okkur öll lifandi.

Okkur er illt í þjóðarsálinni og heiftin stjórnar okkur. Þessi heift gefur fávitalegri umræðu forgang, heimilar aumkunarverða blaðamennsku, og leyfir valdhöfum að komast upp með að vera siðlaus mannvond fífl. Þessi reiði varpar skugga á allt sem við gerum. Ísland hefur ekki efni á hamingju.

Við verðum að breyta umræðuhefðinni.“

Er það leiðin að kurteislegum umræðum og breytingum á umræðuhefðinni að segja umræðuna „fávitalega“, blaðamenn „aumkunarverða“ og valdhafa „siðlaus mannvond fífl“?

Sunnudagur 27. 12. 15 - 27.12.2015 16:00

Muna nokkrir lesendur síðu minnar eftir hrakspánum um örlög bókaútgáfu í landinu síðsumars og haustið 2014? Válegar fréttir reistar á þessum spám settu sterkan svip á fréttir og umræðuþætti ríkisútvarpsins. Hvert var tilefnið? Að hækka ætti lægra þrep virðisaukaskatts, þar á meðal á bækur.

Í tilefni af fyrirhugaðri hækkun skattsins var 21. ágúst 2014 rætt við Egil Örn Jóhannsson í morgunútvarpi rásar 2. Hann vildi að enginn virðisaukaskattur yrði á bókum og í frétt um viðtalið sagði á ruv.is:

„Egill segir að jafnvel lítil hækkun á bókaverði geti haft veruleg áhrif á íslenskan bókamarkað.

„Á viðkvæmum markaði eins og íslenski bókamarkaðurinn er — við erum á örmarkaði — þá þyrfti ekki nema brot af þessu, til þess að valda verulegum vandræðum í íslenskri bókaútgáfu. Ég trúi ekki öðru en að ráðherrar séu meðvitaðir um þetta,“ segir Egill.“

Niðurstaðan á alþingi var að hækka lægra þrep virðisaukaskattsins úr 7% í 11% og þar með vöruverð um 3,7%.

Fréttastofa ríkisútvarpsins ræddi við sama Egil Örn Jóhannsson 18. nóvember 2015 í tilefni af útkomu Bókatíðinda 2015 sem sýna að árið 2015 koma út fleiri bækur (654) en á árinu 2014 (637). Í frétt á ruv.is er þessi spurning lögð fyrir Egil:

Nú hækkaði virðisaukaskattur á bækur á milli ára, hefði ekki þróunin átt að vera öfug?

Egill Örn svarar:

„Jú það kemur mér einmitt ánægjulega á óvart að sjá að þróunin er þveröfug við það sem kannski mátti búast við í kjölfar virðisaukaskattshækkunar að við fjölgum útgáfubókum á árinu, sem er einkar ánægjulegt.“

Hin skáletraða spurning fréttamannsins ber með sér að hann trúði hrakspánum sem kynntar voru síðla árs 2014. Enginn vissi neitt um þróunina enda var spánum að sjálfsögðu ekki ætlað annað hlutverk en hræða stjórnmálamenn frá að hækka skattinn – þær voru dæmigerður hræðsluáróður. Alið var á honum af stjórnarandsæðingum og gagnrýnislaust í fjölmiðlum.

Í dag sunnudaginn 27. desember birti fréttastofa ríkisútvarpsins viðtal við Bryndísi Loftsdóttur hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda. Á ruv.is  hefst fréttin á þessum orðum:

„Bóksala um jólin gekk vel og fór fram úr væntingum bókaútgefenda, og þá var áberandi hversu vinsælar ljóða og barna- og unglingabækur voru í jólapakkana þetta árið.“

Haft er eftir Bryndísi að bóksala um jólin hafi „gengið vel og farið fram úr björtustu vonum“.

Að lokum er það annað en hvort virðisaukaskattur er 7% eða 11% sem ræður áhuga á að skrifa, gefa út, selja og kaupa bækur.

 

Laugardagur 26. 12. 15 - 26.12.2015 16:00

Bertel Haarder. menningamálaráðherra Dana, sagði í viðtali við Jyllands-Posten um jólin að á nýju ári ætlaði hann að kynna til sögunnar það sem á dönsku er kallað „ny danmarkskanon over kulturværdier“, það er lista yfir dönsk menningarverðmæti sem hafa haft grundvallarþýðingu fyrir Danmörku.

Markmið Haarders með þessu framtaki er að skapa nýtt vopn gegn menningarlegri sundrungu, öfgahyggju og hryðjuverkum. Haarder er einna vinsælastur danskra stjórnmálamanna en hann kemur úr Venstre-flokknum (mið-hægri).

Í frétt Berlingske Tidende  segir að Haarder boði þetta nú þótt aðeins fáein ár séu síðan forveri hans í ráðherraembætti, íhaldsmaðurinn Brian Mikkelsen, hafi beitt sér fyrir að samdir yrðu „kanon-listar“, það er listar yfir það í danskri menningu sem helst hefði gildi. Mikkelsen skipaði árið 2004 nokkrar nefndir til að semja slíka lista, hvern á sínu sviði: arkitektúr, hönnun, myndlist, leiklist, bókmenntum, kvikmyndum og tónlist.

Árið 2006 lá fyrir listi með 108 verkum. Hann og allt starfið undir forystu Mikkelsens sætti harðri gagnrýni. Var jafnvel talið að fyrir ráðherranum vekti að skapa sérstök gildi að fyrirlagi borgaralegrar ríkisstjórnar til að ögra öðrum, ekki síst innflytjendum. Menningarmálaráðuneytið opnaði sérstaka vefsíðu fyrir Kulturkanonen en henni var lokað árið 2012 af þáverandi menningarmálaráðherra, Uffe Elbæk, sem sat fyrir Radikale venstre í vinstristjórn.

Bertel Haarder var menntamálaráðherra árið 2006 og beitti sér þá fyrir að saminn var historiekanon, listi með 29 atriðum sem skiptu miklu í sögu Danmerkur.

Víða um Evrópu fylgjast stjórnmálamenn náið með því sem danska ríkisstjórnin gerir til að styrkja innviði samfélagsins vegna alþjóðavæðingar og straums aðkomufólks til landsins. Utanríkisráðherra Finna hvatti á dögunum til þess að finnska ríkisstjórnin færi að danskri fyrirmynd eins og  sjá má hér.

Fyrir nokkru sagði Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, í blaðagrein að hann fylgdist náið með því sem Bertel Haarder segði um danska ríkisútvarpið og umsvif þess sem hann telur of mikil,

 

Föstudagur 25. 12. 15 - jóladagur - 25.12.2015 16:00

Skyldi hafa verið gerð rannsókn á ástæðum áhuga íslenskra fjölmiðlamanna á því hvað menn leggja sér til matar um jólahátíðina? Eða samanburðarrannsókn á milli landa, hvort þessi áhugi eigi aðeins við um íslenska fjölmiðlamenn eða hann setji einnig svip á miðlun upplýsinga vegna jólanna í öðrum löndum?

Ekki er nóg með að gengið sé að fólki með hljóðnemann á götum úti og spurt hvað það ætli að borða þennan eða hinn daginn heldur efna fyrirtæki einnig til kannanna til að upplýsa þetta. Fréttir af niðurstöðum þessara kannanna eru fluttar í tíma og ótíma og nú er einnig tekið til við að tengja matarvenjur við stjórnmálaskoðanir fólks.

Þetta er ekki nýmæli en áhuginn hjá fréttastofu ríkisútvarpsins virðist frekar aukast en hitt enda fellur miðlun upplýsinga af þessu tagi að þeirri þróun að fréttatímarnir snúist mest um neytendamál eða leit að einhverjum sem telja sig eiga undir högg að sækja eða vera afskiptir af hinu opinbera hvort sem er vegna styrkja eða einhvers annars.

Þetta sérkenni hinnar opinberu fréttamiðlunar er í samræmi við þá afstöðu yfirstjórnar fréttastofunnar að viðskiptafréttir eigi ekki erindi við hlustendur eða áhorfendur. Ríkisútvarpið er örugglega eini fjölmiðillinn á norðurhveli jarðar og þótt víðar væru leitað sem ekki flytur viðskiptafréttir sem endurspegla sveiflur í vexti og viðgangi samfélagsins.

Áhugi fréttastofunnar á atvinnulífinu er bundinn við kjaradeilur, einkum í aðdraganda þeirra þegar deiluaðilar leitast við að draga upp sem dramatískasta mynd í því skyni að styrkja samningsstöðu sína með mótun almenningsálitsins. Séu þær heimsslitafréttir skoðaðar er ekki skrýtið þótt fréttamenn séu næsta undrandi að samningar náist án þess að allt fari í kalda kol.

Þetta sama viðhorf: að mála skrattann á veginn, er ekki bundið við fréttastofuna í Efstaleiti, það á við alla yfirstjórn ríkisútvarpsins eins og dæmin sanna við afgreiðslu fjárlaga ár eftir ár. Þá er látið eins og allt fari í kalda kol fáist ekki allir peningar sem krafist er og helst meira. Síðan kemur í ljós að ekkert breytist nema áreiti með leiknum auglýsingum á kostnað síðasta lags fyrir fréttir – meira að segja á jóladag. Sigvaldi Júlíusson þulur sagði þó 20. desember að leiknu auglýsingarnar fæu illa í fólk, það tæki miklu betur eftir hinum lesnu. 

Fimmtudagur 24. 12. 15 - 24.12.2015 15:30

Í pistli sem má lesa hér hvet ég til þess að lögð sé rækt við kjarna jólanna.

Gleðileg jól!

Miðvikudagur 23. 12. 15 - 23.12.2015 17:30

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur og sérfræðingur fréttastofu ríkisins um málefni forseta Íslands var kallaður á vettvang til að segja álit sitt á orðum sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lét falla á Twitter þriðjudaginn 22. desember eftir að forsetahjónin höfðu birst í sjónvarpsfréttum þar sem þau afhentu matarpoka á vegum Fjölskylduhjálparinnar í Reykjanesbæ og Ólafur Ragnar býsnaðist að fólk neyddist til að standa í biðröðum eftir slíkum matargjöfum – að þessu hefði ekki verið útrýmt í þjóðfélaginu.

Ummæli Bjarna þykja sumum hvatskeytisleg, hann vék að veisluborðum á Bessastöðum og kostnaði við krásirnar þar. Forgangsröðin ætti að vera önnur. Líkingamál fer oft fyrir brjóstið á viðkvæmum.

Orð fjármálaráðherra eru títuprjónar á Ólaf Ragnar miðað við þá rökstuddu, fræðilegu gagnrýni á hann og embættisfærslu hans sem tveir fræðimenn við Háskóla Íslands birtu nýlega í fræðiritinu Stjórnmál og stjórnsýsla og ég sagði frá í dagbókinni 18. desember 2015. Það er líklega of stórt mál til að menn nái upp í það á Facebook eða í fjölmiðlum almennt.

Guðni Th. lét hjá líða að minna á hörð bréfaskipti Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Ólafs Ragnars um hvort setja bæri siðareglur um forsetaembættið eða spennuástandið á ríkisráðsfundum undir stjórn Ólafs Ragnars sem ráðherrar í stjórn Jóhönnu hafa lýst.

Á ruv.is má lesa þetta haft eftir Guðna Th.: „Það verður fróðlegt að sjá hvort forsetinn bregðist með einum eða öðrum hætti við aðfinnslum Bjarna Benediktssonar.“

Sagnfræðingurinn gerir því skóna að Ólafur Ragnar kunni að reyna að ná sér niðri á fjármálaráðherra á einhvern hátt. Því miður spurði fréttamaðurinn ekki um fordæmi, hvort forseti Íslands beitti þá sem gagnrýndu hans refsingu. Í lokin er þetta haft eftir Guðna Th.: „Það verður örugglega metáhorf á þetta nýársávarp [forseta Íslands 1. janúar 2016] sem venjulega er ekki þess eðlis að landsmenn bíði spenntir eftir því sem forseti hefur fram að færa.“

Ólafur Ragnar hefur byggt upp spennu vegna ávarpsins í nokkra mánuði, hann ætli þar að skýra frá áformum sínum á árinu 2016 þegar kjörtímabili hans lýkur og nýtt hefst. Í þinginu sagði Ólafur Ragnar oft að hann hyrfi frá því sem hann hefði boðað til að „greiða fyrir þingstörfum“. Ætli hann að bjóða sig fram er líklegt að hann tali eins og véfrétt í nýársávarpinu til að fipa hugsanlega andstæðinga og gefa þeim sem skemmstan tíma til undirbúnings. Spennufall jafngildir hugsanlegu framboði.

Þriðjudagur 22. 12. 15 - 22.12.2015 16:00


Á vefsíðunni forseti.is segir mánudaginn 21. desember:

„Forseti á fund með stjórnendum Stofnunar múslíma á Íslandi og í Svíþjóð, Karim Askari og Hussein Aldaoudi, um starfsemi stofnunarinnar á Íslandi, aðlögun að íslensku samfélagi, menningu og lýðræðishefðum, umræður í íslenskum fjölmiðlum sem og um kaupin á Ýmis húsinu og fjárstyrk frá Sádi Arabíu og samskipti þeirra við sendiráð þess lands.“

Karim Askari var kallaður talsmaður Menningarseturs múslíma þegar hann birti grein í Fréttablaðinu fyrir fimm árum og boðaði að menningarsetrið fengi Ými til afnota árið eftir (2011). Þá var vakin athygli á að hann tengdist samtökum sem boðuðu wahabisma, það er grein íslam sem á rætur í Sádí-Arabíu. Á Vesturlöndum hefur wahabisma verið lýst sem öfgastefnu gegn gyðingum, samkynhneigðum, kristni og menningu Vesturlanda.

Hinn viðmælandi forsetans, Hussein Aldaoudi, kom við sögu í frétt á visir.is hinn 9. október 2010 þar sem stóð:

„Í menningarsetri múslima eru einstaklingar sem Salman Tamimi [formaður Félags múslima á Íslandi] segist hafi rekið úr sínu félagi fyrir að hafa brotið lög félagsins um öfga, ofstæki og yfirgang í nafni trúarbragða.

Þessir sömu aðilar eru í forsvari fyrir hópi fjárfesta sem fest hafa kaup á Ýmishúsinu. Í húsinu verður menningarsetur fyrir múslima, bænaaðstaða, barnaskóli og fleira.

Fjárfestarnir á bak við þessi 250 milljón króna kaup eru erlendir.

Þeir heita Hussein Al-Daoudi, Maryam Moe og Sulaiman Abdullah Alshiddi.

Það eru tengsl Hussein Al-Daoudi við öfgafulla múslima sem sett hafa verið spurningamerki við.

Hussein Al-Daoudi er skólastjóri Al-Salam einkaskólans í Svíþjóð sem gagnrýndur hefur verið fyrir að þiggja fjárframlög frá íslömskum trúboðasamtökum i Saudi Arabíu.

Þau eru nátengd Al-Haramein samtökunum sem eru á lista öryggisráðs Sameinu þjóðanna yfir hryðjuverkasamtök.“

Augljóst er að þennan fund Ólafs Ragnars með forráðamönnum wahabista á Íslandi má rekja til varnaðarorða hans um hættuna af öfgahreyfingum múslima. Þau urðu hins vegar til þess að Salmann Tamimi nefndi þá í sömu andránni í blaðaviðtali Ólaf Ragnar og Adolf Hitler.

Forseti Íslands skuldar þjóðinni frásögn af fundinum með þessum herramönnum 21. desember 2015.

Mánudagur 21. 12. 15 - 21.12.2015 16:30

Stundum sést kvartað undan því að ekki sjáist nein merki um að aðildin að Schengen-samstarfinu gagnist íslenskum stjórnvöldum eða Íslendingum almennt. Fréttin hér að neðan sýnir til dæmis hvert er gagn af aðildinni að Europol en þátttaka í Schengen-samstarfinu er lykill að aðild að Evrópulögreglunni, Europol.

Á vefsíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu mátti lesa þetta fimmtudaginn 17. desember:

„Nærri 900 manns hafa verið handteknir í alþjóðlegum lögregluaðgerðum Europol og samstarfsaðila stofnunarinnar á árinu. Um er að ræða samstarfsverkefni undir heitinu Operation Blue Amber þar sem ráðist hefur verið gegn skipulagðri brotastarfsemi víða um heim, en í aðgerðunum hefur m.a. verið lagt hald á meira en 7 tonn af fíkniefnum. Íslensk lögregluyfirvöld hafa tekið þátt í fyrrnefndum aðgerðum, en í haust voru t.d. viðamiklar aðgerðir hér á landi gegn innflutningi stera, sölu, dreifingu og framleiðslu þeirra. Þá var lagt hald á mikið magn af sterum, mestmegnis í formi dufts og taflna, auk búnaðar af ýmsu tagi, m.a. til framleiðslu stera. Mál sem snýr að innflutningi mikils magns fíkniefna, sem falin voru í bifreið sem kom hingað til lands með Norrænu í haust, er sömuleiðis hluti af þessu samstarfsverkefni. […] Þess má geta að um allnokkurt skeið hefur sérstakur tengslafulltrúi Íslands verið starfandi hjá Europol og hefur það reynst mjög vel.“

Næsta sérkennilegar umræður eru nú í Bretlandi vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem David Cameron forsætisráðherra undirbýr til að ákveða framtíð Breta gagnvart ESB. Höfuðáhersla er lögð á að forsætisráðherranum hafi tekist að fleyta viðræðunum um nýja aðildarskilmála áfram á nýlegum leiðtogaráðsfundi ESB þrátt fyrir ágreining um réttindi innflytjenda til félagslegra bóta. Í þessu felst að Cameron hefur slegið af kröfum sínum enda bendir nú allt til þess að hann ætli sér að berjast fyrir áframhaldandi aðild ESB og búa til „pakka“ sem höfði til sem flestra.

Þetta er í raun algjör yfirborðsumræða þar sem ekki er rýnt í framtíð ESB og á þann klofning innan þess sem verður sífellt skýrari. Þessi hula sem sett er á hin raunverulegu stórmál innan ESB í fjölmiðlatalinu breska um tengsl Bretlands og ESB eru í ætt við aðferðina sem beitt var í frásögnum af aðildarviðræðum íslenskra stjórnvalda. Látið var sem allt gengi vel þótt ágreiningur um sjávarútvegsmál hefði strax á fyrri hluta árs 2011 leitt viðræðurnar í strand.

 

Sunnudagur 20. 12. 15 - 20.12.2015 16:00

Fjárlög fyrir árið 2016 hafa verið samþykkt og enn einni lotunni til að knýja fram meira fé til ríkisútvarpsins er lokið. Ráðin sem beitt er í þessu skyni eru margvísleg. Markmiðið er eitt að ríkisútvarpið fái einfaldlega allt sem það heimtar og þegar því þóknast. Ekki var látið undan kröfunni að hætta við lækkun nefskattsins til útvarpsins.

Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnarformaður RÚV, segir þó niðurstöðu fjárlaga „ágæta“ fyrir ríkisútvarpið og færði þessi rök fyrir því í kvöldfréttum laugardaginn 19. desember:

 „212.700 greiðendur [eru]áætlaðir af afnotagjaldinu. Og með 175 milljóna króna [auka]framlaginu [sem ríkisstjórnin ákvað], þá eru þetta 17.400 sem við fáum, per gjaldanda. Og stjórnarandstaðan bað um 17.800, eða óbreytt útvarpsgjald. Þannig að mér sýnist við vera að mæta öllum sérstökum óskum um það“ 

Eva María Jónsdóttir, vef- og kynningarstjóri Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, starfaði um tíma á ríkisútvarpinu. Rætt var við hana í Morgunblaðinu sunnudaginn 13. desember og sagði hún meðal annars:

„RÚV [ríkisútvarpið] hefur alla burði til að framleiða gott sjónvarpsefni, ekki bara fyrir þrjú hundruð þúsund hræður hér heima, heldur líka fyrir Evrópu- og jafnvel alheimsmarkað. RÚV gæti hæglega verið farsælasta framleiðslu- og útflutningsfyrirtæki landsins. Vandinn er hins vegar sá að stofnunin er ævinlega í gíslingu stjórnmálanna, þar sem of mikil orka fer í að deila um fjármögnun og fyrirkomulag í stað þess að búa til gott sjónvarp fyrir fleiri. Stjórnmálamenn virðast á köflum hræddir um að RÚV verði einhver lúxusríkisspeni, sem framleiði þjóðkunna einstaklinga sem gætu orðið fyrirferðarmiklir. Fyrir vikið þurfa húsbændur á RÚV alltaf að hugsa til styttri tíma og verjast ásókn í stað þess að vinna eftir metnaðarfullri framtíðarsýn. Þeirri nálgun verður að breyta. Hugsum stærra!“

Þetta er frumleg skoðun: stjórnmálamenn þrengi að ríkisútvarpinu fjárhagslega af því að þeir óttist samkeppni frá fyrirferðarmiklum einstaklingum úr hópi starfsmanna. Sjálfhverfari skýringu er vart unnt að ímynda sér. Að stjórnmálamönnum sé ljúft að sitja með ríkisútvarpið í fanginu sem vandræðabarn vegna fjárhagsörðugleika og telji persónulegum hag sínum best borgið með því að láta útvarpið ekki hafa allt sem það óskar er fjarri öllu sem rétt er í þessu efni. Kjarni málsins er að stjórnendur ríkisútvarpsins leita alltaf skýringa sem snerta ekki rekstrarstjórn þeirra sjálfra og virðingu fyrir settum fjárhagsramma.

Laugardagur 19. 12. 15 - 19.12.2015 17:30

Það er holur hljómur í frétt á ruv.is þar sem haft er eftir Unni Brá Konráðsdóttur, formanni allsherjarnefndar alþingis, að ákvörðun nefndarinnar og síðar þingsins að veita tveimur albönskum fjölskyldum ríkisborgararétt sé ekki fordæmisgefandi. Í fréttinni stendur:

„Meðal þess sem vísað var til voru ákvarðanir Alþingis um að veita tveimur ríkisborgararétt án þess að þeir væru staddir hér á landi - Bobby Fischer og stráknum Jóel sem varð til með aðstoð erlendrar staðgöngumóður. 

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar Alþingis, sagði í samtali við fréttastofu að ákvarðanir Alþingis í þessum málum væru ekki fordæmisgefandi.“

Þarna er í fréttinni annars vegar vikið að tveimur einstaklingum sem fengu ríkisborgararétt með lögum – er það ekki gert til að nefna fordæmi? Mál Fischers og barnsins Jóels eru þó allt annars eðlis en albönsku fjölskyldnanna sem hafði verið hafnað af útlendingastofnun eftir eðlilega meðferð máls þeirra innan stjórnsýslunnar, máls sem ekki var einu sinni leitt til lykta á vettvangi stjórnsýslunnar vegna þess að fjölskyldurnar vildu það ekki.

Í krafti jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar geta fleiri albanskar fjölskyldur vísað til fordæmisins sem gefið var á alþingi í dag. Komi til þess geta þær leitað til dómstóla til að fá rétt sinn viðurkenndan því að dómstólar eiga síðasta orðið um hvort stjórnarskráin sé virt en ekki alþingi.

Samþykkt alþingis um að vega að stofnunum og regluverki sem snýr að ákvörðun um réttarstöðu útlendinga hér á landi gengur þvert á allt sem gerist um þessar mundir í nágrannalöndunum. Rannsóknir sýna að viðhorf og ákvarðanir stjórnvalda í einstökum löndum ráða miklu um hvernig straumi farand- og flóttafólks til þeirra er háttað.

Það er brýnt að innleidd verði sama framkvæmd hér og annars staðar að afgreiðsla á málum þeirra sem koma frá öruggum löndum verði innan við 48 klukkustundir. Nefndin sem lagði fram frumvarpið sem varð að lögum í dag ætti að beita sér fyrir breytingum í þessa átt, það minnkaði líkur á að samþykktin í dag yrði nýtt sem fordæmisgildi.

 

 

Föstudagur 18. 12. 15 - 18.12.2015 18:15


Viðtal mitt á ÍNN við Sölva Sveinsson um æskuminningar hans Sauðárkróki er komið á netið og má sjá það hér 

Nýtt hefti af vefritinu Stjórnmál og stjórnsýsla er komið út. Þar birtist greinin Gæslumaður Alþingis: Breytt valdastaða forseta Íslands. Höfundar eru Björg Thorarensen prófessor við lagadeild HÍ og Stefanía Óskarsdóttir dósent við stjórnmálafræðideild HÍ. Greinina má nálgast hér.

Þarna er fjallað um efni sem tímabært er að ræða, ekki síst með tilliti til þess að forsetakosningar eru á næsta ári. Í greininni er í stuttu máli komist að þeirri niðurstöðu að í forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar hafi embætti forseta þróast til annarrar áttar en ætlun hafi verið hjá stjórnarskrárgjafanum árið 1944. Þetta er réttmæt skoðun. Það var aldrei ætlunin að forseti yrði gæslumaður alþingis heldur var ákvæðið í 26. gr. stjórnarskrárinnar sett til að alþingi gæti með stuðningi þjóðarinnar varist ef þjóðhöfðinginn seildist til of mikilla valda.

Í viðtal í Spegli ríkisútvarpsins fimmtudaginn 17. desember (sem má hlusta á hér á 16. mínútu) lýsir Björg Thorarensen efni greinarinnar í hnotskurn og gagnrýnir afskipti Ólafs Ragnars af hugmyndum um breytingar á stjórnarskránni. Hann þolir ekki þá tilhugsun að 26. gr. stjórnarskrárinnar verði breytt og mótuð leið til að almenningur geti knúið á um þjóðaratkvæðagreiðslu eins og hvarvetna er.

Í upphafi greinarinnar segir: „Fyrir nokkrum áratugum færði franski stjórnmálafræðingurinn, Maurice Duverger (1980), rök fyrir því að auk þingræðis og forsetaræðis væri annar stjórnskipulegur valkostur til staðar í lýðræðisríkjum. Hann nefndi þennan valkost forsetaþingræði og taldi þá stjórnskipun sem komst á í Frakklandi 1958 dæmi um það.“

Í niðurstöðukafla greinarinnar segir: „Þótt forseti Íslands sé formlega annar handhafi framkvæmdarvalds ásamt ráðherra samkvæmt stjórnarskrá hefur ekki verið komið á tvískiptingu framkvæmdarvaldsins í anda kenninga um forsetaþingræði sem gera ráð fyrir forseta með umtalsverð völd.“

Að fræðimenn í lögfræði og stjórnmálafræði telji ástæðu til að árétta þennan grunnþátt íslenska stjórnkerfisins undir lok 20 ára forsetaferils Ólafs Ragnars Grímssonar sýnir að nú er nóg komið.

Hvort sem Ólafur Ragnar gefur oftar kost á sér eða ekki er óhjákvæmilegt fyrir stjórnarskrárgjafann, alþingi, að marka forsetaembættinu skýrara hlutverk og setja ákvæði um hvernig unnt er að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mál án þess að það sé háð geðþótta eins manns.

ttur

Fimmtudagur 17. 12. 15 - 17.12.2015 16:00

Í Ploërmel, bæ á Bretagne-skaga í Frakklandi, fá íbúarnir að halda í styttu af Jóhannesi Páli páfa II á torgi sem er nefnt eftir honum. Áfrýjunardómstóll stjórnsýslumála í borginni Nantes hefur komist að þessari niðurstöðu og snúið við dómi undirréttar frá 30. apríl 2015.

Styttan var reist árið 2006. Undirréttur í borginni Rennes úrskurðaði að hún skyldi fjarlægð af því að hún bryti í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar um aðskilnað ríkis og kirkju. Dómstóllinn taldi styttuna sjálfa ekki andstæða lögum heldur umgjörð hennar, steinbogann sem umlukti hana með stórum krossi, „tákni kristinnar trúar“, fyrir ofan höfuð styttunnar, hann væri auk þess „oflátungslegur“ efst á átta metra háum steinboganum. Fékk bæjarstjórnin sex mánaða frest til að fjarlægja styttuna og steinbogann. Hún og listamaðurinn, Rússinn Zurab Tseretli, snerust til varnar ásamt samtökunum Snertið ekki páfann minn.

Í frétt sem Stéphane Kovacs skrifar um málið í Le Figaro í dag segir að áfrýjunarrétturinn hafi fallist á þau rök verjanda bæjarfélagsins að styttan hafi áunnið sér varanlegan sess á stað sínum í Ploërmel. Samtökin Fédération de la Libre pensée – Samband frjálsrar hugsunar – sem kröfðust brottflutningsins árið 2012 hafi gert kröfu sína of seint, hún hefði átt að koma fram strax en ekki sex árum eftir að styttan var reist.

Lögfræðingur Sambands frjálsrar hugsunar býr sig undir að skjóta málinu til æðsta dómstigs innan stjórnsýslunnar. Að styttan sé á opinberum stað sé augljóst brot á lögum frá 1905 um aðskilnað ríkis og kirkju.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kvað í dag upp úrskurð og felldi úr gildi deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar sem samþykkt var á fundi borgarstjórnar 1. apríl 2014, rétt undir lok síðasta kjörtímabils, en með því var svokölluð neyðarbraut tekin út af skipulagi. Þetta sýnir enn og aftur hve illa borgaryfirvöld standa að málum í heift sinni gegn Reykjavíkurflugvelli. Hvernig væri að gerð yrði úttekt á þessari dæmalausu stjórnsýslu undanfatrin 20 ár?

Miðvikudagur 16. 12. 15 - 16.12.2015 18:15

 

Í dag ræddi ég við Sölva Sveinsson, fyrrv. skólameistara, í þætti mínum á ÍNN. Sölvi sendi í haust frá sér bókina Dagar handan við dægrin þar sem hann segir skemmtilega frá uppvaxtarárum sínum á Sauðárkróki. Ég kannast við ýmsa sem hann nefnir til sögunnar enda var ég í níu sumur í sveit á Reynistað í Skagafirði. Samtal okkar Sölva má sjá klukkan 20.00 (rás 20) í kvöld og á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun. Þeir sam hafa tímaflakk á myndlykli sínum geta horft á þáttinn hvenær sem þeir vilja eftir kl. 20.00 í kvöld.

Ann­arri umræðu um fjár­lög næsta árs lauk á fjórða tím­an­um í dag eftir að loks náðist sam­komu­lag  milli meiri- og minni­hlut­ans á þingi um þinghlé vegna jólanna. Sam­fylk­ing­in seg­ir í til­kynn­ingu, sem er send út vegna lykta málþófsins, að í þá átta daga og næt­ur sem 2. umræða fjárlaga hafi staðið hafi flokk­ur­inn bar­ist fyr­ir bætt­um kjör­um eldri borg­ara og ör­yrkja, farið verði að óskum yfirstjórnar Landspítalans um fjárframlög og ríkisútvarpið fái „nægj­an­leg­ar fjár­veit­ing­ar til að standa und­ir þjón­ustu við al­menn­ing um allt land“.

Þetta er augljóst yfirvarp. Það þurfti ekki átta daga og nætur til að leggja þessi mál Samfylkingarinnar undir atkvæði þingmanna heldur breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið og atkvæðagreiðslur um þær.  

Eins og sagt var frá hér í gær má rekja málþófið til hins undarlega frumvarps utanríkisráðherra um að gera þróunarstofnun að hluta af utanríkisráðuneytinu. Forvitnilegt verður að sjá hver verða örlög frumvarpsins.

Enn virðist óráðið hvað þingmenn ætla að gera vegna Albananna sem vildu ekki að mál þeirra færu til kærunefndar í útlendingamálum og sættu vig við brottvísun úr landi samkvæmt úrskurði Útlendingastofnunar.

Taki þingmenn ákvörðun um að nýta vald sitt til að veita fólkinu ríkisborgararétt vega þeir að öllu regluverki í útlendingamálum með hjáleið fyrir þá sem sætta sig ekki við afgreiðslu mála í samræmi við sett lög og reglur. Þingmennirnir vega í raun einnig að virðingu ríkisborgararéttarins. Afgreiðsla af þessu tagi mundi auk þess brjóta í bága við allt sem gerist í nágrannalöndunum í útlendingamálum. Að segja slíka ákvörðun ekki skapa fordæmi er fráleitt í ljósi ákvæða stjórnarskrárinnar um jafnræði 

Þriðjudagur 15. 12. 15 - 15.12.2015 18:15

Engin opinber skýring er fyrir hendi á ástæðum þess að stjórnarandstaðan stofnar nú til málþófs á alþingi. Vilji hún auka fylgi sitt með því sýnir það best hve hún er í litlum tengslum við samfélagið.

Nærtækt er að álykta að rót ágreiningsins sé að finna í frumvarpi sem utanríkisráðherra hefur flutt um að færa þróunarstofnun inn í utanríkisráðuneytið. Flutningurinn hefur lengi verið gæluverkefni embættismanna í ráðuneytinu en í óþökk þeirra sem starfa undir merkjum stofnunnarinnar.

Ákvörðun utanríkisráðherra um frumvarpið er vafalaust tekin fyrir þrýsting frá embættismönnum hans því að engir almannahagsmunir hér á landi eru þarna í húfi, starfsmenn stofnunarinnar starfa flestir erlendis. Rökin fyrir flutningnum eru helst þau að hann breyti engu. Þeim mun einkennilegra verður í augum almennings að alþingi sé í raun óstarfhæft af þessum sökum.

Vegna þess hve ástæðan fyrir málþófinu er í raun fráleit er aldrei minnst á hana opinberlega. Sé gengið á þá sem helst ættu að vita um tilefni frumvarpsins er gjarnan hvíslað að með því að færast inn í utanríkisráðuneytið fái starfsmenn þróunarstofnunar stöðu diplómata. Allir hljóti að sjá hve miklu það skipti. Hvort fólkið sem aðstoðað er í Afríku eða annars staðar njóti þess betur sem gert er sé diplómati á ferð er sérstakt athugunarefni. Blessað fólkið yrði hins vegar örugglega undrandi ef því yrði sagt frá krísunni á Alþingi Íslendinga vegna þess að þingmenn átta sig ekki á mikilvægi málsins.

Lokun meirihlutans í Reykjavík á Laugaveginum fyrir umferð bifreiða er kjörin leið fyrir valdsmenn borgarinnar að sýna hver ráði. Þeir láta slagbrandinn falla þegar þeim einum finnst það réttmætt og bera ekki einu sinni við að leita samráðs við þá sem stunda atvinnurekstur á svæðinu. Markmiðið er einmitt að sýna þeim á ótvíræðan hátt hver ræður hvort bifreiðum sé ekið um Laugaveginn eða ekki.

Ástæða er til að velta fyrir sér hvort það sé ekki eitthvað bogið við að borgaryfirvöld leiti ekki samkomulags við þá sem reka fyrirtæki við Laugaveginn um leikreglur í þessu máli. Lokunin kemst jafnan í fjölmiðla og minnir á andstöðu meirihlutans við einkabílinn auk þess sem Jakob Frímann Magnússon miðborgarstjóri minnir á tilvist sína.

Mánudagur 14. 12. 15 - 14.12.2015 19:00

Í dag íslenskaði ég útdrátt á grein á vefsíðu New Europe um væntanlegar breytingar til að auka landamæravörslu Schengen-svæðisins. Greinina má sjá hér. Það skiptir máli fyrir íslensk stjórnvöld að fylgjast náið með öllum umræðum um þessi mál því að framkvæmd þeirra snertir okkur beint vegna aðildar að Frontex.

Þarna er einnig rætt um samræmdar reglur um heimsendingu og brottvísun fólks. Slík mál eru nú til umræðu hér landi og hafa tekið þá stefnu að alþingismenn virðast búa sig undir að taka völdin af útlendingastofnun með því að lögleiða ríkisborgararétt fyrir fólk sem stofnunin hefur hafnað í krafti laga og á grundvelli reglna sem settar eru með vísan til laga. Ekki er langt síðan að alþingi samþykkti breytingar á útlendingalögum til að afmá afskipti ráðherra af ákvörðunum um hælisumsóknir.

Í lögunum er heimilað að skjóta ákvörðunum útlendingastofnunar til sérstakrar úrskurðarnefndar en ekki til ráðuneytis eins og áður var. Í þeim tilvikum sem nú eru til umræðu ákváðu viðkomandi að leita ekki til úrskurðarnefndarinnar heldur una ákvörðun um brottvísun og fóru úr landi.

Síðan hefur einn þessara aðila ranglega borið á lögmann sinn að hann hafi ekki viljað að kært yrði til úrskurðarnefndarinnar.

Hvað sem efni málsins varðar er dæmalaust ef alþingi grípur til lagasetningarvalds í máli af þessum toga og stjórnmálamenn sem fyrir fáeinum misserum vildu afmá pólitíkina við afgreiðslu útlendingamála taka hana beint í sínar hendur.

Hvernig falla vinnubrögð af þessu tagi að umbyltingu stjórnarháttanna sem alþingi kynnti í ályktun sinni vegna bankahrunsins? 

Sunnudagur 13. 12. 15 - 13.12.2015 20:30

Þjóðfylkingin náði ekki meirihluta í neinni af 13 héraðsstjórnunum í Frakklandi í seinni umferð kosninganna sem fram fóru í dag. Á eyjunni Korsíku sigruðu þjóðernissinnar en hin tólf héruðin skiptast nú samkvæmt spám jafnt milli Lýðveldissinna (mið-hægri) og sósíalista. Áður höfðu sósíalistar í meirihluta héraðanna en þeir geta þó bærilega unað við úrslitin í ljósi hinna mikilla óvinsælda ríkisstjórnar þeirra sem birtast í skoðanakönnunum.

Um klukkan 20.00 sýndu spár að Lýðveldissinnar fengju 41%, sósíalistar 39% og Þjóðfylkingin 20%.

Forystumenn Lýðveldissinna og sósíalista fögnuðu að tekist hefði að halda Þjóðfylkingunni í skefjum en hún hlaut mest fylgi í fyrri umferð kosninganna. Manuel Valls, forsætisráðherra sósíalista, sagði hins vegar að hættan af „öfga hægrimönnum“ væri enn fyrir hendi. Hann þakkaði kjósendum fyrir að hafa tekið til varna en hins vegar skyldu menn ekki láta blekkjast af sigrinum því að hættunni af hægri öfgamönnum væri enn fyrir hendi,

Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, viðurkenndi ósigur hennar í kosningunum en í fyrri umferðinni fékk fylkingin flest atkvæði í sex héruðum.

Verði franska þingið ekki rofið eru næstu kosningar í Frakklandi forsetakosningarnar 2017. Kannanir nú sýna að Alain Juppé, lýðveldissinni, nýtur mesta fylgis 55% kjósenda. Hann keppir um að verða frambjóðandi við Nicolas Sarkozy, leiðtoga Lýðveldissinna, og François Fillon, fyrrv. Forsætisráðherra. Í þessari könnun sem birt var á sjónvarpsstöðinni France 2 fékk Sarkozy ekki nema 27% og François Hollande forseti ekki nema 24%.

Laugardagur 12. 12. 15 - 12.12.2015 19:30

Miðvikudaginn 9. desember ræddi ég um bókina Utangarðs? Ferðalag til fortíðar  við höfundana Halldóru Kristinsdóttur og Sigríði Hjördísi Jörundsdóttur í þætti mínum á. Má sjá hann hér.

Um klukkan 18.30 bárust þau tíðindi frá loftslagsráðstefnunni í París að 195 ríki hefðu náð sögulegu samkomulagi sem skyldar í fyrsta sinn næstum öll ríki veraldar til að draga úr útblæstri í því skyni að sporna gegn hættulegum afleiðingum loftslagsbreytinga. Markmiðið er að tryggja að hlýnun jarðar haldist að meðaltali innan við 2°C og helst innan við 1,5°C.

Umræðunum lauk með því að Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakka, spurði ráðherrana í fundarsalnum í Bourget, úthverfi Parísar, hvort einhver væri andvígur samkomulaginu. Enginn gaf sig fram og sló Fabius þá fundarstjórahamrinum í borðið og lýsti umræðum lokið með orðunum: „Parísar-samkomulagið er samþykkt!“ Braust þá út mikið lófatak í salnum og fundarmenn risu fagnandi úr sætum sínum.

„Verði samkomulaginu hrundið í framkvæmd mun það knýja fyrirtæki og einstaklinga til að draga mjög úr notkun á jarðefnaeldsneyti og gæti boðað breytingu á heimsbúskapnum,“ sagði í frétt blaðsins The Wall Street Journal.

Nú taka við umræður sérfræðinga og álitsgjafa um efni samkomulagsins. Ef reynslan af fyrri samningum um þetta er til leiðsagnar má vænta þess að allir verði ekki jafnhrifnir af samkomulaginu og þeir sem fögnuðu því í fundarsalnum stóra í Bourget. Nú er það skylda þjóðþinga að taka afstöðu til samkomulagsins og lögfesta leið þjóðar sinnar að markmiðinu sem þar er sett.

Yfirlýsingar sem falla í tilefni af samkomulaginu eru á þann veg að með því megi bjarga jörðinni frá eyðingu, hvorki meira né minna.

Í dag endursýndi ríkissjónvarpið myndin Tíu milljónir sem Stephen Emmott, prófessor við Cambridge-háskóla í Bretlandi, gerði um „framtíð okkar á jörðu“ eins og segir í kynningunni. Ef marka má spá hans breytir niðurstaðan í París engu – jörðin er dauðadæmd. Séu umsagnir um myndina skoðaðar á netinu sést að margir andmæla hinum harða dómi prófessorsins – sem betur fer.

 

 

 

 

Föstudagur 11. 12. 15 - 11.12.2015 20:15

 

Í frétt eftir Heimi Má Pétursson á visir.is í dag má lesa:

„Ríkisstjórnin hefur úr litlu að spila fyrir utan liði í fjárlagafrumvarpi sínu í togstreitu sinni við stjórnarandstöðuna um lok þingfunda fyrir jól. Forseti Alþingis hefur ákveðið að fundað verði þriðja kvöldið í röð um fjárlagafrumvarpið en engar líkur eru á að umræðunni ljúki í kvöld.

Yfirleitt hefur ríkisstjórn hverju sinni nokkurn fjölda mála til afgreiðslu fyrir jólaleyfi sem hún getur hliðrað til með í samningum sínum við stjórnarandstöðuna. Nú er staðan hins vegar þannig að ríkisstjórnin hefur nánast engin önnur mál að semja um en fjárlagafrumvarpið og þar er stjórnarandstaðan með kröfur.“

Þessi frétt sýnir allt annað andrúmsloft á alþingi en þegar ég sat þar. Þarna segir að vandræði séu að ljúka þingi fyrir jól af því að ríkisstjórnin eigi enga aðra bita fyrir stjórnarandstöðuna en fjárlagafrumvarpið og þess vegna sé ekki unnt að semja um þinghlé.

Í fyrsta lagi gengur fréttamaðurinn að því sem vísu að stjórnarandstaðan sé til sölu – hún verði með málþóf nema hún fái eitthvað fyrir að hætta því. Í öðru lagi gengur fréttamaðurinn að því sem vísu að ekki sé unnt að ljúka þingi fyrir jól nema um það sé samið. Það er engin nauðsyn að semja um lyktir mála nema litið sé á þingstörfin eins og gíslatöku – stjórnarandstaðan sé í hlutverki gíslatökumannsins og ríkisstjórnin verði að borga honum til að mál verði afgreidd. Sé málum þannig háttað á að sjálfsögðu ekki að semja. Það er skynsamleg meginregla í samskiptum við gíslatökumenn.

Nú er staðan sú á alþingi að stjórnarandstaðan ætlar að taka fjárlagafrv. fyrir árið 2016 í gíslingu til þess meðal annars að koma í veg fyrir að nefskattur til ríkisútvarpsins verði lækkaður en Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, fær frumvarp sitt um það efni ekki afgreitt úr ríkisstjórn.

Með aðstoð fjölmiðlamanna hefur markvisst verið vegið að virðingu alþingis með fréttum af þessum toga. Látið er eins og allt sé í hers höndum sé ekki farið að vilja stjórnarandstöðu svo að ekki sé minnst á innihaldslausu fréttirnar um haldleysi starfsáætlunar alþingis eða hvort þingmenn séu á kvöld- og næturfundum fleiri eða færri kvöld í viku.

Endalausar fréttir um ekkert veikja ekki aðeins trú manna á alþingi heldur draga einnig úr hlustun og áhorfi á fréttamennina eins og dæmin sanna.  

Fimmtudagur 10. 12. 15 - 10.12.2015 16:00

Það er til marks um hve umræður um farand- og flóttafólk hafa breyst hér á landi og annars staðar að í janúar 2013 vöktu eftirfarandi ummæli Kristínar Völundardóttur, forstjóra útlendingastofnunar, hneykslan ef ekki reiði margra sem hlustuðu á þau í fréttum ríkisútvarpsins 17. Janúar 2013:

„Það getur verið dálítið aðlaðandi fyrir fólk sem að er ekki beinlínis hælisleitendur, sem ætla að vinna ólöglega eða koma í öðrum tilgangi, að koma til Íslands. Þetta getur verið fýsilegur kostur, að fá frítt fæði og húsnæði þegar málsmeðferðin er svona hrikalega löng.“ 

Á ruv.is segir einnig þennan sama dag:

„Kristín segir vísbendingar um að fólk komi hingað og stundi það sem kallist asylum shopping eða ferðamenn í hælisleit. 

„Þá er fólk bara að fara til útlanda og kynnast landi og þjóð og nýti sér þá þjónustu sem hælisleitendum stendur til boða.““

Þarna vísar Kristín til farandfólks sem veit í raun að aldrei verður unnt að viðurkenna það sem flóttafólk vegna alþjóðlegra og evrópskra reglna sem gilda um réttindi flóttamanna og vernd þeirra. Gegn þessu farandfólki hefur verið snúist af miklum þunga hvarvetna í Evrópu undanfarin misseri, einkum fólki sem kemur frá Balkanlöndunum (þar með Albaníu).

Í nágrannalöndum okkar, Noregi og Svíþjóð, hefur verið gripið til eftirlits á innri landamærum Norðurlanda sem ekki hefur þekkst áratugum saman, enn er það bundið við þá sem eru í langferðabílum, lestum eða ferjum. Þetta er gert til að stemma stigu við straumi aðkomufólks til landanna. Markmiðið er m.a. að þeim sem ekki hafa rétt til frjálsrar farar innan EES-svæðisins og koma frá „öruggum löndum“ eins og Albaníu sé tafarlaust snúið til síns heima. Á þennan hátt er dregið úr líkum á asylum shopping.

Samhliða þessu hafa Bretar sett sér það markmið í viðræðum um nýja ESB-aðildarskilmála að takmarka rétt þeirra sem hafa ferðafrelsi innan EES til félagslegra bóta. David Cameron forsætisráðherra kynnti kröfur Breta um þetta efni á fundi með Beata Szydlo, forsætisráðherra Póllands, í dag. Szydlo sagðist viðurkenna fullveldisrétt Breta til ákvarðana um eigin velferðarmál en virða yrði grunnregluna um frjálsa för EES-borgara – þetta tvennt yrði að falla saman á viðunandi hátt.

Ummæli Kristínar Völundardóttur voru tímabær viðvörun fyrir þremur árum. Nú er reglum breytt eða framkvæmd þeirra hert í Evrópu til að útiloka hættuna á misnotkun á þessu sviði.

Miðvikudagur 09. 12. 15 - 9.12.2015 16:05

Bókina Utangarðs? Ferðalag til fortíðar eftir  Halldóru Kristinsdóttur og Sigríði Hjördísi Jörundsdóttur ræði ég við höfundana í þætti mínum á ÍNN sem sýndur verður kl. 20.00 í kvöld (rás 20) og síðan á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun en sífellt á tímaflakki Símans. Ugla er útgefandi þessrar forvitnilegu bókar sem er ríkulega myndskreytt meðal annar með skemmtilegum teikningum eftir Halldór Baldursson og bregðum við nokkrum þeirra á skjáinn.

Það er með nokkrum ólíkindum að Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, skuli líkja ríkisútvarpinu við skilnaðarbarn vegna þess að þingmenn koma sér ekki saman um hvort hækka eigi nefskatt til að auka tekjur þessa ríkishlutafélags sem sífellt krefst meiri fjármuna og hefur her einstaklinga til að auglýsa ágæti þess að látið sé undan stöðugum fjárkröfum félagsins. Hvers eiga börn að gjalda að vera dregin á þennan neikvæða hátt inn í þessar umræður um opinber fjármál?

Flokksformaðurinn sagði;

„Ég óttast að þetta [að nefskatturinn hækki ekki] sé bara afleiðing af einhverjum hjaðningavígum innan stjórnarflokkanna. Það séu innanflokksátök í Sjálfstæðisflokknum, þar sem hver höndin virðist vera upp á móti annarri, sem valdi því að Ríkisútvarpið er orðið eins og skilnaðarbarn í innanflokkserjum.“

Orðin bera bæði vott um smekkleysi og dómgreindarskort. Verður undarlegra með hverjum deginum sem líður að samfylkingarfólk uni við málflutning af þessu tagi.

Vandræði ráðamanna í flokki repúblíkana í Bandaríkjunum vegna Donalds Trumps og þess sem hann lætur frá sér fara magnast dag frá degi. Flokkurinn geldur þess að enginn hefur nægan styrk til að skora Trump á hólm eða menn forðast slíka hólmgöngu af því að þeir vilja ekki lenda á milli tannanna á orðháknum.

Trump er einskonar utangarðsmaður sem hefur hertekið flokk repúblíkana og nýtir sér hann sem vettvang í prófkjörsbaráttu til að viðra hugmyndir sem hann mundi aldrei geta framkvæmt dygði málflutningurinn honum til sigurs.

Í Bandaríkjunum verður það fyrir tilstuðlan Trumps sem gerst hefur í Evrópu undanfarin misseri að það sem telst eðlilegt í umræðum tekur á sig nýjan svip. Þetta má sjá hér á landi til dæmis í umræðum um ríkisútvarpið – það á miklu meira undir högg að sækja nú vegna skorts á almennum stuðningi en var fyrir fáeinum misserum. Engum öðrum verður um kennt en þeim sem ráða för hins opinbera hlutafélags.

Þriðjudagur 08. 12. 15 - 8.12.2015 16:00

Svavar Gestsson, fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans, þingmaður, ráðherra og sendiherra, skrifar lofsamlega umsögn um ævisögu Árna Bergmanns, samstarfsmanns síns á Þjóðviljanum, á vefsíðuna Herðubreið. Þar segir meðal annars:

„Ég kom á blaðið [Þjóðviljann] eftir að Magnús Torfi [Ólafsson] hætti, kynntist honum því ekki sem samstarfsmanni en talaði oft við hann mikið seinna um pólitík. Hann var ritari ríkisstjórnarinnar eftir að Björn Bjarnason var settur af þeim bekk að mínu frumkvæði. Við Magnús Torfi vorum sammála um allt; hann varaði mig sérstaklega við því að leggja lag mitt við Ólaf Ragnar Grímsson en honum hafði Magnús kynnst í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna. Ég tók ekki mark á þeim aðvörunarorðum.

Við Magnús Torfi störfuðum saman í forsætisráðuneytinu frá nóvember 1978, þegar Ólafur Jóhannesson réð hann sem blaðafulltrúa, þar til ég hvarf til starfa á Morgunblaðinu í október 1979. Þá hafði ég verið embættismaður í fimm ár í forsætisráðuneytinu. Tókst góður kunningsskapur með okkur Magnúsi Torfa enda báðir áhugamenn um alþjóðamál auk þess sem forsætisráðuneytið og skrifstofa forseta Íslands, sem þá var einnig í Stjórnarráðshúsinu, voru ekki fjölmennari vinnustaðir en svo að allir starfsmenn rúmuðust í litlu kaffistofunni í norðurenda efri hæðar hússins.

Eftir að Ólafur Jóhannesson myndaði ríkisstjórn sína og hún tók að funda var ég ritari hennar eins og ég hafði oft verið í tíð Geirs Hallgrímssonar sem forsætisráðherra. Kom það meðal annars í minn hlut að gera tillögu um hvernig staðið skyldi að ritun og frágangi fundargerðanna og fylgiskjala með þeim. Þegar ég sat síðan í ríkisstjórn 20 árum síðar var þessum reglum enn fylgt.

Ólafur Jóhannesson fól mér að rita fundargerðir stjórnar sinnar og eftir að fundið var að því í blöðum að ég sinnti því starfi og gefið til kynna að það væri einhverjum ráðherranna þungbært ræddi ég málið við forsætisráðherra og þótti honum ástæðulaust að hlaupa á eftir slíkum kveinstöfum.

Nú leggur Svavar Gestsson lykkju á leið sína í umsögn um bók Árna Bergmanns til að upphefja sjálfan sig á minn kostnað. Ég man satt að segja ekkert eftir því hvernig þau mál þróuðust sem Svavar gerir að umtalsefni. Eitt er víst að aldrei urðu þau skuggi á samskiptum okkar Ólafs Jóhannessonar eða samstarfi okkar Magnúsar Torfa Ólafssonar. Skilji einhver orð Svavars á þann veg að hann hafi stofnað til leiðinda í Stjórnarráðshúsinu með afskiptum sínum er það misskilningur.

Mánudagur 07. 12. 15 - 7.12.2015 18:00

Tölvuárásir eru liður í nútíma hernaði. Þær eru stundaðar sem hryðjuverk í þágu ákveðins málstaðar ef svo ber undir. Í dag sendi Hugsmiðjan viðskiptavinum svofellda tilkynningu:

„Eins og fram hefur komið í fréttum hafa vefir ráðuneytanna setið undir netárásum frá hópi sem kallar sig Anonymous. Ítrekað var ráðist á vefi tengda hvalveiðum og má gera ráð fyrir fleiri tilraunum til árása á næstunni ef marka má yfirlýsingar þeirra.

Þessar árásir eru svokallaðar DDoS árásir (distributed denial of service) sem valda miklu álagi og geta stuðlað að þjónusturofi, eftir því hversu lengi árásin varir.

Ekki var þó verið að brjótast inn til að skemma eða sækja gögn.

Búið er að virkja sérstakar varnir fyrir vefi ráðuneytanna sem hafa staðið af sér endurteknar árásir síðustu daga. Einnig höfum við sett mikla vinnu í að koma í veg fyrir að frekari árásir hafi áhrif á aðra viðskiptavini okkar.“

Árásirnar á Stjórnarráð Íslands hafa staðið í nokkrar vikur og um tíma var vefsíðu þess lokað vegna álags af hálfu hryðjuverkamannanna.

Einkafyrirtæki heldur uppi vörnum á þessu mikilvæga sviði samfélagsins og beitir til þess öllum tiltækum vopnum. Það heyrist ekki í neinum alþingismanni súpa hveljur  vegna þessa eins og þegar teknir eru í notkun nokkrir lögreglubílar með viðunandi skotvopnageymslur. Meira að segja í ríkisútvarpinu halda menn ró sinni vegna þessa og hanna ekki fréttafrásagnir í því skyni að grafa undan þessum varnaraðgerðum einkaaðila í þágu stjórnarráðsins og samfélagsins í heild.

Sunnudagur 06. 12. 15 - 6.12.2015 19:00

Viðtal mitt á ÍNN við Hrafnhildi Schram listfræðing um nýja bók hennar Nínu S. er nú komið á netið og má sjá það hér. 

Í bókinni varpar Hrafnhildur ljósi á ævi fyrsta kvenmyndhöggvara okkar Íslendinga, Nínu Sæmundsson.

Útgönguspár í Frakklandi benda til þess að Þjóðfylkingin vinni sögulegan sigur í fyrri umferð héraðsstjórnakosninga en um það má lesa meira hér.

 

Laugardagur 05. 12. 15 - 5.12.2015 17:00

Matthias Brinkmann, sendiherra ESB á Íslandi, efndi til óformlegs blaðamannafundar í sendiráði Evrópusambandsins í Aðalstræti þriðjudaginn 24. nóvember 2015 og bauð svo til hádegisverðar. Á fundinum fór hann yfir það sem er efst á baugi hjá ESB en tekið var fram að ekki væri heimilt að vitna í sendiherrann. Hann veitti Morgunblaðinu hins vegar símaviðtal eftir fundinn og birtist frásögn af því í blaðinu 25. nóvember. Þetta er næsta undarlegur aðdragandi að umræðum sem síðan hafa verið á síðum blaðsins um hvernig líta beri á stöðu Íslands gagnvart ESB.

Ljóst er að ESB-menn líta þannig á að það sé alfarið undir Íslendingum komið hvaða stöðu þeir hafi gagnvart ESB. Þegar kemur að afstöðu ESB vilja embættismenn ESB ekki taka af skarið. Þeir vita ekki hvernig því yrði tekið sækti Ísland um að nýju enda eru það ríkisstjórnir ESB-landa sem ákveða það og hefur hver einstök þeirra neitunarvald um aðildarferli. Augljóst er að núverandi framkvæmdastjórn mun ekki taka við umsókn á meðan hún situr við völd til ársins 2019.

ESB-menn átta sig á hinni miklu óvissu sem ríkir um framtíð sambandsins. Ágreiningur er um evruna og þróun Schengen-samstarfsins auk þess sem Bretar vilja skapa sér sérstöðu og náist ekki samkomulag um hana aukast líkur á úrsögn Breta úr sambandinu. Kannanir í Danmörku sýna að þeim sem höfnuðu að afmá fyrirvara Dana gagnvart ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu fimmtudaginn 3. desember var efni fyrirvaranna ekki efst í huga heldur varðstaða gegn því að meira af fullveldi Dana yrði framselt til ESB.

Utanríkisráðherra Íslands og forsætisráðherra hafa skýrt ESB-mönnum frá því að aðildarumsókn Íslands hafi verið afturkölluð. Í Morgunblaðinu í dag, 5. desember, segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra: og formaður Sjálfstæðisflokksins: „Ég lít þannig á að það sé ekki í gildi umsókn Íslands að ESB. Ég lýsi yfir furðu á því, að það skuli vera einhverjum vafa undirorpið, af Evrópusambandsins hálfu, hver staða málsins er. Þeir hafa fengið mjög skýr skilaboð, að minnsta kosti frá þeim sem fer fyrir utanríkisstefnunni og forsætisráðherra.“

Vekur furðu að utanríkisráðherra skuli ekki kalla Matthias Brinkmann á teppið vegna afskipta hans af íslenskum innanríkismálum. Sé ekki staðið í ístæðið gagnvart ESB-mönnum þegar þeir taka höfnun með afneitun er ýtt undir umræður sem miða öðrum þræði að því að grafa undan trausti á utanríkisráðherranum.

 

 

 

 

Föstudagur 04. 12. 15 - 4.12.2015 19:00

Danskir álitsgjafar segja að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Danmörku fimmtudaginn 3. desember þar sem kjósendur voru spurðir hvort þeir vildu afmá fyrirvara á aðild Dana að ESB beri með sér mikið vantraust í garð forsætisráðherra landsins og allra þeirra stjórnmálamanna sem vildu að kjósendur settu kross við já á kjörseðlinum.

Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra boðaði til atkvæðagreiðslunnar fyrir nokkrum mánuðum þegar kannanir sýndu að um 54% kjósenda vildu afmá fyrirvarana. Niðurstaðan varð þveröfug, 53,1% kjósenda sagði nei.

Danski þjóðarflokkurinn (DF) var helsti andstæðingur stefnu forsætisráðherrans (Venstre) og forystumanna Jafnaðarmannaflokksins. DF stendur nú með pálmann í höndunum og er stöðu forsætisráðherrans lýst á þann veg að DF sé einskonar slitastjórn yfir honum – það er undir stuðningi DF komið hvort ríkisstjórnin situr áfram.

Árið 2000 gengu Danir til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort þeir ættu að taka upp evru og höfnuðu því. Háttsettur danskur stjórnmálamaður innan Venstre sem barðist þá fyrir því að kjósendur segðu já við evrunni sagði mér nokkrum árum síðar að sér hefði liðið illa vegna þátttöku sinnar í já-baráttunni. Að ganga til atkvæðagreiðslu um málið hefði verið vitleysa frá upphafi til enda og enginn sannfæring búið að baki hjá sér og mörgum öðrum sem af flokksnauðsyn tóku þátt í baráttunni. Hann mundi aldrei gera þetta aftur.

Mér varð hugsað til þessara orða nú. Margir innan raða Venstre hljóta að hafa efasemdir um ágæti dómgreindar forsætisráðherrans eftir útreiðina núna. Enginn neyddi hann til að leggja málið undir atkvæði þjóðarinnar. Hann taldi sér hins vegar trú um að hann hefði meirihlutann í hendi. Lars Løkke skjátlaðist hrapallega og skal því spáð að dagar hans sem forystumanns Venstre og forsætisráðherra séu taldir, spurningin er hvenær og við hvaða aðstæður hann hættir.

Sigurvegari atkvæðagreiðslunnar í hópi stjórnmálamanna er Kristian Thulesen Dahl, formaður DF. Minnt er á að hann hafi nú leitt flokk sinn til sigurs í þrennum kosningum í röð og hann eigi nú 37 menn á danska þinginu. Thulesen Dahl vildi ekki að flokkur sinn settist í ríkisstjórn að loknum þingkosningum en flokkurinn heldur ríkisstjórninni á floti og forsætisráðherrann getur ekkert hreyft sig gagnvart ESB án samþykkis hans.

DF er ekki lengur neinn jaðarflokkur í Danmörku. Hann gegnir lykilhlutverki eins og Framfaraflokkurinn í Noregi og Finnaflokkurinn í Finnlandi. Framgangur flokkanna og vald í krafti atkvæðamagns endurspeglar lykilbreytingu í norrænum stjórnmálum.

 

 

 

Fimmtudagur 03. 12. 15 - 3.12.2015 19:00

Alþjóðadagur fatlaðra er haldinn um heim allan í dag, hinn 3. desember. Fyrsti alþjóðlegi dagur fatlaðs fólks var haldinn af Sameinuðu þjóðunum árið 1992. Morgunblaðið segir frá því í dag að í fundargerð byggingarfulltrúa Reykjavíkur komi fram að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi fengið leyfi til að breyta íbúðar­hús­næði í smá­vöru­versl­un með mat­væli og hafi borgarstjórinn jafnframt fengið „und­anþágu frá kröf­um um aðgengi fyr­ir alla í kjall­ara,“ eins og segir í blaðinu. Undanþágan er vegna fatlaðs fólks. Þetta verður varla vandræðalegra fyrir borgarstjórann.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti flutti stefnuræðu á þingi Rússlands í dag. Hann sagði Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta hafa gengið af göflunum og þess vegna látið skjóta niður rússneska sprengjuþotu. Pútín sagði: „Við viljum gjarnan vinna með Tyrkjum um hin viðkvæmustu mál og ganga lengra en bandamenn þeirra. Allah einn veit hvers vegna þeir gerðu þetta [skutu niður rússnesku vélina]. Allah hefur greinilega ákveðið að refsa valdaklíkunni í Tyrklandi með því að svipta hana vitinu.“ Þá sakaði hann Erdogan um að vinna með Daesh (Ríki íslams) og hét því að Rússar myndu „ekki gleyma þessari aðstoð við hryðjuverkamenn. Við höfum ávallt talið svik af hinu illa og skammarleg.“ Rússar ætluðu þó ekki að grípa til vopna gegn Tyrkjum en það væri misskilningur ef menn héldu Rússa ætla að láta við það eitt sitja vegna þessa „hryllilega stríðsglæps“ að banna innflutning á tómötum eða banna komu byggingarverkamanna til lands síns – þyngri refsing byði Tyrkja.

 

 

Miðvikudagur 02. 12. 15 - 2.12.2015 19:15

Í dag ræddi ég á ÍNN við Hrafnhildi Schram listfræðing um bók hennar Nínu S. – ævisögu Nínu Sæmundsson, fyrsta íslenska kvenmyndhöggvarans. Nína náði langt á listabrautinni en ævi hennar er þó næsta harmsöguleg eins og kynnast má af lestri bókarinnar og samtali okkar Hrafnhildar. Crymogea er útgefandi bókarinnar en hún er ríkulega skreytt myndum auk fróðlegs texta Hrafnhildar. Var tímabært að gera hinni merku listakonu skil á þennan hátt. Verk Nínu eru sýnd í Listasafni Íslands um þessar mundir og fram í miðjan janúar. Samtal okkar Hrafnhildar verður frumsýnt kl. 20.00 (á rás 20 og tímaflakki Símans), síðan á tveggja tíma til fresti til kl. 18.00 á morgun.

Fréttamat ríkisútvarpsins er oft einkennilegt. Í kvöldfréttum miðvikudaginn 2. desember er gert að aðalfrétt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forætisráðherra hafi svarað fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur VG sem vaknaði hjá henni vegna þess að Tony Blair, fyrrv. forsætisráðherra Breta, baðst afsökunar vegna rangra trúnaðarupplýsinga og mistaka varðandi Íraksstríðið árið 2003. Tilefni fyrirspurnarinnar var í raun stórundarlegt. Sigmundur Davíð bendir réttilega á að bandarísk stjórnvöld skráðu Ísland á lista „hinna viljugu þjóða“ og embættismaður í íslenska utanríkisráðuneytinu áréttaði við þau að Ísland væri herlaust og gæti ekki stutt hernaðaraðgerðir. Undir lok svars síns segir forsætisráðherra:

„Í aðeins einu tilviki hefur Ísland haft beina aðkomu að ákvörðun um hernaðaríhlutun en það var vegna árásarinnar á Líbýu árið 2011.Ljóst má vera að ef til greina kæmi, af hálfu íslenskra stjórnvalda, að biðjast afsökunar á einhverjum þeim hernaðaraðgerðum sem ráðist hefur verið í með það að markmiði að steypa einræðisherrum af stóli koma vart önnur átök til álita en árásin á Líbýu þar sem ríkisstjórn Íslands var virkur þátttakandi í ákvörðun um hernaðaraðgerðir. Ekki verður þó lagt mat á það hér hvort tilefni eða forsendur séu fyrir slíkri afsökunarbeiðni.“

Í stað þess að beina athygli að þessu kjarnaatriði í svari forsætisráðherra þykir fréttastofunni mestu skipta að honum finnst Bandaríkjastjórn ekki hafa skráð Ísland rétt árið 2003 vegna fyrirvarans þá um herleysi. Svandís fyrirspyrjandi vill auðvitað frekar að rætt sé um þessa leiðréttingu á listanum en það sem gerðist 2011 þegar hún var umhverfisráðherra í ríkisstjórninni sem stóð fyrirvaralaust að árásinni á Líbíu.

.

Þriðjudagur 01. 12. 15 - 1.12.2015 17:15

Vladimír Pútin Rússlandsforseti átti á liðnu sumri varla nógu hæðnisleg orð til að lýsa máttleysi Vesturlanda í Úkraínudeilunni þar sem þau birtust í viðskiptaþvingunum, tilgangs- og áhrifalausum að hans mati. Reiði hans vegna þvingananna bitnaði hins vegar þungt á okkur Íslendingum þegar Pútín bannaði kaup Rússa á íslenskum sjávarafurðum og setti þannig strik í um 70 ára viðskiptasögu Íslendinga og Rússa.

Hinn 24. nóvember skutu Tyrkir niður rússneska orrustuþotu sem þeir sögðu hafa farið inn í lofthelgi Tyrklands. Rússar ákváðu að svara ekki með hervaldi heldur gripu til þess ráðs sem þeir töldu skaða Tyrki mest, viðskiptaþvingana! Leiguflaug með rússneska ferðamenn til Tyrklands hefur verið bannað en margar milljónir Rússa heimsækja tyrkneskar baðstrendur ár hvert og var talið að þeim mundi fjölga þegar Rússar hættu að fara í sólarferðir til Egyptalands af ótta við hryðjuverk eftir að 224 fórust vegna sprengju um borð rússneskri farþegaþotu. Rússar hafa einnig ákveðið að leggja aðra steina í götu viðskipta við Tyrki sem er önnur stærsta viðskiptaþjóð þeirra á eftir Kínverjum.

Bæði Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti og Pútín voru í París í gær á hinni miklu loftslagsráðstefnu. Pútín tilkynnti hins vegar að „tæknilegar ástæður“ kæmu í veg fyrir að hann væri á „fjölskyldumynd“ 150 fyrirmenna sem sóttu ráðstefnuna og sæti hádegisverðarboð við upphaf hennar. Með því að forðast þessa viðburði komst Pútín hjá því að sýna Erdogan þá hefðbundnu kurteisi að heilsa honum með handabandi. Þarf ekki að efast um að Pútín telji þetta hafa stórpólitíska þýðingu og lækki rostann í Tyrkjum.

Hér á landi hafa ýmsir orðið til að hallmæla samstöðu íslenskra stjórnvalda með ríkjunum sem beita Rússa viðskiptaþvingunum vegna yfirgangsins í Úkraínu, var jafnvel gefið til kynna að þessi samstaða kostaði þjóðarbúið tæpa 40 milljarða króna á ári! Allt reyndist það ofreiknað í Morgunblaðinu var á dögunum nefnd talan 600 m. kr.

Danir ganga á fimmtudaginn til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort falla eigi frá fyrirvörum sem þeir hafa haft gagnvart ESB vegna samstarfs í löggæslu- og réttarfarsmálum. Þegar Lars Løkke Rasmussen boðaði til atkvæðagreiðslunnar sögðust 58% ætla að segja já. Nú segjast 34% ætla að segja já en 38% nei – andstaðan er mest í aldurshópnum 18 til 35 ára: 23% já, 41% nei, 30% óákveðnir.